LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiGæludýr
Ártal2005-2017
Spurningaskrá124 Gæludýr

Sveitarfélag 1950Mosfellshreppur, Reykjavík
Núv. sveitarfélagMosfellsbær, Reykjavík
SýslaGullbringusýsla, Kjósarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1990

Nánari upplýsingar

Númer2016-1-594
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið21.12.2016/1.3.2017
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Skilgreining

Hvað er gæludýr í þínum huga? Er einhver munur á því hvernig menn skilgreina gæludýr í dag og áður fyrr? Hvaða munur ef svo er?

Gæludýr er dýr sem einhver hefur ákveðið að taka í fóstur og þar með bjóða velkomið í fjölskylduna. Gæludýr býr á heimilinu og veitir því gleði og líf.
Ég held að helsti munurinn sé sá að hér áður fyrr þá þóttu t.d. hundar og kettir ekki vera hluti af fjölskyldunni heldur frekar eins og vinnumenn sem voru fengnir til þess að halda músum í skefjum og til þess að reka kindur. Þeim var þá yfirleitt ekki hleypt inn á heimilið heldur voru þau geymd í fjósi eða kjallara og samskipti við fólk voru mun minni.Kafli 2 af 8 - Mitt gæludýr

Átt þú eða hefur þú átt gæludýr? Hvernig eða hvaða tegund? Hefur þú átt fleira en eitt gæludýr eða nokkur í einu? Ef svo er hve mörg og voru þau af sömu tegund eða mismunandi? Hvað kostar að eiga gæludýr?

Já, ég hef átt mörg gæludýr - hamstra, ketti og hunda. Ég hef átt tvo ketti og tvo hunda á sama tíma, og einnig voru fleiri dýr á heimilinu þar sem bróðir minn átti páfagauk og seinna skjaldböku. Kettirnir eru báðir venjulegir íslenskir kettir og hundarnir voru mismunandi tegundir. Það gekk bara ágætlega nema yngri hundurinn átti það til að elta kettina, sem þeir kunnu ekki vel að meta. Hundunum kom hinsvegar mjög vel saman og köttunum tveimur kom yfirleitt ágætlega saman. Það kostar svolítinn pening að eiga gæludýr, sérstaklega ef dýrið glímir við sjúkdóma og þarf oft að fara til dýralæknis. Matarkostnaður hrannast fljótt upp og svo er það allt dót, nammi og bein sem er svo gaman að gefa þessum dúllum. Ég er með tvo hunda núna og ég myndi giska á að það kosti um 15.000 á mánuði, en meira þegar þeir þurfa að fara til dýralæknis í árlega heilsuskoðun og bólusetningar.Kafli 3 af 8 - Af hverju gæludýr?

Hvers vegna fékkst þú þér gæludýr (félagsskapur, útivist, vegna barna t.d.)? Hvað réð vali þínu (tegund, útlit, stærð t.d.)? Hvar og hvernig fékkst þú dýrið (frá vinum, í gæludýrabúð t.d.)? Undirbjóstu þig á einhvern hátt áður en þú tókst við dýrunu? Hvernig ef svo er?

Ég hef svo ótrúlega gaman af dýrum og finnst þau öll æðisleg. Það er þá líklega vegna félagsskaps þeirra sem ég hef viljað fá mér þau. Eins finnst mér gaman að hafa hundana með mér í útivist, göngu og slíku. Þegar ég fékk mér mína hunda sjálf þá var ég ekkert hörð á því hvaða tegund ég vildi, ég vildi bara uppfylla nokkur lykilskilyrði eins og að hann væri lítill eða meðalstór, sætur í mínum augum og hefði gaman af því að hreyfa sig og leika sér. Svo fór það þannig að það var kona sem þurfti að gefa hundana sína frá sér og þeir uppfylltu öll þessi skilyrði og eftir að hafa hitt þau þá varð ég bara ástfangin og við höfum verið saman síðan þá. Undirbúningur fólst aðallega í því að lesa mér til um það hvernig það er að ættleiða fullorðna hunda, við hverju má búast og fleira.Kafli 4 af 8 - Upplifun og reynsla

Hvernig er að vera með gæludýr? Hvað er jákvætt og hvað neikvætt? Passar einhver dýrið fyrir þig þegar þú getur það ekki og ef svo er hver? Passar þú gæludýr fyrir aðra? Hverja?

