LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiKyn, Kynin, Kynin
Ártal1940-2015
Spurningaskrá122 Aðstæður kynjanna

ByggðaheitiAkranes, Fáskrúðsfjörður, Reykjavík, Vestmannaeyjabær
Sveitarfélag 1950Akranes, Búðahreppur, Reykjavík, Vestmannaeyjar
Núv. sveitarfélagAkraneskaupstaður, Fjarðabyggð, Reykjavík, Vestmannaeyjar
SýslaBorgarfjarðarsýsla, Gullbringusýsla, S-Múlasýsla, Vestmannaeyjar
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1939

Nánari upplýsingar

Númer2015-2-32
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið20.5.2015/18.6.2015
Stærð12 A4
TækniTölvuskrift

Þjóðminjasafn Íslands, spurningaskrá 122

Aðstæður kynjanna

Nám og störf

Ég kom ólæs í 1. bekk í Barnaskóla Akraness. Ég kom frá Fáskrúðsfirði, þar sem pabbi minn hafði reynt að kenna mér að stafa, með litlum árangri. Ég lenti því í verri bekknum og var þarna þar til ég var orðin 12 ára. Mér bauðst þó að flytja mig í betri bekkinn, en ég vildi það ekki, ég hafði eignast góða vini þarna í verri bekknum. Bekkjarkennarinn minn var Hans Jörgenson og hann æfði stóran barnakór sem mér fannst gaman að vera í. Pabbi minn dó þegar ég var 12 ára og fluttist mamma með mig og systur mína til Vestmannaeyja, af því að hún var þaðan.

Þá skundaði ég á fund skólastjórans Halldórs Guðjónssonar og bað um að fá að vera í verri bekknum í Barnaskóla Vestmannaeyja. Hann horftð kíminn á mig og sagði að það væri ekki pláss fyrir mig í þeim bekk og ég yrði að fara í betri bekkinn. Þeim bekk kenndi Þorvaldur Sæmundsson, mikill öðlingur.

Ég naut mín vel í þessum bekk og fékk ég verðlaun þegar Barnaskólanum lauk og Gagnfræðaskólinn tók við. Þar fór ég að lokum í Landsprófsdeild en fékk ekki framhaldseinkun og varð mjög vonsvikin og reið, svo reið að ég lýsti því yfir að ég myndi aldrei fara í skóla aftur!

Svo liðu 10 ár. Fyrstu árin vann ég á Pósthúsi Vestmannaeyja, síðan lá leið mín til Svíþjóðar þar sem ég var í lýðháskóla, þar hitti ég tilvonandi manninn minn og gifti mig og eignaðist son. Ég lærði að sníða kjóla og vann á kjólasaumastofu í Kjörgarði við Laugaveginn í Reykjavík.

Ég get ekki sagt að ég hafi haft framtíðardrauma um æfistarf á þessum árum, nema að mér þótti gaman af að sauma klæðnað og ég saumaði bæði á mig og son minn og jafnvel manninn minn. Auk þess saumaði ég fyrir fólk.

Einn daginn fékk ég mjög ákveðið yfir mig að nú yrði ég að gera eitthvað í að mennta mig. Þetta var eftir samtal við vin minn, en þá skildi ég allt í einu að ég var ekki viss um hvort jörðin snerist í kringum sólina eða öfugt!

Það var ekki um auðugan garð að gresja hvað varðaði skóla fyrir stútungs kerlingar, eins og mér fannst ég vera orðin. Ég sótti um í Handavinnudeild Kennaraskóla Íslands og fékk skólavist. Ég er alltaf þakklát Brodda Jóhannssyni fyrir að taka við mér í skólann. Það var enginn sem hvatti mig til náms, löngunin kom innanfrá. Í Handavinnudeildinni eignaðist ég vinkonur sem halda vel utan um hver aðra og hittumst við tvisvar til þrisvar á ári og erum nú nýkomnar úr ferð til Vestmannaeyja til að fagna því að 46 ár eru frá því að við útskrifuðumst.

