LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiAmma, Endurminning
Ártal1960-1994
Spurningaskrá121 Frásagnir um ömmur

ByggðaheitiHnappadalur, Hnappadalur, Reykjavík, Þverárhlíð
Sveitarfélag 1950Eyjahreppur, Kolbeinsstaðahreppur, Reykjavík, Þverárhlíðarhreppur
Núv. sveitarfélagBorgarbyggð, Borgarbyggð, Eyja-og Miklaholtshreppur, Reykjavík
SýslaGullbringusýsla, Mýrasýsla, Snæfells- og Hnappadalssýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1960

Nánari upplýsingar

Númer2015-1-75
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið9.3.2015/26.6.2015
Stærð6 A4
TækniTölvuskrift

Frjáls frásögn - án leiðbeininga:

Ég var svo heppinn að alast upp að hluta hjá báðum ömmum mínum. Móðuramma mín bjó í sama húsi og fjölskylda mín og ég var hjá hinni í sveit í mörg ár. Báðar ömmur mínar voru heimavinnandi.

Móðuramma mín var fædd í sveit og gerðist síðan vinnukona á ýmsum sveitabæjum og á heimilum í Reykjavík þar til um þrítugt þegar hún giftist afa mínum og þau fluttu til Reykjavíkur úr Hnappadalssýslu. Fyrst bjuggu þau í Skerjafirði og síðar í Kópavogi. Amma kom úr stórri fjölskyldu, systkinin voru 9 og dreifð víða um Vestur-og Suðurland en þau héldu góðu sambandi allt lífið. Foreldrar hennar voru bændur í Hnappadal, fyrst sem leiguliðar en eignuðust síðar jörð sína og þar búa afkomendur þeirra enn þann dag í dag. Ég man ekki eftir langömmu minni í kvenlegg því hún dó þegar móðir mín var ung en hún minnist hennar með mikilli hlýju. Öll hennar börn komust á legg og flest þeirra urðu fjörgömul. Amma mín dó 92 ára. Hún eignaðist 5 börn, fjórar dætur og einn son. Afi minn og amma voru systkinabörn í föðurætt. Amma var glaðlynd og iðjusöm kona þrátt fyrir veikindi sem hráðu hana mest öll fullorðins ár. Hún var mjög gestrisin og mikill gestagangur á heimilinu, bæði skyldmenni og vinir komu mjög oft í heimsókn og þó hún færi lítið út úr húsi sjálf. Eftr að síminn kom til var hún mjög dugleg við að halda sambandi við allt sitt fólk. Hún var mikil húsmóðir, snyrtileg og kröfuhörð þegar kom að því að halda heimili, aldrei drasl hjá henni.Tók stórhreingerninar alltaf tvisvar á ári, fyrir jól og að vori. Seinni árin fékk hún heimilishjálp hálfan daginn til að aðstoða við þrif og matargerð. Þær konur sem voru hjá henni í heimilishjálp urðu flestar miklar vinkonur hennar og sýndu henni mikla tryggð. Mikil matarvinnsla var á heimilinu eins og oft var í gamla daga s.s. sultugerð, kartöflurækt, sláturgerð, kjötvinnsla, bakstur og annað slíkt. Maturinn var alltaf á sama tíma, morgunmatur kl. 8:00, miðmorgunskaffi kl. 10:30, hádegismatur kl 12, miðdegiskaffi kl. 15, kvöldmatur kl. 19 og kvöldkaffi kl. 9.30. Hún eldaði yfirleitt alltaf sjálf, afi bjó stöku sinnum til hafragraut ef hún var lasin og hitaði einstaka sinnum upp mat sem til var. Hún sinnti handvinnu mikið og aflaði sér tekna við að prjóna lopapeysur og selja. Hún var mjög fljót að prjóna og gat klárað 4 - 5 fullorðins peysur í viku hverri. Fyrir utan það saumaði hún talsvert út, myndir, púða og löbera. Hún var skapandi og bjó helst til uppskriftir og mynstur sjálf og fór afar sjaldan eftir uppskriftum nema með lopapeysurnar. Þær prjónaði hún eftir pöntun Handprjónasambandsins eða Rammagerðarinnar. Hún prjónaði peysur á öll barnabörnin í jólagjafir fyrir flest jól og síðar á barnabarnabörnin þegar þau komu til. Ef hún gaf ekki peysur í jólagjöf þá gaf hún bækur sem flestar voru keyptar á árlegum bókamarkaði. Hún var mjög nýtin á alla hluti. Saumaði föt upp úr eldri fötum, heklaði innkaupatöskur úr undarrennufernum og mottur líka. Hún saumaði öll sín föt sjálf og flest af afa fötum. Saumavélin sem hún notaði var gömul en samt með mótor. Fékk hana líklega fljótlega eftir að hún byrjaði að búa. Hún átti líka prjónavél sem hún notaði mikið. Prjónaði ullarboli og ullarnærbuxur ásamt fleiru og var oft að prófa hvað hún gæti gert í henni. Hún átti gamlan rokk sem hún notaði stundum og spunatré. Hún sinnti okkur systrunum mikið sem bjuggum í sama húsi. Kenndi okkur að lesa með prjón aðferðinni og líka að prjóna, hekla og sauma. Hún var líka dugleg við að spila við okkur Rommý, Olsen, Lönguvitleysu, Casino, og fleira. Henni fannst gaman að spila lomber og fékk stundum gesti sem tóku í spil með henni. Hún lagði líka oft kapal og kenndi okkur systrum fjölda kapla. Hún var mjög trúuð kona en fór sjaldan í kirkju. Bannaði blót og guðlast í sinni návist og fór með langa bæn á hverju kvöldi og aðra að morgni. Las oft í biblíunni en talaði samt ekki oft um hana en las biblíusögur fyrir okkur systurnar. Við rökræddum stundum um trúmál og hún trúði á sköpunarsöguna og því sem stóð í biblíunni. Hún var afskaplega hlý kona og gott að leita í hennar stóra faðm þegar á þurfti að halda. Hún hafði alltaf áhuga á því sem við krakkarnir höfðu að segja og gerði aldrei lítið úr okkur eða okkar skoðunum. Ég man ekki til að hún hafi nokkru sinni sagt illt orð um annað fólk. Hún las ekki mikið af sögubókum en hafði mjög gaman af því að hlusta á útvarpssögur og síðar á ævinni, þegar sjóninni fór að hraka fékk hún hljóðbækur frá blindrabókasafninu sem hún hlustaði mikið á á meðan hún prjónaði. Hún fylgdist með fréttum en ræddi aldrei pólitík svo ég muni eftir. Samband afa og ömmu var gott en þau voru miklir tuðarar bæði hvort við annað en það var aldrei í illu. Hún dó heima í faðmi fjölskyldunnar að eigin ósk með aðstoð Heilsugæslunnar, fékk líknandi meðferð við hjartabilun.Afi dó ári áður á sjúkrahúsi.
Langamma mín, móðir afa, dó líka áður en ég fæddist svo ég kynntist henni aldrei en samkvæmt móður minni þá var hún ströng kona en góðgjörn. Hún missti mann sinn frá ungum börnum og heimilið leystist upp að mestu svo hennar ævi var enginn dans á rósum. Börnin fóru ung í vinnumennsku. Hún bjó hjá syni sínum í sveit að mestu eftir að hann fór að búa og átti þar gott skjól.

