LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiGæludýr, Gæludýragrafreitur
Ártal1985-2017
Spurningaskrá124 Gæludýr

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1983

Nánari upplýsingar

Númer2016-1-596
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið21.12.2016/2017
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Skilgreining

Hvað er gæludýr í þínum huga? Er einhver munur á því hvernig menn skilgreina gæludýr í dag og áður fyrr? Hvaða munur ef svo er?

Gæludýr er dýr sem býr heima hjá þér og er meira eins og fjölskyldumeðlimur, ólíkt húsdýrum sem vinna fyrir þig.

Ég tel að gæludýr í dag sé í raun eitthvað sem aðeins ríka fólkið átti í gamla daga, verkafólk og aðrir áttu bara vinnudýr, kettir drápu mýs og hundar smöluðu kindum. Það ómir enn af þessum sveitahugsunarhætti í borginni í dag, sérstaklega í leiguhúsnæðum. Það er óorð á gæludýrum (sérstaklega hundum og köttum).Kafli 2 af 8 - Mitt gæludýr

Átt þú eða hefur þú átt gæludýr? Hvernig eða hvaða tegund? Hefur þú átt fleira en eitt gæludýr eða nokkur í einu? Ef svo er hve mörg og voru þau af sömu tegund eða mismunandi? Hvað kostar að eiga gæludýr?

Já, ég hef átt gæludýr. Ég á þrjá venjulega heimilisketti í dag, Lilith, Lúsífer og Harvey. Þar áður hef ég átt læðurnar Fridu og Kisu.

Það er enginn gífurlegur kostnaður að eiga gæludýr. Matur getur kostað skít á priki, en ég kýs að gefa köttunum mínum aðeins fínna fæði, kaupi 10kg poka á 13þús, en hann endist í ca 3-4 mánuði fyrir þessa þrjá ketti. Ætli mestur peningur fari ekki í kattasandinn, þar sem kettirnir eru innikettir. En það hefur ekki mikil áhrif á mig.Kafli 3 af 8 - Af hverju gæludýr?

Hvers vegna fékkst þú þér gæludýr (félagsskapur, útivist, vegna barna t.d.)? Hvað réð vali þínu (tegund, útlit, stærð t.d.)? Hvar og hvernig fékkst þú dýrið (frá vinum, í gæludýrabúð t.d.)? Undirbjóstu þig á einhvern hátt áður en þú tókst við dýrunu? Hvernig ef svo er?

Þegar ég var 2ja ára fékk bróðir minn kött, sem hann átti að sjá um. Hann gerði það ekki og varð Kisa seinna meira minn köttur. Þegar ég flutti að heiman, 22ja ára, gat ég ekki hugsað mér að búa ekki með ketti, enda Kisa enn á lífi og ég og vinkona mín fengum okkur systkinin Lilith og Lúsífer. Ég mundi ekki eftir mér nema vera með kött heima hjá mér, ástandið hafði verði svipað heima hjá vinkonu minni. Ég vildi læðu, því ég hafði alltaf átt læðu og hún vildi fress því hún hafði alltaf átt fress. Við fundum smáauglýsingu í DV og fórum á staðinn. Lúsífer var eini fressinn í hópnum en Lilith var fyrsti kettlingurinn sem kom til mín og ég varð ástfangin. Eina sem við fengum okkur var kattasandskassi, sandur og matur - enda vorum við sjóaðar kisukonur.Kafli 4 af 8 - Upplifun og reynsla

Hvernig er að vera með gæludýr? Hvað er jákvætt og hvað neikvætt? Passar einhver dýrið fyrir þig þegar þú getur það ekki og ef svo er hver? Passar þú gæludýr fyrir aðra? Hverja?

Það jafnast ekkert á við að vera með gæludýr. Kúristundirnar eru sennilega bestar en það gefur mér ómælda ánægju að fylgjast með þeim, ótrúlega skemmtilegt kattasamfélag. Það neikvæða við að eiga ketti eru kattahárin og ælurnar. Það getur verið þreytandi. Systkini mín eða kærasta míns passa kettina þegar við erum ekki á svæðinu. En fólk kemur heim til okkar og sér um kettina, við erum ekki að færa þá úr stað.
Já ég hef séð um ketti vinkonu minnar þegar hún er í burtu.Kafli 5 af 8 - Umönnun

Hvernig aðlagar þú heimili þitt að þörfum gæludýrsins? Hver sér um að gefa því að borða, viðra það og þrífa búrið eða klósettkassann? Á dýrið ákveðinn stað eða svæði á heimilinu eða má það vera hvar sem er ef um þannig skepnu er að ræða (uppi í rúmi t.d.)?