Þær væntingar sem ég bar til námsins voru þær að ég gæti væntanlega kennt ungum börnum eitthvað  gagnlegt, sjálfstraustið var ekki mikið. Eftir að ég lauk námi í Handavinnudeildinni hóf ég kennslu við Breiðagerðisskóla og lenti strax í því að vera aðalkennari 9 ára nemenda, en kenndi ásamt öðrum kennurum handavinnu. Ég fann fljótlega að almenn kennsla átti betur við mig, þannig að ég fór aftur í Kennaraskólann og tók almennt próf þaðan jafnframt því að ég kenndi forskóladeildinni í Breiðagerðisskóla. Auk þess tók ég stúdentspróf frá KÍ, ári 1974, sem var eitt ár í viðbót við almennt kennarapróf.

Allan minn kennsluferil hef ég kennt yngri börnum og varð lestrarkennsla og skapandi starf aðalatriði í þeirri kennslu. Ég hef notið mín í kennslunni og þar var samræmi í launum karla og kvenna. Aldrei varð ég fyrir kynferðislegri áreitni í starfi mínu sem kennari, né vissi ég til að aðrir kennarar sem voru að vinna með mér yrðu fyrir slíku.

Læt ég nú fylgja starfsferilskrá mína sem er orðin nokkuð löng eftir 37 ár sem kennari.

 

Starfsferilskrá

Menntun

Handavinnukennarapróf frá KÍ 1969.

Almennt kennarapróf frá KÍ 1973.

Stúdentspróf frá KÍ 1974.

Meistarapróf, M.Ed.-nám í uppeldis- og menntunarfræðum við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands. 2001.

Meistaraprófsritgerð: Kennsluhættir í byrjendakennslu með sérstaka áherslu á heildstæðar aðferðir og skapandi starf.

Nám við Háskólann í Stokkhólmi 1979-80, (Listasaga, Barnamenning, Málþroski barna) 50 e.

 

Kennsluferli

Breiðagerðisskóli 1969-1974.

Ölduselsskóli 1975-1976.

Æfinga- og tilraunaskóli KHÍ 1975-1988.

Vesturbæjaskóli 2001-2005.

Stundakennari við KHÍ 1980-2001.

Kenndi einnig sem æfingakennari við KHÍ frá 1980-1986 lestur og handlistir.

Kenndi sem fastráðinn stundakennari frá 1990-2001 lestur og handlistir, en frá 1996 einungis lestur og hófst þá jafnframt kennsla fjarnema.

Fastráðinn stundakennari breytist í aðjunkt 1998.

 

Námskeið

Námskeið til 1986 metið til 32 eininga.

Lestur. 1986. 1,5 e.

Ýmis námskeið. 1987 1 e.

Rannsóknarstofnun uppeldismála 1987 (undirbúningur og framkvæmd kannanna. Námsefni, námsmat, prófagerð) 1,5 e.

Íslenska - móðurmálskennsla 1989. 1,5 e.

Art craft and design in Natinol Curriculum Ks l-2. 1992 (Námskeið haldið í Chester á Englandi um endurskoðun námskrár með áherslu á list- og verkgreinar).

Aðferðafræði rannsókna 1997 (Hluti of M.Ed. námi í uppeldis- og kennslufræði) 5 e. Eigindlegar rannsóknir og starfendarannsóknir 1997 (M.Ed. nám) 4 e.

Lestur og annað nám 1997 (M.Ed. nám) 3,5 e.

Myndmennt við Mynd- og handíðaskóla Íslands 1989 (Hreyfimyndagerð). 3 e. Íslenska menntanetið 1994 (Byrjendanámskeið í tölvufræðum). l e.

Virkjun hægra heilahvelsins með teikningu. 1997. Tómstundaskólinn Mímir. 1 e.

Opni Listaháskólinn 2000 (Myndvinnsla 1). 1 e.

Fræðslumiðstöð Reykjavíkur:

- Lestrarkennsla - lesskimun í 1.-2. bekk, 2001, 20 stundir.

