LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiKyn, Kynin, Kynin
Ártal1925-2015
Spurningaskrá122 Aðstæður kynjanna

ByggðaheitiBorgarfjörður
SýslaBorgarfjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1925

Nánari upplýsingar

Númer2015-2-27
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið20.5.2015/11.6.2015
Stærð3 A4
TækniTölvuskrift

Ég er fæddur og uppalinn á sveitabæ. Við bræðurnir vorum þrír, ein systir yngst systkina. Móðir okkar dó þegar ég var fimm ára og eftir það stýrði ráðskona öllu innan húss og var þar að auki sí og æ að ráðskast með skepnuhirðinguna, var enda mikill dýravinur, ráðrík og nokkur harðstjóri.

Faðir minn var mildur húsbóndi og tók því alltaf vel ef aðrir voru að skipta sér af búverkunum. Hann var ákveðinn í að við skyldum öll hljóta menntun, hugsaði ekki lengra en að við bræður yrðum búfræðingar og dóttirin færi á héraðsskóla og húsmæðraskóla. Þetta gerist allt fyrir 1950 og er það fyrir þann tíma sem spurt var um.

Þegar við höfðum lokið búfræðiprófinu og systirin farið á héraðs- og húsmæðraskólann var mikið vinnuafl á búinu. Ég náði góðri einkunn í skólanum var ekki laust við að ég þráði meiri menntun. Með hvatningu góðs frænda fór ég á gagnfræðaskóla, og tók þaðan landspróf, gat ekki stöðvað menntaþrána og tók stúdentspróf árið 1950. Svipaður var ferill systur okkar, hún fór á hjúkrunarskólann fyrir hvatningu góðra vina, ekki síst okkar bræðra. Að loknu náminu  hafði hún kynnst pilti, búfræðingi og þau fóru að búa á Húsafelli í þríbýli móti bræðrum sínum. Búskapur hennar var farsæll, það veit ég fyrir víst að maður hennar var enginn harðstjóri og hún þaðanaf síður. Þau áttu 4 börn, hann missti heilsuna og þau fluttust til Reykjavíkur. Hann andaðist árið 1976. Hún nýtti sér að hún var fullgild hjúkrunarkona og stundaði fag sitt til starfsloka.

Ég fékk hins vegar  eftir stúdentspróf svokallaðan stóra styrk sem dugði til framfærsu í 4 ár í útlöndum og nam náttúrufræði til magistersprófs í Kaupmannahöfn. Framtíðardraumar voru engir þegar ég hóf námið. Námið var stundað námsins vegna. Þegar ég hafði eignast góða konu og dóttur datt mér ekki annað í hug en einhvern vegin myndi rætast úr með lífsbjörgina .

 Í Höfn kynntist ég nokkrum fjölskyldum. Ég kynntist þar tveimur fjölskyldum embættismanna. Annar mannanna var prófessor og einn af  mestu skáldum tuttugustu aldarinnar. Allir sem kynntust honum virtu hann og dáðu, en innan veggja heimilisins var húsmóðirin sannkölluð drottning, mild en ákveðin. Skáldið bauð gesti velkomna og skemmti með frásögnum og upplestrum en það duldist engum að hin milda hönd húsfreyju stýrði heimilinu.

Hin fjölskyldan var ekki síður dáð af stúdentum. Húsbóndinn var mildur og skemmtilegur en húsfreyja sú sem valdið hafði innnan húss. Var þar margt um gesti og í húsinu voru Íslendingar til heimilis.

Að sjálfsögðu kynntist ég fjölskyldum stúdenta. Minnist ég þess ekki að meðal þeirra væri kúgaðar konur þó að sjálfsögðu samkomulagið væri misjafnt, endaði stundum í misjafnlega hávaðasömum skilnaði. Til voru í hópnum kvennabósar eins og eðlilegt má teljast í hópi 80 manna.

Þess ber að geta að ég man ekki eftir að nokkur kona fengi stóra styrkinn en hann hrepptu sex stúdentar sem hæstar höfðu einkunnir af þeim sem sóttu um hann. Margar konur voru við nám en þó miklu færri en piltar.

