LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiKyn, Kynin, Kynin
Ártal1945-2015
Spurningaskrá122 Aðstæður kynjanna

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaA-Húnavatnssýsla, Gullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1946

Nánari upplýsingar

Númer2015-2-37
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið20.5.2015/21.9.2015
Stærð2 A4
TækniTölvuskrift

Nám og störf

Ég hef frá upphafi verið hinn mesti bókaormur og einhvern veginn lá það alltaf í loftinu að ég færi til náms með aldri og þroska. Ég átti auðvelt með að læra og hafði gaman af því. Að loknu landsprófi fór ég í Kennaraskóla Íslands og lauk kennaraprófi og síðan stúdentsprófi,  var í fyrsta árganginum sem lauk stúdentsprófi frá Kennaraskólanum. Þegar ég stóð frammi fyrir því að velja framhaldsnám var í raun aðeins um nám í menntaskóla eða kennaranám að ræða. Með því að velja Kennaraskólann hlaut ég starfsréttindi og sennilega hefur umræða um skólann sem var nýfluttur í nýtt húsnæði og fjölgun kennaranema haft einhver áhrif. Það var talið eðlilegt og sjálfsagt að ég veldi sjálf mína námsleið. Margar stúlkur á mínum aldri í sveitinni fóru í húsmæðraskóla en ég kaus bóklegt nám og svo gerðu fleiri en ég. Ég held að það hafi verið ríkjandi viðhorf í sveitinni að hverjum unglingi væri hollt að fara eitthvað til náms og enginn munur gerður þar á piltum og stúlkum.

Að loknu námi við Kennaraskólann fór ég að kenna og kenndi við sama grunnskólann í meira 36 ár eða þar til ég hætti kennslu. Mestan hluta þessa tíma ríkti góður andi á vinnustaðnum og fólki leið vel. Þetta var skemmtilegur tími. Eftir 27 ára kennslu fékk ég námsleyfi og fór í íslenskunám við Háskóla Íslands. Það var svo gaman að ég gat ekki hætt og tók tvisvar launalaust leyfi, til þess að ljúka BA-prófi og hefja meistaranám sem ég síðan lauk eftir að ég hætti að kenna.

Samskipti kynjanna voru að mínum dómi óþvinguð, kennaraliðið var vitanlega að miklum meiri hluta konur en ég held að megi segja að við höfum yfirleitt öll verið góðir félagar. Ef svo var ekki kom eitthvað annað til en kynferðið.

Heimili og uppeldi

Ég er alin upp á sveitaheimili og þar var verkaskipting mjög hefðbundin og svo var á öllum heimilum sem ég þekkti til. Konur sáu um heimilistörfin, matseld, þjónustubrögð og hreingerningar. Flestar held ég að hafi farið í fjós til að mjólka kýrnar og margar fóru út til heyvinnu á sumrin. Karlarnir sáu um skepnuhirðingu, byggingar og jarðrækt. Ég held að konur hafi yfirleitt verið liðtækari við útiverk en karlar við inniverk.

Ég hef alltaf búið ein síðan ég komst til fullorðinsára og kunnað því ágætlega. Ég held að ég hafi verið mjög ung þegar ég ákvað að sá lífsmáti mundi henta mér vel. Heimilistörf heilluðu mig aldrei, síst af öllu eldhússtörf. Mér fannst sú endalausa matargerð sem ég ólst upp við og tíðkaðist á sveitaheimilum í mínum uppvexti ógnvænlegt hlutskipti og nokkuð sem ég vildi ekki eyða ævinni í. Menntun og föst vinna gerði mér kleift að haga lífi mínu eins og ég vildi að svo miklu leyti sem við dauðlegir menn fáum því ráðið.

Viðhorf til jafnréttisbaráttu

Viðhorf mitt til jafnréttisbaráttu hefur alltaf verið jákvætt þótt ég hafi ekki tekið þátt í slíkum hreyfingum. Ég tel að helsti ávinningur þeirra hafi verið að konur urðu sýnilegri í þjóðfélaginu og þær áttu auðveldara með en áður að nýta menntun sína og hæfileika. T.d. man ég að þegar ég byrjaði að kenna árið 1968 var hver einasti skólastjóri í Reykjavík karlamaður, nú munu konur vera í meiri hluta í þeim störfum. Það speglar einfaldlega kynjahlutföllin í kennarastéttinni. Ég hef líka séð að karlmenn í næstu kynslóð á eftir minni, synir jafnaldra minna, taka mun meiri þátt í heimilistörfum en fyrri kynslóðir karla enda hjón oftast bæði útivinnandi.

Ég tók þátt í kvennafrídeginum 1975. Annað kom ekki til greina, þetta var hátíðisdagur íslenskra kvenna sem sýndu eftirtektarvert frumkvæði.

Framborð og kjör Vigdísar Finnbogadóttur var að vissu leyti rökrétt framhald af kvenna-hreyfingunum og kvennafrídeginum og ekki hægt annað en líta það í jákvæðu ljósi. E.t.v. fyllti kjör Vigdísar margar konur meira sjálfstrausti en nokkuð annað.