- Þróun kennsluhátta, 2001, 20 stundir.

- Námskeið um lestrarerfiðleika, 2003, 20 stundir.

ÍM5 - Íslensku menntasamtökin SES: Menntun á 21. öldinni. Nýjar leiðir í menntamálum.

- Fjölgreindarkennsla dr. Howard Gardners.

 

 

Ritstörf

Titill: Myndasafnið. Ég og fólkið mitt.

Höf: Bryndís Gunnarsdóttir og Kristín Gunnarsdóttir.

Ljósmyndari: Kristján Ingi Einarsson.

Árið: 1985.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Titill: Myndasafnið. Ég þarf margt að gera.

Höf: Bryndís Gunnarsdóttir og Kristín Gunnarsdóttir.

Ljósmyndari: Kristján Ingi Einarsson.

Árið: 1985.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Titill: Landnám Íslands.

Myndband sem ætlað er til að glæða áhuga á landnámi Íslands.

Myndir: Bryndís Gunnarsdóttir, skuggabrúður og klippimyndir

og brúður úr plexigleri.

Árið: 1987.

Útgefandi : Námsgagnastofnun.

 

Titill: Egill.

Myndband byggt á óskabókinn um Egil Skallagrímsson.

Texti: Torfi Hjartarson.

Myndir: Bryndís Gunnarsdóttir, skuggabrúður og klippimyndir.

Árið: 1988.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Titill: Dúddi . Dúbbi dúfa. Dúbbi verður stór.

Þrjár léttlestrarbækur í bókaflokknum Smábók.

Höf: Bryndís Gunnarsdóttir. Eftir frásögn Jósefínu G. Þórðardóttur.

Texti og myndir: Bryndís Gunnarsdóttir.

Árið: 1989.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Titill: Dúbbi dúfa.

Myndband  sem helst í hendur við bækurnar.

Texti og myndir: Bryndís Gunnarsdóttir, klippimyndir.

Árið: 1990.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Titill: Í stafaleik.

Texti: Bryndís Gunnarsdóttir og Þóra Kristinsdóttir.

Myndir: Bryndís Gunnarsdóttir.

Handskrifaðir stafir: Björgvin Jósteinsson.

Árið: 1991.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Titill: Mábbi 1. Mábbi 2.

Tvær léttlestrarbækur í bókaflokknum Smábók.

Höf: Bryndís Gunnarsdóttir. Eftir frásögn Jósefínu G. Þórðardóttur.

Myndir: Bryndís Gunnarsdóttir.

Árið: 1992.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Titill: Pysja.

Léttlestrarbók í bókaflokknum Smábók.

Texti og myndir: Bryndís Gunnarsdóttir.

Árið: 1993.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Titill: Pæja.

Léttlestrarbók í bókaflokknum Smábók.

Texti og myndir: Bryndís Gunnarsdóttir.

Árið: 1993.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Titill: Múkki.

Léttlestrarbók í bókaflokknum Smábók.

Texti og myndir: Bryndís Gunnarsdóttir.

Árið: 1999.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Titill: Sirrý í Vigur.

Léttlestrarbók í bókaflokknum Smábók.

Myndir og texti: Bryndís Gunnarsdóttir.

Árið 2004.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Titill: Putalestin.

Léttlestrarbók í bókaflokknum Smábók.

Texti og myndir: Bryndís Gunnarsdóttir.

Árið: 2010.

Útgefandi: Námsgagnastofnun.

 

Fræðilegar skýrslur

Þetta er... Skýrsla um LTG-lestrarkennslu í Æfinga- og tilraunakennslu í KHÍ veturna 1980-1984.1988. Rit Kennaraháskóla Íslands B-flokkur: Fræðirit og greinar 3. Útg. KHÍ.

Barnamenning. Könnun á aðstöðumun átta ára barna eftir búsetu þeirra á Íslandi. 1997. Rannsóknarrit. Útg. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

 

Erindi á vísindaráðstefnum

Barnamenning.Fyrirlestur á ráðstefnunni Börnin skapa heiminn 9.september 1990 í Háskólabíó. Átak í þágu barnsins og menningarinnar á vegum menntamálaráðuneytisins.

