LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDaglegt líf, Híbýli, Húsbúnaður, Húsnæði
Ártal1944-1954
Spurningaskrá117 Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf

StaðurRánargata 14
ByggðaheitiVesturbær
Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1936

Nánari upplýsingar

Númer2012-3-125
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.11.2015/31.10.2012
Stærð21 A4
TækniTölvuskrift

26. ágúst 2015

[1]

Ég rifja hér upp minningabrot  sem eru frá 1944, er ég var 8 ára, þar til 1954, þegar ég útskrifaðist  úr Kvennaskólanum í Reykjavík 18 ára. Þetta er hvorki samfelld saga eða í tímaröð, heldur mætti frekar kalla það „leiftur frá liðinni tíð“, sem þó lýsir tíðarandanum á uppvaxtarárum mínum.

Frásögnin er um hagi og lífskjör þriggja fjölskyldna í húsinu að Ránargötu 14 í Reykjavík, þar sem ég ólst  upp. Húsið átti móðurafi minn, fyrrv. sveitaperstur, sr. Jón Norðfjörð Johannessen, f. 1878, d. 1958. Hann varð ekkill 1936. Afi var nú aldrei efnaður, en hafði keypt húsið fyrir happadrættisvinning  sem hann hlaut í Happadrætti Háskólans.

Ránargata 14 og íbúar hússins.

Húsið var tvær hæðir, kjallari og þurrkloft með geymslum. Í húsinu voru þrjár íbúðir, allar þriggja herbergja. Fjölskylda mín bjó á miðhæð. Faðir minn var Guðjón Guðbjörnsson, skipstjóri, f. 1897, d. 1976, frá Sveinsstöðum undir Enni á Snæfellsnesi (fæddur á Kolbeinsstöðum, Snæf.) og móðir mín Matthea Jónsdóttir, f. 1908, d. 1978 (fædd á Sandfelli í Öræfum, ólst síðan upp á Breiðabólsstað á Skógarströnd og Staðarstað á Snæfellsnesi, þar sem afi þjónaði sem prestur).  Við vorum tvær dætur Guðjóns og Mattheu, ég fædd 1936 og Hólmfríður Helga, systir mín, fædd 1937 (síðar hjúkrunarfræðingur/ljósmóðir), báðar fæddar á Akureyri.

Í kjallaranum bjó fjölskylda móðursystur minnar, Guðrún Jónsdóttir, f. 1912 og Björn Jónsson,  f. 1914, með fimm börn. Björn var vörubílstjóri og síðar skrifstofumaður hjá fyrirtækinu Electric í Túngötu. Líka voru þar í heimili og höfðu eitt herbergið, foreldrar Björns,  Jón Halldórsson  og Matthildur Björnsdóttir.  Jón var frá Tröllatungu og Matthildur frá Smáhömrum í Strandasýslu. Ekki var baðherbergi í þeirra íbúð, en lítið salerni undir stiga.

 Í kjallaranum var líka þvottahús fyrir allt húsið. Þar var kolaofn sem áður hafði verið notaður  til að hita upp allt húsið, en var ekki lengur í notkun eftir að hitaveita var leidd í húsið. Þar var og stór steypujárnspottur til að sjóða þvott, hitaður upp með kolum. Kolunum var sturtað niður í kolageymslu, sem opin var inn í vaskahúsið. Líka var þar stór blikkbali til þvotta á öðrum þvotti með þvottabretti ásamt gríðarstórum trébala til að skola þvottinn upp úr.  Síðar kom í vaskahúsið þvottavél með vindu í eigu mömmu og allir notuðu. Bera varð blautan þvottinn upp þrjár hæðir til upphengingar á þurrklofti. Þar var taurulla (vinda) sem Guðmundur og Jónína áttu og  allir notuðu. Mamma bar blautan þvottinn upp, en eftir þurrkun hans vorum við systur látnar teygja með henni lök og sængurver og handsnúa taurullunni.

Eldri íbúar hússins voru allir fæddir og aldir upp í sveit nema afi. Hann var uppalinn í Reykjavík, kjörsonur Matthíasar Johannessen, norsks kaupmanns og Magneu  Jónsdóttur Norðfjörð Johannessen.

 Afi var systursonur Magneu og þau hjónin höfðu tekið hann að sér 2ja ára, þegar móðir hans  Ingibjörg Laurina Jónsdóttir Norðfjörð (beykis í Rvík), f. 1859, d.1940, flutti til Vesturheims eftir að maður hennar, Jóhann Júlíus Jóhannsson, skipstjóri, f.1854, dó úr lungnabólgu 1879. Ekki urðu örlög þessarar langömmu minnar rakin fyrr en  2003, en þá kom á daginn að í Kanada kallaði hún sig Emmu Russel,  sem hafði flækt eftirgrennslan.

Á efstu hæð bjuggu Guðmundur Albertsson, f. 1900, starfsmaður  á Pósthúsinu í Reykjavík og Jónína Steinunn Jónsdóttir, f. 1910, d. 2009, frá Söndum í Miðfirði, með þrjú börn. Í heimili hjá þeim var líka móðir Jónínu, Salóme Jóhannesdóttir, f. 1886, d. 1975, (maður hennar var Jón Skúlason frá Söndum, en sonur hans og bróðir Jónínu var Einar Skúlason, sem skriftvélafyrirtæki í Reykjavík heitir eftir). Afi hafði eitt herbergi á efstu hæðinni, svo Guðmundur og Jónína höfðu aðeins tvö herbergi til afnota auk herbergiskompu á háaloftinu, þar sem líka var þurrkloftið ásamt  tveimur geymslum sem tilheyrðu efstu- og miðhæð.  Köld geymsla undir útidyratröppum tilheyrði miðhæðinni. Á mið- og efstu hæð voru baðherbergi, en ekki í kjallara.

Ekki voru baðker í öllum húsum við Ránargötu og því leyfði mamma ýmsum að fara  í bað hjá okkur. Björn í kjallaranum keyrði okkur krakkana í húsinu gjarnan í Sundlaugarnar gömlu. Stundum fengum við að fara ein og látin hafa pening akkúrat fyrir aðgangi í laugarnar og strætó fram og til baka. En oftast vorum við svo svöng þegar við komum upp úr að við notuðum strætópeningana til að kaupa 25 aura-köku (tertusneið með sultu á milli og bleiku  glassúri ofan á!) og löbbuðum svo heim, alla leið vestur í bæ.

Fjölskylda mín flutti til Reykjavíkur frá Akureyri 18. nóv. 1940, þar sem pabbi  hafði unnið sem stýrimaður á skipinu e/s Snæfelli sem var í eigu KEA. Skipið lenti í miðri innrás Þjóðverja í Kristiansand í Noreg 1940 og varð þar innlyksa. Hann og skipsfélagar hans komust til Íslands í svokallaðri Petsamóferð frá Finnlandi. Guðrún og Björn komu frá Hólmavík, þar sem þau höfðu búið. Guðmundur og Jónína bjuggu á Ránargötu 14 þegar við settumst þar að 14. mars 1941.

Fólk sótti mjög til Reykjavíkur á stríðsárunum vegna aukinna atvinnumöguleika á vegum hersins. Var mikil húsnæðisekla í Reykjavík. Að undirlagi Jónasar frá Hriflu og Framsóknarflokksins mátti fólk ekki flytjast úr sveitunum nema hafa öruggt húsnæði í Reykjavík (að því að mér hefur verið sagt). Þess vegna flutti fólk iðulega inn á fjölskyldur sínar í Reykjavík og bjó ótrúlega þröngt , líkt og lýst er að framan, þ.e. á efstu hæð voru sex í tveggja herbergja íbúð og í kjallara voru níu í þremur herbergjum. Samt er svo undarlegt, að aldrei fann maður fyrir þrengslum, samkomulag í húsinu var einstakt og hjálpsemi á alla lund, ég man aldrei eftir rifrildi eða hávaða í húsinu.  Samgangur milli fjölskyldna var mikill og íbúarnir sem ein fjölskylda. Afar og ömmur á hæðunum voru kölluð svo af öllum krökkunum, hvort sem þau voru þeirra eigin eða ekki.

Húsnæðurnar í húsinu voru allar heimavinnandi og verkaskipting  greinileg milli hjóna. Undantekning var að Guðmundur á efstu hæðinni gekk stundum í verkin og skúraði  gólfin, því Jónína var oft lasin. Stefán mágur hennar þvoði  stundum fyrir hana stórþvottana og þá kom fyrir að gestir bónuðu niður stigann o.fl.  Þetta var eina heimilið þar sem ég vissi til að húsmóðirin gerði ekki alla hluti sjálf. Veit ég að móður minni fannst þetta ekkert eðlilegt fyrirkomulag!  Samt voru þær mæðgur, Jónína og Salóme, framúrskaradi myndarlegar á allan hátt, í höndunum og í matreiðslu.  Jónína vann iðulega húsverkin sín mjög seint á kvöldin (hún var „B-manneskja“) og því fylgdi nokkur hávaði, en mamma var kvöldsvæf og árrisul („A-manneskja“). Guðrún í kjallaranum var glaðværust kvennanna og tók hutunum léttast. Mamma var nokkuð til baka, smekkleg, prúð kona og  kurteis, greiðvikin og mátti ekkert aumt sjá. Pabbi var glaðlyndur, opinn, góður sögumaður, viljasterkur, en langrækinn.

Á stríðsárunum hafði Jónína „stúlku“ á tímabili, sem svaf í herbergiskompunni á háaloftinu, en vann hluta úr degi annars staðar. Hún var í „bransanum“ (þ.e. átti vingott við enskan  hermann). Það þótti okkur stelpunum í  húsinu afar spennandi, því hún átti silkisokka, erlent  sælgæti, snyrtivörur o.fl. sem þá var ófáanlegt. Mamma hafði reyndar líka vinnukonu um tíma þegar hún var sem veikust (það sprakk m.a. í henni maginn). Það var Hulda Pálsdóttir frá Skeggjastöðum í Fellum, sem svo giftist seinna og bjó á Dalvík. Hún fór til Noregs, sennilega 1951 til að læra hand- og fótsnyrtingu. Mamma átti smá upphæð á bók sem hún lét Huldu hafa í farareyri.

Sjónvarp var ekki komið til sögunnar og því hlustuðu allir undantekningarlaust á útvarpið. Fyrsti ísskápurinn (lítill Rafha-) kom á heimilið árið 1948 eða ´49.  Áður var mjólkin geymd í brúsa úti á tröppum og fiskur og önnur matvæli látinn hanga í poka út um eldhúsgluggann. Hrærivélar voru sjaldgæfar. Þá var allt deig hrært í höndunum. Systir mín fór á matreiðslunámskeið 1960 og þá var m.a. kennt að hræra deig í höndunum, sem henni fannst úreld aferð, en sagðist seinna vera fegin að kunna, þegar hún settist að í sveit  þar sem ekki var rafgmagn.

