LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiAmma, Endurminning
Ártal1900-1950
Spurningaskrá121 Frásagnir um ömmur

ByggðaheitiStykkishólmur
Sveitarfélag 1950Stykkishólmshreppur
Núv. sveitarfélagStykkishólmsbær
SýslaSnæfells- og Hnappadalssýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1959

Nánari upplýsingar

Númer2015-1-63
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið9.3.2015/8.4.2015
Stærð5 A4
TækniTölvuskrift

Frjáls frásögn - án leiðbeininga:

Saga Sigurborgar Það er ekki til mynd af henni Sigurborgu móðurömmu minni. Hefur að minnsta kosti engin fundist, þrátt fyrir leit. En ég á af henni lifandi myndir fyrir hugskotssjónum.
Það er árið 1929. Ung kona liggur uppi í rúmi og gengur illa að sofna. Hún leggur höndina á kviðinn. Hún á von á barni. Er kona ekki einsömul. Það er ekki staðfest af lækni, en hún veit. Eins og kona veit. Hún veit líka að þau eiga ekki eftir að verða hjón, hún og barnsfaðirinn, Jóhann Guðjónsson. Því kona veit.
Sigurborg er tuttugu og átta ára, hún býr ásamt Kristínu hálfsystur sinni og manni hennar Magnúsi í litlu húsi í Tanga í Stykkishólmi. Í þessu rúmlega 40 fermetra húsi, búa líka móðir þeirra systra, Sólveig og Brandur, 7 ára drengur, bróðursonur þeirra.
Það eru krepputímar í hinum stóra heimi og þetta fátæka verkafólk stundar vinnu eftir því sem gefst, en hefur ekkert fast, ekkert öruggt. Sigurborg fer stundum í burtu á sumrin í kaupavinnu, stundum eru uppgrip í saltfiskvinnslu, dúntekju og svo er alltaf sá möguleiki að taka að sér þvott á heimilum fólks.
Sigurborg kvíðir framtíðinni og tilhugsuninni um þetta ófædda barn. Hún þekkir af eigin raun hvernig það er að alast upp í fátækt. Móðir hennar skildi við eiginmann og átti samtals sjö börn með þremur mönnum. Hún var lengst af í vinnumennsku, enda átti ógift kona sem þar að auki var einstæð móðir, ekki marga kosti. Flest börnin voru sett í fóstur og Sigurborg, sem Sólveig átti með vinnumanni, var í fóstri til þriggja ára aldurs. Þá giftist Sólveig, manni sem hún hafði verið bústýra hjá og tók Sigurborgu aftur til sín.
Á uppvaxtarárunum var Sigurborg því stundum hjá vandalausum, stundum með móður sinni, í sveit eða í Stykkishólmi. Börn á þessum tíma, voru ekki gömul þegar þau fóru í vinnumennsku á bæjum og fjórtán ára fór hún á Fellsströnd sem vinnukona. Fjölskyldan sameinaðist svo á ný, í Stykkishólmi árið 1915, Sigurborg þá 16 ára gömul. Eftir þetta, var líf þeirra systra, Sigurborgar og Kristínar samofið, meðan báðar lifðu.
Barn Sigurborgar fæðist í september, drengur, sem hlýtur nafnið Guðjón Jóhann. Föðuramma hans er tilbúin að taka hann að sér og það verður úr. Tengslin við móðurina og fólkið í Tanga héldust þó alltaf.
Ég sé Sigurborgu fyrir mér sem armsterka konu, með beinaberar og vinnulúnar hendur. Ég sé hana fyrir mér vinnandi í saltfiski. Það var saltað, stakkað, vaskað og svo lagt út til þurrkunar á stórum reitum, utandyra. Þetta var erfiðisvinna og stöðugt verið að bogra. Ég sé hana fyrir mér í síðu pilsi, með svuntu. Skarpir andlitsdrættir. Með skuplu á höfðinu og dökkar fléttur í sveig niður undan henni. Örfáir karlar, verkstjórinn og kannski einn eða tveir í burði eða öðrum erfiðisverkum. Mest þó konur og gjarnan nokkur börn á vappi í kringum þær. Þó húsið í Tanga væri lítið, innan við 40 fermetrar og stundum þröngt í búi, var hjartarýmið stórt. Þegar ættingjar komu utan af Nesi inn í Stykkishólm var Tangi alltaf samastaður, þar var vel tekið á móti öllum og oft glatt á hjalla.
Svo fjölgaði börnunum í Tanga, þegar Kristín og Magnús eignuðust synina, Eggert Snorra og svo Einar Ólaf. Ég á í huga mér, mynd af Sigurborgu í vinnumennsku hjá Þorvarði, bónda í Rifgirðingum, í Breiðafjarðareyjum. Sonurinn Guðjón, sex ára, með henni hluta sumars. Einhverjir fleiri á bænum. Þarna sinnti hún almennum sveitastörfum og svo var margt að sýsla í kringum æðarvarpið.
Þorvarður var glæsilegur maður, frumkvöðull, mikill hagleiksmaður en honum þótti sopinn góður og var ekki við eina fjölina felldur í kvennamálum. Það vissu allir. Það hafði verið mikið skrafað á götuhornum og yfir kaffibollum í Stykkishólmi þegar Þorvarður, kvæntur, þriggja barna faðir fór að halda við gifta vinnukonu í húsinu. Sumir höfðu með honum samúð, hún væri víst eitthvað veik á sinni eiginkonan. Já, og eiginmaður vinnukonunnar drykkfelldur og fremur vesæll. Það væri kannski ekki að undra. Aðrir töldu þetta forkastanlegt. Makar beggja undir sama þaki, hann með þrjú börn og hún með eitt. Að fólkið skuli haga sér svona! En það er sama hvað öðrum finnst, einhvernveginn hefur lífið sinn gang. Og það varð til barn, vinnukonan Elínbjörg þá að vísu ennþá gift en Þorvarður skilinn. Úr þessu varð svo hjónaband og þau áttu síðan annað barn til og svo tvíbura.