Folksagor og skabande arbedje.Fyrirlestur á ráðstefnunni Det skabende arbejde og børn 1993 í Börnekulturcentret á Helsingjaeyri.

Barnkultur. Fyrirlestur fluttur á ráðstefnu um Nutidskultur/bykultur íÁlaborg 24.-28. júní 1996.

Barnamenning.Fyrirlestur á ráðstefnunni Skólaþróun ag listir, 4.-5. júní 1998. Að ráðstefnunni stóðu fagfélög list- og verkgreinakennara Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

Barnamenning.Fyrirlestur á samnorræni ráðstefnu Barnamenning á Íslandi. Íslenskar rannsóknir og verkefni. 10. október 1998. Ráðstefnan var haldin á vegun BIN-Norden.

Folksagor og skabande arbedje.2000. Fyrirlestur á vegum dansklærer forening á ráð­stefnunni Børns læse- og skrivudvikling i skolestarten íKaupmannahöfn.

Skóli á nýrri öld. Erindi flutt á ráðstefna um fjölbreytta kennsluhætti og sveigjanlegt skólastarf, 9. febrúar 2005.

 

Viðurkenning

Barnabókaráð Íslandsdeildar IBBY veitti mér viðurkenningu fyrir framlag til íslenskrar barnamenningar 1989.

 

Hönnunarverk

 

Hönnun og framkvæmd

á nýjum búningum á íslensku jólasveinana, Grýlu og Leppalúða.

 

Þjóðminjasafn Íslands í samvinnu við Reykjavík menningarborg efndu til opinberar hugmyndasamkeppni um nýja búninga í október 1999. Hlaut ég fyrstu verðlaun og jafnframt heiðurinn af að sjá um alla framkvæmd.

Tillögur mínar voru þær að fötin væru eingöngu úr íslenskum afurðum, s.s. ull, gæru, roði og beinum. Sérfyrirbrigði eins og tvíþumla vettlingar væru sjálfsagður klæðnaður á jólasveinana, skórni úr roði eða skinni, buxurnar lokubuxur úr ofnu íslensku efni, peysurnar prjónaðar og vestin ýmist úr flóka eða gæru. Axlaböndin og belti spjaldofin og tölur úr horni, beini, klaufum eða trétölur. Húfan rauð skotthúfa með litlum dúsk.

Mér var síðan falið að finna handverksfólk vítt og breitt um landið og ýmist vann ég verkin sjálf eða þau sem til voru kölluð. Búningagerðin hófst í janúar 1999. Aðal vinnulotan var í júlí og til loka októbers en verkinu lauk ekki fyrr en í desember þess árs.

Sýning var á búningunum 13.-14. desember 1999. Sá ég um uppsetningu sýningarinnar ásamt Gunnari Borgarsyni arkiekt. Kynnti ég tilurð og framgang þessa verkefnis við opnun hennar.

 

Landnámsbúningar - víkingabúningar fyrir Þjóðminjasafnið 2004.

Búningarnir eru ætlaðir 10 ára börnum og kennurum þeirra þegar þau koma á safnið til að fræðast um víkingatímabilið. Þetta eru 15 búningar fyrir drengi og 15 búningar fyrir stúlkur. Hugmyndirnar sóttar til safna hér og í Svíþjóð.

 

Gunna á Hóli. Myndband unnið fyrir safnakennslu á Þjóðminjasafninu. 1990.

 

Þetta vilja börnin sjá, sýning í Gerðubergi á myndskreytingum úr nýútkomnum barnabókum, 20. nóv 2004 - 9. janúar 2005. Myndir úr Sirrý í Vigur.

