LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiAmma, Endurminning
Ártal1959-1968
Spurningaskrá121 Frásagnir um ömmur

StaðurHverfisgata 47
Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1953

Nánari upplýsingar

Númer2015-1-65
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið9.3.2015/9.4.2015
Stærð2 A4
TækniTölvuskrift

Frjáls frásögn - án leiðbeininga:

Amma mín hét Sigurbára Dórathea Árnadóttir og var fædd 1887 eða 8. Hún var barn Guðrúnar Finnsdóttur (Finnur Jónsson á Brekkum á Rangárvöllum) og Árna kaupmannssonar í Reykjavík. Amma og Ásgeir Ásgeirsson forseti voru bræðrabörn.
En á þessum tíma var það mikil hneisa að kaupmannssonurinn skyldi skríða upp í hjá vinnukonunni og var Guðrúnu þess vegna komið fyrir hjá hjónunum Eyjólfi og Vilhelmínu í Saurbæ á Kjalarnesi. Þar fæddist hún amma. Þar sem Guðrún langamma gat ekki haft hana hjá sér, því hún varð að vinna fyrir sér, varð amma eftir í Saurbæ og var alin þar upp.
Þegar hún svo varð fullorðin þá giftist hún honum afa mínum, Einari Þorfinnssyni ættuðum úr Kjósinni. Þau bjuggu á ýmsum stöðum í Rreykjavík, en ég man fyrst eftir henni á Hverfisgötu 47 í Reykjavík, það hús þurfti svo að víkja síðar.
Þarna bjuggu þau, hann var verkamaður og vann daglaunavinnu og amma saumaði peysuföt og upphluti fyrir konur. Amma Bára var gífurlega mikil handavinnukona og prjónaði stórar veggmyndir, sem enn eru til. Amma var lítil og nett, kvik í hreyfingum og óskaplega góð við okkur systkinin. Frægar voru "magapínukökurnar" hennar, nafnið kom til vegna þess að við átum yfirleitt yfir okkur af þeim, með magapínu afleiðingum. Ein minning er mér mjög kær um ömmu. Hú átti altaf svo fallega og ilmandi sápu. Þegar ég var að þvo mér hendurnar hjá henni, setti hún vatn í vaskafat og leyfði mér að þvo mér um hendurnar með þessari hálfgegnsæju ferskjuilmandi gulu sápu. Það var hægt að sjá inn í sápuna og birtan kom í gegn um hana þegar hún var borin upp í ljósið. Aldrei sagði amma eitt orð um það að ég sullaði auðvitað allt út í hrifningu minn og gleði með sápuna hennar. Þegar ég var orðin unglingur og amma flutt til okkar þá skreið hún á hnjánum á gólfinu með mér að hjálpa mér að sníða svuntu fyrir handavinnuna í skólanum. Þessi fjárans svunta var mikill höfuðverkur hjá mér og snið og efni vildu aldrei hlýða mínum óvönu höndum. En amma sléttaði úr öllu saman og kenndi mér aðferðina við að leggja þetta saman, títuprjóna, þræða og sauma, þannig að úr varð brúkleg svunta. Ég man svo ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma notað þessa svuntu, en það lék allt í höndunum á ömmu, sem snéri að saumaskap. Ég á ennþá tölur og tvinna sem hún átti og notaði þegar hún var að sauma peysuföt. Amma dó þegar hún var komin á áttræðisaldur, eftir stutta legu á Landspítalunum.

Frásögn með stuðningi minnisatriða:

Amma sagði mér að það hefði kostað konur svo mikið stapp og streð að fá kosningarétt að hver einasta kona á landinu ætti að fara á kjörstað og kjósa til þess að minnast allra þeirra sem á undan hefðu gengið. Þetta hef ég alltaf munað og virt og er stollt af því. Hvað maður kaus eða skilaði auðu, sagði hún að skipti minna máli, bara það að nota þennan dýmæta rétt sem hafði kostað svo margar konur svo mikla vinnu.
Afi og amma voru að ég held samrýmd og brostu mikið. Afi vann mikið og var ekki mikið að skipta sér af okkur krökkunum, en hún amma átti alltaf til eitthvað gott í búrinu sínu og gaukaði að okkur.

Við hvaða staði og tímabil er frásögn þín miðuð?:

Reykjavík, Hverfisgata 47, 1959-ca.'67.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.