Á æskuheimili mínu var verkaskiptingin algjör. Faðir minn vann fyrir heimilinu, en  skipti sér ekki af neinu innanhúss, kom aldrei nálægt húsverkum. En væri hann beðinn, þá lagfærði hann og gerði við hluti sem biluðu, negldi kannski upp myndir á vegg, losaði um stíflur í vöskum og slíkt. Hann sá einn um fjármálin og skattamál. Þegar hann var ekki til sjós las hann dagblöð og bækur, hlustaði á útvarpið, en sat líka oft við að skrifa endurminningar  sínar,  sem ég síðan vélritaði. Hann hafði á yngri árum lifað ævintýraríku lífi í siglingum erlendis  og hafa barnabörnin haft ómælda ánægju af því að lesa minningarnar. Móðir mín sá algjörlega um heimilið og bar ábyrgð á uppeldi okkar systranna, enda pabbi mikið í burtu við vinnu, stundum allt  sumarið. Síðari árin var hann skipstjóri á Dýpkunarskipinu Gretti, sem dýpkaði hafnir landsins. Allt innanhúss hvíldi á herðum mömmu. Hún sá um innkaup og  matreiðslu. Hún tók slátur, kjöt var stundum saltað í tunnu og slátur sett í súr, kæfa var gerð, sviðasulta, rúllupylsur og lundabaggar. Hún sá um bakstur, sultugerð og að búa til saft. Jólaísinn var frystur í snjóskafli í garðinum áður en ísskápurinn kom á heimilið.  Hún bjó líka til sápu úr tólg og vítissóda. Hinar sjálfsögðu vor- og jólahreingerningar og  önnur þrif og þvottar voru á hennar könnu. Hún sá um allan fatnað fjölskyldunnar, viðhald og viðgerðir á honum, öll samskipti við ættingja og gjafir. Þá snyrti hún garðinn sem og leiði ættingja í kirkjugarði. Hún fylgdist með heilsu fjölskyldunnar og að allir fengju viðeigandi læknisaðstoð. Síðast, en ekki síst, sá hún um gestamóttökur og viðurgjörning við gesti, sem var mikil vinna og útheimti mikla risnu, því þá tíðkaðist að skyldfólk og kunningjar úr sveitunum settust upp hjá fjölskyldum í Reykjavík, þegar þeir áttu erindi þangað. 

Aldrei var fólki neitað um gistingu, sama hversu þröngt var búið og auk þess var þetta fólk líka alltaf í fæði. Utan einu sinni! Þá bankaði fullorðin kona uppá hjá okkur og spurði hvort hún gæti fengið að gista. Þetta var algjörlega ókunnug kona og mamma varð nokkuð undrandi. Hún neyddist þó að synja konunni gistingarinnar þar sem fullt var fyrir  af næturgestum. En sennilega hefði móðir mín annars leyft henni að gista!

Konurnar í húsinu voru allar húsmæðraskólagengnar,  Jónína var í Húsmæðraskólanum  á Blönduósi, mamma í Hússtjórn Kvennaskólans í Reykjavík og Guðrún á Húsnæðraskólanum á Ísafirði. Um ömmurnar í húsinu veit ég ekki. Þær bjuggu allar til afar góðan mat. Mamma eldaði miklu fyrirhafnarmeiri og  tilbreytingarríkari mat en ég geri sjálf og ótal fisktegundir, sem ég hef aldrei eldað. Svo var tekið slátur á öllum hæðunum og við krakkarnir látin halda í garnir meðan skafið var úr þeim og hausarnir og lappirnar voru sviðnir  heima.  Jónína á efri hæðinni og Salóme móðir hennar voru afar myndarlegar og þegar þær bökuðu kleinur, ástarpunga eða parta var farið með handa fólkinu á hinum hæðunum.  Enginn í húsinu gerði laufabrauð fyrir jólin, en þá bakaði mamma lagtertur sem voru jafnstórar bökunarplötunum, vínartertur, brúnar kryddtertur með hvítu kremi og ótal tegundir af smákökum, fallegum og bragðgóðum. Vissara var að eiga nóg  með kaffinu, því alltaf var von á gestum og alveg örugglega á sunnudögum, því þá fór fólk í heimsóknir. Það var gert án þess að fólki væri boðið eða það gerði boð á undan sér og er það af sem áður var, því nú til dags fer enginn óboðinn  í heimsóknir. Fólk bjó sig upp á og  var boðið til betri stofu. Ég man að suma sunnudaga komu jafnvel tveir eða þrír hópar í heimsókn um sama leyti. Mér fannst þetta skemmtilegt, enda fékk maður stundum afgangskökur, sem ekki stóð til boða hversdags! Fólk var skemmtilegt, sagði sögur og rifjaði upp liðna tíð.

Fjölskyldan mín  fór líka í heimsóknir suma sunnudaga.  Aðallega var kunningjafólk pabba  heimsótt, sem hann þekkti að vestan frá gamalli tíð og vinur sem hann hafði verið með til sjós. Alltaf var rausnarlega var  tekið á móti okkur. Aftur á móti fór mamma oftast ein í heimsóknir til vinkvenna og fengum við systur að fara með. Það voru ekki eins formlegar heimsóknir. Hennar skyldfólk bjó margt á næstu slóðum í Vesturbænum, hittist oft  hversdags og var ekki heimsótt formlega nema við hátíðleg tækifæri.

Við systur fórum afar sjaldan með foreldrum okkar í kirkju, en þá var mamma á nálum um að pabbi sofnaði! Stundum fórum við með afa, sem okkur fannst  syngja alltof hátt, hann hafði samt fallega rödd og kunni alla sálmana. Hann var frjálslyndur í trúmálum og fór líka með okkur í messur í Landakotskirkju.

Húsmæðurnar þrjár á Ránargötu 14 eyddu ekki miklum peningum í sig sjálfar. Þær notuðu ekki andlitssfarða hversdags og fóru ekki í hárgreiðslu. Þær áttu samt varalit og púður. En stundum fóru þær í fótsnyrtingu. Mamma og  Jónína voru með  sítt hár, fléttur, en mamma rúllaði því daglega upp á spöng í hnakkanum og Jónína í hnút. Guðrún var með styttra hár. Þær fyrrnefndu gengu á peysufötum spari en áttu líka sparikjóla. Yfirleitt  átti fólk sparifötin sín afar lengi, en kjólar kvennanna voru oftast saumaðir hjá saumakonum  eða heima. Pabbi lét klæðskerann hjá Verslun  Andrésar  Andréssonar  á Laugavegi sauma á sig fötin, honum Axel. Hann saumaði úr einkar góðum efnum og þegar við systur útskrifuðumst úr Kvennaskólanum 1954 og 1955, saumaði hann líka útskriftardragtirnar á okkur systur.

Daglegt líf og tíðarandinn

Daglegt líf á Ránargötu 14 var í afar föstum skorðum og mikil reglusemi. Aðalmáltíðin kl. 12.oo á hádegi, miðdegiskaffi kl. 15.oo og kvöldmatur kl. 19.oo. Hver átti sitt sæti við borðstofuborðið, alltaf var hvítur damaskdúkur og tauservíettur og allir áttu sinn silfur-servíettuhring. Heitur matur var í hádeginu, venjulega fiskur fjórum sinnum í viku og kjötmeti þrisvar. Alltaf var súpa eða grautur með matnum. Á kvöldin voru hafðir afgangar og brauðmeti með áleggi, ásamt  kannski grautum og stundum smáréttum sem mamma útbjó úr afgöngum frá hádeginu. Fullorðir fengu vatn með matnum eða við systur mjólk. Aldrei voru gosdrykkir á boðstólum nema á hátíðum. Afi var í fæði hjá mömmu og vorkenndi ég henni hvað afi var stífur á stundvísinni, því væri maturinnn ekki tilbúinn á mínútunni kl. 12.oo kom fyrir að hann færi upp til sín aftur! Annars var hann ljúfur maður og skilningsríkari við okkur systurnar en mamma. Aldrei kom það fyrir að fjölskylda mín borðaði úti á veitingastað utan einu sinni þegar mamma var á spítala, en þá bauð afi okkur Helgu systur að borða á veitingastað í Austurstræti á annarri hæð og man ég enn hvað við borðuðum þar.

Mamma var afar gjafmild og góð við lítilmagnann. Hún  eldaði alltaf ríflegan mat, því iðulega mættu nokkrir einstæðingar í heimsókn  um hádegisbilið, sem vissu að þeim yrði boðið að snæða með okkur. Aðallega man ég eftir tveimur ekkjum og tveimur óreglumönnum, sem þó komu aldrei mjög drukknir til okkar. Öðrum varð það á að stela stóru silfursígarettuveski, áletaðri gjöf til pabba, en hann var samt velkominn eftir sem áður á heimilið á matmálstímum. Fólk sem kom utan af landi til lækninga dvaldi hjá okkur dögum og vikum saman, sem gerðist líka hjá fjölskyldunum á hinum hæðunum. Og heilan vetur var mamma með stúlku (Lilju Hjartardóttur) í fríu fæði,  sem hafði verið í fóstri hjá foreldrum pabba á Sveinsstöðum, eftir að hann var farinn að heiman. Þessir „kostgangarar“ hafa vafalaust aukið matarkostnað fyrir utan  allan annan gestagang, því einu sinni heyrði ég  pabba segja þegar honum þótti nóg um eyðsluna: „Matthea, ég held bara að þú hljótir að gefa peningana okkar!“ Hann vissi hvað hún var „aumingjagóð“.

Mamma var líka einstakur dýravinur. Fuglunum var að staðaldri gefið á veturna og þurfti hún eða við að klifra upp á grindverk til að kasta brauðmolunum upp á skúrþak, svo kettirnir næðu ekki í fuglana. Oft voru slösuð dýr í eldhúsinu hjá okkur styttri og lengri tíma, því þegar krakkar í  götunni fundu veika ketti eða meiddar dúfur, var viðkvæðið hjá þeim: Förum með þau til „góðu konunnar“, - en það nefnilega var mamma!

Íbúar hússins voru afar venjulegt fólk þess tíma, nægjusamt, hjálpsamt, rólegt og vandamálalaust. Það var ekki efnað, en ekki heldur  fátækt, hafði nóg að  bíta og brenna með því að fara vel með og spara. En eftir á að hyggja, þá hefur pabbi sennilega haft meiri tekjur en hinir húsbændurnir í húsinu.  Strangar reglur voru um að spara rafmagn,  ljós mátti aldrei loga og vatn ekki renna að óþörfu. Nýtni var næstum algjör, bæði í mat og hlutum, engu var hent, alltaf fundin ráð til að endurnýta eða gefa öðrum. Föt sem börn og  unglingar voru vaxnir upp úr voru látin  ganga milli heimila. Ég held að fólkið í götunni okkar hafi flest verið álíka stætt, ég man ekki eftir neinu heimili sem skar sig úr vegna rýmri efnahags.  Sumar konurnar voru nú samt fínni með sig en aðrar, því eitt sinn þurfti nágrannakona okkar að fara í bæinn til að kaupa skólpfötu og kúst, en var svo pjöttuð að ég var látin fara með til að halda á þessu heim! En þegar mamma fór í bæinn, hafði hún fyrir sið að skipta um undirföt, - vegna þess að hún gæti orðið fyrir bíl – eins og hún sagði!

Algegnt var að „venda“ fötum, þá var fatnaður rakinn sundur og efninu e.t.v.  snúið og síðan sniðinn nýr fatnaður úr efninu, aðallega þó á börn og unglinga. Ég man eftir að  saumakona kom og dvaldi á heimilinu um tíma og saumaði  fatnað á slíkan hátt fyrir fjölskylduna, en líka úr nýjum efnum, m.a. skólakjóla á okkur systur. Það voru langerma sloppar úr mislitu bómullarefni, hnepptir niður að framan. Man samt aðeins eftir einum slíkum skólakjól.  Líka kom fröken Þórdís Möller (ættuð af Skógarströndinni) um tíma, en hún gisti ekki. Hún var afar flink að bródera og saumaði út stóra upphafsstafi í sængurver fyrir mömmu. Hún var listelsk og fékk mömma  stundum með sér á málverkasýningar,  þótt aldrei sækti mamma þær annars sem ég vissi. Ég fékk að fara með sem stelpa, sem kom mér á bragðið.

