LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiKyn, Kynin, Kynin
Ártal1945-2015
Spurningaskrá122 Aðstæður kynjanna

ByggðaheitiNeskaupstaður
Sveitarfélag 1950Neskaupstaður
Núv. sveitarfélagFjarðabyggð
SýslaS-Múlasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1946

Nánari upplýsingar

Númer2015-2-28
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið20.5.2015/11.6.2015
Stærð5 A4
TækniTölvuskrift

„Nám og störf

Hvaða væntingar hafðir þú um menntun? „

Geri mér það ekki ljóst. Margt vakti forvitni mína og gerir enn.

 

„Hvernig uppfylltir þú þær?“

Ég held að ég sé enn að safna í sarpinn sem að vísu er orðinn hrip. Lesblinda og taugaveiklun endaði skólavistina með falli í fjórða bekk MA.  Þess utan lengi að hugsa.

 

„Hvaða námi hefur þú lokið?“

Iðnnámi, er rafeindavirki. Lyftarapróf og meira ökuprófið.

 

„Hvaða þættir höfðu áhrif á val þitt á námi (t.d. hvatning, almenn viðhorf, félagslegar aðstæður, námsframboð)?“

Ó, nei, það var einfalda leiðin, læra af pabba.

 

„Hvaða framtíðardrauma hafðir þú um atvinnu?“

Taka bara þátt í því sem þyrfti að gera í nærsamfélaginu, eiga trillu að drýgja tekjurnar við skemmtilegheit.

 

„Samræmdist ævistarfið upphaflegum vonum þínum? Ef ekki, hvað var þess valdandi?“

Einmitt, ekki að öllu leiti. Kvótakerfið.

 

„Hvernig voru samskipti kynjanna á þeim stöðum sem þú hefur unnið á?“

Frá saltfiskreitnum um síldarplanið, símstöðina, sorpið, skipaviðgerðirnar, Ríkisútvarpið, togbátinn, rafveituna, frystihúsið og álverið voru þau á sinn hátt í lagi séð með augum barnsins, unglingsins, þess vaxna og loks gamlaða. Samt, þau voru, utan frá mótuð, ekki í lagi. Það var ekki í lagi að borga börnum lítið minna en fullorðnum konum fyrir að breiða fisk og ég náði því unglingur að komast á „kvenmannskaup“.  Þegar ég segi: „utan,frá mótuð“, er ég að tala um að skipting starfanna var ekki í lagi og launin auðvita ekki heldur. Karlar „stjórnuðu“. Fengu í öllu falli borgað fyrir það. Í síldinni sluppu konurnar að vísu betur, höfðu meira fyrir styttri tíma. Það snerist svo við undir haust þegar farið var að pækla og velta.

Annars hef ég mest verið á karla vinnustöðum, og eða, karladeild. Meira að segja bæjarvinnan í Litlu-Moskvu var bara fyrir stráka, stelpurnar fóru í frystihúsin sem þá voru þar tvö. 

 

„Tókst þú eftir kynferðislegu áreiti? Ef svo er, lýstu því og hvernig var talað um það.“

Nei.

Eftir á að hyggja og kannski miðað við umræðu  dagsins í dag, hlýtur orðræða nokkurra einstaklinga sem urðu á vegi mínum að hafa gefið vísbendingu um einmitt slíkt.

 

„Valdir þú þér atvinnu sem samkvæmt venju „tilheyrði“ hinu kyninu?“

 Nei, það gerði ég víst aldrei og svara því ekki eftirfarandi….

 

 „Hvaða starf og hvers vegna? Hvaða áhrif hafði kynferði þitt á þau verkefni sem þér voru falin? Hvernig var þér tekið (t.d. jákvæð/neikvæð viðhorf, samskipti við samstarfsfólk)?“

„Heimili og uppeldi

Hvernig var verkaskiptingu háttað á þínu heimili (hreingerning, matseld, fjármál, innkaup, viðgerðir, garður, bíll t.d.)?“

Sem elsta barn var ég mikill þátttakandi í heimilishaldi foreldra minna sem var mest á könnu móður minnar.

 

 „Af hverju var verkaskiptingin með þessum hætti?“

Ég hef ekki tilfinningu fyrir því að það sem hélt föður mínum frá heimilisstörfum hafi verið hefðin endilega. Í öllu falli var það lítið mál fyrir mig að blanda mér í flest sem að laut nema ef vera mætti að fást við saumavélina til fataviðgerða.

