LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiKyn, Kynin, Kynin
Ártal1920-2015
Spurningaskrá122 Aðstæður kynjanna

Sveitarfélag 1950Hafnarfjörður, Reykjavík
Núv. sveitarfélagHafnarfjarðarkaupstaður, Reykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1923

Nánari upplýsingar

Númer2015-2-25
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið20.5.2015/10.6.2015
Stærð2 A4
TækniTölvuskrift

Spurningaskrá um  Aðstæður kynjanna.

Ég hyggst svara spurningunum með frjálsri frásögn, en þó svara  nokkurnvegin í sömu röð efnislega og spurt er.  Ég er fæddur 1923 og ólst upp á tíma þar  sem lífsaðstæður, lífsviðhorf og lífsafkoma var allt allt önnur og mikið þrengri fjárhagslega en nú er, þetta verður að hafa í huga þegar svörin eru lesin.

Ég man ekki til að ég hafi verið með neinar sérstakar væntingar um menntun þegar ég var unglingur. Þannig var að á árunum eftir 1930 var mikið atvinnuleysi og til þess að vinna gegn því tók faðir minn á leigu jörðina Haga sem var með stórt fjós og hlöðu og hafði hann  þar 12- 13 mjólkandi kýr ásamt stóru hænsnabúi með mörg hundruð hænsnum. Þegar  ég hafði lokið svokölluðu fullnaðarprófi út úr barnaskólanum, 13 -14 ára, þá fór ég að vinna hjá föður mínum og  vann þar þar til að amríski herinn tók stóran hluta af túni búsins undir  birgðageimslu og fl. og var þá sjálfhætt búskap.  Ég hóf þá störf hjá breska hernum og vann hjá þeim, fyrst við flugvallargerðina og síðan við braggabyggingar þar til að faðir minn útvegaði mér starf sem nemanda í  skipasmíði  hjá Skipasmíðastöð Reykjavíkur. Ég var þá 18 ára. Á þeim árum var erfitt að komast í verklegt  nám svo ég þóttist nokkuð heppinn, ég hafði þó örlítið horft til rafvirkjanáms en þá var mjög erfitt að komast í nám þar.

Ég hafði enga framtíðardrauma um atvinnu, en ég var ánægður með skipasmíðina, þetta var mikil og vandasöm starfsgrein. Í þessari starfsgrein unnu eingöngu karlmenn.

Um verkaskiptingu á heimilinu sem ég ólst upp á er það að segja að faðir minn var fyrirvinnan, ef svo má segja, en móðir mín sá um heimilisstörfin, matseld, þvotta, fatasaum og viðgerðir á fötum, við hreingerningar var hjálpast að eftir því sem við börnin gátum. Við vorum 7 systkinin og var ég þriðji yngstur en tvær systur minar voru eldri, önnur 2,5 árum en hin 5 árum og þær voru mjög hjálplegar við heimilisstörfin  því móðir mín hafði veikst illilega af útbrotataugaveiki er ég var á fyrsta ári og náði hún aldrei fullri heilsu eftir það.  

Við hjónin hófum búskap árið 1946 og konan mín átti eina dóttir tveggja ára áður. Við eignuðumst fjögur börn saman og við litum altaf á dóttir hennar eins og okkar sameiginlegu börn hún var bara ein af barnahópnum okkar og kallaði mig alltaf pabba.. Konan mín vann ekki utan heimilis svo ég var fyrirvinnan en hjálpaði til við heimilisstörfin og barnauppeldið eftir því sem ég gat og tíminn leyfði. Ég fór út í byggingarframkvæmdir 1955 ásamt mági mínum án þess að eiga neina peninga til þeirra hluta og eftir það fór allur tíminn í þessar framkvæmdir næstu árin. Fyrst við að koma upp húsinu sem við unnum að langmestu leyti sjálfir og síðan að snapa eins mikla aukavinnu og ég gat   til þess að greiða niður lán frá skyldmennum sem mér hafði tekist að kríja út.