Það er alveg yndislegt að vera með gæludýr. Jákvæðu atriðin eru mun fleiri en þau neikvæðu. Hundarnir mínir elska mig svo mikið og hafa svo mikinn áhuga á öllu sem maður gerir og ég held það geri manni gott að hafa einhvern sem lítur mann þeim augum, ég tala nú ekki um ef maður er að ganga í gegnum erfiða tíma. Svo eru þeir oft fyndnir, koma manni oft til að hlæja og draga mann út hvernig sem viðrar. Þeir hressa, bæta og kæta. Neikvæðu atriðin eru kannski aðallega tengd því hvernig samfélagið tekur þeim. Það eru svo margir staðir sem þeir mega ekki koma með manni á og þurfa annað hvort að hanga heima eða bíða út í bíl. Alltof margir eru með fordóma fyrir hundum og það getur verið erfitt að finna húsnæði þar sem hundahald er leyft.
Ég er heppin að hafa fólk í kringum mig sem hefur gaman af hundum og vilja ólm passa fyrir mig þegar ég er í burtu. Það er t.d. mamma og vinkona mín. Ég passa líka gæludýr mömmu þegar hún fer í burtu.Kafli 5 af 8 - Umönnun

Hvernig aðlagar þú heimili þitt að þörfum gæludýrsins? Hver sér um að gefa því að borða, viðra það og þrífa búrið eða klósettkassann? Á dýrið ákveðinn stað eða svæði á heimilinu eða má það vera hvar sem er ef um þannig skepnu er að ræða (uppi í rúmi t.d.)?

Hundarnir þurfa ekki mikla aðlögun aðra en að hafa bælin sín og dótið sitt á ákveðnum stöðum. Svo er auðvitað vatnsskálin alltaf á sínum stað í eldhúsinu. Yfirleitt er það ég sem sé um að gefa þeim að borða og fara með þá í göngutúr. Þegar maðurinn minn kemur heim úr vinnunni og um helgar þá sjáum við bæði um það, til skiptis eða saman. Hundarnir mínir eru frekar hreinlátir og meðalstórir svo ég hef ekki haft neina reglu á því hvert þau mega fara. Þau biðja þó yfirleitt um leyfi til þess að fá að koma upp í sófa eða upp í rúm.Kafli 6 af 8 - Nafngift

Hvað heita þau gæludýr sem þú hefur átt? Hvað réð vali þínu á nafni/nöfnum? Geta heimilisdýr haft gælunöfn? Nefndu dæmi ef svo er. Finnst þér að nöfn á gæludýrum hafi verið að breytast? Hvernig ef svo er?

Ég hef átt gæludýr sem heita Finnur (hamstur) og Friðrik (hamstur), Megas (köttur), Mjallhvít (köttur), Tinni (hundur), Fengur (hundur), Mósart (hundur), Móna (hundur), Panda (hundur) og Flóki (hundur). Valið á nöfnunum var ákveðið eftir að hafa hitt dýrið, þá var það eitthvað sem passaði við útlitið og persónuleikann.
Ég er ekki viss um að nöfn á gæludýrum hafi verið að breytast.Kafli 7 af 8 - Veikindi og missir

Hefur þú upplifað að gæludýr þitt hafi orðið fyrir slysi, horfið eða dáið? Viltu segja frá þeirri reynslu? Hvað finnst þér að eigi að veita veiku eða slösuðu gæludýri mikla aðhlynningu (út frá fjárhagslegu-, tilfinningalegu eða praktísku sjónarmiði t.d.)? Hefur þú jarðað gæludýr? Hvar og hvernig ef svo er?

Já, ég hef upplifað það að gæludýr hefur orðið veikt og dáið. Það er alltaf mjög erfitt. Mér finnst að gæludýr eigi að fá alla þá aðhlynningu sem í boði er og ég er ekki sammála því að lóga dýrum um leið og þau verða eitthvað veik. Ég hef jarðað gæludýr og það var í garði fjölskyldunnar. Ég var krakki á þeim tíma og smíðaði kross sem var settur við leiðið. Seinna fór hverfið í uppbyggingu og sá ég þá gröfu róta upp jarðveginum þar sem leiðið hafði verið.Kafli 8 af 8 - Staður og tímabil

Við hvaða stað/staði og tímabil miðast svar þitt?

Ég talaði um gæludýr sem ég hef átt frá því ég var 15 ára (2005) og þangað til í dag, meðan ég bjó í Mosfellsbæ og Reykjavík.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.