Aðeins eina sárfátæka gamla konu þekktum við í herbergi á Ránargötu 13, rúmfastan einstæðing.  Hún hét Vilhelmína . Afi var afar gjafmildur og hann sendi Helgu systur alltaf rétt áður en kirkjuklukkurnar hringdu á aðfangadagskvöld með peninga í umslagi til hennar. Helga  átti að banka á gluggann hjá henni og rétta henni þá inn um hann svo að enginn vissi, því gengið var inn í herbergið hennar gegnum íbúðina hjá hjónunum sem hún leigði hjá. Við systur sentumst stundum fyrir hana. Hún var afskaplega trúuð og bænheit. Ekki man ég  hvað ég var gömul, en minninginum er sterk um það, þegar ég komst að því að hún var með beint samband við guð. Þá hafði ég týnt úti í grasinu forláta silfurskrúfblýanti sem pabbi hafði lánað mér. Ég var svo miður mín að ég  fór  til  hennar og bað hana um biðja guð um að hjálpa mér að finna skrúfblýantinn sem hún og gerði. Þegar ég kom til baka að leita lá skrúfblýanturinn þar við tærnar á mér. Og þá öðlaðist ég trúna á bænheyrslu!

Við systur sóttum sunnudagsskóla og þar voru okkur kenndar bænir og barnasálmar, fengum Jesú-myndir og var seinna gefið Nýja-Testament. Ég var þó lítið móttækileg fyrir trúmál og að lokum hætti ég  að biðja bænirnar mínar. Það var þegar við systur vorum í sveit, frá 6 – 12 ára aldri, að Helga systir komst að þessu. Seinna sagði hún mér að eftir það hefði hún beðið kvöldbænirnar tvisvar,- einu sinni fyrir sig og einu sinni  fyrir mig! Elsku Helga systir. Mér finnst undarlegt þegar ég hugsa um það í dag, að hvorki mamma né afi, sem var þó prestur, fóru með kvöldbænirnar með okkur.

Afi studdi fleiri en Vilhelmínu, því á stríðsárunum styrkti hann  tvo bræður í Finnlandi á aldur við okkur Helgu systur og sendi þeim síldarkvartil. Okkur þótti skemmtilegt að sjá myndir og bréf frá þeim. Annars skrifaðist afi á við menn í  ýmsum löndum og þeir sendu honum erlend dagblöð. Minnisstæðastur er Major Strutt í Suður-Afríku, sem sendi okkur hnetur  o.fl. fyrir jólin sem ekki var fáanlegt á Íslandi.

Þótt mamma væri strangur uppalandi áttum við systur ljúfa bernsku og æsku og allir voru okkur góðir. Aftur á móti var tíðarandinn þannig að aldrei mátti hrósa börnunum. Heldur ekki snerta eða sýna blíðu. Þó man ég að pabbi strauk mér stundum um kinnina  með ofanverðum fingrunum. Ég veit ekki hvort þetta var svona á öðrum heimilum, en þannig var það hjá okkur. Svo áttu börn líka að þegja, þegar ekki var á þau yrt. Helst sinnti pabbi okkur systrum með því að taka okkur með á sunnudagsmorgnum í göngutúr niður að höfn meðan mamma eldaði sunnudagssteikina. Við systur fengum ekki að leika okkur úti eftir kvöldmat og fannst þá súrt í broti að sjá hina krakkana úti í boltaleik.

Úti- og innileikir okkar voru fjölbreyttir. Ekki veit ég hver kenndi, sennilega kenndum við hvert öðru, sumt komið  frá foreldrum og annað áreiðanlega frumsamið. Útileikir sem ég man voru: Kýlubolti, Yfir, Fallin spýtan, Eltingaleikur, Myndastyttuleikur, Stik og stå, Þrautakónur, Mamma, mamma, má ég?, Bimm bamm, bimm bamm, hver er að berja? Fram, fram fylking  og hringleikirnir Út og inn um gluggann, Þyrnirós var besta barn, og Ein sit ég og sauma. Boltaleikur við vegg með einum, tveimur eða þremur boltum var vinsæll.

Í afmælum var vinsæll leikur Að segja ferðasögu, þar sem allir áttu að hugsa sér eitt orð, sem síðan var skotið inn í ferðasöguna eftir skipun sögumanns, svo útkoman varð afar fyndin og sögumaður þurfti að vera slyngur til að láta söguþráðinn ganga  upp. Inni voru spiluð alls kyns spil eða Orðið látið ganga (hvíslað ákveðju orði frá eyra til  eyra svo gjörólíkt orð skilaði sér að lokum) og fóru líka í Frúna i Hamborg.  Þá var Feluleikur venjulegur og Feluleikur með söng sem hækkaði og lækkaði eftir því hve nálægt leitandi var hlutnum (erindið var „Að hverju leitar lóan“, sem amma á efri hæðinni kenndi). Líka var Flöskustúturinn skemmtilegur, þ.e. Hvað á sá að gera sem flöskustúturinn bendir á? Þá þurftu viðkomandi að leysa allskyns erfiðar þrautir. Álíka leikur var sá, að hver krakki setti lítinn  hlut í t.d. húfu og svo dró húfuhafinn einn hlut  og sagði: Hvað á sá að gera sem á þennan hlut? - og þá stungu hinir upp á þrautinni sem leysa skyldi. Stelpur sippuðu, fóru í Snú, snú og hoppuðu úti í alls kyns Parísum og léku sér inni með dúkkur og  dúkkulísur og söfnuðum glansmyndum og leikaramyndum. Strákar léku sér auðvitað í fótbolta, fóru í reiptog eða herjuðu á hrekkjusvínin í næstu  götum með heimagerðum sverðum og skjöldum.

Helga systir hlýtur að hafa verið erfið sem lítil, því hún segir að ýmsir hafi flengt sig. Auk mömmu hafi t.d. Guðrún móðursystir í kjalllaranum flengt hana, Ingibjörg Filippusdóttir ömmusystur á Vesturgötunni og ljúfmennið og heimilislæknirinn okkar, hann Páll Sigurðsson (halti).  Ég hlýt að hafa  verið eitthvað þægari, því ég man varla eftir hegningum.

Æ, þó man ég tvö skipti  mér viðvíkjandi.  Mér er það minnisstætt, því mér fannst hegningarnar óréttláttar. Annað skiptið flengdi mamma mig og ég varð mjög undrandi því ég vissi ekki orsökina, enda bað hún mig síðar fyrirgefningar. Þetta voru mistök, því hún systir mín hafði gert eitthvað af sér og átti að fá þessa flengingu! En mér fannst ekki hægt að fyrirgefa  flengingu, sem þegar var búin og gerð! Hitt skiptið læsti mamma mig úti því ég kom of seint í kvöldmatinn. Ég hafði verið inni hjá stelpum sem áttu afar skemmtilega mömmu, sem fór í ýmsa leiki við okkur. Sat ég lengi á tröppunum við  húsið okkar og  íhugaði að strjúka að heiman, en gat svo ekki ákveðið hvert ég ætti að fara! Þetta var uppeldi mömmu – alltaf að vera stundvís.

Meira um „uppeldi“  kemur upp í hugann. Þá var ég kannski fimm ára og send niður í Silla & Valda á horni Vestur- og Ægisgötu. Stórt horn hafði brotnað af glerplötu á búðarborðinu. Þar undir var hrúga af karamellum. Meðan búðarmaðurinn fann til hlutina sem ég átti að kaupa læddi ég mér í eina karamellu. Ekki þorði ég víst að borða hana, því þegar heim kom sá mamma að ég var með karamellu í hendinni. Og það var ekkert “elsku mamma“ hjá henni – ég skyldi fara til baka og segja að ég hefði tekið karamelluna. Það var erfitt. Búðarmaðurinn varð svo hissa, að hann sagði ekki einu sinni „takk“! Þetta var líka uppeldi – alltaf skilyrðislaus heiðarleiki.

Þriðja uppeldislærdóminn fékk ég þegar ég ætlaði í skólann og fann hvergi skólatöskuna mína. Ég neitaði að fara í skólann, en ekki  var hlustað á það. Þetta var svo mikil skömm að koma bókalaus í skólann og ég fékk að heyra það. Enda reyni ég enn þann dag í dag - að hafa hvern hlut á sínum stað!

Jól

Jólin voru mikið tilhlökkunarefni, hefðbundin og vanaföst. Allir skyldu þvegnir og  greiddir og komnir í sparifötin kl. 18.oo. Þá hófst erfiðasti klukkutími ársins, frá kl.18.-19.oo, þegar við systur þurftum að sitja stilltar meðan messan í útvarpinu stóð yfir þar til borðað var kl. 19.oo. Engin jólagjöf var tekin upp fyrr en eftir mat. Jólamaturinn var alltaf spikdregnar rjúpur og möndlugrjónagrautur og hangikjöt með ís eða karamellubúðing. Þess vegna var ég undrandi þegar maðurinn minn hafði aldrei bragðað rjúpur á fyrstu jólunum okkar. Jólatréð var það sama öll árin, lítið gervijólatré, kannski 60 cm á hæð, með lifandi kertum, enda voru greinarnar orðnar ansi sviðnar undir lokin. Pabbi skreytti jólatréð þegar hann var heima, annars mamma og fengum við ekki að sjá það fyrr en kl.18 .oo á aðfangadagskvöld.  Mamma var ekki hrifin af jólaskrauti, svo þar til við stálpuðumst aðeins og bjuggum sjálfar til „músastiga“ þá var ekkert skreytt hjá okkur á jólunum, en heimilið aftur á móti hvítskrúbbað. Og nú brá svo við, að ljós áttu að loga alls staðar í íbúðinni, öfugt við alla daga þegar ljósin átti að spara. Þetta held ég að hafi verið áhrif  frá æsku mömmu, en þá var gert var jóla- og hátíðlegt með því að lýsa upp í dimmu bæjunum. Okkur systrum fannst ekki mikilvægt að fá ný jólaföt, en alveg bráðnauðsynlegt að sofna í nýjum náttfötum á aðfangadagskvöld.  Aðrir íbúar hússins fóru til messu á aðfangadagskvöld kl.18.oo, en við fórum á jóladag.

Afþreying

Tvö hljóðfæri voru í húsinu, orgel á efstu hæð og píanó hjá okkur, sem við systurnar lærðum á hjá nemanda í Tónlistarskólanum. Það var Jón Ásgeirsson, síðar tónskáld og kom hann heim til að kenna  okkur. Hálfbróðir hans, Grettir, var mágur mömmu. Við systur höfðum enga sérstaka hæfileika, ég vildi bara spila eftir eyranu og einn daginn var píanóið horfið, mamma hafði selt það. Afi spilaði stundum fyrir okkur  létta, skemmtilega dansmúsik á píanó, en það var ekki  oft.

Fátítt var að fólk ætti bíla, en Gumundur Albertsson á efstu hæðinni átti lítinn grænan sendibíl og stundum keyrði hann okkur, börnin í húsinu, um leið og hann fór í vinnuna, upp í Ártúnsbrekku (sem okkur þótti vera langt fyrir utan bæinn!) og  þar renndum okkur á sleðum og skíðum allan daginn, þar til hann sótti okkur aftur eftir vinnu.

Þá koma mér snjósokkarnir okkar í hug. Það voru sokkar úr mjög grófu bandi, sem náðu upp fyrir hné og hafðir til verndar utan yfir skófatnað. Þeir voru eingöngu notaðir þegar við lékum okkur úti í mjög miklum eða djúpum snjó.Ég held að þeir hafi ekki verið algengir.

Líka kom fyrir að ekið var á vörubíl Björns í kjallaranum suður í Hafnarfjarðarhraun í sólbað.  Þá stóðu allir, börn og fullorðnir, uppi á pallinum og héldu sér í stöngina aftan við húsið á bílnum. Þá voru engar öryggisreglur og öryggisbelti í bílum óþekkt. Ég á skemmtilega mynd þar sem sumir íbúar Ránargötu 14 og 13 liggja í sólbaði, konurnar í undirkjólum og karlarnir í síðum nærbuxum! Ein frænkan átti sumarbústað í Flekkuvík, sunnan við Hafnarfjörð.  Þangað var farið í berjamó. En konurnar áttu það til að hætta í miðri berjatínslunni, taka upp spil og fara að spila þarna í móunum!  Guðmundur og Jónína áttu sumarbústað  á jörðinni  Prestshúsum á Kjalarnesi. Guðmundur keyrði daglega á milli og  af elskulegheitum sínum fengum við systur sem unglingar stundum að fljóta með Merkilegt hvað svo lítill bústaður rúmaði af fólki. Þar var í minningunni tóm gleði, sólskin og blíða,  gersemaleit í fjörunni  og busl í sjónum.