Ég á 13 barnabörn og seinni konan mín á 12 barnabörn svo þarna er um töluverðan fjölda að ræða. Við reynum að hafa hafa samband við þau eftir því sem tilefni gefst til, mætum í afmæli og þvílík tilefni og hjá sumum heldur meira. Yngsta dóttir Ernu, seinni konu minnar, sem ólst upp hjá okkur báðum frá 10 ára aldri, á 3 börn og við höfum tekið töluverðan  þátt í þeirra uppeldi. Þau hjón hafa verið við nám erlendis og við höfum dvalið  hjá þeim tíma og tíma til þess að hjálpa til við heimilisstörfin og fl. Þegar við erum ekki hjá þeim höfum við daglegt samband í gegnum tölvu, þar fáum við að sjá þau og þau okkur, sambandið verður nánara þannig. Ég hefi oft dáðst að því að á  þeirra heimili ganga þau hjónin svotil jafnt að öllum störfum á heimilinu, það sem er meira hennar hlutverk er saumaskapur og prjón en allt annað virðist mér vera unnið nokkuð jafnt af þeim báðum.

Ég kynntist aldrei öfum mínum né ömmum þannig að ég geti sagt til um hlutverkaskiptum á þeirra heimilum, en ég reikna með að þar hafi gilt sömu reglum og á heimili foreldra minna, því það var venjan á þeim tíma.

Ég man ekki eftir neinu skipulagi varðandi hugsanlegar barneignir eða neinum væntingum vegna þess. Við eignuðumst dreng 1947 og síðan tvíbura 1955, við höfðum ekki neinn grun um að börnin væru tvö á leiðinni, ég man eftir að tengdamóðir mín  sem var viðstödd fæðinguna kom fram í eldhús eftir að konan var búin að eignast dreng og sagði þá  „ ég held að þetta sé ekki búið“, ég áttaði mig ekki á hvað hún meinti og spurði hvað hún ætti við, þá sagði hún að allt benti til þess að annað barn væri á leiðinni út í heiminn, það reyndist rétt og ég var sendur niður í apótek að kaupa meiri bleijur og annað slíkt. Ólíklegt er að slíkt kæmi á óvart nú til dags. Fæðingin fór fram heima hjá okkur og ég var ekki inni í herberginu sem fæðingin fór fram í, var í eldhúsinu og heyrði töluvert af því sem fram fór og þótti nóg um, vorkenndi konunni einhver skelfing.

Ég notaði stundum smokka í þeim tilgangi að sporna við barnseignum, þetta var sameiginleg ákvörðun okkar beggja og ég ræddi það einungis við konuna.

Ég hefi alltaf verið hlynntur jafnrétti fólks og þar með jafnréttisbaráttu kvennahreyfinga sem því miður hefur allt of lengi verið full þörf á, mér fannst tilkoma kvennalistans vera mjjög skemmtileg og reyndar verulega jákvæð því ekki var vanþörf á að fá fram viðhorf kvenna á Alþingi. Ég tel að barátta kvenna fyrir jafnrétti hafi skilað árangri, þó svo að hann hefði mátt vera meiri. Á kvennafrídaginn 1975, var ég að vinna í miðbænum og fór niður á Lækjartorg til þess að fylgjast með og ég dáðist að hve mikil þátttaka kvenna var og að samheldninni og samstöðunni, það var verulega gaman að fylgjst með þessu öllu saman.

Ég kaus Vigdísi Finnbogadóttir til forseta og tel að hún ásamt Kristjáni Eldjárn hafi verið okkar bestu forsetar. Ég var í verkalýðsfélagi þar sem eingöngu voru karlmenn.

Fleira held ég að ég hafi ekki fram að færa og er þetta heldur snubbótt en ég vona samt  að það komi að einhverjum notum.


Kafli 1 af 4 - Nám og störf

Hvaða væntingar hafðir þú um menntun? Hvernig uppfylltir þú þær? Hvaða námi hefur þú lokið? Hvaða þættir höfðu áhrif á val þitt á námi (t.d. hvatning, almenn viðhorf, félagslegar aðstæður, námsframboð)?
Hvaða framtíðardrauma hafðir þú um atvinnu? Samræmdist ævistarfið upphaflegum vonum þínum? Ef ekki, hvað var þess valdandi?
Hvernig voru samskipti kynjanna á þeim stöðum sem þú hefur unnið á? Tókst þú eftir kynferðislegu áreiti? Ef svo er, lýstu því og hvernig var talað um það.
Valdir þú þér atvinnu sem samkvæmt venju „tilheyrði“ hinu kyninu? Hvaða starf og hvers vegna? Hvaða áhrif hafði kynferði þitt á þau verkefni sem þér voru falin? Hvernig var þér tekið (t.d. jákvæð/neikvæð viðhorf, samskipti við samstarfsfólk)?

