LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDaglegt líf, Híbýli, Húsbúnaður
Ártal1953-1965
Spurningaskrá117 Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf

StaðurGrundarstígur 6, Unnarholtskot 1
ByggðaheitiYtrihreppur, Þingholt
Sveitarfélag 1950Hrunamannahreppur, Reykjavík
Núv. sveitarfélagHrunamannahreppur, Reykjavík
SýslaÁrnessýsla, Gullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1949

Nánari upplýsingar

Númer2012-3-123
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið21.2.2015
Stærð14 A4
TækniTölvuskrift

Ég miða við heimili mitt á Grundarstíg 6 í Reykjavík á árunum 1953 til 1965 (þegar ég var fjögurra til sextán ára).

Húsið var (og er) gamalt timburhús (byggt u.þ.b. 1906, viðbygging yngri), bárujárnsklætt, áfast yngri steinhúsum á báða vegu. Nær götumegin fast að gangstétt en garður bakatil, móti vestri. Mikið af honum lagt gangstéttarhellum en fjær húsinu lítil grasblettur með blómabeðum og virðulegu reyniviðartré. Bakgarðurinn afmarkaður að hluta af aðliggjandi húsgafli og af steyptum vegg kringum garð Farsóttarhússins, annars umlukinn mjög snotru grindverki úr járni á steyptum sökkli.

Húsið var þrjár íbúðir, hver á sinni hæð. Hafði verið í eigu efnaðra hjóna sem gerðu það upp með nokkurri viðhöfn. Þau höfðu skilið, konan haldið húsinu. Hún flutti í kjallaraíbúðina en seldi efri hæðirnar, m.a. til að styrkja son sinn til náms. Afi minn og amma, sem höfðu verið í leiguhúsnæði í áratugi, keyptu miðhæðina. Hjá þeim voru til húsa foreldrar mínir og ég.

Aðalinngangur var sameiginlegur fyrir hæðirnar tvær, gengið upp breiðar steyptar tröppur frá götunni. Útidyr voru á skúrbyggingu sem tengdi saman húsin nr. 6 og 8. Þar var komið inn í forstofu, úr henni stigi upp á efri hæðina með handriði sem þótti mjög flott, sveigt og með renndum pílárum. Undir stiganum var innbyggður fataskápur, sem tilheyrði miðhæðinni, og krókur út úr honum undir lægri tröppunum, dimmur og dularfullur, sem ég gat rannsakað með vasaljósi.

Úr forstofunni voru tvennar dyr til hægri inn í íbúðina. Nær götunni var gengið inn í þá fremri af tveimur samliggjandi stofum. Fjær götunni inn í svefnherbergi foreldra minna. Stofurnar tengdust með tvíbreiðum dyrum. Úr innri stofunni voru tvennar dyr til vinstri, þær fyrri inn í eldhús, þær síðari (sem ekki voru í notkun heldur húsgögn fyrir þeim á báða vegu) inn í svefnherbergi afa og ömmu.

Stofurnar tvær fylltu þannig austurhelming hússins sem að götunni sneri, tveir gluggar á hvorri. Í hinum helmingnum var eldhúsið í miðju en svefnherbergi á báðar hliðar, hvort herbergi með sínum glugga. Annað þeirra svokallað „forstofuherbergi“ (þ.e. með sérinngangi úr forstofu). Hitt tengt bæði eldhúsi og stofu (en aðeins notaður inngangurinn úr eldhúsinu). Enginn gangur eða hol tengdi saman vistarverur og heyrði ég það orðað svo að hjá okkur væri „gengið úr einu herberginu í annað“.

Úr eldhúsinu var svo gengið út í viðbygginguna. Í henni voru baðherbergi allra hæðanna. Sjálfsagt var hún reist til að koma fyrir hreinlætistækjum eftir að skólplögn var lögð um hverfið. Á baðherberginu voru bakdyr miðhæðarinnar, gengið út á pall eða svalir, af þeim hringstigi, steyptur úr járni (í stíl við grindverkið um lóðina), upp á sams konar pall við baðherbergi efri hæðarinnar, en trétröppur niður í baklóðina. Undir pallinum var útigeymsla, sameign hæðanna tveggja, þar sem við höfðum kassa undir kartöflur (vörðum þær frosti með teppum þegar þörf krafði) og kagga með súrmat.