Að vísu vann faðir minn oft langan vinnudag, krefjandi vinnu en ekki líkamlega erfiða. Eins var það að móðir mín kaus sér það hlutskipti lengst af sjálf að vera heima og það af fleiri en einni ástæðu.

 

„Ef þú átt barn eða börn, hvernig skiptuð þið foreldrar með ykkur verkum í umönnun barnsins (fyrsta árið, á leikskólaaldri, á skólaaldri)? Hvernig var verkaskiptingin ef að þið áttuð fleira en eitt barn?“

Okkar eigið barn, stúlka, náði því ekki að koma í skóla, lést aðeins 5 ára af erfðasjúkdómi eftir tíðar legur á sjúkrahúsi síðustu 3 árin.  Mér finnst líka í minningunni að móðir hennar hafi haft mest af henni að segja allar götur. Ég er samt ekki á því að það hafi haft mikið með hefðina að gera og ljóst að mér hefði verið það bæði ljúft og létt að sinna barninu meira. Ég hafði einfaldlega, 10 ára gamall, gætt systurdóttur móður minnar daginn langan. Hún var þriggja ára og hvorugt veit í dag annað en það hafi gengið vandræðalaust.

 

„Ef fjölskyldan þín var stjúpfjölskylda (þ.e. ef annar eða báðir aðilar sem stofnuðu til fjölskyldunnar áttu barn eða börn með öðrum), hvernig var samskiptum við stjúpbörn háttað, hversu mikið dvöldu þau á heimilinu, og hvernig hafði nærvera þeirra áhrif á heimilislífið?“

Þetta á ekki við tilfellið mig.

 

„Ef þú átt barnabörn, á hvaða hátt tekur þú þátt í lífi þeirra? Hvernig er samskiptum ykkar háttað, hafið þið t.d. samband í gegnum síma eða tölvu? Segðu frá hvort eða á hvaða hátt þú aðstoðar við uppeldi á barnabörnunum.“

Eign mín á afabarni er náttúrlega með sértækum hætti.

Hingað til lands kom færeyskt par með 7 börn. Þau voru með einhverjum hætti á „flótta“ frá félagsmálayfirvöldum í Færeyjum en þau lentu mjög fljótlega í sambærilegum yfirvöldum hér. Úr niðurstöðu þeirra kom í varanlegt fóstur drengur sem ég fékk að verða afi fyrir. Kannski meira að segja starfandi afi. Það má því segja að ég sé frekar fóstri drengsins og við verið nánir alla tíð þau bráðum 15 ár sem hann hefur tilheyrt okkur. Hér á hann sitt annað heimili og þess utan þriðja heimilið hjá móðursystur sinni. Það má segja að hér sé heilt þorp að ala upp barn. 

 

„Telur þú að það sé munur á hlutverkum afa og ömmu? Ef svo er, á hvaða hátt?“

Það á enginn munur að vera þarna á. Sá munur sem ég upplifi hins vegar er einfaldlega persónubundinn.

 

„Barneignir og fjölskyldustærð

Hvaða þættir höfðu áhrif á hvort og þá hvenær þú eignaðist barn eða ekki? Fannst þú fyrir væntingum hvað þetta snerti? Ef svo er, hvaða væntingum og hvað fannst þér um þær?“

 

 Vissulega voru væntingar til þess að fá að tilheyra hér samfélaginu, eignast inn í það börn sem, ef vel tækist til, fengju þrifist í því. Ég held hins vegar að ekki sé „gáfulegt“ að spyrja fólk hvað því finnist um væntingar og alls ekki þess eigin. Hafi það væntingar til einhvers, finnst því líka að þær séu réttmætar, jafnvel raunhæfar.
Nú kallar dauði barns af arfbundnum ástæðum á endurmat væntinga. Það gerir líka stjórnvaldsákvörðun um fiskveiðar.

 

„Ef þú valdir að eignast ekki barn eða gast það ekki, hvernig upplifðir þú viðhorf fólks til þess? Hvaða máli skipti hvort þú varst einhleyp(ur) eða í sambúð? En hvort þú sért karl eða kona?“

Eftir að hafa pælt niður skjalið og sestur við að lesa þetta yfir, ræð ég það við mig að blanda mér aðeins í þetta mál en frá örlítið öðruvísi sjónarhorni. Ég var búinn að nefna börnin sjö frá Færeyjum sem hér var ráðstafað í varanlegt fóstur. Þrjú af þeim fóru til kvenna sem voru einhleypar og áttu ekki börn. Aðeins ein kvennanna var í sambandi að mér skildist og við aðra konu. Sú atburðarás sem fór hins vegar í gang skömmu seinna var nokkuð sem ekki átti að geta gerst og spurning hvort ástæðan hafi að hluta verið vegna þess að málsaðilar voru ekki íslenskir. 