Notkun áfengis var svo til óþekkt í húsinu. Í fyrsta skipti sem veitt var áfengi á okkar heimili var í stórafmæli afa sr. Jóns. Við systurnar gengum þar um beina. Það var „opið hús“ og gestir að koma allan daginn. Fjöldi presta kom og líka Ásgeir Ásgeirsson (forseti), sem var kunningi afa.  Mér fannst afi og mamma þekkja alla presta landsins. Þeir voru nú ekki fleiri en svo í þá daga og enginn kvenprestsur!

Aftur á móti kom fyrir að pabbi, sem vann þá sem verkstjóri við björgun sokkinna skipa og flugvéla  hjá “hernum“  á stríðsárunum, kom slompaður heim einhverja  föstudaga, því þá var veitt áfengi á skrifstofu hersins. Það líkaði mömmu hreint ekki og held ég að hann hafi lofað í hvert skipti að þetta kæmi ekki fyrir aftur! Jú, annars, nú man ég að afi átti alltaf púrtvín í herberginu sínu. Matthías Einarsson, læknir á Landakoti (sem var mágur afa), hafði fyrir sið að koma við hjá afa eftir „stofugang“ á morgnana á spítalanum og fengu þeir sér þá glas af púrtvíni.

 

Barnaskólaárin.

Við systur vorum sendar 6 ára í „tímakennslu“ hjá Guðríði á Bakkastígnum, en í barnaskóla byrjaðu börn 7 ára. Hún kenndi með því að láta okkur búa til bókstafi með fiskkvörnum. Ég var seinlæs, veit núna að ég hef verið lesblind, sennilega líka mamma og  vissulega dóttir mín, Helga Rún Pálsdóttir, sem er 51 árs í dag. Þá var vandamálið óþekkt og Helga Rún var þess vegna send til skólasálfræðings. Hann greindi hana ágætlega gefna og með viljakraftinum tók hún stúdentspróf, Iðnskólapróf og háskólapróf í Englandi auk náms í Danmörku.  Þegar ég var í tímakennslunni fóru loftvarnarflauturnar stundum í gang vegna mögulegra loftárása þýskra flugvéla og voru þá allir krakkarnir drifnir niður í kjallara. Það var nú ekki leiðinlegt.

Árin í Miðbæjarbarnaskóla liðu ljúflega og við systur vorum allaf vissar um að kennararnir héldu mest upp á okkur! Okkur gekk vel og kennararnir voru mátulega strangir, en væri svo ekki, þá lærðu krakkarnir  bara betur. Við „stelpurnar“ í 11 ára E  (sem nú 79 ára) hittumst enn tvisvar á ári. Skemmtilegast fannst mér í teiknitímunum hjá Unni Briem, en verst fannst mér að vera send til skólatannlæknisins, en það var hún Tyra tönn (Tyra Loftsson), sem allir voru hræddir við. Enn man ég vísuna sem hún þuldi meðan hún skoðaði tennurnar í mér: Þuríður, Þuríður, Þuríður mín, - þykkt er á þér eyra, - þótt ég kalli þrátt til þín, - þú kannt ekki að heyra. Sagði móður sína líka hafa heitið Þuríði. Krökkunum var á þessum tíma gefið lýsi í skólanum og þá gekk kennarinn eða einhver krakkinn röðina og hellti upp í munninn á okkur úr lýsiskönnunni. Ógeðslegt - þegar það fór út fyrir. Kæmi maður með vottorð um að við tækjum lýsi heima, var hægt að sleppa. Þannig slapp ég einn vetur við leikfimi vegna læknisvottorðs um að ég væri með liðagigt. Eftir leikfimitíma skrúfaði Baldur leikfimikennari sjálfur frá krönunum og sá um að stelpurnar færu í sturtu. Það þætti ekki við hæfi dag. Svo vorum við í ljósatímum í barnaskólanum og lyktin var skrítin. „Ljósakonan“ lét okkur stelpurnar standa naktar í hring framan við ljósalampana. Þetta átti að vera heilsubætandi, þótt ég viti ekkert hvernig við vorum valdar.

Foreldrar okkar aðstoðuðu okkur aldrei við heimalærdóm,  sem mér finnst nú, eftir á, afar undarlegt. Nema að mamma hlýddi okkur yfir kvæði og utanbókarlærdóm.  En afi, sem var mikill málamaður og kunni fimm tungumál, hjálpaði mér við dönsku, ensku og þýsku, svo ég þurfti aldrei að glósa. Svo kom fyrir að Jón Halldórsson, afinn í kjallaranum, aðstoðaði mig við erfið stærðfræðidæmi. Annars björguðum við okkur sjálfar.

Kynfræðsla í efri bekkjum var að svo að segja engin,  kennarinn sagði einfaldlega: Lesið þessar tilteknu blaðsíður heima (þar sem var mynd af þverskurði líkama konu og karls) og síðan var aldrei farið yfir það meira. Aldrei vorum við systur fræddar neitt heima um kynlíf, ekki einu sinni búnar undir blæðingar. En í sveitinni (6 til 12 ára) komst ég í bókina Hjónalíf og það var mikil opinberum. Að vísu var strákur á sama bæ búinn að uppfræða mig, þar sem við sátum einu sinni uppi á hrútakofa. Ég var þá 7 ára. En síðar við lestur bókarinnar sá ég að það var eintómt bull hjá honum.

Þá dettur mér í hug fræðsla minna barna um það efni! Eitt sinn við morgunverðarborðið, þegar þau voru 8, 10 og 12 ára, ætlaði faðir þeirra aldeilis að sinna uppeldisskyldu sinni og  byrjaði að fræða þau um kynlíf. En þá sögðu þau: Góði pabbi, við vitum miklu meira um þetta en þú! Þessi kynslóð átti auðveldara með að afla sér upplýsinga en foreldrar þeirra á sínum tíma.

Ég varð aldrei vör við einelti í barnaskólanum (sem þá var reyndar kallað að taka einhvern fyrir).  Samt var einn strákur, hann Teddi, sem elti mig oft á heimleið, hrinti mér í drullupolla og velti mér. Ég fékk bágt fyrir heima en aldrei gerði mamma neitt í málinu. Ég kynntist honum svo fullorðnum og þá sagði hann:  Æ, ég var bara skotinn í þér! Svo voru líka til góðir strákar. Á þessum tíma voru mikil snjóaár. Eitt sinn var ég á leið í skólann, snjórinn upp á læri og ég gat ekki séð hvar tjörnin tók við af bakkanum. Var ég í miklu basli þarna við tjörnina þegar strákur kom, aðeins eldri en ég og bjargaði mér yfir í Miðbæjarskólann. Þessi reyndist síðar vera leikhússtjórinn Sveinn Einarson. Ég hugsa alltaf  hlýlega til hans síðan!

Eins og ég sagði, voru oft miklir snjóar og vond veður á barnaskólaárunum. Einn dag var vinkona og bekkjarsystir Helgu systur, hún Sigurbjörg  á Ránargötu 13, send í síðbuxum í skólann vegna veðurs. Þær höfðu strangan kennara, hana Oddnýju og sú var ekki ánægð. Hún lét hana klæða sig úr síðbuxunum og vera á nærbuxunum inni í bekknum þann daginn.  Nærri liggur að maður reiðist við tilhugsunina um þetta. En svona var tíðarandinn. Það þótti ekki viðeigandi að stúlkur klæddust  síðbuxum.

Sumarstörf

Sex sumur vorum við systurnar sendar í sveit eða frá 6 til 12 ára. Á stríðsárum var var talið æskilegt að senda börn til sumardvalar í sveit vegna stríðshættu. Það varð mjög almennt, borgarbörnin væru send til skyldra sem óskyldra og kynntust þá sveitalífinu. Eftir það unnum við systur ýmislegt á sumrin, pössuðum börn jafnframt  því að bera út Moggann. Við bárum út á Vesturgötu, Ránargötu, Bárugötu, Öldugötu, Stýrimannastíg og Garðarsstræti. Við höfðum fengið vekjaraklukkur í afmælisgjöf þegar við vorum 10 og 11 ára og eftir það var á okkar ábyrgð að vakna á réttum tíma.Það var mjög leiðinlegt að rukka, því sumir létu okkur koma aftur og aftur. Einn maður gaf okkur 2 kr. sem okkur fannst  ótrúleg rausn. Barnapössunin var ekki mitt uppáhald, þótt strákarnir sem ég passaði væru þægir og góðir. (Það voru Þorsteinn Bergmann, fjölskylda hans átti Verslun Þorsteins Bergmann á Skólalvörðustíg  og Stefán og Guðmundur Benediktssynir, synir Fanneyjar og Benedikts Sigurjónssonar, hrl.

Þegar ég passaði fyrir Fanneyju hjálpaði ég stundum til í eldhúsinu og þá sagði Fanney iðulega: Ja, sá verður nú ekki svikinn sem nær í þig! Mér þótti hrósið ágætt og þetta var víst málið í þá daga – að verða nógu myndarleg fyrir eiginmanninn!

Svo fengum við systurnar vinnu í „fiski“ fyrir atbeina kunningja mömmu við að pakka karfa o.fl. Það var skemmtilegur tími, þótt karlarnir viðhefðu verra orðbragð en við þekktum. Meðan við pökkuðum endursagði ég bækur sem ég var að lesa, svo sem Jane Eyre og það var vinsælt og stytti okkur stundir. Eitt sumarið fékk ég vinnu  á saumastofunni Feldinum sem snúningastelpa og var líka látin stytta kápufalda. Þar var Unnur Eiríksdóttir, feldskeri yfir, kunningjakona mömmu og að lokum vann ég eitt sumar í Náttúrulækningabúðinni á Týsgötu.

Þar kom eitt sinn í búðina eldri maður og spurði mig að nafni. Þá sagði hann: Ekki var  hún Þuríður Filippusdóttur þó amma þín? Það passaði. Og þá byrjaði hann að hrósa  henni og dásama, hún hefði verið yndislegasta, fallegasta og besti kvenkostur á Suðurlandi á sínum tíma.  Ég sagði frá þessu heima, en þá brá svo við að afi ætlaði hreint að sleppa sér og úthúðaði aumingja manninum.  Hann hafði sem sé verið meðbiðill hans! Mér finnst þetta enn fyndið, enda segir máltækið  að „lengi lifi í gömlum glæðum.“

Á Ránargötu 15 var matvöruverslun Ólafs Gunnlaugssonar (verslun  Óla Gull, eins og hún var kölluð). Þar vann ég sem 15 ára við afgreiðslu ásamt Óla sjálfum. Þá voru plastpokar ekki komnir til  sögunnar, en sykur, hveiti og slíkt var vigtað í bréfpokum og sælgæti sett í pappírkramarhorn. Reyndar sinnti ég  ekki aðeins afgreiðslu, því ég skúraði, sentist og pantaði inn vörur í fjarveru Óla, en hann var “túramaður“ sem allir vissu. Setti hann mér reglur um hvað ég ætti að gera þegar hann væri „fjarverandi“. Ég mátti ekki afhenda konu hans og dóttur peninga, hvað sem á  gengi og jafnvel þótt hann fyrirskipaði  svo sjálfur. Hann var fráskilinn og var það „viss – pass“, að þær mættu í þeim erindagjörðum þegar þær vissu að hann var á kendiríi. Málið var, að Ólafur virtist  eins og tvær persónur, drukkinn og allsgáður. Drukkinn var hann jafn gjafmildur og hann  var sparsamur og samansaumaður etrú! Þetta var stundum erfitt  fyrir 15 ára stúlku og mikil ábyrgð að sjá ein um verslun, þótt ekki þyrfti líka að koma kaupmanninum drukknum upp í íbúð sína á efri hæð, þegar hann mætti á náttfötunum niður í búð. Enda man ég að áhyggjurnar voru svo yfirþyrmandi, að stundum klæddi ég mig upp úr rúminu á kvöldin til að fara út  og  athuga hvort ég  hefði ekki örugglega læst búðinni. Segi ég sjálf að síðan  hafi ég ekki náð mér af sjúklegri samviskusemi!