Föðuramma mín var dóttir vinnuhjúa sem aldrei bjuggu saman nema tímabundið þegar þau fengu vist á sama bæ. Hún átti 6 systkini sem flest voru alin upp hjá öðrum en foreldrunum við misjafnt atlæti. Þrjú systkini hennar dóu fyrir tvítugt úr barnaveiki, heilaæxli og berklum.Hin fjögur náðu fullorðins aldri, þrjú urðu mjög fullorðin en einn bróðir dó milli fimmtugs og sextugs. Hún og hálfbróðir hennar voru heppin með fóstur. Þau ólust upp saman hjá góðum hjónum sem sinntu þeim eins og eigin börnum og komu þeim á legg. Fósturmóðir hennar sem var skyld móður hennar dó þegar hún var 8 ára og upplifði hún þann missi mjög sárt en fósturfaðir hennar dó þegar hún var um tvítugt. Annar fósturbróðir hennar reyndist henni og afa mjög vel þegar þau fóru að búa og fóstursystur sínar hélt hún sambandi við þar til þær féllu frá. Hún bjó á sama stað þar til hún kynntist afa upp úr tvítugu og þau fóru að búa. Fyrst bjuggu þau sem leiguliðar en eftir ár tókst þeim að kaupa hálfa jörð og síðar eignast hana alla og bjuggu þar til sjötugs þegar þau fluttu í nálægan bæ. Hálfbróðir hennar bjó á þar næsta bæ og alltaf héldu þau mjög góðu sambandi. Búið var meðalbú á þeirra tíma mælikvarða með 12 kýr mjólkandi og 170 kindur ásamt nokkrum hrossum og hænum. Fóstuforeldrar hennar voru vel stæð á þeirra tíma mælikvarða og hún fékk ágætt tækifæri til menntunar á heimilinu. Mikil bókaeign var á heimilinu og alla ævi las hún mjög mikið og var fjölfróð og ljóðelsk. Hún kunni ógrynni af ljóðum og lausavísum og fór með þær við ýmis tækifæri á hverjum degi. Hún var glaðlynd og gestrisin. Alltaf fagnaði hún gestum eins og höfðingjum og dró allt það besta fram og veitti vel. Hún skrifaði mikið af bréfum til vina og skyldmenna, bæði á Íslandi og í Ameríku, til þeirra sem fluttu til Vesturheims og afkomenda þeirra, skyldmenni afa. Þau afi eignuðust 10 börn þar af 9 sem komust á legg. Heimilið var alltaf fjölmennt því flest sumur voru aukabörn, eitt eða fleiri sem komu í sveitina, oftast systkinabörn eða börn vina. Farskóli var líka á heimilinu flesta vetur eins og þá tíðkaðist þannig að þá komu börn af öðru bæjum og dvöldu til skemmri eða lengri tíma. Börn hændust mjög að henni og áttu hjá henni gott atlæti þó ekki væri hún mikið í því að kjassa þau. Hún var dugleg að spila við þau og kenndi þeim að leggja kapla. Það var mikið að gera á stóru heimili og hún fór alltaf fyrst á fætur og síðust í rúmið. Allt var unnið heima til matargerðar og fatnaðar. Allt var nýtt sem hægt var s.s. silungsveiði í vötnum, svartbaksegg týnd að vori, álar sem voru reyktir og notaðir á brauð auk alls sem nýta mátti af lömbum og kúm. Ekki man ég eftir að hænsnakjöt væri borðað en pabbi mundi það og þótti ekki gott. Matur var reyktur, saltaður og súrsaður heima og allt unnið úr mjólk nema skyr sem seinni árin voru keypt af mjólkurbúinu. Ber voru líka týnd og notuð í sultur og saft, kartöflur ræktaðar, rófur og gulrætur. Amma sá um allt sem snéri að matargerð nema að reykja kjötið, það gerði afi. Hún bakaði brauð og flatkökur daglega og oftast kökur líka. Daglega fór hún líka í mjaltir en þau sáu um það saman afi og amma ásamt þeim börnum sem heima voru. Hún sá líka um hænurnar en fór sjaldan í fjárhúsin eða í smalamennsku seinni árin. Hún sá um mat fyrir hundana og kettina. Hún hafði mjög gaman af hestunum og átti alltaf góðan reiðhest og fór gjarnan í heimsóknir á næstu bæi ríðandi. Var dugleg að heimsækja nágranna og vini. Sama reglufesta var á matartímum og hjá móðurömmu minni og alltaf góður matur á borðum og nóg af honum. Amma hafði mikinn áhuga á ræktun, kom á fót skógrækt á smá skika á jörðinni og átti pínulítinn garð sem var fullur af hinum ólíklegustu plöntum. Afa fannst þetta ræktunarstúss frekar til óþurftar og þurfti stundum að ýta á hann að halda við girðingum utan um skógræktina og garðinn en hann gerði það alltaf. Yfirmaður skógræktar í sýslunni var mikill vinur hennar og duglegur við að útvega henni trjáplöntur. Hún gróðursetti eitt tré fyrir hvert barn sitt og tileinkaði þeim þau. Hún var ein af stofnendum kvenfélagsins í sveitinni og var þar formaður í tugi ára. Skóg- og garðræktin var eitt af áhugamálum kvenfélagsins og skiptust þær á plöntum og fræum auk þess sem þær sinntu öðrum þjóðþrifamálum. Söfnuðu meðal annars fyrir félagsheimili sveitarinnar ásamt ungmennafélaginu. Eftir að þau afi fluttu í kaupstað var heimilið umfangsminna en sama gestrisnin ríkti þar og gestagangur mikill. Aldrei voru færri en sjö sortir á kaffiborði dregnar fram þegar gesti bar að.Hún var alla tíð heilsuhraust og kröftug, hafði gaman af því að vera úti í náttúrinni og þekkti hverja jurt og fugla og miðlaði þeim fróðleik til afkomendanna. Hún var líka mikil handavinnukona og prjónaði mikið, saumaði föt og saumaði út. Hún saumaði meðal annars nokkra upphluti og peysuföt um ævina. Flestir fóru gestir með gjafir með sér heim, sokka eða smá hluti sem hún bjó til úr þurrkuðum blómum, skeljum eða öðru sem henni datt í hug að búa til. Margur kæfubitinn fylgdi líka með svona í kaupbæti. Hún var mjög hláturmild og stríðin en á góðan hátt, aldrei meinfýsin. Hún var skapstór en fór vel með það. Hún fylgdist með fréttum en ræddi sjaldan pólitík svo ég muni eftir. Hún dó eftir ársveikindi á elliheimili en talaði mest lítið síðustu mánuðina.

