LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiAmma, Endurminning
Ártal1955-1982
Spurningaskrá121 Frásagnir um ömmur

ByggðaheitiAkranes
Sveitarfélag 1950Akranes
Núv. sveitarfélagAkraneskaupstaður
SýslaBorgarfjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1952

Nánari upplýsingar

Númer2015-1-57
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið9.3.2015/7.4.2015
Stærð2 A4
TækniTölvuskrift

Frjáls frásögn - án leiðbeininga:

Mig langar til að segja frá sterki minningu af móðurömmu minni, Þóru Hjartar, f. 1896, í tilefni af því að öld er síðan konur fengu kosningarétt.
Amma var sjálfstæð, dugleg og hugrökk kona. Með skemmtilegustu minningum mínum af henni var kjördagur og aðdragandi kosninga. Ég er fædd 1952 og við bjuggum á Akranesi. Þar, eins og víða, voru kosningablöð flokka borin út á heimilin. Amma var heittrúuð á að Framsóknarflokkurinn væri besti kostur fyrir þessa þjóð. Henni var mikið í mun að við krakkarnir kæmum Magna, blaði Framsóknarflokksins, í sem flest hús. Við lögðum henni lið sem við gátum. - Kosningardagurinn var henni nánast heilagur. Amma fór í upphlut og bauð mér með. Mér þótti gaman að fylgjast með henni þar sem hún gekk hrarreist og stolt inn í skólahúsið þar sem kjördeild var. Mér fannst hún stækka! Eftirá sagði hún að það ættu allir að kjósa. Það væri rétt að gera það. - Auðvitað fór hún svo í kosningakaffi hjá flokknum sínum en morgunverkin hennar voru að baka pönnukökustafla handa flokksfélögunum.
Þessi minning mín um ömmu fara á kjörstað er sterk í mér og hafði áhrif á mig. Það greyptist í huga mér að það væri merkilegt að fá tækifæri til að kjósa og að allir ættu að taka þátt í að móta samfélag okkar.

Frásögn með stuðningi minnisatriða:

Móðuramma mín hér Kristín Þóra Jónsdóttir, f. 1896 á Suðureyri, d. 1982. Hún giftist 1914 kennaranum sínum, Friðriki Hjartar. Hann varð síðar skólastjóri og þau eignuðust 6 börn þar. Á Suðureyri var mikið félagsstarf í kringum þau. Afi spilaði á orgel kirkjunnar og amma söng í kórnum. Hún var líka mikil stúkukona og svo tók hún þátt í stofnun kvenfélags þar. Einnig sinnti hún leikfélaginu.
Þau afi fluttu til Siglufjarðar 1932 og þar var amma líka á kafi í alls kyns félagsstörfum. Loks fluttu þau til Akraness og heppin var amma að þar var Kvenfélag, stúka, kirkjukór, Framsóknarflokkur og fullt af konum til að spila við bridge!.
Fyrstu minningar mínar af henni eru frá því foreldrar mínir bjuggu inni á heimili þeirra afa á Akranesi. Hún verður ekkja 1954 og flutti síðan á heimili foreldra minna 1956 og var þar til heimilis alla tíð þó hún væri á sjúkrahúsi síðustu árin.
Það hefur gefið mér mikið að hafa notið þess að vera með henni, læra af henni, heyra hollráðin hrjóta af vörum hennar og kynnast einstakri iðni og útsjónarsemi við alla hluti.
Það sem mér fannst broslegt þá eru ýmsir frasar sem voru leiðsögn til okkar eins og "það er ljótt að öfunda"," Það er ljótt að hrekkja/stríða" "það er ljótt að vera í fýlu" ! "Það á ekki að reykja og drekka brennivín" ! Endalaust sagði hún okkur krökkunum sögur (Kisa kóngsdóttir var t.d. vinsæl) eða las og kenndi okkur líka að lesa - auðvitað með bandprjónsaðferðinni, enda alltaf með eitthvað á prjónunum. Henni fannst óskaplega spennandi að taka slátur! - Að tína ber og hreinsa, baka fyrir jólin - allt sem snerti það að hafa nóg að bíta og brenna og gera það vel. Hún var únúrræðagóð, ósérhlífin og hafði alltaf eitthvað fyrir stafni, lét sér ekki leiðast. Hún var bjartsýn og föndraði úr skeljum, filti, tágum o.fl. - Nýtni hennar kemur kannski best framí því hvernig hún nýtti garn. Amma átti vinkonu, Valbjörgu Kristmundsdóttur, sem skúraði í Bíóhöllinni á Akranesi. Þar gleymdsut ansi oft vettlingar, húfur og stundum heilu peysurnar. Og af því fólk fór ekki og keypti flíkur var hægt að rekja þessar gleymdu upp. Þegar Valla var margbúin að reyna að koma út gleymdum flíkum í Bíóhöllinni fór hún með það sem af gekk til vinkonu sinnar. Þóra var glöð, þvoði og rakti upp. Hún heklaði dúllur og gerði fjöldan allan af dúlluteppum fyrir barnabörnin sín.
Amma var svo áhugasöm um margt; um Norræna samvinnu, um kaupfélög, að börn fengju góða, alhliða menntun og atlæti. Svo var hún trygglynd og traust vinum sínum og hafði oft á orði að það væri mikilvægt!
Ég minnist Þóru ömmu minnar með mikilli hlýju. Hún var aldrei leið eða í slæmu skapi. Hvatti frekar en latti. Áhugasöm um svo margt og huggaði alltaf þegar á þurfti að halda. Hún var vinsæl og endalaust fórnfús við félagsstörf og fannst þau skipta máli fyrir velferð allra, einkum barna.

Við hvaða staði og tímabil er frásögn þín miðuð?: Akranes, 1955-1982.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.