Daganna amstur .

Í sama húsi og matvöruverslunin á Ránargötu 15 var líka fiskbúð og mjólkurbúð.

Mjólkinni var ausið með skaftlöngum ausum upp úr stórum mjólkurbrúsum í litla mjólkurbúsa sem fólk kom með og rjómanum í rjómakönnur. Þykku skyrinu var pakkað í smjörpappír. Í bakaríum var aðeins  til þrenns konar brauð, fransbrauð, rúgbrauð og  normalbrauð. Vinsælt var hjá okkur krökkunum að sníkja „vínarbrauðsenda“, afskorninga af vínarbrauðslengjunum.

Við keyptum fiskinn í Fiskhöllinni í Tryggvagötu og sóttum líka humar, hrogn og lifur og kúttmaga niður í Verbúðirnar hjá Ægisgarði. Svo kom stundum karl á Ránargötuna með hjólbörur fullar af fiski (og rauðmaga) og seldi. Líka kom annar vinsæll með hestvagn og seldi nokkrar tegundir af kexi, - „röfli“, matarkexi og kremkexi.

Ámorgnana versluðu konurnar í götunni í framangreindum búðum og þá komu margar þeirra við hjá okkur á Ránargötu 14 og fengu sér kaffi og sígarettur í eldhúsinu hjá mömmu. Þá voru málin rædd og þess vegna vissu líka allir allt um alla.

Reykingar voru almennar á stríðsárunum, Players, Lucky strike, Commander, tyrkneskar o.fl. Báðir foreldrar mínir reyktu frá því að  ég man eftir. Þegar gert var hreint á heimilinu fyrir jólin og á vorin, sá maður að gul slikja þakti loftið í eldhúsinu og borðstofunni vegna sígaréttureyksins. Þótt mamma gerði oftast hreint sjálf, fékk  hún stundum, eftir að hún varð heilsulítil, hreingerningarkonu, hana Fríðu (Hólmfríði Jóhannesdóttur). Sú reykti nú mikið, því fingurnir voru heiðgulir, sérstaklega vísifingur og langatöng, þrátt fyrir vatnssullið í hreingerningunum.  Algengt var að sjá fólk með heiðgula fingur af sígarettureyk.

Já, allir vissu allt um alla, eins og ég sagði. Þegar Dollý á nr. 7 gat ekki komið með okkur í sunnudagaskólann, þá frétti öll gatan það, að hún hefði fengið lús. En þá var hárið makað upp úr grásalva. En ég hef aðeins einu sinni á ævinni séð lifandi lús. Svo kom fyrir að krakkar fengu njálg, sem lýsti sér með kláða í endaþarmi. Kannski  voru ekki til meðul við honum, því það var læknað með lauk, - börnin látin borða lauk og litlum laukbita stungið í endaþarminn.

Ekki þekktist notkun eiturlyfja á þessum tíma, a.m.k. höfðum við aldrei heyrt um slíka sjúklinga. Aftur á móti var þó nokkuð um róna í bænum. Við systur gengum fram hjá Ingólfsapóteki á leiðinni úr skólanum og iðulega stóðu þar nokkir vesalingar. Vorum við oft beðnar að skreppa inn og kaupa fyrir þá spritt. En þegar þangað kom sögðu stúlkurnar: Er það fyrir þennan mann þarna úti? Við urðum að játa því og fengum því aldrei sprittið. Smá saman lærðum við á hlutina og hættum að reyna að kaupa spritt!

Þegar við systur voru í sveit 1942-1948 var alsiða að fólk, kunnugt og ókunnugt, heilsaðist og kvaddist með kossi á munninn. Það fannst mér ógeðfellt. Eitthvað var um það  líka í Reykjavík, en ekki eins algengt. Svo lagðist þessi siður smám saman af og er óþekktur í dag. Nú tíðkast kossar á kinn og er að verða algengara að kysst sé á báðar kinnar, en þá er fólk stundum í vafa hvora kinnina það ætlar fyrst að kyssa og rekst svo saman!

Mamma var í kvenfélaginu Hringurinn (félagi eiginkvenna skipstjóra og stýrimanna) og stundum fór fólkið í húsinu á átthagamót, svo sem Breiðfirðingamót eða samkomur Snæfellinga. Mamma og pabbi fóru oft í kvöldgöngur (fóru út að spássera) um hverfið. Þau fóru aldrei í bíó, en afi fór stundum með Jóni í Mörk, vini sínum  eða okkur systrum í bíó, - dans- og söngvamyndir voru algengastar. Aftur á móti fóru pabbi og mamma gjarnan í leikhús og höfðu sérstaklega gaman af Revíum. Við systurnar fengum  að fara með í leikhús og á Revíur. Fólk lærði gamanvísurnar sem og við krakkarnir og enn kann ég eldgamlar gamanvísur. Við krakkarnir fórum í 3-bíó og minnir mig  að miðinn í „almenn sæti“ hafi kostað eina krónu. Strákarnir skiptust þar á hasarblöðum og stelpurnar leikarablöðum. Það var líka gert meðan við vorum að bíða eftir dagblöðunum  sem við bárum út eða vorum að selja.

Afi var mjög nýjungagjarn og fylgdist vel með. Einu sinni var auglýst skemmtun í Austurbæjarbíói og langaði afa að fara þangað til að  sjá „þetta jitterbug“. Við Helga systir fórum með honum. En hann varð hreint ekki hrifinn. Þetta væri ekki hægt að kalla dans! Sjálfur var hann góður dansmaður og er enn til danskort  úr eigu hans sem notað var í hans  umdæmi á dansleikjum í Reykjavík. Þar voru skrifuð nöfnin á dömunum sem höfðu tekið frá  ákveðna dansa fyrir hann. Í fermingarveislu okkar systra 1950 dansaði hann við mig og dansaði þá eftirminnilega vel. Ég heyrði á foreldrum mínum að þeim hefði þótt afskaplega gaman að dansa áður fyrr. Pabbi sagði að á böllunum í sveitinni hefði verið dansað alveg til morguns þegar þurfti að fara í fjósið.

Við systur og að ég held flestir jafnaldrar okkar,  vorum í dansnámi hjá Rigmor Hansen í Góðtemplarahúsinu. Danskunnáttan var mikilvæg, enda bjargað hún mörgum unglingnum frá feimninni þegar út í skemmtanalífið kom. Fullorðin var ég í spænskutímum hjá Rigmor og verð að segja, að hún var einhver besti kennari, sem ég hef haft. Hún hrósaði nefnilega öllum svo mikið að þeir urðu svo ánægðir með sjálfa sig í náminu! Rigmor var einstök tungumálakona.

Áður en sjónvarpið kom til sögunnar var aðaldægradvöl á heimilum  að spila á spil, líkt og  gert var í okkar húsi, bæði börn og fullorðnir. Foreldrar mínir voru glúrnir spilamenn, fóru oft á „spilakvöld“ og komu iðulega með litla verðlaunagripi.  Stundum voru haldin fjölmenn spilakvöld fullorðinna til skiptis á  heimilum frændfólksins og þá var spiluð félagsvist á sex borðum og bæði höfð aðalverðlaun og skammarverðlaun.   Allir skemmtu sér fádæma vel og svo var gert hlé til kaffidrykkkju. Man ég að einn eldri frændinn var svo tapsár, að menn reyndu að komast  hjá því að spila við hann til að fá ekki skammir. Þá pössuðum við stelpurnar í húsinu minni  börnin til  að foreldrarnir gætu spilað í friði. Bridge var líka mikið spilað heima, kunningjakonur mömmu komu stundum að degi til og vinafólk pabba að vestan að kvöldi til. Þegar síðarnefnda fólkið kom í heimsókn lá ég oft á hleri, því þá voru sagðar svo skemmtilegar sögur af dularfullum atburðum og draugum. Ég varð þá svo myrkfælin að ég þurfti að fá fylgd krakkanna á efri hæðinni upp í myrkrið á háaloftinu, þangað sem ég var send eftir kökum. Stundum fóru fullorðnir og börn í leiki saman. Til dæmis voru leiknir bókartitlar með látbragðsleik.

Pólitík var oft rædd og var fólkið mitt Sjálfstæðisfólk. Afi var sérstaklega  heitur Sjálfstæðismaður og er mér minnisstætt, að einu sinni rakst hann á eintak af Þjóðviljanum á heimilinu. Þá stillti minn maður sér upp og benti á dagblaðið og sagði: „Annað hvort fer þetta út af heimilinueða ég!“ Og það var ekki grín hjá  honum. Kosningadagur var alltaf hátíðisdagur. Fólk klæddi sig uppá, fór í sparifötin og mikilvægt var að fara snemma að kjósa. Ekki veit ég hvers vegna það var.

Stundum fóru íbúarnir í húsinu okkar á skyggnilýsingar og miðilsfundi. Jafnvel afi fór með, þótt amma heitin hafði verið mjög  á móti slíku. Sennilega var það mest af forvitni og þeim fannst  margt óskýranlegt gerast þar. Ég fór einu sinni sem unglingur með til Hafsteins miðils, fannst lítið til koma og varð fyrir vonbrigðum.

En þegar ég var á þrítugsaldri var það eitt sinn, að samstarfsstúlkur mínar á skrifstofunni buðu mér að koma með á miðilsfund, þar sem ein hafði forfallast. Ég fór, varð lítið hrifin – því allir þekkja nú einhverjar Guðrúnar eða  Jóna sem hafa dáið. En í lokin fer miðillinn allt í einu að raula lag sem ég syng alltaf þegar ég er ein á ferð í bílnum mínum og segir við mig: Hér er mjög föðurlegur maður sem spyr: Varstu að fá þér nýjan ísskáp? Ég varð alveg steinhissa, því  það síðasta sem ég hafði gerti áður en ég fór á miðilsfundinn var að ýta nýjum ísskáp inn í hólfið á eldhúsinnréttingunni! Þetta var ofar mínum skilningi.

Ég hef aðeins tvisvar upplifað „yfirnáttúruleg“ atvik. Hitt var þegar systurdóttir mín kom með unga dóttur sína, rétt byrjaða að tala og sem ekki hafði áður komið í húsið til mín. Strax og telpan kemur inn bendir hún á tröppu í stiganum og segir: Kis-kis, kis-kis. Tekur svo strikið upp á loft og inn í svefnherbergi og kíkir undir hjónarúmið.Mér fannst þetta óþægilegt, því við höfðum sem sé átt kött, sem nýbúið var að lóga. Hann var vanur að liggja í tröppunni sem telpan benti á, þegar  hann beið þess að við kæmum heim. Honum var illa við krakka og var vanur að flýja upp í svefnherbergi og undir rúm þegar börn komu í heimsókn. Og ég hafði ekki áður heyrt um framliðin dýr!