Þessi hringstigi skildist mér væri hluti af þeim íburði sem fylgt hefði uppgerð hússins á vegum fyrri eigenda. Sömuleiðis stigahandriðið í forstofunni og slípaðar smárúður í hurðum. Þær voru í útidyrahurðum bæði fyrir fram- og bakdyrum, í vængjahurðum milli stofanna tveggja og í þremur innihurðum að auki, úr forstofu í fremri stofu, úr innri stofu í svefnherbergi og úr eldhúsi í baðherbergi. Heyrði ég að fólki þótti það allvel í lagt, jafnvel skoplegt að hafa glugga á báðum klósetthurðunum.

Risið (lítt eða ekki portbyggt en með einu kvistherbergi) tilheyrði efri hæðinni. Í kjallara átti hins vegar hver íbúð sína litlu geymslu auk þess sem þvottahús var sameign allra íbúðanna. Kjallaraíbúðin var þannig sú langminnsta í húsinu.

Þá er það húsbúnaður og munir.

Í forstofu var dregill á gólfi, spegill á vegg, mjótt teppi upp miðjar tröppurnar sem lágu upp á efri hæð.

Í forstofuherbergi var svefnsófi, hægt að leggja niður bakið og var þá hjónarúm foreldra minna. Þar var inni lítill laus fataskápur, rúmfataskápur (á stærð við lítið skrifborð, efri hluti framhliðar opnanlegur) og lítill dívan sem ég svaf á fyrstu árin. Einnig var þar saumavél móður minnar, innbyggð í tréborð, knúin utanáliggjandi rafmagnsmótor. Hana eignaðist móðir mín skömmu eftir að við fluttum í húsið og hafði í nokkur ár tekjur af að sauma saman flíkur sem komu tilsniðnar frá fataverksmiðju.

Í stofunum voru í fyrstu ferköntuð teppi á miðju gólfi en gólfdúkur (línóleumdúkur) undir og utan við. Sams konar dúkur var á svefnherbergjunum, steinflísar á eldhúsgólfinu (sem vakti athygli og umtal, þótti hentugt að þrífa en hart að standa á og afleitt ef eitthvað brothætt datt á gólfið), terrassó á forstofu- og baðherbergisgólfum (sem einnig þótti óvenjulegt og íburðarmikið). Eftir 1960 voru lögð föst teppi á stofurnar „vegg í vegg“, ullarteppi sem þá voru í tísku og framleidd innanlands.

Í báðum stofunum voru ljósakrónur í lofti, mjög ólíkar, önnur gömul frá afa og ömmu (úr málmi, perustæðin hangandi í keðjum, pera í miðjunni inni í útskornum glerkúpli, þrjár perur hangandi í kring, hver í sínu glerhúsi sem opið var niður úr), hin yngri, líklega keypt þegar við fluttum í húsið. Borðstofuborð, ferkantað en stækkanlegt um helming, var líka í hvorri stofu og áttu hvor hjónin sitt borð. Fyrir veislumáltíðir mátti færa borðin saman, stækka annað en setja hitt óstækkað við endann, eða nota samanbrjótanlegt spilaborð sem aukastækkun. Amma átti sett af borðstofustólum með lausum krossviðarsetum, hafði sjálf saumað utan um seturnar og prýtt með útsaumi.

Í fremri stofunni var öndvegisgripur heimilisins: píanó. Það hafði Helgi Guðmundsson bankastjóri átt og flutt með sér frá Spáni um 1930. Fáum árum síðar hafði hann eignast enn veglegra hljóðfæri en seldi það gamla frændfólki sínu, afa og ömmu, handa föður mínum í fermingargjöf. Píanóið var viðhafnarmikil smíð, dökkpólerað, og þótti sérlega hljómfagurt. Þau höfðu lært á píanó (eða orgel upphaflega), amma og pabbi, en háði þeim báðum að spila hve skjálfhent þau urðu með aldrinum. Í nokkur ár, þegar ég var á að giska 7–12 ára, stjórnaði pabbi sönghóp (8 manna karlakvartett) sem yfir veturinn hélt reglulegar æfingar í stofunni heima. Vissi ég aldrei til að sambýlisfólk kvartaði undan söng eða hljóðfæraslætti og var þó mjög hljóðbært milli hæða.