 

Leikbrúðuland

Árið 1968 var haldið námskeið í leikbrúðugerð í Myndlista- og handíðaskólanum. Kennarinn var Kurt Zier fyrrv. skólastjóri skólans. Þannig varð Leikbrúðuland til og hefur síðan 1971 haft aðsetur að Fríkirkjuvegi 11 í húsnæði Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fyrstu sýningar Leikbrúðulands voru unnar fyrir sjónvarp en fyrstu sýningar að Fríkirkjuvegi 11 voru um Meistara Jakob. Íslenskar þjóðsögur hafa verið meginuppistaða í viðfangsefnum Leikbrúðulands. Tvívegis hefur Leikbrúðuland tekið þátt í Listahátíð í Reykjavík, með sýningu á vegum Leikfélags Reykjavíkur Af Sæmundi fróða árið 1974, og Mjallhvít 1988.

Leikbrúðuland hefur ferðast mörg sumur um landið með sýningar sínar og einnig til annarra landa. M.a. sýnt á alþjóðlegri hátíð brúðuleikhúsa, UNIMA, og hlotið þar verðlaun, í Zagreb 1985 og 1992.

Jólasveinar einn og átta og Grýla og Leppalúði hafa vakið furðu barna í Chicago, Lúxemborg og London. Tröll og álfar og persónur úr goðafræði hafa skotið upp kollinum víðs vegar um Evrópu, m.a. í Stokkhólmi 1978 1990, Lúxemborg 1979, Vasa 1982 og 1983, Ósló 1983, Belgrad 1985, Róm 1985, Charleville-Meziers 1985, Mistelbach 1985, Bilbao 1986, Vittoria 1986, Panploma 1986, Bielsko-Biala 1988, Doordrecht 1989, Umá, 1989, Barcelona 1990, Andorra 1990, Bergen 1992, Ljubljana 1992, Zagreb 1992, Kristjánssandi 1993, Gävle 1994, London 1994, Madrit 1995.

Þessi afrekaskrá birtist í leikskrá með Hvað er á seyði, sem frumsýnt var 1996 og var síðasta sýning sem ég tók þátt í. Við sem höfum starfað í Leikbrúðulandi þessi 30 ár höfum samið, búið til brúður og leiktjöld og séð um markaðssetningu.

Auk þess fékk ég tækifæri til að sinna sérstöku áhugamáli mínu og þannig sameina kennslu og safna- eða leikhúsferð fyrir yngstu börnin með því að taka á móti yngstu grunnskólanemendunum í samráði við Íþrótta- og tómstundaráð veturna 1993 til 1998 á Fríkirkjuvegi 11. Þar fengu börnin að sjá brúðusafn, skoða skuggasýningu og búa til skuggabrúður sem þau gátu síðan tekið heim í skólana og unnið áfram með. Sýningin nefndist Þjóðsögur og brúðuleikhús.

 

Eftir starfslok

Ég hef stundað nám í Myndlistaskóla Reykjavíkur á námskeiði sem nefndist Myndskreytingu og bókagerð 2008 og á námskeiði sem nefndist Vatnslitun frá 2009 til 2015.

 

Heimili og störf

Fyrst þegar ég hóf búskap var það á heimili tengdamóður minnar. Við vorum ósköp ung og áttum ekki bót fyrir boruna á okkur. Ég tók að mér matseld og sá um heimilið af því að ég var heima með lítið barn. Ég tók mág minn í fæði. Hann mátti þola frumraunir mínar í matargerðarlist!

En fljótlega fengum við eigin íbúð og þar var ég heimavinnandi húsmóðir fyrst um sinn og annaðist um heimilið, hreingerningar, matseld, innkaup, garðinn. Gerði allt eins og mamma. Tekjur húsbóndans urðu að duga fyrir okkur, en ég fór fljótlega að sauma fyrir fólk. Viðgerðir, fjármál og bíllinn var aldrei á minni könnu.

Af hverju var verkaskipting með þessum hætti? Þetta var venja frekar en annað. Ég býst við því að ég hafi yfirtekið uppeldi sonar okkar á sömu forsendu, apað eftir mömmu minni.