 

„Ef þú átt barn, hvaða áhrif hafðir þú á ákvarðanatökur í sambandi við fæðinguna og það ferli sem henni tengdist (t.d. fæðingarumhverfi, lyfjagjöf, fæðingarstelling)? Var faðirinn viðstaddur fæðingu barnsins? Hvaða áhrif hafði sú reynsla á hlutverk þitt/hans í umönnun og uppeldi barnsins?“

Ég verð að segja því miður var ég ekki viðstaddur. Ég held að það hafi ekki verið komið í tísku.

 

„Hefur þú notað getnaðarvarnir og þá hverjar? Hvað eða hver hefur haft mest áhrif á ákvörðun þína um að nota getnaðarvarnir og val á þeim? Við hverja hefur þú rætt um getnaðarvarnir og af hverju? Hver finnst þér bera ábyrgð á notkun og vali á getnaðarvörnum?“

Nei, pillan kom í hlut konunnar. Hins vegar þegar ljóst var hvert stefndi með frekari fjölgun af okkar völdum fékk ég mig tekinn úr sambandi. Það gekk bæði fljótt og vel.

 

„Þátttaka í félagsstörfum og viðhorf til jafnréttisbaráttu

Hver voru viðhorf þín til jafnréttisbaráttu og skiplagðra kvennahreyfinga á borð við Rauðsokkurnar, Kvennalistann, Úurnar o.fl.? Tókst þú einhverntíma með virkum hætti þátt í starfi slíkra hreyfinga, og þá hverra og hvenær?“

Já, ég skal fara yfir félagsmálapakkann. Æskulýðshreyfingin á meðan hún var ungliðahreifing Sósilista, ekki flokkurinn og ekki Alþýðubandalagið, aldrei í stjórnmálaflokki. Ég var í Iðnnemasambandinu, björgunarsveit, kaupfélagi og verkalýðsfélagi. Það má segja að ég hafi verið mis virkur í þessu öllu.

Í þessu sem nú er byggðakjarni í Fjarðabyggð en hét á sínum tíma Stöðvarhreppur var oftast kosið óhlutbundið til sveitastjórnar. Það sem réði vali fólks í nefndina voru fyrst fjölskyldutengsl, stór ætt, eða eins og þegar ég er kosinn í þetta, „búinn til listi“ um borð í bátnum.

Ég hafði að vísu verið í verkalýðsfélaginu en ég, aðdáandi Babbitts eftir Harry Sinclair Lewis,  vildi ekki vera í Lion og fjölskyldustærð var hér ekki til að dreifa. Að kjörtímabilinu liðnu hengdi ég upp auglýsingu þar sem ég sagðist ætla að nota rétt minn til að vera ekki í framboði en biðja fólk að kjósa konur í sveitastjórn.

 

„Hver telur þú að hafi verið helsti ávinningur kvennahreyfinganna? Hvað fannst þér hafa farið miður í baráttumálum þeirra?“

Þær þokuðu málum til betri vega. Það er óumdeilt, alla vega í huga þeirra sem eru uppfullir af því að þekking sé vænleg til árangurs í stjórn mála. Þetta tengist einmitt því sem miður „fer“ í hlutunum. Krafa okkar á ekki að vera um jafnan rétt í aðkomu að málum eftir kyni eða stöðu fólks og ekki að blanda því saman við aðstöðu eða stöðu einstaklinga eða samfélaga, félaga eða hópa. Við eigum að leitast við að fá hæft fólk til að stýra hlutunum og þekking þess á að vera að minnsta kosti æskileg. Þannig að bæði á Alþingi og í sveitastjórnum eigum við að vera með verulegan meirihluta kvenna, líka í stjórnarráðinu auðvita. Þetta er einfaldlega vegna þess að eins og núverandi verkaskiptingu kynjanna er háttað eru meiri líkur til þess að finna konur með þekkingu á þeim hlutum sem verið er að ráðskast með á þingi og í sveitastjórnum. Það væri sennilega bara í hafnarnefndum sveitarfélaganna sem tölfræðin réttlætti meirihluta karla.