Píanóinu fylgdi bekkur í sama stíl, nógu breiður fyrir tvo og stundum færður að matborði þegar þétt var setið. Í honum var hirsla, eins konar kista, ætluð væntanlega fyrir nótur en amma geymdi þar föt: sjöl og peysufataslifsi. Setan (eða lokið) var með áklæði sem amma hafði útsaumað.

Hjá píanóinu stóð gamall ruggustóll, kominn frá uppvaxtarheimili ömmu í Hruna. Hann var úr dökkpóleruðum viði, seta og bak bólstruð, armar úr tré; stóð á gólfinu á fótagrind sem meiðarnir rugguðu á, festir við hana með gormum sem takmörkuðu og mýktu hreyfinguna.

Frá því snemma í búskap sínum áttu afi og amma tvo mjög létta hægindastóla, svonefnda körfustóla, og kringlótt borð í sama stíl. Þessi húsgögn voru á hálfgerðum hrakhólum, komið fyrir á ýmsum stöðum í stofunum. Þar var ekki heldur pláss fyrir gamlan stól, og vandaðan á sínum tíma, með bólstraðri sessu en baki úr hringsveigðri fjöl; hann var í forstofunni og hægt að tylla sér á hann til að reima skó. Síðar (um 1930 eða fyrr) höfðu þau eignast mun viðhafnarmeiri stofuhúsgögn, þung og bólstruð á sveigðum harðviðarfótum, keypt notuð af húsbónda afa, Helga Bergs, forstjóra Sláturfélags Suðurlands. Það var þriggja manna sófi, tveir hægindastólar albólstraðir, minni stóll armlaus og kringlótt eikarborð með gleri til hlífðar borðplötunni en aukaplata (neðra borð) milli fótanna. Þetta var allt í innri stofunni þar sem hægindastólarnir sneru baki hvor í sinn glugga. Afi og amma notuðu sitt hvorn stólinn. Afi sat óhagganlegur á sínum stað, við endann á matborðinu þegar borðstofuborðið var stækkað, við spilaborð ef brids var spilað á kvöldin (sem oft bar við, ekki síst ef gestir voru með), eða með bók í hönd. Ömmu stóll var ekki við matborðið en oft borðaði hún í honum samt, fannst betra, vegna þess hve skjálfhent hún var, að sitja með olnbogana á stólörmunum þó hún þyrfti að halda á diskinum. Við hliðina á ömmu stól var um tíma skrifborð, síðar „skatthol“ svokallað, með  skúffum og hægt að loka með hvelfdu loki. Þetta notaði hún þegar því var að skipta, bæði borðið og skattholið, undir saumavélina sína (handsnúna), sat þá á stólarminum til að snúa rétt að saumavélinni.

Enn einir hægindastólar stóðu við gluggana í fremri stofunni, fyrirferðarminni og með óbólstruðum eikarörmum, milli þeirra lítið borð í sama stíl. Í öðrum þeirra sat pabbi að jafnaði, oft að lesa eða ráða krossgátur. Loks átti heimilið par af léttum körfustólum með tilheyrandi kringlóttu borði, og var þeim húsgögnum komið fyrir á ýmsum stöðum í þrengslunum. En ég heyrði um það talað að þröngt væri í stofunum og sérkennilegt að varla væri gegnt að gluggum fyrir húsgögum.

Í innra svefnherberginu sváfu afi og amma á tvíbreiðum rúmbekk. Þar inni var rúmfataskápur, stór laus klæðaskápur, kommóða og lítið borð. Þar átti ég líka dót í hvítmáluðum tréskáp. Auk þess átti ég hirslur fyrir kubba og slíkt í tveimur stólkollum (þeir voru eins og kassar á lágum fótum, setið á lokinu) sem að jafnaði voru hafðir í eldhúsinu en færðir til og frá eftir þörfum. Barnahúsgögn átti ég líka: borð með tveimur pínulitlum stólum, sem ég hafði inni í stofu fyrstu árin en óx fljótt upp úr.

