LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiGæludýr
Ártal1997-2017
Spurningaskrá124 Gæludýr

Sveitarfélag 1950Akureyri
Núv. sveitarfélagAkureyrarkaupstaður
SýslaEyjafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2016-1-585
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið21.12.2016/21.2.2017
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Skilgreining

Hvað er gæludýr í þínum huga? Er einhver munur á því hvernig menn skilgreina gæludýr í dag og áður fyrr? Hvaða munur ef svo er?

Gæludýr veita félagsskap og eru í mínum huga félagar, það er líklegast einhver munur á hversu miklir félagar gæludýr eru eftir því hvort um t.d. fisk eða hund er að ræða. Gæludýr eru ekki bara tómmstundaiðja því þau þurfa umönnun og því meira um lífstíl að ræða frekar en hobbý því ekki er hægt að setja hundinn í geymlu yfir veturinn erins og t.d. reiðhjól.
Held að gæludýr sé frekar nýtt á Íslandi, við notuðum hunda og ketti til að sinna ákveðnum hlutverkum en nú eru þau meira til að veita félagsskap. Finnst við reyndar fara öfgana á milli t.d. frá áður þegar hundar voru ekki hafði inni og fengu bara afganga að borða og voru frekar hirðulausri yfir í að klæða hunda eins og börn og aka þeim um í kerrum eins og hægt er að sjá í dag.Kafli 2 af 8 - Mitt gæludýr

Átt þú eða hefur þú átt gæludýr? Hvernig eða hvaða tegund? Hefur þú átt fleira en eitt gæludýr eða nokkur í einu? Ef svo er hve mörg og voru þau af sömu tegund eða mismunandi? Hvað kostar að eiga gæludýr?

Ég hef áður átt fiska og kött og á núna tvo blendings hunda, tík og rakka. Það er misdýrt að eiga gæludýr en t.d. þrátt fyrir að eiga ekki hreinræktaðan hund sem þarf að greiða allt að 350 þú krónur fyrir þá er dýrt að eiga og sjá um hund. Það þarf að borga tryggingar, eftirlits og skráningargjald sem er alls um 20 þúsund á ári. Fóður getur líka verið dýrt, fyrir tvo hunda er ég líklegast að borga um 130 þúsund krónur á ári. Hver heimsókn til dýralæknis kostar að lágmarki 5000 krónur og það er skylda að ormahreinsa og bólusetja hunda árlega sem griða þarf fyrir aukalega. Fyrir stóra hunda eru aðgerðir eins og ófrjósemisaðgerðir og aflífun dýrar eða að lágmarki um 50 þúsund krónur. Ef hundur slasast og slítur t.d. liðband getur sá kostnaður hlaupið á hundruðum þúsunda.Kafli 3 af 8 - Af hverju gæludýr?

Hvers vegna fékkst þú þér gæludýr (félagsskapur, útivist, vegna barna t.d.)? Hvað réð vali þínu (tegund, útlit, stærð t.d.)? Hvar og hvernig fékkst þú dýrið (frá vinum, í gæludýrabúð t.d.)? Undirbjóstu þig á einhvern hátt áður en þú tókst við dýrunu? Hvernig ef svo er?

Ég hef alltaf haft áhuga á dýrum þar sem þau "koma til dyranna eins og þau eru klædd" og hafa ekki jafn flókið samskiptamunstur og við mennirnir. Svo eru þau heldur ekki síblaðrandi :) þannig að þau eru þægilegur félagsskapur. Hundana fékk ég mér þar sem mig vantaði félagsskap í útivistina, einhvern sem væri alltaf til í að fara út, sama hvaða tíma sólahrings. Annar hundurinn minn er vinnuhundur, leitarhundur, og hann fékk ég mér til að vinna með í björgunarsveit. Ég hef fengið flest öll gæludýr "notuð" þ.e. í heimilisleit m.a. í gegnum Dýrahjálp Íslands. Finnst mikilvægt að gefa þeim annan séns í lífinu. Ég undirbjó mig vel, fór á mörg námskeið áður en ég fékk mér eigin hund og hafði hugsað málið í mörg ár og beðið eftir hentugum aðstæðum. Samt komst ég að því hvað ég vissi lítið um hundahald þegar ég fékk mér fyrsta hundinn.Kafli 4 af 8 - Upplifun og reynsla

Hvernig er að vera með gæludýr? Hvað er jákvætt og hvað neikvætt? Passar einhver dýrið fyrir þig þegar þú getur það ekki og ef svo er hver? Passar þú gæludýr fyrir aðra? Hverja?

Mér finnst frábært að vera með gæludýr eins og hunda. Kostirnir eru frábær félagsskapur, mér finnst ég aldri ein með hundi, ég kynnast fólki í gegnum hundana og hef eignast dásamlega vini í gegnum þá, hreyfingin, og að ögra sjálfri mér með því að fara á allskonar hundanámskeið og prófa nýja hluti. Það gefur mér mikið að vinna með hundum, sérstaklega til gagns eins og í björgunarsveit. Það að ná tengingu við og koma á samvinnu við dýr sem er líkamlega sterkara og með mun beittara bit en ég sjálf er mögnuð tilfinning, Gallarnir eru bindingin, ég flýti mér alltaf heim úr vinnu til að hleypa hundunum út og skrepp ekki neitt svo auðveldlega án þess að vera búin að undirbúa það. Ég hef ekki marga í kringum mig sem eru tilbúnir að passa hundana og það getur verið dýrt að hafa þá á hundahóteli, sérstaklega í langan tíma. Þannig er bindingin mesti ókosturinn. Ég hef margoft passað hunda fyrir aðra, vini og vinnufélaga og einn vinur minn og systir sjá mest um að passa fyrir mig. Aðrir ókostir eru kostnaðurinn og þrifin. Annað sem hægt er að nefna eru fordómarnir og óumburðarlyndi gagnvart hundum á Íslandi samanborði við t.d. Evrópu. Það er svo margt sem ég má ekki gera eða fara þegar ég er með hund og það setur mér skorður og er hindrun.Kafli 5 af 8 - Umönnun