 

Við hjónin héldum til Ameríku að loknu námi og vorum þar í hálft annað ár. Konan hafði tekið próf í lífeindafræði. Hún hafði ekki aðstöðu til að stunda starf utan heimilis á þessum tíma.

Ég fékk starf við framhaldsdeildina á Hvanneyri þegar heim kom og var þar í sex ár. Konan hafði ekki aðstöðu til að vinna utan heimilis. Allmargar fjölskyldur voru á Hvanneyri, mig minnir 13. Engin kona hafði færi á að vinna utan heimilis. Kynferðisleg áreitni þekktist ekki á þessum stað eftir því sem ég best veit en eflaust hefur verið deilt hart á sumum heimilum, ég veit ekki til að væru áflog milli hjóna á Hvanneyri.

Það leiðir af sjálfu sér að ég vann utan heimilis og þá lenti heimilisbaslið og uppeldið á konunni meðan börnin voru á höndum. Við eigum sumarbústað og þar dvöldustum við í sumarfríi og kenndum börnunum að skoða jurtir og klífa fjöll. Annar sonanna er grasafræðingur.

Ég þykist hafa verið allur af vilja gerður að létta undir heimilisstörfin. Þakka skyldi mér það því að sama er uppi á flestum heimilum sem við þekkjum til. Hreingerningar og þrif innanhúss féll í hlut þess sem mátti vera að því hvort sem það var karl,  kona eða unglingur.

Konan segir við drengina: „Farið þið nú strákar og ryksogið stofuna.” Drengur svarar: „Hún er alveg hrein.“ „Farið þið nú og ryksogið stofuna!!!” segir konan í meira lagi ákveðin. „Komdu Steini við skulum ryksoga mólikúlin af stofugólfinu.“ var lokasvarið.

Viðgerðir og bíll voru í mínum verkahring. Þegar drengirnir þroskuðust urðu þeir leiknir í bílaviðgerðum. Frændi þeirra komst svo að orði: „Á meðan við eyðilögðum tvo bíla gerðu þeir upp tvö bílflök.” Allt sem laut að fötum og taui var konan ein um enda snillingur í höndum svo að allar flíkur urðu sem nýjar í höndum hennar ef þær þær biluðu eða sá á þeim. Þar að auki saumaði hún alls kyns flíkur á karla og kvenfólk. Þetta var ómetanlegt fyrir fjárhag heimilisins. Vinna í garði fellur henni vel og var að mestu í hennar umsjá meðan við höfðum reit við húsið. Heilmikið var reynt til að fá börnin til að taka þátt í heimilisstörfum, piltarnir 2 voru tregir, stúlkurnar tvær léttari en undu því illa að vinna í heimilinu ef drengirnir gerðu það ekki líka. Þetta hefur verkað þannig að piltarnir urðu bæði leiknir og fúsir til heimilsstarfa þegar þeir eignuðust sín eigin heimili. Ríkir á heimilum þeirra algert jafnrétti.

Við fluttum til Reykjavíkur árið 1964. Árið 1967 fékk konan vinnu við sitt fag og stundaði það með hléum til eftirlaunaaldurs.

Á vinnustöðum í Reykjavík starfaði ég ætíð í sátt og samlyndi. Ekki kom til greina á þeim vinnustöðum að karlar eða konur væru með kynferðislega áreitni. Á einum vinnustaðnum heyrði ég eina starfsstúlku segja: „Það eru ljótu ræflarnir þessir karlar hérna, þeir þora alls ekki að snerta kvenmann”.

Barnabörnin 8 hafa verið okkur gleðigjafi. Við höfum sótt þau í skólann og hjálpað þeim með lærdóminn og reynt að kenna þeim góða siði, Öll eru þau nú stúdentar nema það yngsta. Hann á eftir einn vetur í MR. Tvö eru nú þegar með háskólapróf. Eðlilega leita stúlkurnar til ömmu ef þær þarfnast hjálpar við saumaskap, en við erum bæði jafnvíg til hjálpar í bóklegum fögum.