Allt þessa vissi Sigurborg amma mín, þegar hún var í vinnumennsku hjá Þorvarði nokkrum árum síðar, hann fimmtugur og hún 35 ára. Þær eru bjartar sumarnæturnar í Breiðafirðinum og allt iðar af lífi. Og bilið milli bríka var í baðstofunni mjótt. Í kringum jólin varð Sigurborg barnshafandi og í september 1936 átti hún dóttur, Hrefnu, sem var móðir mín, fædd á afmælisdegi Kristínar. Þar með stækkaði fjölskyldan í Tanga og í uppvextinum kallaði mamma bæði Sigurborgu og Kristínu mömmu, þær voru Borga mamma og Stína mamma. Sigurborg amma mín átti sér draum. Hana dreymdi um að eignast upphlut. Lagði til hliðar hverja þá krónu sem hún gat séð af til að láta drauminn rætast.
Ég sé fyrir mér þegar hún liggur fyrir dauðanum á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi, 42ja ára og er að kveðja Hrefnu litlu, dóttur sína, 7 ára. Hún réttir henni kassa og segir að þetta skuli hún eiga. Í kassanum er gull á upphlut. Allt sem þarf á bol, skotthúfu og belti. Bara eftir að sauma búninginn. Barnið skynjar ekki aðstæðurnar til fulls, eitthvað er skrýtið og óskiljanlegt og innihaldið í kassanum er framandi. Það var gott að Borga mamma var ekki ein, því Stína mamma var ennþá til staðar.
Mömmu langaði ekkert sérstaklega í upphlut en það varð úr að ég kláraði verkið og lét sauma á mig upphlut með gullinu frá henni Sigurborgu ömmu minni og lét þar með drauminn hennar rætast. Ég sé Sigurborgu fyrir mér að þvo þvott í heimahúsi. Í bala og með þvottabretti. Hamast og lætur það ekkert á sig fá þó hendurnar verði vatnsósa og stundum verki hana í bakið. Það þarf að vinna verkin, það skiptir mestu. Á fermingardaginn fékk ég óvænta gjöf. Stóra gráa bankabók úr Landsbankanum með drjúgri innistæðu. Ég þekkti ekki nöfnin á kortinu en mamma sagði mér að þetta væri frá konu sem Sigurborg amma mín hefði stundum þvegið þvotta fyrir.
Hún stendur við balann, réttir úr bakinu og strýkur með handarbakinu yfir rakt ennið. Sambland af svita og gufu frá heitu vatninu, sem nýbúið var að sjóða til að bæta í þvottabalann. Hún lítur út um gluggann og sér tvö börn, þriggja ára frændsystkin leika sér fyrir utan. Æ, henni er alltaf svo illa við þegar þau fara svona nálægt brunninum. En það dugir ekki annað en að halda áfram, það þarf að koma þvottinum sem fyrst út á snúru, um að gera að nýta þurrkinn, meðan gefst. Allt í einu sér hún út undan sér, eða finnur, frekar en sér, að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Hrópar til húsmóðurinnar „Nú er strákurinn kominn alveg að brunninum, en stelpuna sé ég hvergi“. Þær hlaupa út og ná að bjarga stúlkunni upp úr brunninum. Það var ísskán efst í brunninum og þar hékk hún á olnbogunum. Sigurborgu verður hugsað til Hrefnu sinnar, sem er fimm ára. Þær eiga meira að segja sama afmælisdag, hún og litla stúlkan. Svona getur það verið stutt, bilið milli lífs og dauða.
Bankabókin var frá Magðalenu, móðurinni stúlkunnar sem bjargaðist úr brunninum. Hún vildi launa lífgjöfina og hafði byrjað að leggja inn þegar ég var lítil.
Fyrsta sögustundin „til fundar við formæður“, var árið 2013. Þegar ég var byrjuð að undirbúa mig, en ekki búin að ákveða hvaða sögur ég myndi segja, var ég á gangi í Bankastrætinu. Hitti þá vinkonu úr Stykkishólmi og með henni var móðursystir hennar, Hrafnhildur, sú sem bjargaðist úr brunninum. Þá fannst mér Sigurborg vera að vitja sögu og ákvað að hlýða því. Hrafnhildur sagði mér söguna eins og henni var sögð hún. Hún vildi sýna frænda sínum hvernig fullorðna fólkið færi að því að ná í vatn í brunninn, en datt ofaní. „Það hefði ekki miklu mátt muna“, sagði hún. „Hún Sigurborg amma þín á í mér lífið“, sagði hún.
Það er ekki til mynd af henni Sigurborgu móðurömmu minni. En ég á af henni margar lifandi myndir fyrir hugskotssjónum. Og hún á líka í mér lífið.

Við hvaða staði og tímabil er frásögn þín miðuð?:

Stykkishólmur, fyrri hluti 20. aldar.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.