LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiGæludýr
Ártal1990-2017
Spurningaskrá124 Gæludýr

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2016-1-595
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið21.12.2016/2.3.2017
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Skilgreining

Hvað er gæludýr í þínum huga? Er einhver munur á því hvernig menn skilgreina gæludýr í dag og áður fyrr? Hvaða munur ef svo er?

Dýr sem býr með manni og treystir á matargjafir manns að öllu eða einhverju leyti sem og uppfyllingu annarra þarfa. Dýrið er ekki fyrst og fremst nytjadýr, þ.e.a.s. ástæða þess að það býr í sambýli við mann er frekar af andlegum ástæðum en hagnýtum. Ég veit ekki til þess að skilgreiningar séu öðruvísi í dag en áður.Kafli 2 af 8 - Mitt gæludýr

Átt þú eða hefur þú átt gæludýr? Hvernig eða hvaða tegund? Hefur þú átt fleira en eitt gæludýr eða nokkur í einu? Ef svo er hve mörg og voru þau af sömu tegund eða mismunandi? Hvað kostar að eiga gæludýr?

Ég hef átt hamstur, gullfiska og kött. Ég reyndi að eiga hund, en fjölskyldan varð að láta hann frá sér vegna ofnæmis. Ég hef aldrei átt fleiri en eitt í einu. Akkúrat núna "á" ég kött. Það kostar heimilið kannski rúmlega 5000 kr. á mánuði að sjá um kisu, en kannski meira ef eitthvað tilfallandi á sér stað, hún þarf að fara til læknis o.þ.h.Kafli 3 af 8 - Af hverju gæludýr?

Hvers vegna fékkst þú þér gæludýr (félagsskapur, útivist, vegna barna t.d.)? Hvað réð vali þínu (tegund, útlit, stærð t.d.)? Hvar og hvernig fékkst þú dýrið (frá vinum, í gæludýrabúð t.d.)? Undirbjóstu þig á einhvern hátt áður en þú tókst við dýrunu? Hvernig ef svo er?

Hamsturinn og gullfiskana átti ég sem barn og hugmyndin kom frá eldra systkini. Við fengum þau í gæludýrabúð og völdum fiskana eftir fjölbreytileika (innan tegundarinnar) (ég valdi ekki hamsturinn). Ástæðan var félagsskapur og eflaust hafa mamma og pabbi hugsað sér að rækta ábyrgðartilfinningu manns. Kisuna fékk ég til tveggja ára á meðan eigendur hennar eru í námi í útlöndum. Við kærastan mín höfðum lengi pælt í að fá okkur kött en tókum ekki af skarið fyrr en fjölskyldumeðlimur kom með þessa hugmynd. Við fengum gefins kattasandskassa og einhverja fylgihluti eins og ól o.þ.h. Ég las pínu um ketti og hvernig þeim liði sem best inni á heimilum.Kafli 4 af 8 - Upplifun og reynsla

Hvernig er að vera með gæludýr? Hvað er jákvætt og hvað neikvætt? Passar einhver dýrið fyrir þig þegar þú getur það ekki og ef svo er hver? Passar þú gæludýr fyrir aðra? Hverja?

Það er æðislegt að vera með kisu og hún er fjölskyldumeðlimur. Eina neikvæða er umhirðan, aðallega kattasandslosunin sem er leiðinleg. Félagsskapurinn, líkamlega nándin og að kynnast persónuleika hennar er allt mjög jákvætt. Við höfum nokkrum sinnum fengið fjölskyldumeðlimi og vini til að kíkja til kisu þegar við bregðum okkur af bæ, bæði til að kúra og gefa henni mat. Við höfum líka passað tvo ketti í mánuð fyrir vini sem fóru til útlanda.Kafli 5 af 8 - Umönnun

Hvernig aðlagar þú heimili þitt að þörfum gæludýrsins? Hver sér um að gefa því að borða, viðra það og þrífa búrið eða klósettkassann? Á dýrið ákveðinn stað eða svæði á heimilinu eða má það vera hvar sem er ef um þannig skepnu er að ræða (uppi í rúmi t.d.)?

Við höfum gluggana miklu meira opna en áður, jafnvel þegar við förum út til lengri tíma því annars hef ég áhyggjur af að eitthvað gerist (kvikni í...) og kisa komist ekki út. Ég tek stundum upp litla hluti sem ég er hræddur um að kisa éti. Við kærastan mín búum ein og sjáum bæði um að gefa henni að borða, opna fyrir henni og leika við hana, en ég sé aðallega um kattasandinn. Kisa má fara út um allt nema kannski upp á borð þegar við erum að borða, og hún er mikið uppi í rúmi hjá okkur, uppi í sófa, ofan á okkur o.s.frv.Kafli 6 af 8 - Nafngift

Hvað heita þau gæludýr sem þú hefur átt? Hvað réð vali þínu á nafni/nöfnum? Geta heimilisdýr haft gælunöfn? Nefndu dæmi ef svo er. Finnst þér að nöfn á gæludýrum hafi verið að breytast? Hvernig ef svo er?

Hamsturinn hét Snúður, gullfiskarnir hétu ýmsum nöfnum (Litla halastjarna er það eina sem ég man) og kisa heitir Skotta. Ég kalla Skottu eiginlega alltaf kisu og stundum einhverjum kjánalegum gælunöfnum eins og Kisus maximus, kisuskott og fleira. Ég held að fólk sé að reyna að vera óhefðbundnara og kannski fyndnara í nafngiftum á gæludýrum. Ég hef aldrei verið manneskjan sem ræður nafngift gæludýranna.Kafli 7 af 8 - Veikindi og missir

Hefur þú upplifað að gæludýr þitt hafi orðið fyrir slysi, horfið eða dáið? Viltu segja frá þeirri reynslu? Hvað finnst þér að eigi að veita veiku eða slösuðu gæludýri mikla aðhlynningu (út frá fjárhagslegu-, tilfinningalegu eða praktísku sjónarmiði t.d.)? Hefur þú jarðað gæludýr? Hvar og hvernig ef svo er?

Já, það var mjög leiðinlegt þegar fiskarnir dóu einn af öðrum, en hafði samt ekki djúpstæð áhrif til lengri tíma. Hamstursins var líka saknað en hann hafði verið veikur í nokkurn tíma áður en hann dó. Ég yrði mjög sorgmæddur ef kisa myndi deyja og ég myndi líklega ganga frekar langt til að bæta lífsgæði hennar ef hún yrði veik eða slasast. Það sem stæði einna helst fyrir dyrum væri fjárhagur, en ég hef ekki miklar tekjur. Annars myndi ég líklega ekki líta í kostnað nema hann hlypi á hundrað þúsundum. Mér finnst þetta vera ákvörðun umsjáraðila dýranna, en mér finnst reyndar að lífsgæði allra dýra eigi að vera hátt á baugi, líka nytjadýra. Dýr ættu að minnsta kosti að fá lágmarksaðhlynningu sem lágmarkar þjáningar þeirra, en auðvitað eru tilvik þar sem réttast er að aflífa dýrið (ef maður sér fram á langvinnar þjáningar eða mikinn kostnað). Ég hef aldrei jarðað dýr.Kafli 8 af 8 - Staður og tímabil

Við hvaða stað/staði og tímabil miðast svar þitt?

Reykjavík í öllum tilvikum og frá 5 ára aldri þangað til núna.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.