Svo skildu leiðir okkar hjóna. Þá var ég orðin kennari og ég fékk íbúðina með öllum þeim skuldum sem á henni hvíldu. Þarna bjuggum við sonur minn í 9 ár og komumst vel af. Þá kom nýr maður inn í líf okkar og hann er maðurinn minn í dag. Það má segja að munstrið í sambandi okkar var svipað og í fyrri sambúð minni, nema að nú hafði ég tekjur og við skiptum með okkur að greiða reikningana. En smátt og smátt tók hann yfir eldamennskuna á bænum. Það vildi þannig til að hann veiktist og þurfti að breyta um mataræði og skyndilega kunni ég ekki að kaupa í matinn og ekki að elda. Mér var í fyrstu stórlega misboðið, en núna nýt ég þess að þurfa sjaldan að elda! Sonur minn giftist og flutti í burtu frá okkur, eignaðist börn sem við höfum fengið að njóta samvista við.

Barnabörnin urðu tvö og nálgast nú þrítugt. Við höfum alla tíð tekið mikinn þátt í uppeldi þeirra. Þau hafa mikið sótt til okkar, m. a vegna þess að við bjuggum stutt frá hvert öðru.

Samskiptin hafa verið allt frá því að ná í þau í leikskóla og skóla og hafa þau hjá okkur þar til foreldrarnir sóttu þau, upp í það að fara í útilegur og ferðalög. Jólin höfum við átt saman öll fjölskyldan fram á þennan dag. Bæði barnabörnin mín eru lesblind og gerði ég sem kennari töluvert í því að reyna að hjálpa þeim. Ég fylgdi öðru þeirra í gegnum Susuki nám á fiðlu í mörg ár og fórum við t.d. til Parísar í tilefni af því að forkólfur þessarrar aðferðar var að verða 100 ára.

Þau eru nú bæði farin að búa og annað orðið foreldri, þannig að samskiptin hafa smátt og smátt orðið minni. Við hittumst samt öðru hvoru, borðum saman, hringjumst á og erum í sambandi á Fésbókinn.

Mikill munur er á hlutverki afa og ömmu í mínu tilfelli, af því að afinn hvarf út úr okkar lífi og settist að erlendis. Seinni maðurinn minn hefur tekið fullan þátt í samskiptum við barnabörnin og líta þau á hann sem afa.

Barneignir og fjölskyldustærð

Það var alveg óviljandi sem ég eignaðist barn. Ég var ung og nýsloppin að heiman þegar ég hitti barnsföður minn. Við kynntumst á lýðháskóla úti í Svíþjóð og ég vildi ekki fara ófrísk heim. Ég fékk því inni á Mæðraheimili fyrir ógiftar mæður. Þar fór vel um mig og átti ég son minn þarna og var faðirinn ekki viðstaddur fæðinguna. Ég hafði ekkert um fæðinguna sjálfa að segja (fæðingarumhverfi, lyfjagjöf, fæðingastellingu), nema að ég valdi að vera í umsjá starfsfólksins á Mæðraheimilinu. Ég býst við að ég hafi ósjálfrátt tekið forustuna um umsjá sonar okkar af því að faðirinn gat ekki búið með okkur fyrstu mánuðina í lífi hans. Mér fannst því alltaf sem ég ætti meira í syni mínum en faðirinn.

Ég var á Mæðraheimilinu þar til sonur okkar var orðin 6 mánaða. Þar fékk ég alla þá hjálp sem ég þurfti á að halda, af því að þarna var hjúkrunarfólk sem kunni til verka.

Þegar sonur okkar var orðin hálfs árs fórum við saman heim til Íslands og fórum að búa.

Ég hafði fengið hettuna sem getnaðarvörn eftir að ég eignaðist soninn. Það gerðist á spítalanum skömmu eftir fæðinguna. Mér finnst sem lítil umræða hafi verið um það og eftir á ræddi ég ekkert um þetta við neinn.

Í seinna hjónabandi mínu var það vitað að ég gæti ekki eignast fleiri börn og hefur það aldrei skyggt á samband okkar.

