LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiAmma, Endurminning
Ártal1940-1970
Spurningaskrá121 Frásagnir um ömmur

ByggðaheitiGrindavík, Selvogur, Víkursveit
Sveitarfélag 1950Árneshreppur, Grindavíkurhreppur, Selvogshreppur
Núv. sveitarfélagÁrneshreppur, Grindavíkurbær, Ölfus
SýslaÁrnessýsla, Gullbringusýsla, Strandasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1951

Nánari upplýsingar

Númer2015-1-71
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið9.3.2015/15.5.2015
Stærð3 A3
TækniTölvuskrift

Frjáls frásögn - án leiðbeininga:

Amma Helga (Þórarinsdóttir) í Grindavík kenndi mér ungri (ca. 1960) að gróði fyrirtækjanna (frystihúsin og útgerðin) væri ógoldin laun þeirra sem sköpuðu verðmætin.
Hún sagði mér að konur hefðu soltið og jafnvel látið lífið til þess að við konurnar gætum fengið að kjósa. Við skuldum þeim að leggja fram okkar atkvæði en ekki hengja það á skoðanir annarra. Ég hef það alltaf á tilfinningunni að ég myndi saurga minningu hennar ef ég kýs ekki eftir sannfæringu minni. Og að fara ekki á kjörstað? Sú gamla myndi ganga aftur!
Hún sagði mér líka að láta engan segja mér að ekki væri hægt að gróðursetja neitt af því að ekkert yxi í söltu sjávarroki og jarðvegsleysi. Það væru bara fleiri verkefni og ef til vill einmitt áhugaverðari. Afleiðingin af orðum hennar varð sú að mér er enn strítt á að ég hafi meiri áhuga á að "rækta" mold en jurtir og það er mikið til í því! Báða ömmurnar mínar, sú í Grindavík og hin frá Árneshreppi á Ströndum, sögðu að kona gæti eingöngu gengið hnarreist ef hún ynni fyrir sér en lifði ekki á framfæri annarra - sem þá ættu konuna og stjórnuðu lífi hennar. Amma mín á Ströndum reri út á árabát upp úr klukkan 10 á morgnana (ef veður leyfði) til að draga björg í bú. Ég fékk að róa með henni 1962 en var frekar lélegur áramaður.
Amma í Grindavík var ákaflega félagslynd og skaust í kaffi til vinkonu sinnar, hennar Jóu í Hjarðarholti, ef hún fann til þess tíma. Eitt sinn þegar þær voru að kveðjast á tröppunum með kossaflengsi eins og þeirra var siður sagði hún: "Æ, elskan mín, mikið er ég búin að tefja þig - og mig líka."
Ömmur voru alltaf að þrífa, ef þær voru ekki í vinnu utan heimilisins. Ein kona í Grindavík klifraði upp á stól með pinnabaki til að taka niður gardínur. Því miður var toppstykkið af stólnum ekki á honum lengur og þegar hún datt stakkst einn pílárinn upp í nárann á henni svo úr varð mikið holsár á ónefnudum stað. Þegar amma hitti konugreyið eftir þetta slys sagði hún: "Æ, svona fór þá fyrir þér elskan mín, þá einu sinni að þú fórst að þrífa." Jóa í Hjarðarholti (einn sonur hennar heitir Guðbergur Bergsson og er skáld) stóð eins og ömmur gerðu á meðan aðrir borðuðu. Einn daginn þegar pabbi var þar í mat hafði fjölskyldunni hlotnast ávaxtadós sem "datt af bílpalli" hjá hernum. Ávextirnir voru bornir fram með þeyttum rjóma og rjómi var sjaldséður þá daga í Grindavík en ávextir í dós voru algjört fágæti um allt land. Jóa vomaði yfir "piltunum" með borðtuskuna, alltaf tilbúin að þurrka af borðinu ef eitthvað féll á það og sönglaði "fáðu þér meiri rjóma Hafsteinn (sá varð seinna pabbi minn). En pabbi vildi ekki meiri rjóma. Bjarni sonur Jóu sagði þá hryssingslega: "Hvað er þetta manneskja! Skilurðu ekki að maðurinn vill ekki meiri rjóma?" Þá vældi Jóa: "Já, en rjóminn, hann drýgir."

Frásögn með stuðningi minnisatriða:

Afarnir mínir dóu ungir og ömmurnarnar mínar ólu upp börnin 8 í Grindavík og 13 í Árneshreppi á Ströndum. Amma mín í Grindavík fæddist í Flóanum, en móðir hennar dó mjög ung, mig minnir að amma hafi þá verið 3 ára. Langafi, Þórarinn, giftist aftur og setti upp bú í Selvogi. Amma ólst því upp í Selvogi og þar var hún misnotuð af bróður stjúpu hennar og á endanum varð hún ófrísk og fæddi son. Stjúpan ætlaði að gefa drenginn til ættingja hennar en gömul kona sem var á bænum gaf ömmu pening fyrir rútufarinu til Hafnarfjarðar. Amma stakk því af með drenginn í reifum og rakst á konu í Hafnarfirði sem tók þau að sér. Amma fékk svo vinnu í fiski í Grindavík en drengurinn varð eftir í Hafnarfirði. Amma hitti afa í Grindavík og þau giftu sig en konan í Hafnarfirði sá alltaf ástæðu til þess að drengurinn skyldi vera áfram hjá henni. Hann flutti því aldrei til Grindavíkur en var alltaf talinn vera elsti bróðirinn í 7 barna hópnum þar. Hann skar sig þó úr hópnum vegna þess að þau voru ÖLL rauðhærð, amma, afi og börnin þeirra, en drengurinn var skolhærður.
Móðir mín átti svipaða sögu að segja. Amma á Ströndum varð að senda hana frá sér í vinnumennsku 10 ára gamla og þar var hún misnotuð úti í fjósi þangað til hún stakk af og fór sem vinnukona hjá Ingólfi á Hellu (Rangárvöllum), en eldri systir hennar hafði gifst þangað. Þessar minningar sóttu mjög á ömmu og seinna mömmu sem þá var orðin amma sjálf.
Þessar tvær konur ólu mig upp og kenndu mér að treysta aldrei karlmanni. Mér fannst þær bitrar og blés á "bullið" í þeim.
Tveimur eiginmönnum síðar tek ég heils hugar undir allt sem þær sögðu. Ég er orðin amma, á 5 barnabörn, allt stúlkur og kenni þeim það sem ömmur mínar kenndu mér: Stattu með sjálfri þér, sjáðu alltaf fyrir þér með launaðri vinnu. Þær reyndu að beina mér á brautir til menntunar, ritara og kennarstörf hugnuðust þeim. Ég valdi að lokum menntun þar sem ég lenti í kvennastétt og launin eftir því. En þau duga alltaf einhvern veginn með svona 50 klukkustanda vinnuviku. Við barnabörnin mín segi ég ítrekað: Gerðu alltaf allt það sem þig langar til að gera! Af eigin afli. Láttu engan draga úr þér máttinn. Við konur erum sterkar ef við stöndum einar. Aðrir mega koma með í ævintýri lífsins en aðrir mega og eiga að koma og fara - þeirra leið. Líka afkomendurnir! Þetta kenndu ömmur mínar mér.

Við hvaða staði og tímabil er frásögn þín miðuð?:

Selvog, Grindavík og Árneshrepp á Ströndum ca. 1941 - 1968.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.