Líkt og konurnar á Ránargötu 14 voru flestar konur þessum  tíma heimavinnandi, nema ekkjur og einhleypar konur. Margar giftar konur reyndu þó að auka tekjur heimilisins með ýmsu heimagerðu. Ein bjó til brúður af ýmsu tagi, önnur bakaði smákökur, þriðja stundaði hreingerningar og eldri móðursystir mín sem bjó í Sogamýrin og var með hænsni, seldi egg og kom með þau í bréfpokum í strætó til okkar vestur í bæ. Svo höfðu aðrar tekjur af hárgreiðslu, lögðu og settu permanent í hár heima hjá sér. Sumar konur áttu prjónavélar og prjónuðu auk annars ullarnærföt  á börn. Ein frænka fór til Englands, lærði útsaum í vél og skreytti kjóla fyrir fólk. Vinkona foreldra minna saumaði út dúka o.fl. og „setti upp“ púða fyrir fólk. Kunningjakona okkar í næstu götu var með nokkra karlmenn sem kostgangara og engin gat verið án saumakvennanna og svo mætti lengi  telja. Þessar konur voru ýmist ólærðar eða lærðar í sínum fögum.

 Ég kom stundum til mæðgnanna Ingibjargar Þorsteinsdóttur  og Ásu dóttur hennar, sem voru í vinfengi við mömmu. Þær bjuggu í  hálfu húsi á horni Ránargötu og Stýrimannastígs. Ása var ógift, vann í Sjúkrasamlaginu, en öldruð móðir hennar var heima allan daginn. Hún var „kölkuð“ sem kallað var. Fólk þekkti þá ekki  orðið Alzheimer. Þegar ég vann í búðinni hjá Óla Gull kom hún nokkrum sinnum á dag með miða, skrifaðan af dóttur hennar, yfir það sem hún átti að kaupa. Ég sagði henni þá að hún væri þegar búin að kaupa þetta. Hún kom samt aftur og aftur, blessunin.

Líkt  og orðið Alzheimer eru nú notuð ýmis orð sem ekki þekktust þá. Til dæmis var orðið þroskaheftur ekki notað, en aftur á móti var orðið „aumingi“ notað í jákvæðri merkingu um þroskahefta, mongóla og vangefna einstaklinga, því þeir “áttu bágt“, var vorkennt  og meiningin orðsins var „aumingja þeir að eiga bágt.“ Þannig skildi ég það. Líka notaði enginn orðið samkynhneigður heldur eingöngu „kynvillingur“. Þannig var það. Ég þekkti engan „kynvilling“, en maðurinn minn, sem var daglegur gestur í Sundlaugunum þar sem faðir hans var sundkennari, segist hafa sem strákur verið varaður við vissum „kynvillingum“, sem eltust við þá og stóð strákunum stuggur af þeim.

Aldrei varð ég fyrir áreitni, utan tvisvar sem unglingur. Annað skiptið fór ég með hlut viðgerð í Vesturbænum,  þar sem einn sérfræðingur var með verkstæði. Hann læsti hurðinni og gerði sig líklegan til að króa mig af í horni, en ég slapp. Ekki þorði ég að segja frá þessu heima og svo átti ég að sækja hlutinn aftur úr viðgerð, sem var ekki góð tilhugsun. Fékk að lokum aðra stelpu með mér. Annað skiptið réðst ókunnur maður aftan að mér þegar ég var á heimleið að kvöldi til og reyndi að ýta mér inn í húsagarð. Ég  fékk einhverja aukakrafta af hræðslu og man að ég æpti þegar ég hljóp sem fætur toguðu í burtu: Mannskratti – farðu til sálfræðings! Og ekki veit ég af hverju ég notaði þetta orðbragð, því það var okkur ekki tamt, aldrei nokkurn tíma var bölvað á heimilinu og aldrei heyrði ég pabba blóta, þótt hann væri nú sjómaður.

Nafngiftavenjur.

Svo sem algengast var hér áður fyrr var ég skírð í höfuðið á afa og ömmu, Þuríður Jóna. En allar þrjár dætur afa og ömmu  skírðu dætur sínar Þuríðar eftir ömmu. Helga systir var skírð í  höfuðið á föðurömmu okkar. Afi og amma skírðu sínar þrjár dætur eftir foreldrum sínum. Svo fór þetta að breytast með minni kynslóð, þótt heilmikið eimdi enn eftir af þessum sið og voru því mínir synir skírðir eftir afa þeirra og ömmu, Ólafur (Steinn) og Matthías (Geir), þótt við bættum öðrum nöfnum aftan við, en dóttirin var skírð eftir bæði móður- og föðursystur  hennar,  Helga (Rún), því mér fannst nöfnin á ömmunum  ómöguleg, - Matthea og Jústa. Annar siður (eða regla) virðist vera horfinn. Það er niðurfelling ættarnafna kvenna við giftingu. Dætur afa, sr. Jóns Johannessen, þær Filippa, Matthea og Guðrún, voru allar Johannessen þar til þær giftu sig. Eftir það nefndust  þær sig Jónsdætur.

Kona sem systir mín þekkir, Guðrún, til átti níu börn. Átta þeirra skírðu eftir ömmunni. En þegar níunda barn hennar gerði það ekki, þá stórmóðgaðist amman! Þetta virðist hafa verið fólkinu afar mikilvægt og því miður var algengt að afar og ömmur héldu mest upp á barnabörnin sem hétu eftir þeim. Nágrannakona okkar átti að barnabörnum dreng og stúlku og var stúlkan skírð eftir  ömmu sinni. Hvert sinn sem amman kom í heimsókn færði hún nöfnu sinni einhvern glaðning, en aldrei drengnum.  Ég veit mörg dæmi um að afar og ömmur gerðu þannig upp á milli barnabarna. Nú er öldin önnur og unga kynslóðin skírir ekki svo mikið eftir foreldrum sínum, sem mér finnst í lagi, en aftur á móti eru komin alls kyns furðunöfn í tísku og undrar mig mjög frjálslyndi Mannanafnanefndar.

Fermingin

Þann 16. apríl 1950 vorum við systur fermdar í Dómkirkjunni af sr. Bjarna Jónssyni. Helga var ári yngri. Vildi mamma að ég biði eitt ár svo að við  gætum fermst saman. En ég neitaði, svo Helga var fermd ári á undan jafnöldrum sínum. Jón Grétar, sonur Guðmundur og Jónínu á efstu hæðinni, var jafngamall mér og fermist  um leið. Fermingarveisla okkar þriggja var sameiginleg. Samgangur  var það mikill að fjölskyldurnar þekktu flest skyldmenni hinna. Veislan var haldin í Aðalstræti 12, matur og dans með harmónikknuundirspili. Reikningurinn fyrir veisluna er enn í mínum fórum og þykir mér eftirtektarvert, að hluti kostnaðarins  var fyrir sígarettum handa gestum! Við systur fengum allar fermingargjafir þær sömu. Það var eftirfarandi:  Gullhringur, gullhálsmen með dýrum steini, tvö silfurhálsmen (annað gullhúðað), tvennir eyrnalokkar,  tveir hálsklútur,  svört handtaska, silfurskeið og -gaffal, ljóðabækur, pennasett, lampi og peningar. Helga fékk hjól, en ég fékk úr frá foreldrum okkar, þar sem ég átti fyrir hjól og Helga úr, sem við höfðum sjálfar keypt okkur. Fermingarkirtlar voru ekki komnir til sögunnar og mamma varð einhvern veginn að útvega hvíta síða fermingarkjóla eða efni í þá, sem og stutta eftirfermingarkjóla, skó og kápur. Veit ég ekki hvernig henni tókst það, því þá var vöruúrval afar lítið í búðunum og skömmtunarmiða þurfti fyrir álnavöru og skóm. En maður þekkti mann, hvítt krepefni var útvegað og skór fengnir að láni. Fermingarkjólarnir voru þannig saumaðir, að síðar yrði hægt  að nota efri hlutann sem blússu. Kjólarnir voru svo lánaðir öðrum og að lokum notuðum við sjálfar blússurnar.

Ef fréttist að von væri á ákveðinni vöru í verslun mynduðust langar biðraðir eftir götunum. Við Helga systir vorum iðulega sendar í slíkar biðraðir, sem mér þótti algjör pína. En þannig eignuðumst við bomsur, sem voru bráðnauðsynlegar í bleytu. Nokkrum árum seinna fann ég í geymslunni uppi á háaloftinu nokkrar hespur af rauðu ullargarni, sem aldrei hafði verið prjónað úr. Ég varð mjög sár – eins og ég hafði nú þurft að standa lengi í biðröð eftir þeim! Svona var hamstrið. Já og maðurinn minn sagði mér, að hann hefði mætt í biðröð klukkan fjögur að nóttu, þar sem von var á gaberdín-fötum hjá Últíma á Bergstaðastrætinu!

Annars átti fólk yfirleitt ekki meira en það allra nauðsynlegsta af fatnaði. Þegar ég fór 18 ára til Þýskalands átti ég tvenna skó, grófa gráa gönguskó og svarta rússskinsskó, spari. Tímarnir hafa sannarlega breyst.

Ferðalög

Fátítt var að fólk ferðaðist til útlanda á þessum árum. Mamma hafði farið með pabba á fyrstu hjúskaparárum þeirra með Snæfelli til Póllands o.fl. landa. Afi fór einu sinni til London sem ég man. En svo var það 1951, sumarið eftir 2. bekk í Kvennaskólanum, að við systurnar fengum að fara í Norðurlandaferð með  Heklunni ásamt  tveimur  öðrum stúlkum, vinkonu og skólasystur Helgu systur, Esther Kaldalóns og Valgerði vinkonu hennar. Við höfðum unnið okkur  inn fyrir ferðinni og báðum mömmu um leyfi. Hún samþykkti að tilskildu leyfi pabba, sem lá þá á spítala. Og hann veitti okkur fararleyfi, sem hún hafði alls ekki búist við. Þetta varð mikið ævintýri, þótt Helga systir yrði hræðilega sjóveik, enda vildu allir að hún prufaði „þeirra sjóveikitöflur“, sem ekki var til bóta. Í Danmörku heimsótti ég stúlku í Lyngby við Kaupmannahöfn, sem ég skrifaðist á við og svo fórum við í heimsókn á herragarðinn Rosendal á Sjálandi, þar sem bréfavinur Helgu átti heima og fengum frábærar móttökur. Þetta var afar sjaldgæft á þessum tíma að svo ungar stúlkur færu einar utan í lystiferð. Mér finnst sem ferðamöguleikar fólks nú til dags vera með meiriháttar breytingum á minni ævi, því sem fullorðin hef ég ferðast  til yfir 70 landa.

 

Kvennaskólanám 1950-1954

Við systur gengum báðar í Kvennaskólann í Reykjavík, sem þótti góður skóli og skólastýran, frk. Ragnheiður Jónsdóttir, valdi nemendur inn eftir einkunnum. Þá voru eingöngu stúlkur í skólanum, sem er öðruvísi en í dag þegar Kvennaskólinn er orðinn menntaskóli fyrir bæði kynin. Það var strangur agi í skólanum, en sjálfri fannst  mér ég ekki þurfa á meiri aga að halda, ég hafði nóg af honum heima. En mamma réði þessu og móðir hennar og hún sjálf höfðu báðar verið í Kvennaskólanum.

Mér þótti allt í skólanum gamaldags, húsgögnin áreiðanlega frá tímum mömmu og ömmu! Það var svo sem í stíl við andann þar og agann. Frk. Ragnheiður hlýtur að  hafa haft nef fyrir minni  „sjúklegu samviskusemi“, því ég var gerð að hringjara og síðar að Inspector Scholae. Hringjaraembættið var þannig, að mér var treyst til að hringja á réttum tíma inn og út í frímínútum, hlaupandi upp og niður þrjár hæðir, hristandi taktfast  stóra frumstæða handbjöllu. Aðeins einu sinni svaf ég næstum  yfir mig og það var mikil martröð ef næði ég ekki að hringja inn í fyrsta tímann. Ekki mátti spandera á leigubíl. En guð og lukkkan voru með mér því neðar á Ránargötunni var ungur maður, Pétur Yngvason, að leggja af stað í vinnuna á vörubílnum sínum og keyrði mig í einum grænum hvelli. Gott fólk á Ránargötunni!