Eldhúsið: Þar var vaskur undir glugga (tvöfaldur stálvaskur með blöndunartæki, sem ég held að hafi þó ekki verið allra fyrstu árin), eldhúsbekkur með skúffum og veggföstum skáp yfir og rafmagnseldavél í horni. Þar var gamall skorsteinn með múrsteinshleðslu, löngu kominn úr notkun. Eftir að ég stálpaðist var sett vifta yfir eldavélina sem blés loftinu inn í skorsteininn. Allra fyrst man ég eftir að mjólk var geymd í skugga fyrir utan bakdyrnar, en fljótt eignuðumst við lítinn ísskáp, síðar annan stærri, en frystikistu líklega ekki fyrr en að þessu tímabili liðnu, sem þá var höfð niðri í þvottahúsinu. Þar hafði upphaflega verið þvottapottur og þvottavél, ekki sjálfvirk, ásamt þvottasnúrum, en síðar eignaðist hver íbúð sína sjálfvirku þvottavél.

Baðherbergið var nokkuð rúmgott. Gengið í það, eins og fyrr segir, úr eldhúsi; til hægri baðkar og klósett við gluggalausan langvegg og hægt að draga hengi fyrir hvort tveggja; stór spegill yfir handlaug á gaflvegg; útidyrnar til vinstri og við hliðina á þeim fatahengi (hattahilla með snögum undir). Þar geymdum við hversdagsyfirhafnir og útiskó enda mest gengið um bakdyrnar.

Afi og amma höfðu lengi átt nokkuð af bókum og alltaf var heldur að bætast við bókakost heimilisins, ekki síður eftir að ég komst á lestraraldur og fékk eftir það fjölda bóka í jóla- og afmælisgjafir. Afi átti virðulegan bókaskáp úr eik, hornskáp, sem stóð í innri stofunni, líka glæsilega bókahillu yfir píanóinu, útskorna með sérstöku mynstri til minningar um lýðveldishátíðina 1944. Pabbi átti lítinn bókaskáp og lágan, dökkpóleraðan, við hliðina á stólnum sínum. Þegar annað pláss þraut var bókum raðað ofan á fataskápana í báðum svefnherbergjunum, keypt tvöföld bókahilla sem höfð var yfir rúmi foreldra minna, þar sem ég fékk smám saman pláss fyrir minn bókakost, og loks bætt við hansahillum á bakvið hurð í fremri stofunni.

Af húsgögnum er ótalið eitthvað af kommóðum, sem fjölgaði smám saman, og afskaplega fínn borðstofuskápur eða „skenkur“, með spegli og ýmsu skrautverki. Hann var úr búi séra Magnúsar Helgasonar skólastjóra sem var barnlaus ekkjumaður þegar hann flutti úr skólastjóraíbúð Kennaraskólans í eigin íbúð rétt fyrir 1930. Afi og amma, sem voru bræðrabörn Magnúsar og misstu í þessum svifum húsnæði sitt, fluttu þá í íbúð gamla mannsins gegn því að veita honum fæði og þjónustu. Það lenti þannig á ömmu að annast hann gamlan og kalkaðan, en eftir lát hans fluttu þau í leiguhúsnæði. Eitt málverk hafði amma líka fengið úr búi Magnúsar, vatnslitamynd eftir Ásgrím Jónsson. Flest málverk heimilisins voru annars eftir Jóhann Briem, bæði vatnslita- og olíumyndir, allt frá „flöskugræna tímabilinu“ í list hans, þ.e. fyrir stríð. Jóhann var skyldur þeim afa og ömmu og var um tíma (á stríðsárunum hygg ég) hjá þeim í fæði. Eitt málverkið, kallað „Frostrósir“, var olíuskyssa af fyrri konu Jóhanns sem hann hafði málað handa sjálfum sér en gaf ömmu minni síðar, þá giftur aftur. Auk bóka og málverka var heimilið prýtt skraut- og listmunum, m.a. leirmyndum úr smiðju Guðmundar frá Miðdal, útskornum kristalskálum og öðru slíku. Þá var heimilið prýtt handavinnu eftir þær báðar, ömmu og mömmu, t.d. ísaumuðu veggteppi, útsaumuðum sessum, krosssaumsmyndum o.fl.