 

„Tókst þú þátt í kvennafrídögunum 1975 eða 2005? Hvers vegna/hvers vegna ekki?“

Ætli ég segi ekki að ég hafi verið fjarri góðu gamni.

 

„Hver voru viðbrögð þín við framboði og kjöri Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands?“

Hér talaði ég fyrir því. Það færði okkur Stöðfirðingum tvær konur í sveitastjórn í kosningum 1982 og 1990 urðu þær þrjár. Ekki veit ég hvort þessi meirihluti kvenna hafði nokkuð með það að gera að 1994 voru á ferðinni listar, listakosning og útkoman ein kona í sveitastjórn. Í dag erum við partur af Fjarðabyggð og lítil von til að kosið verði óhlutbundið á næstunni. Það eru 6 karla og 3 konur sem mynda sveitastjórnina. Tölfræðin hefði trúlega sæst á að það hefði verið öfugt.

 

„Varst þú í kvenfélagi eða kynjaskiptum félagsskap? Telur þú að jafnréttisbaráttan hafi haft áhrif á starfsemi þíns félags? Ef svo er, hvernig?“

Búinn að segja það, las Sinclair Lewis.

 

„Sinntir þú öðrum félagsstörfum (t.d. kórar, kvenfélög, íþróttafélög, leikfélög, stjórnmálaflokkar). Ef svo er, hverskonar félagsstörfum tókstu þátt í?“

Það er ekki laust við að ég dragi skipulagshæfileika spurningahöfunda(r) í efa. Ég er að hugsa um að gefa mér að höfundurinn tilheyri kynslóð sem alin er eftir tilkomu, ekki aðeins sjónvarps, heldur líka myndbanda og verði ekki komið til skilnings nema með myndum og það helst á hreyfingu. Ef mér skjátlast ekki því meir hefur höfundur heldur ekki komist austur fyrir Hellisheiði eða upp á Skaga.  Ég er ekki að skrifa þetta á nokkurn hátt til meintrar niðrunar, enda ekki með efni fyrir því, heldur skýringar á því sem á eftir fer.

Lægsti „samnefnari“ mundi vera fráskilin Thailensk kona í fiskvinnu lengst frá höfuðborginni. Hver þessara fimm þátta nægja til að fella þennan einstakling í „gildi“. Kannski átti ég að tala um fjóra og taka saman fráskilda og Thailenska  en þá hefði þetta eins getað verið þrír þættir og orðið kona fylgt með. Auðvita kemur hér til hið klassíska rugl á flækjustigi og magni, einfaldlega skortur, líffræðilegur skortur, á tíma. Það er ekkert flókið við myndina af karli sem hefur klárað að berja frá sér konu og mögulega börn og hún flækist ekki við það að hann fari til Thailands og komi aftur með konu sem hefur talið að, það að fylgja honum bjargi mögulega framtíð barns sem hún hefur alið af sér inn í erfiðar aðstæður heimafyrir. Þessi mynd flækist heldur ekki að mun þótt við bætist fyrir blessaðri konunni að verða barin burt frá nýja heimilinu, mállaus einstæðingur í framandi samfélagi. Það er meira að segja hægt að halda því fram að það einfaldi málið ef hún er komin með tvö ung börn í tilbót við unglinginn sem hún hafði með sér að „heiman“.

Þegar hér er komið sögu er sem sagt ákveðið í nýja landinu að það sé heppilegast að láta markaðinn ráða byggðinni og það þurfi „menntun“ úr viðskiptaskóla til að skilja markaðinn en ekki sjómenn til að skilja veiðar og ekki fiskverkafólk til að skilja vinnslu. Þessu til viðbótar þarf svo „engin(n)“ að skilja samfélög utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi umræddi samnefnari sem óvart er raunverulega til og það í fleirtölu, stendur frami fyrir því að vera atvinnulaus.