Í skólanum á þessum tíma, 1950-1954, setti frk. Ragnheiður Jónsdóttir nemendum ýmsar reglur, sem ekki tíðkuðust í öðrum skólum, engin mátti nota varalit, mála sig eða nota naglalakk. Við máttum til að byrja með ekki ganga í síðbuxum, en annan veturinn gerði svo mikla snjóa að sú regla var afnumin. Líka var eins gott að frk. Ragnheiður frétti ekki af ósæmilegri hegðun okkar utan skóla. Því höfðum við gaman að því á árshátíðinnni í 4. bekk, að ein okkar, Halldóra Einarsdóttir, kom með herra með sér, amerískan hermann. Aðrir en við í bekknum vissu það ekki, enda var hann ljóshærður og íslendingslegur.  Dóra giftist honum síðar og fluttist til Bandaríkjanna.

Frk. Ragnheiður var fróður mannkynssögukennari, afar ströng, smámunasöm, sérvitur að því er mér fannst, sparsöm og forðaðist óþarfa eyðslusemi. Hún var alltaf réttlát þegar á reyndi. Frk. Ragnheiður var svolítið snobbuð. Að minnsta kosti gerði hún sjaldgæfar  undantekningar þegar hún tók í skólann ráðherradætur  með lélegar einkunnir. En á lokaprófi  var engin miskunn og þær felldar, ef svo bar  undir. Hún var ógift og var efnuð, því auk húseigna í Reykjavík átti hún fjölda jarða í Rangárvallasýslu. Ragnheiður var falleg, hvíthærð, eldri kona, sem bar sig vel og hefur áreiðanlega verið glæsileg á yngri árum. Ég hafði gaman að sögu sem mamma sagði mér um hagsýni hennar, hafða eftir afgreiðslumanninum í Liverpool í Hafnarstræti á þeim tíma. Ungur maður kom dag einn í verslunina og keypti stærsta konfektkassa sem fékkst. Vissi afgreiðslumaðurinn síðan ekki meira um það fyrr en daginn eftir, að frk. Ragnheiður kom og fékk konfektkassanum skipt fyrir  þvottaefni!

Við kvennaskólann störfuðu margir góðir kennnarar og kennslan var fjölbreytt og framúrskarandi; danska, enska, þýska og sænska, íslenska, skrift, stærðfræði,bókfærsla, eðlisfræði, mannkynssaga, náttúrufræði, þjóðfræði, félagsfræði, sálfræði, heilsufræði, uppeldisfræði, hjúkrun, vélritun sem og teikning, handavinna, fatasaumur og útsaumur, matreiðsla, söngur og leikfimi. Á þessum tíma voru kennararnir þéraðir með þeirri undantekningu að við vorum dús við Þorvarð Örnólfsson, stærðfræðikennara, sem var léttur í lund og vinsæll. En hann var síður laginn við að kenna tregari nemendum en þeim betri. Hann var heilsuveill og fengum við stundum staðgengla. Eitt sinn var hjá okkur háskólanemi, sem við kölluðum „Litla Rauð“, því hann var feiminn og roðnaði iðulega. Og allur bekkurinn var samtaka í ótuktarskap. Ein stelpan var elst í bekknum og sat á fremsta bekk. Hún var látin klæða sig úr og fara að  gera við brjósthaldarann sinn í tímanum hjá honum. Svo var honum bent á að hún væri tilvalið konuefni! Nefni ekki fleira. En mörgum árum síðar var ein okkar stödd í veislu og sat við hliðina á þessum manni og varð henni það á að nefna að hann hafi kennt okkar bekk. Minnstu ekki á þau helvíti, sagði aumingja maðurinn. Í dag skil ég að þetta var klára einelti. En svo höfðum við annan kennara, sem líka var mjög feiminn. Þá var sagan önnur. Það  var Jón Jónsson, fiskifræðingur,  sem kenndi náttúrufræði um tíma. Þá var bekkurinn sem sé samtaka um að létta honum kennsluna á alla lund og vorum hinnar ljúfustu! Eiginlega skil ég þetta ekki, það hlýtur að vera einhver sálfræðileg skýring á þessum mun. Hins vegar höfðum við kennara sem sjálfur sýndi af sér gróft einelti og var sannast sagna alveg hræðileg. Þetta var frú Hrefna Þorsteinsdóttir, dönskukennari. Hún var verst við þær bestgefnu, svo einkennilegt sem það var. Sú sem var með hæstar einkunnir í bekknum hætti í skólanum hennar vegna. Þótt frk. Ragnheiður reyndi á allan hátt að telja henni hughvarf, þá gekk það ekki. Einn tími hjá Hrefnu er okkur skólasystrum ógleymanlegur. Þá tók hún allan bekkinn upp í stafrófsröð, hellti sér yfir hverja og eina með hreinum svívirðingum, bæði vegna frammistöðu og persónulegum.  Að lokum var allur bekkurinn brostinn í grát, nema ég og Steinunn Stephensen. Við vorum svo stálheppnar að vera síðastar í stafrófinu og að tíminn bar búinn áður en hún náði til okkar! Mér hefur alltaf fundist það merkilegt afrek, að geta grætt heilan bekk. Hrefna var áreiðanlega slæm á taugum.  Hún hafði ung lent í umtöluðu bílslysi sem af hlaust bani, enda var Hrefna með áberandi ör niður frá gagnauga. En það má hún Hrefna samt eiga – og verður ekki af henni skafið, eins og þar stendur – að hún reyndist einni í bekknum ómetanleg hjálparhella  í erfiðleikum  hennar þegar hún varð ófrísk.

 Jón Aðalsteinn Jónsson var frábær íslenskukennari. Hann var í engum vafa um það, að Anna Jóna Ragnarsdóttir, heitin, talaði fegurstu og bestu íslenskuna, enda var hún úr Skaftafellssýslu eins og hann sjálfur! Gunnar (fíni, - okkar skilgreining) Finnbogason kenndi líka íslensku um tíma. Frú Þorbjörn Halldórs frá Höfnum kenndi ensku og gerði það vel og Vivian Svavarsson kenndi sænsku. Frú Samóme Nagel kenndi þýskuna og var einstaklega ljúfur kennari. Hún hafði búið í Þýskalandi  á stríðsárunum og lent í miklum hremmingum. Hún var systisr Jóns Leifs. Hún tók mig og Höllu Aðalsteinsdóttur, bekkjarsystur mína, í aukatíma áður en við héldum til Þýskalands á lýðháskóla 1954. Frú Nagel bjó með systur sinni í hornhúsi á mótum Bókhlöðustígs og Laufásvegar, þar sem þær voru með handavinnuverslun á neðri hæð.

Guðmundur I. Guðmundsson var skriftarkennari og þökk sé honum, þá höfum við skólasysturnar allar álíka snotra rithönd. Skriftarkennslu hefur farið aftur, það er mitt álit og merki af því sem ég hef séð af skrift ungmenna í dag. Barnabörnin mín skrifa einhvers konar bókstafaskrift og geta alls ekki lesið það sem þau kalla tengiskrift – þ.e. mína skrift.

Frú Sigríður Eiríksdóttir, hjúkrunarkona, kenndi heilsufræði og hjúkrun. Vigdís Finnbogadóttir, dóttir hennar, hefur  ekki erft  sjarma sinn og útgeislun frá henni.  Ása Jónsdóttir kenndi sálfræði og uppeldisfræði.  Sigurjón Kristinsson kenndi okkur bókfærslu. Hann var með frjálslyndari kennurum og fór með okkur í ævintýralegt skólaferðalag til Vestmannaeyja.

Dr. Sturla Friðriksson, plöntulíffræðingur, síðar Geir Gígja, grasafræðingur og Jón Jónsson, fiskifræðingur voru náttúrufræðikennarar. Sturla var nýkvæntur og kenndi í fyrsta tíma og þar sem ég var umsjónarmaður  bekkjarins varð ég iðulega að hringja heim til hans og vekja hann. Því slóum við saman, stelpurnar og keyptum handa honum vekjaraklukku! Barði Friðriksson kenndi þjóðfræði, virðulegur og skemmtilegur, gekk í „ jacket“ (nokkuð síður jakki og röndóttar buxur) og var oft svolítið kenndur. Frk. Ragnheiður vildi einhvern tíma vita hvort könnuðumst við það, en því neituðum við alfarið!

Vigdís Kristjánsdóttir, listmálari og myndvefari og Sigríður Björnsdóttir, listmálari, kenndu teikningu. Fatasaum kenndu Jórunn Þórðardóttir (háöldruð fannst okkur) og Sigríður Briem (síðar Scheving-Thorsteinsson). Útsaum kenndi Sigurlaug Einarsdóttir og síðar tóku systurnar Valborg og Anna Hallgrímsdætur við handavinnukennslunni. Unnur Bjarnadóttir var leikfimikennarinn og Ingólfur Guðbrandsson söngkennari.

Það var mikill léttir að hafa lokið náminu í kvennaskólanum og mega áhyggjulaust liggja og lesa skáldsögu, - með blóm og konfekt við hlið sér í tilefni útskriftarinnar. Dásamleg tilfinning!

Í  mínum árgangi voru tveir bekkir, C og Z. Við vorum 28  stúlkur í C-bekknum. Þótt ég hafi alla tíð kunnað að meta þá staðgóðu menntun, sem veitti okkur örugga atvinnumöguleika, hef ég ekki síður verið þakklát fyrir trygglyndi og vinskap bekkjarsystranna, sem haldist hefur í rúm 60 ár. Enn erum  við í saumaklúbbi, þótt ekki sé þar lengur saumað. Við höfum ferðast saman um árabil innanlands og utan. Eiginmenn okkar, „saumaklúbbsstrákarnir“, sem stunduðu ólíkustu atvinnugreinar, urðu það góðir kunningjar, að þeir fóru oft saman í veiðiferðir og það án okkar eiginkvennanna.

Þrjár af bekkjarsystrunum hafa búið í Bandaríkjunum (ein er nýflutt aftur til Íslands), fimm látnar og tvær búa úti á landi. Sex hafa ekki verið með okkur í saumaklúbbnum, en við höldum góðu sambandi  og þær mæta stöku sinnum í klúbbinn sem leynigestir.

 

 

 

Um sveitardvöl okkar systra, Þuríðar og  Helgu Guðjónsdætra,

á Hálsi á Skógarströnd, sumrin 1942-1948.

 

Á stríðsárunum hvöttu yfirvöld þéttbýlisfólk eindregið til að senda börn sín til sumardvalar í sveitum landsins af ótta við mögulegar loftárásir. Það varð algengt að börn á ýmsum aldri væru send “í sveit” til skyldra jafnt sem óskyldra og ýmist var borgað með þeim eða þau látin vinna. Í dag finnst manni furðulegt að foreldrar skyldu senda þannig 5 og 6 ára börn frá sér, líkt og okkur systur.

Áður en við systur fórum í sveit að Hálsi á Skógarströnd voru við sendar til sumardvalar á barnaheimili sem var í Barnaskólanum í Stykkishólmi. Ég held að það hafi verið gert vegna þess að systurdóttir pabba, Berta Hannesdóttir, var þar fóstra. Í minningunni er dvölin á barnaheimilinu á ýmsan hátt erfið. Allt var framandi, vondur matur og mikil rigningartíð. Við vorum ekki í góðu heilsufarlegu ástandi þegar við komum til baka, því ég man að pabbi bar mig heim frá bryggjunni í Reykjavík, mér var illt í fótunum (sennilega byrjun á liðagigtinni) og á þeim voru opin sár. En á barnaheimilinu lærðum við að ganga í röð og fara eftir reglum. Við lærðum ótal sönglög og texta, þótt við kæmumst að því síðar, að margir textanna voru rangir, því við höfðum bæði misheyrt og misskilið þá. Halla frænka okkar sá um svefnsal strákanna, svaf þar sjálf og vorum við Helga einu stelpurnar sem sváfum þar líka. Einn strákurinn, hann Hörður, var alsettur kaunum á líkamanum. Var hann látinn standa nakinn úti á miðju gólfi þar sem borinn var á sárin brúnleitur vökvi. Mér fannst illa gert að gera þetta ekki í einrúmi.