 

Þá er komið að stöku spurningunum sem ég svara þó ekki nema sumum.

 

Ef um marga dvalarstaði er að ræða …

Ég átti annað heimili í Unnarholtskoti í Hrunamannahreppi. Þar bjuggu móðurforeldrar mínir, einnig móðurbróðir með fjölskyldu og síðar bættist við móðursystir mín með börn sín. Öll mín bernskusumur var móðir mín kaupakona hjá foreldrum sínum. Ég varð með aldrinum snúningastrákur og loks kaupamaður. Við vorum í sveitinni á fimmta mánuð, frá maí og út september, líka þau ár sem ég átti að vera skólaskyldur í septembermánuði. Pabbi kom í heimsókn á sumrin margar eða flestar helgar (þó hann ynni til hádegis á laugardögum) og nokkra daga í sumarfríinu.

Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað?

Ytra viðhaldi man ég lítið eftir, enda mun það hafa farið fram á sumrin þegar ég var víðs fjarri. Man þó einu sinni að húsbóndinn á loftinu tók að sér að mála gluggana, líka á okkar íbúð. Viðhald inni við var aðallega málningarvinna sem fjölskyldan sá um með hjálp vina og vandamanna.

Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?

Allir sváfu í þar til gerðum náttfötum eða náttkjólum. Hjónin tvenn sváfu hvort í sínu tvíbreiða rúmi. Ég svaf inni hjá foreldrum mínum, var vaxinn upp úr rimlarúmi og fékk lítinn sófa. Þegar ég var tíu ára eða svo fór ég að sofa að jafnaði í svefnsófa sem nýlega var kominn í fremri stofuna (hægt að stækka hann fyrir tvo en ég svaf í honum óstækkuðum). En þó áfram á dívaninum ef næturgestir voru í stofunni eða ónæði, t.d. söngæfing eða spilað fram eftir kvöldi.

Um það leyti sem ég varð tólf ára dó afi. Ég flutti þá inn til ömmu, hálfpartinn til að veita henni félagsskap, og svaf þar á sérstökum svefnstól (sem var íslensk framleiðsla í stíl tekktímabilsins, breiður stóll, bólstraður með svampi, með háu baki sem leggja mátti niður og tvöfaldri setu sem hægt var að brjóta út svo að úr varð rúm í fullri lengd) sem nýlega var kominn á heimilið, upphaflega ætlaður næturgestum. Þegar ég var svo kominn í unglingadeild fór amma að sofa í stofunni og lét mér eftir herbergið, bæði til að sofa í og læra.

Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?

Við höfðum vatnssalerni heima og notuðum salernispappír, a.m.k. fljótlega, kannski dagblaðapappír að einhverju leyti fyrstu árin. Koppar voru til en ekki notaðir nema í veikindum. Í sveitinni var líka vatnssalerni í íbúðarhúsinu en jafnframt kamar yfir hlandfor við fjósið. (Þangað til nýtt fjós var byggt, upp úr 1960.) Ég notaði ógjarna kamarinn, en yfirleitt fór fólk þangað ef það var við vinnu úti við. Á kamrinum var alltaf dagblaðapappír, líka meira og minna á inniklósettinu fyrstu árin, síðar meira salernispappír. Á heimilinu sá ég koppa undir rúmum, veit ógjörla hve mikið þeir voru notaðir.

Í Reykjavík fór ég í bað vikulega, held við höfum gert það flest, afi þó oftar (brá sér í snöggt steypibað með handúðaranum). Í sveitinni fór ég, a.m.k. seinni árin, oftar í sund en bað, og gat þá liðið a.m.k. vika á milli.

Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?

Ég ólst upp við að matur væri borðaður á heimilum, eða þá hafður að heiman sem nesti. Að eyða peningum í sjoppum skildist mér vera illa með peninga farið og steig aldrei inn á slíkan stað í Reykjavík. Þó held ég mamma hafi stundum keypt eitthvað handa mér á Selfossi á leið milli Reykjavíkur og Hrunamannahrepps. (Ef við þurftum að skipta um bíl og bíða svo klukkutímum skipti fórum við samt fremur heim til frændfólks.) Á útiskemmtunum var líka eðlilegt að kaupa eitthvað handa krökkum, jafnvel gosdrykk.

