LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiAmma, Endurminning, Erfiljóð
Ártal1927-2000
Spurningaskrá121 Frásagnir um ömmur

Sveitarfélag 1950Sauðárkrókur
Núv. sveitarfélagSveitarfélagið Skagafjörður
SýslaSkagafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1975

Nánari upplýsingar

Númer2015-1-76
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið9.3.2015/19.8.2016
Stærð3 A4
TækniTölvuskrift

María Guðlaug.
Móður amma mín hét María Guðlaug hún fæddist á Löngumýri í Skagafirði þann 11. nóvember 1927. Ekki stefndu foreldrar hennar þau Pétur Þorgrímsson (1887-1939) og Engilráð Guðmundsdóttir (1893-1964) á framtíð saman. 
Á þessum árum var erfitt að vera einstæð móðir og þegar Engilráð fær tækifæri til að öðlast annað líf, án barnsins, með manni sem vill eiga framtíð með henni, þá þiggur hún það. Það fer því svo að María er sett í fóstur til Elísabetar Jónsdóttur (1885-1967) frá Sveinskoti, Reykjaströnd en hún var búsett á Sauðárkróki og fer María til hennar. 
En María móðir Péturs skrifar í bréfi til sonar síns sumari 1928 eftirfarandi: “biðja allir vel að heilsa þér og þínu fólki. Pétur bróðir þinn eignaðist barn í vetur og sjer um það einn og er það ervitt hann er samt glaður auminginn”. 
Elísabet er ráðskona Péturs og hefur Maja amma búsetu hjá þeim, Elísabet var holgóma og Pétur var haltur. Í barnahópnum á Sauðárkróki var hent af því gaman og þótti ömmu það alltaf leiðinlegt. Sennilega hefur það ekki verið til að bæta ástandið að í þarnæstu götu bjó blóðmóðir hennar Engilráð með manni sínum og dóttur. Hef ég oft velt því fyrir mér hvernig sú upplifun hefur verið.
Fyrir jól árið 1938 fer Pétur frá Sauðárkróki að leita lækninga í Reykjavík en á því ferðalagi lést hann. Eins og siður var á Sauðárkróki var ort erfiljóð um hann sem er kveðja frá Elísabetuu Jónsdóttur og Maríu dóttur hans.

Það var um jólin að kvaddir þú, kæri.
Kvíðandi var ég um heilsufar þitt
hvort þetta ferðalag bata þér bæri,
beisklega ræst hefur hugboðið mitt.
Hönd þín er stirnuð og hjarta þitt brostið,
heim komst þú með lokaðar brár.
Dapurt er hús þitt, af dauðanum lostið,
dóttirin harmandi fellir þér tár.

Þó skal ei ræða um hugraun í harmi,
hlutskiptið dýrasta veizt hefur þér.
Mitt er að vefja með blíðu að barmi
barn þitt, sem tregandi hallast að mér.
Veit ég þó engum er unt henni að bæta
umhyggju þína og föðurleg ráð.
Minningar vakna, er raunirnar mæta
rótfestist kærleikans fjölbreytta sáð.
Veit ég þú tár hennar vildir burt strjúka,
viðkvæmur hugurinn snertingu sér;
Leggur þú hönd yfir lokkana mjúka,
“ljúfan”, þú mælir, “ei harmandi ver 
sýndu í ræðu og athöfnum dyggð,
gleðstu, ef hlotnast þér gæfan hin bjarta,
Guð veri með þér í láni og hryggð”.

En þótt ég hafi við dótturharm dvalið,
dyl ég ei söknuð er hjarta mitt ber.
Ég hefi aðeins sem veg til þín valið
vináttuböndin, sem kærst voru þér.
Barninu þínu ég liðsemd mun leggja,-
-lítils þó megni hin þróttsmáa mund-
starfa af kærleika til ykkar tveggja,
táp meðan endist og samverustund.

