LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiAmma, Endurminning
Ártal1965-2015
Spurningaskrá121 Frásagnir um ömmur

Núv. sveitarfélagDalabyggð, Hafnarfjarðarkaupstaður
SýslaDalasýsla, Gullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1965

Nánari upplýsingar

Númer2015-1-69
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið9.3.2015/13.4.2015
Stærð2 A4
TækniTölvuskrift

Frjáls frásögn - án leiðbeininga:

Amma mín (f. 1925) ólst upp vestur í Saurbæ. Hún var einkadóttir foreldra sinna, en átti nokkra bræður. Þegar hún var sex ára gömul missti hún móður sína, og þurfti upp frá því að sjá um mestallt heimilishald. Kaupakona var síðar ráðin á heimilið, en amma „litla“ mátti þræla eftir sem áður. Vinnuharkan var mikil. Faðir hennar, langafi minn, þóttist þó ekki mjög illa settur, og ekki verr en það að þegar álagstímar voru á fátækari bæjum í sveitinni, svo sem við kartöfluuppskeru eða sláturgerð, lánaði hann ömmu til nágranna sinna. Ömmu leið oft ekki vel á þessum bæjum. Allt frá því að hún varð móðurlaus saknaði hún móður sinnar mikið, og einsemdin jókst þegar hún var send á aðra bæi. Amma segir að bræður hennar hafi haft það miklu náðugra. Þeir tóku að vísu þátt í útiverkunum, en sú vinna dreifðist á fleiri, enda voru þeir settir til mennta. Ömmubræðrum mínum vegnaði vel. Ég man að einn þeirra varð kennari og lærður söngvari, og annar varð borgarfulltrúi í Reykjavík.

Amma giftist ung, eins og venjan var og flutti suður á Fellsströnd. Þegar hún tók við búi þar, var langamma mín á lífi og átti nóg eftir. Sú var ekki á þeim buxunum að víkja fyrir yngri húsfreyju og tók ömmu illa. Langamma mín leit stórt á sig, já, hún var nú ekkert blávatn sú kona, heyrði ég sagt um hana síðar. Líklega hefur henni ekki þótt mikið til ömmu minnar koma - þannig var mórallinn í sveitinni í gamla daga; hver þóttist yfir annan hafinn og kepptist við að hafa goggunarröðina á hreinu. Heimilishaldið var erfitt, og systkini afa sem höðu flust suður til að mennta sig völsuðu inn og út af hinu nýja heimili ömmu. Síðan komu börnin, eitt af öðru, og sex talsins; einn strákur og fimm stelpur.

Amma og afi brugðu búi og flusttust suður í Hafnarfjörð í kringum 1967. Amma vann þar ýmis störf, m.a. við ræstingar og þegar hún var ekki að þrífa sér til viðurværis, þreif hún heimilið, steikti kleinur og bakaði flatkökur. Amma gerði bestu flatkökur sem ég hef smakkað, og hún kenndi mér aðferðina þegar ég var unglingur. Hún var dugleg, alla sína tíð, en naut sín sjaldan. Afi var hins vegar hrókur alls fagnaðar og með vinsælli mönnum. Amma féll í skuggann, og kannski reyndi hún ekki mikið að komast út úr honum, og óánægja hennar braust út í nöldri út í afa. Amma hafði líka samúð með öllum sem voru veikir og hafði nýjustu sjúkrasögurnar alveg á hreinu. Hún andvarpaði yfir hinum veiku, og stundum óskaði maður sér að verða veikur, til að fá smá athygli frá ömmu. Frændi minn og jafnaldri var t.d. með nýrnasjúkdóm og þótt ég geri mér vel grein fyrir erfiðleikum hans í gegnum tíðina, ofbauð mér stundum athyglin sem hann fékk umfram okkur heilbrigðu börnin.

Þegar amma varð gömul rifjaði hún stundum upp æsku sína, og minntist með biturð þrældómsins, vinnuhörkunnar og umhyggjuleysisins. Þetta er það sem situr efitr, eftir allt hennar strit. Síðustu árin hafa reynst henni erfið. Hún hefur verið ekkja í rúm tuttugu ár, er slæm á taugum og þung í sinni.

Þrátt fyrir allt á ég góðar minningar um ömmu; um jólaboðin hennar, þar sem borðið svignaði undan jólabakstrinum, um nælonslæðuna sem hún notaði yfir rúllurnar og um skartgripina sem hún hafði fengið að gjöf í gegnum tíðina og geymdi í snyrtiborðinu sínu. Fyrir mér var það eins og fjársjóðskista og geymdi eyrnalokka úr fjöðrum, kúluhálsfestar og armbandsúr. Hún átti margt fallegt hún amma; fallegan borðbúnað, silfurstjaka og útsaumsmyndir. Þegar ég gisti hjá ömmu og afa fékk ég alltaf mjólkurglas fyrir svefninn og kökur með, stundum meira að segja heitt kakó.

Amma er á Hrafnistu og henni líður ekki vel. Börnin hennar sjá um hana og hún er ekki alltaf sátt við það sem þau ákveða. Hún fær kvíðaköst og grætur. Ég, dótturdóttir hennar, er eins og margar aðrar konur á mínum aldri; á að baki langt háskólanám, er í 100% vinnu (samkvæmt launaseðli, mun meiri samkvæmt vinnuframlagi), er móðir þriggja barna, og þar á meðal eins sem er langveikt. Dagurinn er erilsamur og helgarnar fyrirfram skipulagðar. Frístundir fara helst í að pústa, vera uppgefin. Ég hef engan tíma fyrir ömmu. Ég veit að ég á eftir að sakna hennar síðar, öll mín efri ár, með samviskubiti.

Við hvaða staði og tímabil er frásögn þín miðuð?:

Dalasýslu (tilc. 1967) og Hafnarfjörð eftir það.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.