Hvernig aðlagar þú heimili þitt að þörfum gæludýrsins? Hver sér um að gefa því að borða, viðra það og þrífa búrið eða klósettkassann? Á dýrið ákveðinn stað eða svæði á heimilinu eða má það vera hvar sem er ef um þannig skepnu er að ræða (uppi í rúmi t.d.)?

Hundarnir hafa sín bæli á þannig stöðum að þau eru hluti af heimilinu þ.e. eru ekki bara í bílskúrnum eða forstofunni. Bakgarðurinn er afgirtur og "eign" hundanna. Ég bý ein þannig að ég sé um hundana nánast frá a-ö. Fyrsti hundurinn minn mátti vera upp í rúmi en hann var líka nettur og svaf bara til fóta sem er gott þar sem ég er fótaköld :) hann var líka stressaður og þurfti meiri nærveru. Í dag vil ég ekki hafa þá uppí rúmi m.a. vegna þess að þetta eru stærri dýr og sjálfsöruggari en finnst notaleg að leyfa þeim stundum að kúra uppí sófa á kvöldin. Á daginn eru þau laus í húsinu og fá þannig það pláss sem kveðið er á í dýraverndunarlögum. Þau eru það vel alin að það eru engin vandræði með það. Þau fá aldrei að borða við mataborðið og fá aldrei mannamat nema t.d. epli. Þegar gestir kom mega hundarnir heilsa en svo eru þau oftast send í sín bæli. Ef gestirnir eru margir eru hundarnir settir inn í herbergi bæði með hagsmuni þeirra og tillitssemi við gesti í huga.Kafli 6 af 8 - Nafngift

Hvað heita þau gæludýr sem þú hefur átt? Hvað réð vali þínu á nafni/nöfnum? Geta heimilisdýr haft gælunöfn? Nefndu dæmi ef svo er. Finnst þér að nöfn á gæludýrum hafi verið að breytast? Hvernig ef svo er?

Þar sem ég hef yfirleitt tekið að mér notuð dýr þá hafa þau komið með nöfnum sem ég hef ekki breytt að ráði. Þau nöfn sem ég man eru: Fáfnir, Úfnir, Hoover, Doddi, Phoebe, Tessa, Golli og Ellý. Með hunda finnst mér að það skiptir ekki öllu máli hvað þú segir eða kallar þá heldur hvernig. Annar hundurinn minn á t.d. mörg kjánanöfn eins og t.d. Stóri, Dóri, Gúllas, Feiti, Dúddi og fleira og hlýðir þeim öllu. Þannig að já heimilsidýr geta haft gælunöfn.Kafli 7 af 8 - Veikindi og missir

Hefur þú upplifað að gæludýr þitt hafi orðið fyrir slysi, horfið eða dáið? Viltu segja frá þeirri reynslu? Hvað finnst þér að eigi að veita veiku eða slösuðu gæludýri mikla aðhlynningu (út frá fjárhagslegu-, tilfinningalegu eða praktísku sjónarmiði t.d.)? Hefur þú jarðað gæludýr? Hvar og hvernig ef svo er?

já ég hef misst kött og hund vegna veikinda. Það tók mikið á þar sem ég er umönnunaraðili, ber ábyrgð á heilsu og velferð þeirra og þarf að taka ákvörðun um að enda líf þeirra. Það er oft erfitt að sinna veikum dýrum þar sem þau tjá sig ekki eins og við mennirnir og erfitt að spyrja hvort þau finni til. Auðvitað er hægt að sjá hvort dýr þjáist en það væri auðveldara að fá munnlegt svar um líðan. Dýralæknar hafa oft heldur ekki mikil tæki til að greina veikindi og því er oft miklar getgátur og tilraunastarfsemi í gangi sem getur tekið á taugarnar og peningaveskið. Öllum dýrum sem ég tek að mér gef ég loforð um að þau munu ekki þurfa að þjást og það hefur hjálpað mér þegar ég hef þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Þegar ég missti minn fyrsta hund var ég eins og vængbrotinn fugl í 3 mánuði. Ég gekk í gegnum sorgarferli (já ég er að tala um að syrgja hund) þar sem ég tapaði gleðinni í nokkra mánuði. Ég lét brenna hundinn og svo jörðuðum ég og frænka mín (hún og hundurinn voru bestu vinir) öskuna saman í sumarbústaðalandinu. Í dag eru rúm 2 ár síðan hundurinn dó og ég fæ enn kökk í hálsinn við að skrifa þetta. Þetta er skrítið og mig hefði aldrei grunað hversu erfitt það er að kveðja góðan vin og félaga eins og hundinn minn. Ég hefði ekki trúað því. Við vorum búin að ganga í gegnum ýmislegt saman og það sem er svo magnað með hunda að þeir eru alltaf við hliðinna á þér, sama hversu sterkur stormurinn blæs á móti.Kafli 8 af 8 - Staður og tímabil

Við hvaða stað/staði og tímabil miðast svar þitt?

Akureyri, frá u.þ.b. 1997 til 2017


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.