Að setjast inn á veitingastað og panta heitan mat, það hélt ég tilheyrði ekki lifnaðarháttum venjulegs fólks. Ég var kominn í menntaskóla þegar ég fór fyrst á slíkan stað, hafði þá verið vetrarlangt í svonefndri félagsheimilisnefnd sem sá um ýmislegt tengt félagslífi skólans. Einn af kennurunum var umsjónarmaður félagslífs, þar með í raun yfirmaður nefndarinnar, og hann fór með okkur í kvöldmat í Naustinu þegar leið að lokum starfsársins. Það fannst mér heldur óviðkunnanleg notkun á fé skólafélagsins.

Í sveitinni var yfirleitt borðað í rúmgóðu eldhúsi, við stofuborð því aðeins að gestir væru og nokkuð við haft. Á Grundarstígnum hins vegar í stofunum.

Bæði heima og í sveitinni var gerð rabbarbarasulta og að sjálfsögðu slátur.

Af því að afi minn vann hjá Sláturfélagi Suðurlands fékk hann slátur á góðum kjörum. Hann kom líka oft heim með bein og aðra afganga sem féllu til við kjötvinnslu. Sérstaklega man ég eftir hryggjum úr kindakjöti; þeir voru soðnir vel og lengi, kroppað af þeim það sem eftir var af kjöti og haft í einkar ljúffenga kjötkássu. Kæfa var líka soðin úr því sem afi dró að, mestmegnis slögum (magál) af kindakjöti.

Af slátri var að sjálfsögðu gerður blóðmör og lifrarpylsa. Hvort tveggja var lostæti nýsoðið en mest af því súrsað og geymt þannig fram eftir vetri. Amma gerði líka lundabagga sem hún geymdi í súr, mjög feita, enda var uppistaðan í þeim ristlar, skafnir vandlega að innan en mörinn ekki tíndur af þeim nema lauslega. Það varð snemma mitt verk að halda í ristla meðan amma skóf. Slátrinu fylgdu líka sviðnar lappir sem voru soðnar vel, borðaðar volgar í eina máltíð en sviðasulta gerð úr því sem eftir var, súrsuð með hinu.

Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?

Í Reykjavík man ég ekki eftir öðru en rafmagnsljósum sem nóg var af og ekkert spöruð. Nema gætt að því að skilja ekki eftir ljós í mannlausu herbergi; það var eins og hver önnur sjálfsögð ráðdeild, líkt því að láta ekki renna vatn úr krana að óþörfu eða láta ísskápinn ekki standa opinn lengur en þurfti.

Í sveitinni kom hins vegar ekki „Sogsrafmagn“ (eins og það var kallað) fyrr en ég var nokkuð kominn á legg. Áður var þar ljósamótor (dísilvél – enn áður vindmylla á hlöðuburstinni en af henni var bara mastrið eftir þegar ég man til) og ekki notaður mikið yfir hásumarið, meira þegar kom fram á haust. Raflögn var í íbúðarhúsinu, sem var nýlegt steinhús, en ekki mikil raflýsing, líklega takmörkuð af því hverju mótorinn annaði. Þegar hann var ekki í gangi var gripið til olíulampa. Þeir voru nokkrir til og ekki sparaðir. Einn var þó sérstakur, kallaður Aladínslampi, sem bar bæði meiri birtu og miklu hvítari en hinir. Með hann var farið mjög varlega, og skildist mér að „netið“ í honum – hólkur sem virtist gegna svipuðu hlutverki og kveikurinn í venjulegu lömpunum – væri mjög viðkvæmt fyrir hnjaski.

Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?

Ryksuga var á heimilinu síðan ég man eftir mér, en nógu nýtilkomin til að amma talaði um hana af mikilli blíðu og þann vinnulétti sem henni hefði fylgt.

Í þvottahúsinu niðri í kjallara fylgdu, sem sameign hússins, þvottapottur og þvottavél af gömlu gerðinni, opin að ofan og með spaða sem hrærði í þvottinum. Sjálfvirkar þvottavélar eignaðist svo hvert heimili fyrir sig, einhvern tíma á sjöunda áratugnum. Fólkið á efri hæðinni var með sína uppi í íbúðinni, við með okkar í þvottahúsinu.