Ef ég tek mig nú til og ávarpa spurningahöfunda og held mig við fleirtöluna eftirleiðis, þá kæmi ég næst að þessu mesta kynjamisrétti Íslandssögunnar, úthlutun afla við landið. Það var sem sé ekki bara þær thailensku  sem hingað voru komnar í fiskvinnu fyrir atbeina karla sem sóttu þær, heldur ekki bara pólskar komnar hér fyrir atbeina vinnuveitenda (karla), sem misstu vinnuna. Fjöldi innfæddra kvenna, flestra á vel miðjum aldri, vítt um byggðir mátti finna sér annað að gera en verka fisk. Þessi brogaði hópur hafði árum saman breitt þeim fiski sem karlar höfðu veitt upp á 100 krónu aflaverðmæti í 300 króna útflutningsvöru og fengu engan kvóta, karlarnir fóru með hann. Þetta lítur út eins og það hafi verið markmið okkar að drepa bara fiskinn sama hvað af honum yrði.

Svo setjist þið bara niður og semjið ruglingslegan spurningalista að senda út í samfélag sem þið eigið trúlega aldrei eftir að skilja, einfaldlega vegna þess að það er ekki lengur til staðar, og þó. Það eru trúlega enn fjörbrot tengd þessum hlutum, hægt að finna þessu stað af og til. Þingeyri, Húsavík, Djúpivogur, Grindavík og fyrirtækið Vísir.  

Ég held líka. Já, ég geri ykkur upp skoðanir og það er meðvitað, hefur ekkert með persónur ykkar að gera, veit ekki hver þið eruð og er ekki að þessu til að óskapast neitt, óvirkur í athugasemdum. Ég held að þið tilheyrið þeim hópi fólks, meiri hluta, sem finnst hörmung hvað illa er farið með fólk í þriðjaheiminum, dásamið samt að fá ódýran mat og föt. Þið bölvið meðferð á börnum í Bangladesh og borgið í Rauðakrossinn, sendið þeim köku en snúið upp á ykkur þegar sú staða kemur upp að þau láta sér detta í hug að koma hingað til að borða hana. Rétt, þið samþykkið að innanríkisráðuneytið sé með þriggja lögfræðinga teymi til að búa til plögg að leka í fjölmiðla í misjöfnum útgáfum en kjamsið á bullinu í ráðherranum. Kannski eru þessir lögfræðingar skólasystkin ykkar, hvað veit ég. Ég er þess full viss að þið hafið ekki lesið útlendingalögin, eða lög um fiskistofu og hafið ekki hugmynd um hvar og hvernig kúgun og misrétti er lúmskt skipulagt í því þjóðfélagi sem þið haldið að þið séuð að „rannsaka“.

Gott, þið ákváðuð í upphafi að þennan viðmælanda gætuð þið ekki notað.

„Lesblinda og taugaveiklun endaði skólavistina með falli í fjórða bekk MA.  Þess utan lengi að hugsa.“

„Á hvaða vettvangi finnst þér þú hafa náð að blómstra mest (í starfi, á heimili, í félagsstörfum o.s.frv.)? Hvar og hvernig nýttust hæfileikar þínir best?“

Hér í þessu samfélagi afkomenda Kristínar ríku og með fólkinu hennar Guðrúnar í Skaftafelli sem hraktist austur undan eldinum og blandaðist afkomendum Katrínar á Hálsi og fyrsta blakka hælisleitandans, þar hefur mér liðið svo vel að ætla ekki þaðan viljandi. Þetta er fyrsta náttúruverndarsvæði í landinu og kannski þótt víða sé leitað og ég deili ánægju minn með Stöðvarlandið með bókaverðinum sem sá til þess að Bretar fjármögnuðu sjálfstæðis baráttu Íslendinga. Eiríkur átti fyrir konu eina af fyrstu kvenréttindakonum landsins Sigríði Einarsdóttur frá Brekkubæ í Reykjavík. Hér er svo friðsælt að ekki einu sinni Henderson biblíusali kom við. Hér eru engin ofanflóð, eldgos eða jarðskjálftar. Meira að segja norðanáttin sneiðir hjá okkur.

Megið þið svo hafa það gott.

 

Hrafn.


Kafli 1 af 4 - Nám og störf

Hvaða væntingar hafðir þú um menntun? Hvernig uppfylltir þú þær? Hvaða námi hefur þú lokið? Hvaða þættir höfðu áhrif á val þitt á námi (t.d. hvatning, almenn viðhorf, félagslegar aðstæður, námsframboð)?
Hvaða framtíðardrauma hafðir þú um atvinnu? Samræmdist ævistarfið upphaflegum vonum þínum? Ef ekki, hvað var þess valdandi?
Hvernig voru samskipti kynjanna á þeim stöðum sem þú hefur unnið á? Tókst þú eftir kynferðislegu áreiti? Ef svo er, lýstu því og hvernig var talað um það.
Valdir þú þér atvinnu sem samkvæmt venju „tilheyrði“ hinu kyninu? Hvaða starf og hvers vegna? Hvaða áhrif hafði kynferði þitt á þau verkefni sem þér voru falin? Hvernig var þér tekið (t.d. jákvæð/neikvæð viðhorf, samskipti við samstarfsfólk)?