 

Þátttaka í félagsstörfum og viðhorf til jafnréttisbaráttu

Ég hafði mikinn áhuga á jafnréttisbaráttunni og var mjög hlynnt Rauðsokkunum þótt ég hefði ekki beinlínis tekið þátt í starfi þeirra. Ég kaus Kvennalistann á sínum tíma.

Ávinningur kvennahreyfinganna var að þær vöktu fólk til umhugsunar um stöðu kvenna. Ég hef ekki skoðun á hvað fór miður í baráttumálunum.

Ég tók þátt í kvennafrídögunum báðum og þótti mikið til um, sérataklega þeim fyrri árið 1975.

Ég kaus vigdísi Finnbogadóttur á sínum tíma og á enn þá koníaksstaup sem ég og maðurinn minn keyptum til að skála fyrir henni þegar ljóst var að hún hafði sigrað. Við vorum þá stödd við Garda-vatnið á Ítalíu! Ég fagnaði kjöri hennar innilega.

Ég var í Félagi einstæðra foreldra á sínum tíma og voru þar bæði konur og karlar. Þar sveif jafnréttisbaráttan yfir og hallaði nokkuð á karlmennina. Forystumenn voru konur og öll starfsemi kvennlæg, ef svo má að orði komast. Félaginu tókst að koma upp húsnæði sem hýsti aðallega konur og börn þeirra sem voru illa stödd vegna makamissis.

Ég var ein af stofnendur brúðuleikhússins Leikbrúðulands á sínum tíma og starfaði í því í 30 ár. Ég vísa í starfsferilskrá mína til frekari upplýsinga.

Eftir að ég fór á eftirlaun hef ég sungið í kór eldri kennara, EKKÓ-kórnum. Það er gefandi og skemmtilegur félagsskapur. Auk þess hef ég sótt leikfimitíma hjá eldri borgurum.

Þar sem ég hef notið mín best um æfina er í starfi mínu í kennslu yngri barna og með kennaranemum í Kennaraháskóla Íslands. Í starfi mínu með börnunum hafði ég frjálsar hendur  og tók ég, m.a. þátt í að skapa starfið í 6 ára barna kennslu þegar hún hófst hér í Reykjaví árið 1970, ásamt öðrum. Börnin voru ekki skólaskyld og nefndust þetta skólastig Forskóladeildir.

Seinna gafst mér kostur á að skrifa skýrslu um LTG – lestrarkennsluna sem ég var mjög hrifin af og í framhaldi af þessum skrifum komu svo Smábækurnar ætlaðar yngstu lesendunum. Auk þess gafst mér kostur á að búa til myndbönd sem tengdust námi barnanna, um Landnámið, um Egil og um Dúbba, útgefnar af Námsgagnastofnun, og Gunnu á Hóli, fyrir Þjóðminjasafnið. Mér gafst einnig kostur á að gera rannsókn meðal 8 ár barna víðsvegar um landið. Rannsóknin nefndist Barnamenningu. Könnun á aðstöðumun átta ára barna eftir búsetu þeirra á Íslandi.

 

 


Kafli 1 af 4 - Nám og störf

Hvaða væntingar hafðir þú um menntun? Hvernig uppfylltir þú þær? Hvaða námi hefur þú lokið? Hvaða þættir höfðu áhrif á val þitt á námi (t.d. hvatning, almenn viðhorf, félagslegar aðstæður, námsframboð)?
Hvaða framtíðardrauma hafðir þú um atvinnu? Samræmdist ævistarfið upphaflegum vonum þínum? Ef ekki, hvað var þess valdandi?
Hvernig voru samskipti kynjanna á þeim stöðum sem þú hefur unnið á? Tókst þú eftir kynferðislegu áreiti? Ef svo er, lýstu því og hvernig var talað um það.
Valdir þú þér atvinnu sem samkvæmt venju „tilheyrði“ hinu kyninu? Hvaða starf og hvers vegna? Hvaða áhrif hafði kynferði þitt á þau verkefni sem þér voru falin? Hvernig var þér tekið (t.d. jákvæð/neikvæð viðhorf, samskipti við samstarfsfólk)?