Sérhvað þú gjalda í sömu mynd vildir,
sjálfstæði veitti þér ráðdeild og greind.
Börn að þér hændust, þú hug þeirra skildir
hjá þeim var glettnin og spaugsemin reynd.
Drengurinn litli, sem daglega sagði;
“Dálítið, Pétur minn, leiktu við mig”
spyr nú um hvar þú sért, hryggur í bragði,
hvert sinn, er leikföng hand minna á þig.

Eigi þú tjaldaðir skrumi né skrauti,
skap þitt var mótað við þrautir og stríð.
Síðasta árið var erfitt í skauti,-
ei skal þó kvarta, fyrst runnin er tíð.
Kveðjurnar hinstu, með þöglum þökkum
þiggðu frá dóttur og vinkonu hér.
Dýrra til fagnaðarfunda við hlökkum.
-Friður og kærleikur Guðs sé með þér.-

Höfundar er ógetið. Þessi reynsla hafði djúpstæð áhrif á ömmu og sagði hún mér oft frá því hvað erfitt var að sjá kistuna síga niður í gegnfreðna jörðina. Í framhaldi af andláti föður hennar var sótt fjárhagslega að Elísabetu og Maju ömmu sem þá er eingöngu 12 ára. Þær voru við það að missa húsnæði sem þær leigðu að Suðurgötu 11
Þar bjuggu þær í þriggja hæða húsi sem skiptist til helminga, mjög lítið eins og tíðkaðist á þeim árum. Það sem bjargaði þeim frá húsnæðisleysi var maður að nafni Pétur Laxdal Guðvarðarson sem var húsasmíðameistari og mikill jafnaðarmaður sem gengur í málið. Héldu því Elísabet og amma húsnæðinu áfram, en í litlu íbúðinni á þriðju hæð sem er með ör mjóum stiga var unnið að þvotti og slátri fyrir heldri konur bæjarins. 
Amma fór til Akureyrar árið 1942 og dvaldi í tvö ár, um árið 1946 fer hún nokkra mánuði í Skálholt en fór þá aftur til Sauðárkróks og bjó þar alla tíð. Árið 1952 giftist hún afa Ögmundi Eyþór Svavarssyni (1928-1999). Þá áttu þau eina dóttur en samtals urðu þær þrjár.
Ég fékk þann heiður að ferðast með ömmu bæði til Akureyrar og eins Skálholts og kom hún því til mín að henni hafði liðið þar vel, líkt og heima á Krók. Fyrsta minning mín af ömmu er sennilega þegar ég kom í heimsókn til þeirra afa en þau byggðu saman Öldustíg 13, á Sauðárkróki. Amma var ekkert hrifin af hávaðanum sem leikir okkar afa höfðu og vildi ekki mikinn hávaða í kringum sig. Amma var sennilega líka oft þreytt en hún fór snemma að vinna. Hún starfaði í Fiskiðju Sauðárkróks í um 50 ár. Síðar meir eftir að ég fullorðnaðist þá sagði hún mér margar sögur og náði ég að kynnast ömmu mjög vel ekki síst eftir að afi lést, en þá bjuggum við í sitthvorri götunni og sat ég oft hjá henni á kvöldin. Ef hún sá ljós hjá mér eftir miðnætti þá vissi hún að ég væri að læra, þá hringdi hún í mig og sagði að ég ætti að fara sofa, ekki það að hún þyrfti þess.
Amma sagði mér margar sögur og fór með vísur uppistaðan í sögunum var hvernig Sauðárkrókur var hér áður fyrr. Hún kenndi mér mikilvægi hvers einstaklings í samfélagi og að koma vel fram við náungann, sérstaklega ef hann var minnimáttar. Amma sagði mér sögur- þegar hún og afi voru að hefja búskap og ekki voru þau með mikið á milli handanna. Hvað það skipti miklu máli að kona hér í bæ hafði gefið henni kápuna sína, þegar hún fékk nýja. Hversu mikilvægt það væri að vera fólki innan handar og að vera til staðar, hvernig maður hefur áhrif á líf annara og hvernig aðrir hafa áhrif á líf annara.