Félagsmál hafa lítið verið í mínum verkahring. fyrir utan það sem hver maður í minni stétt lendir í.  Meira hefur konan fengist við félagsmál. Hún var í kvenfélagi Andakílshrepps á Hvanneyrarárunum og tók þátt í félagsmálum eftir að hún hóf störf í Reykjavík. Þar að auki er hún eins og svo margar konur nú á dögum í nokkrum sauma- spila og kaffisamkomu klúbbum. Í nokkur ár söng hún með Pólífónkórnum.

Viðhorf mín til kvennréttindabaráttu nútímans hefur verið einlæg og jákvæð allt frá því að ég las um heimspeki Stuarts Mills á unglingsárum í bókinni Nítjánda öldin eftir Ágúst H. Bjarnason. Lít ég með samúð á nokkuð ofstækisfull tiltæki kvenna nú á síðari tímum. Mér finnst stundum vera eins og litið sé á allar konur eins og einhverjar tuskur í höndum vondra karla og er þá gleymt að frá landnámsöld voru konur lífgjafar heimilanna og lýst er hverjum kvenskörungnum á fætur öðrum í Íslandssögunni og minnist ég margrar góðra kvenna sem urðu mér til hjálpar og gagns á lífsleiðinni. Gnæfðu þessir skörungar yfir fólk „eins og turnar í stórborg” en þannig komst virtur frændi minn að orði um góða nemendur. Það breytir ekki samúð minni með fólki sem hreppir ill örlög á samleið með hinu kynininu.

Viðbrögð mín við framboði Vigdísar Finnbogadóttur voru þau sömu og þegar góður maður, hvers kyns sem er býður sig fram til forseta. Ég kaus hana.

Ég var vísidamaður. Það eru til duglegir vísindamenn sem vinna afrek og starf þeirra er í minnum haft. Það eru til ónýtir vísindamenn sem ekkert liggur eftir. Svo er allt þar á milli og fylgir það hinni þekktu Gauss dreifikúrfu. Flestir eru miðlungsvísindamenn, nálægt 10% alónýtir og önnur 10% duglegir og vinna afrek og þeir vinna oft ótrúlega mikið gagn. Til þess að fá afreksmennina þarf að hafa allan fjöldann með, án hans koma engir gagnlegir fram. Þetta er eins á flestum sviðum. Halldór Laxness sagði eitthvað á þessa leið: „Á móti hverju  skáldi eru 100 sem reyna að yrkja.” Ég tel mig vera í hópi vísindamanna sem fylltu Gauss kúrfuna til þess að fá fram þá sem afrekin vinna og sætti mig við það. Það er hið nothæfa takmark sem ég er ánægður með. Ef til vill hef ég orðið að einherju raunhæfu gagni með störfum mínum. Þar fyrir utan hef ég reynt sitt hvað. Til dæmis að skrifa þætti fyrir Þjóðminjasafnið.


Kafli 1 af 4 - Nám og störf

Hvaða væntingar hafðir þú um menntun? Hvernig uppfylltir þú þær? Hvaða námi hefur þú lokið? Hvaða þættir höfðu áhrif á val þitt á námi (t.d. hvatning, almenn viðhorf, félagslegar aðstæður, námsframboð)?
Hvaða framtíðardrauma hafðir þú um atvinnu? Samræmdist ævistarfið upphaflegum vonum þínum? Ef ekki, hvað var þess valdandi?
Hvernig voru samskipti kynjanna á þeim stöðum sem þú hefur unnið á? Tókst þú eftir kynferðislegu áreiti? Ef svo er, lýstu því og hvernig var talað um það.
Valdir þú þér atvinnu sem samkvæmt venju „tilheyrði“ hinu kyninu? Hvaða starf og hvers vegna? Hvaða áhrif hafði kynferði þitt á þau verkefni sem þér voru falin? Hvernig var þér tekið (t.d. jákvæð/neikvæð viðhorf, samskipti við samstarfsfólk)?