Ég hef klóristaur og sér ullarteppi fyrir þau að liggja á (þó þau liggi í raun þar sem þau vilja), eins eiga þau dót sem við höfum annað hvort keypt eða búið til. Við eigum catnip líka. Annars hef ég þurft að velja staði fyrir skraut og plöntur vandlega svo kettirnir borði þau ekki eða hendi þeim niður.

Ég sé um að gefa þeim að borða á morgnana á virkum dögum, kærastinn um helgar. Ég sé um að skipta um kattasandinn því hann er með astma. Við erum með svalir þannig að við opnum út á þær reglulega fyrir kettina.

Þau fara nokkurnveginn þangað sem þeim sýnist, en þær mega ekki fara upp á eldhúsborð, upp í opna glugga eða gluggakistuna inni á baði - og þær hafa lært það ágætlega. Þær mega ekki fara upp á stofuborðið nema til að fá sér vatn að drekka, því læðurnar tvær (Lilith og harvey) vilja bara drekka úr vatnsglasi þar, en fressinn lætur sér nægja að drekka úr vatnskönnu hjá kattamatnum.

Lilith og Lúsifer sofa nær undantekningalaust uppi í rúmi hjá okkur á meðan Harvey sefur nálægt inni í svefnherberginu.Kafli 6 af 8 - Nafngift

Hvað heita þau gæludýr sem þú hefur átt? Hvað réð vali þínu á nafni/nöfnum? Geta heimilisdýr haft gælunöfn? Nefndu dæmi ef svo er. Finnst þér að nöfn á gæludýrum hafi verið að breytast? Hvernig ef svo er?

Kisa, Frida, Lilith, Lúsifer og Harvey eru nöfn kattanna minna. Kisa fékk nafnið því ekkert annað festist, ég reyndi Gismo og hélt því fram lengi að hún héti það en hún var alltaf kölluð Kisa. Frida fékk nafnið af fyrri eiganda. Lilith og Lúsifer fengu nöfnin því ég og vinkona mín vildum hafa tengd nöfn og okkur fannst sniðugt að nefna litlu djöflana eftir alræmdu djöflunum tveimur (ég hefði sennilega skýrt þau annað í dag). Kærastinn fékk að velja nafnið Harvey (eftir Harvey Dent í Batman, Two-Face). Læðan fékk karlmannsnafn því okkur fannst þetta nafn alveg geta virkað á læðu - hún er nefnilega með skipt andlit, annar helmingurinn ljós á meðan hinn er dökkur, þessvegna fékk hún þetta nafn.

Gæludýr geta svo sannarlega haft gælunöfn. Lúsífer er iðulega kallaður Lúsi á heimilinu, eða Lúsiblúsi. Stundum, Lúsi-fer og Lúsi-kemur því hann getur verið mikill rápari. Lilith er oft kölluð geit, gamla geit og jafnvel gamla hveitigeit (kemur frá Palla Svepp) en það kom til þegar hún fór inn í skáp þar sem hveitið var og varð öll út í hveiti, eins er hún stundum Lilith loðbrók.. Harvei er kölluð rassálfur, því hún er með svo "stóran" rass.

En já, mér finnst gæludýranöfn hafa verið að breytast. Margir farnir að nefna kettina sína mannanöfnum: Svenni, Nonni, Tommi, Ella Dís og svo framvegis. Mér finnst það hálfasnalegt. Eitt besta kattarnafn sem ég hef heyrt var Jóakim Aðalfress.Kafli 7 af 8 - Veikindi og missir

Hefur þú upplifað að gæludýr þitt hafi orðið fyrir slysi, horfið eða dáið? Viltu segja frá þeirri reynslu? Hvað finnst þér að eigi að veita veiku eða slösuðu gæludýri mikla aðhlynningu (út frá fjárhagslegu-, tilfinningalegu eða praktísku sjónarmiði t.d.)? Hefur þú jarðað gæludýr? Hvar og hvernig ef svo er?

Kisa lenti í bílslysi þegar ég var lítil en man ekki eftir því. Þegar hún var orðin hálfelliær, hvarf hún í nokkra mánuði. Það var afskaplega erfitt því þó samband okkar hafi ekki byrjað vel urðum við bestu vinkonur og hún svar upp í hjá mér í rúmlega 10 ár.

Ef hægt er að lækna gæludýrið af meini þeirra þá finnst mér ekkert að því að fólk geri það sem það getur til að hjálpa dýrinu sínu. Hinsvegar ef það endar með því að dýrið muni kveljast það sem eftir er, þá er það ekki í lagi.

Ég lét svæfa Kisu, fór með mömmu en "meikaði" ekki að standa inni með Kisu á meðan hún sofnaði, ég hef séð eftir því á hverjum degi síðan. En nei, hún var sett í fjöldagröf upp á Kjalarnesi.Kafli 8 af 8 - Staður og tímabil

Við hvaða stað/staði og tímabil miðast svar þitt?

Frá 1985 þangað til dagsins í dag.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.