Kafli 2 af 4 - Heimili og uppeldi

Hvernig var verkaskiptingu háttað á þínu heimili (hreingerning, matseld, fjármál, innkaup, viðgerðir, garður, bíll t.d.)? Af hverju var verkaskiptingin með þessum hætti?
Ef þú átt barn eða börn, hvernig skiptuð þið foreldrar með ykkur verkum í umönnun barnsins (fyrsta árið, á leikskólaaldri, á skólaaldri)? Hvernig var verkaskiptingin ef að þið áttuð fleira en eitt barn?
Ef fjölskyldan þín var stjúpfjölskylda (þ.e. ef annar eða báðir aðilar sem stofnuðu til fjölskyldunnar áttu barn eða börn með öðrum), hvernig var samskiptum við stjúpbörn háttað, hversu mikið dvöldu þau á heimilinu, og hvernig hafði nærvera þeirra áhrif á heimilislífið?
Ef þú átt barnabörn, á hvaða hátt tekur þú þátt í lífi þeirra? Hvernig er samskiptum ykkar háttað, hafið þið t.d. samband í gegnum síma eða tölvu? Segðu frá hvort eða á hvaða hátt þú aðstoðar við uppeldi á barnabörnunum.
Telur þú að það sé munur á hlutverkum afa og ömmu? Ef svo er, á hvaða hátt?

Kafli 3 af 4 - Barneignir og fjölskyldustærð

Hvaða þættir höfðu áhrif á hvort og þá hvenær þú eignaðist barn eða ekki? Fannst þú fyrir væntingum hvað þetta snerti? Ef svo er, hvaða væntingum og hvað fannst þér um þær?
Ef þú valdir að eignast ekki barn eða gast það ekki, hvernig upplifðir þú viðhorf fólks til þess? Hvaða máli skipti hvort þú varst einhleyp(ur) eða í sambúð? En hvort þú sért karl eða kona?
Ef þú átt barn, hvaða áhrif hafðir þú á ákvarðanatökur í sambandi við fæðinguna og það ferli sem henni tengdist (t.d. fæðingarumhverfi, lyfjagjöf, fæðingarstelling)?
Var faðirinn viðstaddur fæðingu barnsins? Hvaða áhrif hafði sú reynsla á hlutverk þitt/hans í umönnun og uppeldi barnsins?
Hefur þú notað getnaðarvarnir og þá hverjar? Hvað eða hver hefur haft mest áhrif á ákvörðun þína um að nota getnaðarvarnir og val á þeim? Við hverja hefur þú rætt um getnaðarvarnir og af hverju? Hver finnst þér bera ábyrgð á notkun og vali á getnaðarvörnum?

Kafli 4 af 4 - Þátttaka í félagsstörfum og viðhorf til jafnréttis

Hver voru viðhorf þín til jafnréttisbaráttu og skiplagðra kvennahreyfinga á borð við Rauðsokkurnar, Kvennalistann, Úurnar o.fl.? Tókst þú einhverntíma með virkum hætti þátt í starfi slíkra hreyfinga, og þá hverra og hvenær?
Hver telur þú að hafi verið helsti ávinningur kvennahreyfinganna? Hvað fannst þér hafa farið miður í baráttumálum þeirra?
Tókst þú þátt í kvennafrídögunum 1975 eða 2005? Hvers vegna/hvers vegna ekki?
Hver voru viðbrögð þín við framboði og kjöri Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands?
Varst þú í kvenfélagi eða kynjaskiptum félagsskap? Telur þú að jafnréttisbaráttan hafi haft áhrif á starfsemi þíns félags? Ef svo er, hvernig?
Sinntir þú öðrum félagsstörfum (t.d. kórar, kvenfélög, íþróttafélög, leikfélög, stjórnmálaflokkar). Ef svo er, hverskonar félagsstörfum tókstu þátt í?
Á hvaða vettvangi finnst þér þú hafa náð að blómstra mest (í starfi, á heimili, í félagsstörfum o.s.frv.)? Hvar og hvernig nýttust hæfileikar þínir best?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.