Ég tel að mínir hæfileikar hafi nýst best í námi mínu og starfi. Líklega hafa árin frá ca 25 til 48 ára verið mitt blómaskeið í starfi. Ég vann yfirleitt mikið en ég naut þess og fann að mér var treyst til að leysa mín störf af hendi.


Kafli 1 af 4 - Nám og störf

Hvaða væntingar hafðir þú um menntun? Hvernig uppfylltir þú þær? Hvaða námi hefur þú lokið? Hvaða þættir höfðu áhrif á val þitt á námi (t.d. hvatning, almenn viðhorf, félagslegar aðstæður, námsframboð)?
Hvaða framtíðardrauma hafðir þú um atvinnu? Samræmdist ævistarfið upphaflegum vonum þínum? Ef ekki, hvað var þess valdandi?
Hvernig voru samskipti kynjanna á þeim stöðum sem þú hefur unnið á? Tókst þú eftir kynferðislegu áreiti? Ef svo er, lýstu því og hvernig var talað um það.
Valdir þú þér atvinnu sem samkvæmt venju „tilheyrði“ hinu kyninu? Hvaða starf og hvers vegna? Hvaða áhrif hafði kynferði þitt á þau verkefni sem þér voru falin? Hvernig var þér tekið (t.d. jákvæð/neikvæð viðhorf, samskipti við samstarfsfólk)?

Kafli 2 af 4 - Heimili og uppeldi

Hvernig var verkaskiptingu háttað á þínu heimili (hreingerning, matseld, fjármál, innkaup, viðgerðir, garður, bíll t.d.)? Af hverju var verkaskiptingin með þessum hætti?
Ef þú átt barn eða börn, hvernig skiptuð þið foreldrar með ykkur verkum í umönnun barnsins (fyrsta árið, á leikskólaaldri, á skólaaldri)? Hvernig var verkaskiptingin ef að þið áttuð fleira en eitt barn?
Ef fjölskyldan þín var stjúpfjölskylda (þ.e. ef annar eða báðir aðilar sem stofnuðu til fjölskyldunnar áttu barn eða börn með öðrum), hvernig var samskiptum við stjúpbörn háttað, hversu mikið dvöldu þau á heimilinu, og hvernig hafði nærvera þeirra áhrif á heimilislífið?
Ef þú átt barnabörn, á hvaða hátt tekur þú þátt í lífi þeirra? Hvernig er samskiptum ykkar háttað, hafið þið t.d. samband í gegnum síma eða tölvu? Segðu frá hvort eða á hvaða hátt þú aðstoðar við uppeldi á barnabörnunum.
Telur þú að það sé munur á hlutverkum afa og ömmu? Ef svo er, á hvaða hátt?

Kafli 3 af 4 - Barneignir og fjölskyldustærð

Hvaða þættir höfðu áhrif á hvort og þá hvenær þú eignaðist barn eða ekki? Fannst þú fyrir væntingum hvað þetta snerti? Ef svo er, hvaða væntingum og hvað fannst þér um þær?
Ef þú valdir að eignast ekki barn eða gast það ekki, hvernig upplifðir þú viðhorf fólks til þess? Hvaða máli skipti hvort þú varst einhleyp(ur) eða í sambúð? En hvort þú sért karl eða kona?
Ef þú átt barn, hvaða áhrif hafðir þú á ákvarðanatökur í sambandi við fæðinguna og það ferli sem henni tengdist (t.d. fæðingarumhverfi, lyfjagjöf, fæðingarstelling)?
Var faðirinn viðstaddur fæðingu barnsins? Hvaða áhrif hafði sú reynsla á hlutverk þitt/hans í umönnun og uppeldi barnsins?
Hefur þú notað getnaðarvarnir og þá hverjar? Hvað eða hver hefur haft mest áhrif á ákvörðun þína um að nota getnaðarvarnir og val á þeim? Við hverja hefur þú rætt um getnaðarvarnir og af hverju? Hver finnst þér bera ábyrgð á notkun og vali á getnaðarvörnum?

Kafli 4 af 4 - Þátttaka í félagsstörfum og viðhorf til jafnréttis

Hver voru viðhorf þín til jafnréttisbaráttu og skiplagðra kvennahreyfinga á borð við Rauðsokkurnar, Kvennalistann, Úurnar o.fl.? Tókst þú einhverntíma með virkum hætti þátt í starfi slíkra hreyfinga, og þá hverra og hvenær?
Hver telur þú að hafi verið helsti ávinningur kvennahreyfinganna? Hvað fannst þér hafa farið miður í baráttumálum þeirra?
Tókst þú þátt í kvennafrídögunum 1975 eða 2005? Hvers vegna/hvers vegna ekki?
Hver voru viðbrögð þín við framboði og kjöri Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands?
Varst þú í kvenfélagi eða kynjaskiptum félagsskap? Telur þú að jafnréttisbaráttan hafi haft áhrif á starfsemi þíns félags? Ef svo er, hvernig?
Sinntir þú öðrum félagsstörfum (t.d. kórar, kvenfélög, íþróttafélög, leikfélög, stjórnmálaflokkar). Ef svo er, hverskonar félagsstörfum tókstu þátt í?
Á hvaða vettvangi finnst þér þú hafa náð að blómstra mest (í starfi, á heimili, í félagsstörfum o.s.frv.)? Hvar og hvernig nýttust hæfileikar þínir best?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.