Ég fékk tækifæri til að fara með slátur, kleinur eða hvað sem var, fyrir ömmu, til fólks á Króknum sem ömmu fannst þurfa einhvers með, þó það væri ekki annað en að vita að einhver hugsaði til þeirra. Þar fékk ég að sjá glampa í augum og þakklæti fólksins sem amma vildi gleðja. 
Maja amma var alltaf að huga að baráttu litla mannsins og kvenréttindum, hún gengdi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir verkakvennafélagið Ölduna. Hún var alveg með réttindi verkamanna á hreinu og gekk þar fram skörunglega. Ég fékk að vinna með henni í fiskinum þegar ég fullorðnaðist þá er amma um sextugt flakandi stórþorska allan daginn eða þær fisktegundir sem sjórinn gaf hverju sinni. Hún lét mann fá orð í eyra ef maður stóð sig ekki í vinnunni. Vinnan göfgar manninn og vinnan gefur lífinu gildi. Hún vildi ekki að maður kvartaði yfir einhverju smálegu eða að maður sagði eitthvað óréttlátt svo ég tali nú ekki um uppnefni á einhverjum, þá fékk maður orð í eyra. Enda leiddist henni alltaf þegar fósturmóðir hennar eða halti faðirinn var nefndur nöfnum. 
Þegar ég spurði ömmu hvernig hún hafði kynnst afa, þá sagði hún svona eins og allir bara á böllum og svoleiðis. Það ræddi hún ekki meir og fékk ég aldrei þá sögu. Hún sagði mér að ef hún væri ung í dag þá færi hún í Garðyrkjuskóla, enda var garðurinn hennar allaf fallegur og alveg sama hvað hún eltist hún var alltaf í garðinum sínum og ræktaði hann að mikilli natni. Aðhlúa að því sem hægt var að hlúa að ---er dálítið hún Maja P, eins og hún var kölluð. Hún fór mikið á þrjóskunni því þó hún væri ekki heilsugóð þá þurfti hún alltaf að rífa sig upp, ef henni vantaði sand í garðinn og allir uppteknir þá fór hún bara með hjólburur og náði í hann, hún var ekki mikið fyrir að bíða. Síðasta sumarið sem hún lifði var ég að hjálpa henni í garðinum og einhverja hluta vegna spyr ég hana hvernig það hefði verið að alast upp hjá fósturmóður en vita af móður sinni í þar næstu götu með sína dóttur og eiginmann. Amma sagði “ég skyldi það ekki þá, en ég skil það nú”. Svo mörg voru þau orð.
Þó að amma ynni í fiski og moldaðist í garðinum þá var hún líka pæja sem bar höfuð hátt og hjólaði um á háu hælunum með túberinguna í hárinu eða var með hárnet yfir rúllum eða túberuðu hári. En hún fór seinni árin alltaf í greiðslu á hárgreiðslustofu einu sinni í viku.

Amma var trúuð og fóru hún og afi alltaf með ferðabæn áður en lagt var í ferðalag á volvonum eins og þau áttu í seinni tíð. Þjóðkirkjan var hátt skrifuð hjá ömmu en hún kenndi mér samt mikið um spíritísma en hún var einnig félagi í Sálrannsóknarfélagi Skagafjarðar, stundum var haft samband við hana og hún hafði svo samband á æðri staði, annað hvort sjálf eða hringdi í vin, læknamiðil. Það var svo einkennilegt að nóttina áður en hún dó, þá dreymdi mig að ég væri heima hjá henni að flagga í hálfa stöng. Sagði við eiginmann minn að þetta væri nú meiri vitleysan sem mig dreymdi. 
Amma hringdi í mig síðasta kvöldið sem hún var á lífi, hún var ekki vel hress, eitthvað slæm í vinstri hendinni og tók ég loforð af henni að fara til læknis daginn eftir, til þess kom þó ekki því þegar ég og faðir minn fórum til hennar hádegi daginn eftir þá var hún látin, kvaddi án fyrirhafnar.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.