LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiAmma, Endurminning
Ártal1912-2012
Spurningaskrá121 Frásagnir um ömmur

SýslaEyjafjarðarsýsla, Strandasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1978

Nánari upplýsingar

Númer2015-1-61
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið9.3.2015/8.4.2015
Stærð2 A4
TækniTölvuskrift

Frjáls frásögn - án leiðbeininga:

Amma mín fæddist árið 1919 í Hólmavíkurhreppi á Ströndum. Þar ólst hún upp, yngst 10 systkina. Þegar hún var ung að aldri byggði faðir hennar nýtt, glæsilegt hús á jörðinni eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar húsameistara. Sagði amma stundum í gríni að það hefði nú þó ekkert verið að gamla húsinu þeirra, en það var rifið fljótlega eftir að þau fluttu í nýja húsið c. 1926.
Amma fékk að mennta sig áfram eftir heimaskóla, fór yfir í Hrútafjörð í skóla og svo gekk hún í húsmæðraskólann á Laugum.
Amma giftist seint, miðað við þessa tíma, eða 25 ára gömul. Eiginmaður hennar eftirlifandi fæddist árið 1915. Þau kynntust á Akureyri þar sem þau voru bæði að vinna, en þar áður hafði amma meðal annars unnið í Reykjavík í Heyrnleysingjaskóla/heimili. Fyrst hófu þau sinn búskap á æskuheimili ömmu, en byggðu fljótlega lítið býli út úr landskika á jörðinni. Fyrsti sonurinn fæddist giftingarárið þeirra 1944, og annar sonur þeirra fæddist 4 árum síðar. Amma og afi festa kaup á jörð norður í Eyjafirði, og á meðan afi byggði þar nýtt fjós og viðbyggingu við húsið tók hann að sér bústjórastöðu á Akureyri og amma fæddi þar þriðja son þeirra árið 1956. Amma og afi voru duglegt fólk og leystu sín verkefni vel úr hendi. Þau bjuggu myndarbúi allt þar til tveir synir þeirra tóku við árið 1979, en þá fluttu þau til Akureyrar. Þar ákvað amma að halda áfram að vinna þar til hún kæmist á aldur og kunni vel við sig í frystihússtarfinu. Alla tíð talaði amma vel um foreldra sína og heimili sitt. Ólst hún upp við að heimilið var opið öllum og nokkur börn þar í fóstri í lengri og skemmri tíma. Faðir hennar var mikils metinn og lengi við Riis verslunina á Hólmavík. Hún mat föður sinn mikils og þótti mikið til hans koma og oft lýsti hún því hvernig kona móðir hennar hefði verið, með sitt jafnaðargeð og hvað hún reyndi alltaf að líkja eftir henni.
Amma hafði alla tíð mikinn metnað fyrir menntun. Hún fékk þó ekki alltaf hljómgrunn fyrir því gagnvart sonum sínum hjá afa, en einn sona hennar varð framhaldsskólakennari og sá yngsti hefði áreiðanlega farið lengra eftir landsprófið ef hann hefði viljað, en áhuginn á búskapnum var meiri hjá þeim feðgum.
Ég naut þeirra forréttinda að njóta mikilla samvista við ömmu og afa, enda stutt að fara til þeirra í bæinn (Akureyri). Að eiga ömmu sem vinkonu alla mína tíð þar til hún kvaddi okkur árið 2012 er fjársjóður sem ég geymi í hjarta mínu ævi mína á enda og deili sem mest ég get með börnum mínum. Metnaður hennar fyrir menntun minni, fjölskyldu og framtíð skipti hana máli og að finna fyrir þeim kærleika og væntumþykju var ómetanlegt. Að upplifa stolt aldraðrar konu fyrir mína hönd er einstök tilfinning. Hún er mér mikil fyrirmynd og hefur sett háa staðla fyrir ömmuhlutverkið sem ég vona að ég fái að gegna síðar á lífsleiðinni.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.