Fyrst þegar við fórum að Hálsi var ekki kominn bílvegur um Skógarströndina. Það var ekki heiglum hent að koma okkur systrum í sveitina. Eitt sinn fór mamma með okkur sjóleiðis upp í Borgarnes, skildi við okkur á Borg á Mýrum og tók bátinn til baka til Reykjavíkur.  Við biðum þá eftir rútunni sem ók okkur í Stykkishólm. Þar átti mamma marga kunningja og tekið var á móti okkur. Við fengum gistingu eina nótt, en daginn eftir var farið með okkur á mótorbát upp á Skógarströnd, þar sem hálftíma gangur var úr fjörunni upp að bænum Hálsi. Við systur vorum afar bílveikar og til að stytta okkur bílferðina vorum  við í annað skipti sendar með sjóflugvél til Stykkishólms, hinum rauða Erni, sem  lagði af stað úr Vatnagörðum í Reykajvík.

Ekki voru öll börn heppin með sveitaheimili og þrátt fyrir meðgjöf var sumum börnum þrælkað út til vinnu. En við systur vorum heppnar að fá að dvelja hjá fjölskyldunni á Hálsi, óskyldri okkur, sex sumur. Þótt Helga gréti sáran í byrjun og kallaði á mömmu og ég sussaði og segði að mamma heyrði ekkert til hennar, sefaðist sorgin við ljúft atlæti heimafólks. Nýr og merkilegur heimur, ólíkur okkar borgarbarnanna, opnaðist. Og vinskapurinn  við Hálsfólkið hélst alla ævi.

Á þessum tíma leysti afi prestinn á Breiðabólsstað af. Breiðabólsstaður er tveimur bæjum innar á Skógarströndinni en Háls. Ef til vill fengum við systur dvölina á Hálsi vegna þess að afi og amma höfðu áður fyrr haft blinda móður Sigurðar bónda, Sigurbjörgu, hjá sér árum saman í heimili og fór hún með þeim norður að Stað í Steingrímsfirði, þegar þau fluttust búferlum.

Á Hálsi bjuggu Sigurður Ögmundsson, bóndi og söðlasmiður og Halldóra Kristjánsdóttir. Hann var með gláku og nærri blindur, en hún með opið fótasár. Þá var engin lækning til við þeirra meinum. Þrjú fullorðin börn þeirra sáu um búreksturinn, Guðfinna, Kristján og Sigurbjörg. Ekkert þeirra staðfesti ráð sitt. Önnur börn þeirra voru Ögmundur, smiður, sem var farinn að heiman, Daníel dvaldi árum saman á sjúkrastofnun og ein dóttirin, Ingibjörg, var alin upp á Vörðufelli í sömu sveit. Ekki var stressið á heimilinu, allt í föstum skorðum og hver sinnti sínum ákveðnu verkum. Stjáni og Finna  unnu útiverk, en Sigga inniverkin, enda hafði hún verið á Húsmæðraskólanum á Staðarfelli.  Sigga og Finna voru grannvaxnar og ótrúlega léttar á fæti, hlupu í einum sprett upp á snarbrattan Kanahamarinn ofan við Háls, svo við systurnar höfðum engan veginn við þeim. Sigurður bóndi var ljúflyndur sem og Sigurbjörg dóttir hans, Guðfinna var nokkuð meinfýsin í orðum, en í ætt Halldóru móður þeirra systkina var þunglyndi sem Kristján seinna þjáðist af. Bróðursonur Halldóru var Sigfús Daðason, skáld.

Búskaparhættir voru að breytast í sveitum á þessum tíma og vélvæðing um það bil að hefjast. Háls var í ýmsu á eftir öðrum sveitaheimilum. Tún slegin með orfi og ljá, mór stunginn upp og hraukaður og torf var rist. Ekkert var vatnssalernið og reyndar enginn kamar  heldur, vatn sótt í brunn, en seinna kom dæla í eldhúsið. Gólf voru skúruð með sandi. Fatnaður heimafólks var geymdur í stórum kistum og koffortum, fólk átti sama sparifatnað jafnvel áratugum saman og vinnufötin voru stagbætt. Tvær baðstofur voru á efri hæð hússins, rúm meðfram veggjum, þar sem tveir sváfu saman í hverju rúmi, borð undir glugga og einn stóll við það. Karlarnir sváfu í annarri  baðstofunni og konur í hinni.  Þykkar fiðurundirsængurnar voru dásamlegar. Á neðri hæð var eldhús og búr. Körlunum var færður maturinn upp í baðstofnuna, en konurnar borðuðu í eldhúsinu á neðri hæðinni.

Kaupstaðarferð var kannski einu sinni á sumri með báti í Stykkishólm, Sigurður fór reyndar stundum á hestum í Hólminn og Guðmundur á Dröngum, pósturinn, kom einu sinni í viku á hestum með Tímann og Samvinnuna.  Allur matur var heimagerður sem og brauð, mjöl- og matvara var geymd í kistum í búri og eldhúsi. Nýr fiskur var sjaldséður, en kind stundum slátrað heima, kjöt saltað og slátur súrsað í tunnur. Í eldhúsinu var kolaeldavél þar sem líka var brennt mókögglum.  Í búrinu var skilvinda, sem skildi  að rjóma og undanrennu, smjör var strokkað í strokki og líka var gerður ostur og skyr. Ullin var þvegin í bæjarlæknum. Við systur trítluðum á engjarnar með mysu og kaffi í flöskum í ullarsokkum sem hnýttir voru saman og bornir yfir öxlum, en meðlætið var sett á disk og klút brugðið um. Svo fengum við að fara með í dún- og eggjaleit í eyjarnar. Stjáni átti eina grammófóninn á Skógarströndinni og hann var bráðnauðsynlegur á böllunum í samkomuhúsinu á Dröngum. Til kirkju á Breiðabólsstað var farið á hestum og skipt um föt í þúfunum bak við kirkjugarðinn. Ennfremur urðum við vitni að þeim merkisatburði, þegar fyrsti bílinn ók niður brattan Hálsinn og inn Skógarströndina. Að fá að kynnast þessum hverfandi búskaparháttum gamla tímans var okkur systrunum sannarlega þroskandi  lífsreynsla. 

Það var hlegið að Helgu systur, þegar hún sagði eitt sinn í leiðindaveðri í Reykjavík: Nú er sólskin á Hálsi! Í minningunni var nefnilega alltaf sólskin á Hálsi. Við hlaupandi um túnin, safnandi fjöðrum af lóunum, sinnandi búunum okkar og eltandi systurnar sem sinntu sínum ákveðnum verkum allan daginn. Lítið gagn var áreiðanlega að okkur.

Ekkert systkinanna þriggja á Hálsi fluttist að heiman. Sigurbjörg vann þó um tíma sem húshjálp hjá Thor Thors (yngri, syni Ólafs Thors) á Hólavallagötu í Reykjavík og Guðfinna vann stundum á vetrum á saumastofunni hjá “Kidda klæðskera” í Stykkishólmi, þar sem móðursystur hennar einhleyp, Ingibjörg Kristjánsdóttir, starfaði. Inga kom á hverju sumri að Hálsi til aðstoðar í heyskapnum.

Þegar Guðfinna og Sigurbjörg urðu aldraðar og einar eftir á bænum, fluttust þær á Dvalarheimili aldraðara í Stykkishólmi. Það snerti viðkvæman streng í hjörtum okkar systra þegar þær seldu Háls og eyjarnar sem fylgdu honum. Við áttum þar allt, litla fossinn, álfasætin fyrir neðan bæjarhólinn, Lynghólinn, Skógarhólana, Grjóthólinn og við vissum um álagablettina og álögin á Skógarey. Við þekktum örnefnin óteljandi á jörðinni  sem ef til vill myndu falla í gleymslu. Háls yrði þess vegna alltaf “okkar”.

Að lokum

Hvað hefur svo breyst í störfum kvenna á milli kynslóða í minni fjölskyldu? Þegar ég punktaði niður „minningaleiftur“ mín frá 8 til 18 ára aldurs fannst mér störf móður minnar mjög umfangsmikil. En á minni tíð hef ég sjálf séð um börn og bú, innkaup, matseld, fatnað fjölskyldu og viðhald hans, þvotta og þrif, þótt síðustu ár hafi ég fengið aðstoð á tveggja vikna fresti við þrifin. Ég fylgdist með námi barnanna,  sá um samskipti við aðra með tölvunni o.s.frv. Ég var mjög oft með boð og veislur sem ég udirbjó sjálf. Þetta gerði ég auk þess að vinna úti, á skrifstofu, til 67 ára aldurs. Ólíkt móður minni sem ekkert vissi um  fjármál heimilisins utan peninganna sem hún fékk til heimilishaldsins, þá veit ég allt um fjármál okkar hjóna. En húsnæði hefur batnað til muna og ný heimilistæki létta heimilisstörfin. Mér finnst mikils um vert hvað tækifærin til ferðalaga hafa gjörbreyst og hvernig  heimurinn opnast á vissan hátt með tölvuvæðingunni.  Maðurinn minn er kannski félagslyndari en ég, því hann leikur golf, er í bridge- og skákklúbb og er Rótarý-félagi. Ég er aðeins í saumaklúbbi.

Breytingar á heimilisstörfum konunnar þykja mér hægfara. Samt verð ég vör við nýjar áherslur hjá mínum fullorðnu börnum. Eldri sonur, 53 ára, kvæntur og barnlaus, sér alfarið um matseld. Þau hjón hafa jafnháar tekjur. Dóttirin, 51 árs, gift með tvo syni, 16 og 20 ára, hefur líka jafnháar tekjur og eiginmaðurinn, þau vinna óhemju mikið, stundum kvöld og helgar. Hún sér um matseld og mest af  húsverkum þegar hún er heima, en starfar stundum vikum saman erlendis fyrir fyrirtækið sem hún vinnur hjá og þá verða karlarnir hennar að bjarga sér sjálfir og gera ágætlega. Yngri sonur minn, 49 ára, er kvæntur með tvær dætur, 3ja og 5 ára. Konan sér aðallega um matseld, en hann eldar annað slagið. Konan hans hefur ekki unnið úti, en stundar nú háskólanám. Umsjá dætranna er mikið á hans herðum, hann t.d. vekur þær, snyrtir, klæðir, gefur þeim morgunmat, eldar hafragraut og ekur þeim í leikskólann þeirra áður en hann fer sjálfur í vinnuna, sækir þær iðulega og sinnir þeim aðdáanlega. (Það minnir mig á föður hans sem settist á stól og beið meðan ég klæddi börnin okkar þrjú í útifötin, þegar við ætluðum út með þau!). Og nú spyr ég, - þegar hjón vinna bæði utan heimilis og hafa jafnmiklar tekjur sem í tilvikum minna barna, hvers vegna skyldi konan þá vinna ein öll störf innan heimilisins líkt og hefur tíðkast hjá mér og formæðrum  mínum? Breytingarnar eru hægfara en í rétta átt.  Læt ég svo þessari samantekt lokið.


Kafli 1 af 3 - Lýsing á uppvaxtarheimili

Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd. Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið. Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að næsta spurningakafla sé svarað.

Kafli 2 af 3 - Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum

Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.
Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?
Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?
Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?
Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?
Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.
Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?
Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?
Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?
Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?
Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?
Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.
Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?
Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?
Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?
Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.
Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?
Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?
Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?
Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.
Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 3 - Dagur í lífi heimilismanns

Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.