Kafli 2 af 4 - Heimili og uppeldi

Hvernig var verkaskiptingu háttað á þínu heimili (hreingerning, matseld, fjármál, innkaup, viðgerðir, garður, bíll t.d.)? Af hverju var verkaskiptingin með þessum hætti?
Ef þú átt barn eða börn, hvernig skiptuð þið foreldrar með ykkur verkum í umönnun barnsins (fyrsta árið, á leikskólaaldri, á skólaaldri)? Hvernig var verkaskiptingin ef að þið áttuð fleira en eitt barn?
Ef fjölskyldan þín var stjúpfjölskylda (þ.e. ef annar eða báðir aðilar sem stofnuðu til fjölskyldunnar áttu barn eða börn með öðrum), hvernig var samskiptum við stjúpbörn háttað, hversu mikið dvöldu þau á heimilinu, og hvernig hafði nærvera þeirra áhrif á heimilislífið?
Ef þú átt barnabörn, á hvaða hátt tekur þú þátt í lífi þeirra? Hvernig er samskiptum ykkar háttað, hafið þið t.d. samband í gegnum síma eða tölvu? Segðu frá hvort eða á hvaða hátt þú aðstoðar við uppeldi á barnabörnunum.
Telur þú að það sé munur á hlutverkum afa og ömmu? Ef svo er, á hvaða hátt?

Kafli 3 af 4 - Barneignir og fjölskyldustærð

Hvaða þættir höfðu áhrif á hvort og þá hvenær þú eignaðist barn eða ekki? Fannst þú fyrir væntingum hvað þetta snerti? Ef svo er, hvaða væntingum og hvað fannst þér um þær?
Ef þú valdir að eignast ekki barn eða gast það ekki, hvernig upplifðir þú viðhorf fólks til þess? Hvaða máli skipti hvort þú varst einhleyp(ur) eða í sambúð? En hvort þú sért karl eða kona?
Ef þú átt barn, hvaða áhrif hafðir þú á ákvarðanatökur í sambandi við fæðinguna og það ferli sem henni tengdist (t.d. fæðingarumhverfi, lyfjagjöf, fæðingarstelling)?
Var faðirinn viðstaddur fæðingu barnsins? Hvaða áhrif hafði sú reynsla á hlutverk þitt/hans í umönnun og uppeldi barnsins?
Hefur þú notað getnaðarvarnir og þá hverjar? Hvað eða hver hefur haft mest áhrif á ákvörðun þína um að nota getnaðarvarnir og val á þeim? Við hverja hefur þú rætt um getnaðarvarnir og af hverju? Hver finnst þér bera ábyrgð á notkun og vali á getnaðarvörnum?

Kafli 4 af 4 - Þátttaka í félagsstörfum og viðhorf til jafnréttis

Hver voru viðhorf þín til jafnréttisbaráttu og skiplagðra kvennahreyfinga á borð við Rauðsokkurnar, Kvennalistann, Úurnar o.fl.? Tókst þú einhverntíma með virkum hætti þátt í starfi slíkra hreyfinga, og þá hverra og hvenær?
Hver telur þú að hafi verið helsti ávinningur kvennahreyfinganna? Hvað fannst þér hafa farið miður í baráttumálum þeirra?
Tókst þú þátt í kvennafrídögunum 1975 eða 2005? Hvers vegna/hvers vegna ekki?
Hver voru viðbrögð þín við framboði og kjöri Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands?
Varst þú í kvenfélagi eða kynjaskiptum félagsskap? Telur þú að jafnréttisbaráttan hafi haft áhrif á starfsemi þíns félags? Ef svo er, hvernig?
Sinntir þú öðrum félagsstörfum (t.d. kórar, kvenfélög, íþróttafélög, leikfélög, stjórnmálaflokkar). Ef svo er, hverskonar félagsstörfum tókstu þátt í?
Á hvaða vettvangi finnst þér þú hafa náð að blómstra mest (í starfi, á heimili, í félagsstörfum o.s.frv.)? Hvar og hvernig nýttust hæfileikar þínir best?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.