Kafli 2 af 4 - Heimili og uppeldi

Hvernig var verkaskiptingu háttað á þínu heimili (hreingerning, matseld, fjármál, innkaup, viðgerðir, garður, bíll t.d.)? Af hverju var verkaskiptingin með þessum hætti?
Ef þú átt barn eða börn, hvernig skiptuð þið foreldrar með ykkur verkum í umönnun barnsins (fyrsta árið, á leikskólaaldri, á skólaaldri)? Hvernig var verkaskiptingin ef að þið áttuð fleira en eitt barn?
Ef fjölskyldan þín var stjúpfjölskylda (þ.e. ef annar eða báðir aðilar sem stofnuðu til fjölskyldunnar áttu barn eða börn með öðrum), hvernig var samskiptum við stjúpbörn háttað, hversu mikið dvöldu þau á heimilinu, og hvernig hafði nærvera þeirra áhrif á heimilislífið?
Ef þú átt barnabörn, á hvaða hátt tekur þú þátt í lífi þeirra? Hvernig er samskiptum ykkar háttað, hafið þið t.d. samband í gegnum síma eða tölvu? Segðu frá hvort eða á hvaða hátt þú aðstoðar við uppeldi á barnabörnunum.
Telur þú að það sé munur á hlutverkum afa og ömmu? Ef svo er, á hvaða hátt?

Kafli 3 af 4 - Barneignir og fjölskyldustærð

Hvaða þættir höfðu áhrif á hvort og þá hvenær þú eignaðist barn eða ekki? Fannst þú fyrir væntingum hvað þetta snerti? Ef svo er, hvaða væntingum og hvað fannst þér um þær?
Ef þú valdir að eignast ekki barn eða gast það ekki, hvernig upplifðir þú viðhorf fólks til þess? Hvaða máli skipti hvort þú varst einhleyp(ur) eða í sambúð? En hvort þú sért karl eða kona?
Ef þú átt barn, hvaða áhrif hafðir þú á ákvarðanatökur í sambandi við fæðinguna og það ferli sem henni tengdist (t.d. fæðingarumhverfi, lyfjagjöf, fæðingarstelling)?
Var faðirinn viðstaddur fæðingu barnsins? Hvaða áhrif hafði sú reynsla á hlutverk þitt/hans í umönnun og uppeldi barnsins?
Hefur þú notað getnaðarvarnir og þá hverjar? Hvað eða hver hefur haft mest áhrif á ákvörðun þína um að nota getnaðarvarnir og val á þeim? Við hverja hefur þú rætt um getnaðarvarnir og af hverju? Hver finnst þér bera ábyrgð á notkun og vali á getnaðarvörnum?

Kafli 4 af 4 - Þátttaka í félagsstörfum og viðhorf til jafnréttis

Hver voru viðhorf þín til jafnréttisbaráttu og skiplagðra kvennahreyfinga á borð við Rauðsokkurnar, Kvennalistann, Úurnar o.fl.? Tókst þú einhverntíma með virkum hætti þátt í starfi slíkra hreyfinga, og þá hverra og hvenær?
Hver telur þú að hafi verið helsti ávinningur kvennahreyfinganna? Hvað fannst þér hafa farið miður í baráttumálum þeirra?
Tókst þú þátt í kvennafrídögunum 1975 eða 2005? Hvers vegna/hvers vegna ekki?
Hver voru viðbrögð þín við framboði og kjöri Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands?
Varst þú í kvenfélagi eða kynjaskiptum félagsskap? Telur þú að jafnréttisbaráttan hafi haft áhrif á starfsemi þíns félags? Ef svo er, hvernig?
Sinntir þú öðrum félagsstörfum (t.d. kórar, kvenfélög, íþróttafélög, leikfélög, stjórnmálaflokkar). Ef svo er, hverskonar félagsstörfum tókstu þátt í?
Á hvaða vettvangi finnst þér þú hafa náð að blómstra mest (í starfi, á heimili, í félagsstörfum o.s.frv.)? Hvar og hvernig nýttust hæfileikar þínir best?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.