Langömmum mínum í föðurætt kynntist ég aldrei, báðar látnar þegar ég fæddist. Móðurlangamma var vinnukona alla ævi og missti helming af sínum börnum vegna sjúkdóma og önnur missti hún frá sér í fóstur frá unga aldri svo ekki hefur ævi hennar verið auðveld. Hún missti móður sína 12 ára og þá var heimilið leyst upp og hún fór til vandalausra. Pabbi minnist hennar með hlýju og þótti mjög vænt um hana. Hún var um tíma hjá ömmu og hjá ömmubróður mínum á efri árum.
Föðurlangamma (mamma afa) kynntist afa mínum í Dölunum þar sem hann var vinnumaður frá 10 ára aldri. Hún átti 4 alsystkini og 13 hálfsystkini. Stór hluti þeirra fór til Vesturheims en alsystinin voru öll á Íslandi. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum þar til hún giftist og fluttist í Borgarfjörð. Þau langafi voru leiguliðar alla ævi en bjuggu á sama bænum mest alla sína búskapartíð þar til þau fluttu í Borgarnes þegar amma var orðin veik. Langafi þurfti að afla tekna utan bús því það var svo lítið að það dugði ekki stórri fjölskyldunni enda börnin 13 þannig að bústörfin hafa mest hvílt á langömmu. Þau voru með nokkrar kindur og eina eða tvær kýr og svo átti langafi slatta af hestum. Ég heyrði lítið af sögum af langömmu en kynntist langafa vel því hann varð 97 ára og tíður gestur hjá afa og ömmu. Amma dó rúmlega sextug úr krabbameini.