Kafli 2 af 4 - Heimili og uppeldi

Hvernig var verkaskiptingu háttað á þínu heimili (hreingerning, matseld, fjármál, innkaup, viðgerðir, garður, bíll t.d.)? Af hverju var verkaskiptingin með þessum hætti?
Ef þú átt barn eða börn, hvernig skiptuð þið foreldrar með ykkur verkum í umönnun barnsins (fyrsta árið, á leikskólaaldri, á skólaaldri)? Hvernig var verkaskiptingin ef að þið áttuð fleira en eitt barn?
Ef fjölskyldan þín var stjúpfjölskylda (þ.e. ef annar eða báðir aðilar sem stofnuðu til fjölskyldunnar áttu barn eða börn með öðrum), hvernig var samskiptum við stjúpbörn háttað, hversu mikið dvöldu þau á heimilinu, og hvernig hafði nærvera þeirra áhrif á heimilislífið?
Ef þú átt barnabörn, á hvaða hátt tekur þú þátt í lífi þeirra? Hvernig er samskiptum ykkar háttað, hafið þið t.d. samband í gegnum síma eða tölvu? Segðu frá hvort eða á hvaða hátt þú aðstoðar við uppeldi á barnabörnunum.
Telur þú að það sé munur á hlutverkum afa og ömmu? Ef svo er, á hvaða hátt?

Kafli 3 af 4 - Barneignir og fjölskyldustærð

Hvaða þættir höfðu áhrif á hvort og þá hvenær þú eignaðist barn eða ekki? Fannst þú fyrir væntingum hvað þetta snerti? Ef svo er, hvaða væntingum og hvað fannst þér um þær?
Ef þú valdir að eignast ekki barn eða gast það ekki, hvernig upplifðir þú viðhorf fólks til þess? Hvaða máli skipti hvort þú varst einhleyp(ur) eða í sambúð? En hvort þú sért karl eða kona?
Ef þú átt barn, hvaða áhrif hafðir þú á ákvarðanatökur í sambandi við fæðinguna og það ferli sem henni tengdist (t.d. fæðingarumhverfi, lyfjagjöf, fæðingarstelling)?
Var faðirinn viðstaddur fæðingu barnsins? Hvaða áhrif hafði sú reynsla á hlutverk þitt/hans í umönnun og uppeldi barnsins?
Hefur þú notað getnaðarvarnir og þá hverjar? Hvað eða hver hefur haft mest áhrif á ákvörðun þína um að nota getnaðarvarnir og val á þeim? Við hverja hefur þú rætt um getnaðarvarnir og af hverju? Hver finnst þér bera ábyrgð á notkun og vali á getnaðarvörnum?

Kafli 4 af 4 - Þátttaka í félagsstörfum og viðhorf til jafnréttis

Hver voru viðhorf þín til jafnréttisbaráttu og skiplagðra kvennahreyfinga á borð við Rauðsokkurnar, Kvennalistann, Úurnar o.fl.? Tókst þú einhverntíma með virkum hætti þátt í starfi slíkra hreyfinga, og þá hverra og hvenær?
Hver telur þú að hafi verið helsti ávinningur kvennahreyfinganna? Hvað fannst þér hafa farið miður í baráttumálum þeirra?
Tókst þú þátt í kvennafrídögunum 1975 eða 2005? Hvers vegna/hvers vegna ekki?
Hver voru viðbrögð þín við framboði og kjöri Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands?
Varst þú í kvenfélagi eða kynjaskiptum félagsskap? Telur þú að jafnréttisbaráttan hafi haft áhrif á starfsemi þíns félags? Ef svo er, hvernig?
Sinntir þú öðrum félagsstörfum (t.d. kórar, kvenfélög, íþróttafélög, leikfélög, stjórnmálaflokkar). Ef svo er, hverskonar félagsstörfum tókstu þátt í?
Á hvaða vettvangi finnst þér þú hafa náð að blómstra mest (í starfi, á heimili, í félagsstörfum o.s.frv.)? Hvar og hvernig nýttust hæfileikar þínir best?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.