Frásögn með stuðningi minnisatriða:

Móðuramma mín fæddist árið 1902 í Hnappadal og föðuramma mín fæddist 1905 í Þverárhlíð.

Báðar voru mér mikil fyrirmynd og mikilvægar í uppeldi mínu og mér þótti mjög vænt um þær báðar. Þær hvöttu mig áfram í þekkingarleit, handavinnu og að standa mig í því sem ég væri að taka mér fyrir hendur. Báðar voru þær metnaðarfullar fyrir mína hönd og hvöttu mig áfram. Þær kenndu mér að vanda mig við það sem ég var að gera og gera hlutina aftur og aftur þar til þeir væru orðnir eins góðir og þær gætu mjögulega orðið, þannig að vandvirkni og vinnusemi var lykilorðið hjá þeim báðum. Þær voru báðar í typískum hlutverkum fyrir konur sem húsmæður og uppalendur en aldrei heyrði ég þær tala á móti jafnrétti kvenna eða að jafnréttisumræðan væri að gera lítið úr þeirra lífsstarfi. Annað var ekki í boði fyrir þær á þeim tíma sem þær voru að alast upp en föðuramma mín hefði gjarnan vilja komast í skóla hefði verið kostur á því þó hún minntist ekki oft á það. Báðar voru þær stoltar af afkvæmum sínum og töluðu oft um þá þannig að maður fann aldrei að þær væru að gera upp á milli okkar þó við værum mörg og misjöfn.
Báðar miðluðu þær gjafmildar af þekkingu sinni og færni en gerðu kröfur um mannasiði, umgengni og vandvirkni.

Afar mínir voru mikilvægir líka en á annan hátt. Föðurafi minn var mjög barnelskur og sinni börnunum mikið, bæði úti og inni en hann lifði mest í núinu, sinnti því sem þurfti að gera þá og þegar en dvaldi lítið við fortíð eða því sem ekki kom málefni dagsins við. Hann var mikið snyrtimenni og mjög skipulagður í sínum störfum og það varð mín fyrirmynd að mörgu leyti. Alltaf allt tilbúið fyrir næsta verkefni sem fyrir lá, hvort sem það var sauðburður eða heyskapur. Hann sinnti búfé sínu vel og þekkti hverja skepnu og var þeim góður. Óþreytandi að draga á eftir sér stelpukrakka og kenna henni á skepnurnar og svara óteljandi spurningum. Var oft áhyggjufullur yfir því að við færum okkur að voða í mógröfum, í þoku eða með uppátækjum sem ekki voru traustvekjandi.
Móðurafi minn var ekki mikið fyrir það að hafa börn að þvælast fyrir sér enda var hann trésmiður og vann mikið í stórum og hættulegum tækjum heima fyrir. Hann leyfði okkur samt að fá kubba, hamar og nagla og smíða að list eins og við við vildum og hjálpaði stundum til við verkefnin sem við vorum að reyna að vinna s.s. að smíða bíla eða búðaborð. Hann var mjög skapandi í sínum smíðum og var alltaf að láta sér detta eitthvað nýtt í hug til að auðvelda störfin. Smíðaði mest af sínum verkfærum sjálfur. Hann var frekar strangur en alltaf góður við okkur. Hann er mín fyrirmynd í því að leita að lausnum á verkefnum og aldrei gefast upp þó fyrsta lausn virkaði ekki eins vel og til var ætlast.

Við hvaða staði og tímabil er frásögn þín miðuð?:

1960-1994.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.