Hrærivél áttu þær hvor um sig, amma og mamma. Ég var eitthvað kominn á legg þegar mamma eignaðist sína, öfluga vél með ýmsum aukabúnaði, m.a. hakkavél, en áður var notuð handknúin „kjötkvörn“ sem ég sneri stundum fyrir ömmu.

Ísskáp (eða kæliskáp öllu heldur, þ.e. ekki með frystihólfi) man ég ekki eftir fyrr en skömmu eftir að við fluttum á Grundarstíginn. Áður man ég eftir að mjólkin, sem keypt var í lausu máli á brúsa, var geymd fyrir utan bakdyrnar til að hitna ekki um of.

Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?

Í Reykjavík var alltaf rennandi vatn, heitt og kalt, og hvorugt sparað.

Í sveitinni var ekki vatnsveita fyrr en ég var orðinn stálpaður, eitthvað yfir 10 ára. Rennandi vatn var bara úr tönkum, bæði í íbúðarhúsinu og fjósinu. Í þá var dælt úr lind með sjálfvirkri dælu, svonefndum „vatnshrút“. Hann var staðsettur sem lægst fyrir neðan lindina, fékk vatn eftir lokaðri leiðslu og notaði fallhæð þess sem orkugjafa til að dæla litlum hluta af því heim til bæjar. Til viðbótar var vatni dælt úr brunni með handafli.

Ekki var farið neitt sérlega spart með vatnið, a.m.k. ekki svo að ég yrði var við. Það þurfti svo mikið í fjósið hvort sem var að ekki munaði mikið um heimilisnotin.

Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?

Ég var hvergi þess háttar heimagangur að hafa nákvæman samanburð. En það var á þeim árum svolítið sérstakt að vera einbirni. Líka að hafa ömmu á heimilinu; a.m.k. einn leikfélagi minn öfundaði mig af því. Heimilið mótaðist af miklum gestagangi, talsvert um næturgesti og enn frekar matargesti, auk þess sem kunningjar litu inn á kvöldin. Heimilið má líka kalla frekar menningarlegt; þar voru málverk og listmunir, lesnar vandaðar bókmenntir, hlustað vandlega á menningarefni útvarpsins og mikið farið í leikhús; þangað var ég tekinn með strax og ég hafði aldur til.

Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?

Áttum aldrei bíl. (Ekki í Reykjavík; í sveitinni átti afi jeppa sem mamma hafði afnot af, sérstaklega eftir að bróðir hennar eignaðist annan.) Fengum oft far með vinum og kunningjum og tókum stundum leigubíl. Strætisvagna notuðum við ekki nema stöku sinnum, fórum lítið í úthverfin en gengum styttri leiðir.

Við fórum mikið með sérleyfisbílum: til Hafnarfjarðar (í bíl sem reyndar var kallaður strætó) og Keflavíkur og austur í Hrepp. Mjólkurbílarnir höfðu líka farþegasæti; stundum tókum við þá niður að Selfossi og svo rútuna suður. Einu sinni höfðu foreldrar mínir farið með flugbát til Ísafjarðar.

Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?

Aldrei neitt á veturna. Og aldrei til útlanda. Afi hafði á yngri árum unnið á norskum bóndabæ og ferðast til margra landa með Karlakór Reykjavíkur, en við hin höfðum aldrei til útlanda komið. Og ég gerði ekkert endilega ráð fyrir að eiga það eftir, ekki frekar en faðir minn eða móðurbróðir eða aðrir fullorðnir sem ég miðaði mig við.

Innanlands höfðum við einu sinni farið öll saman í ferðalag á bernskuslóðir ömmu, sem hafði verið prestsdóttir í Hvammi í Dölum áður en fjölskylda hennar fluttist að Hruna. Þá fórum við í leigubíl og vorum heilan dag í ferðinni. Á sumrin fengu foreldrar mínir stundum lánaðan jeppann hjá afa til að heimsækja kunningja, og fór ég þá með, en aldrei lengra en í næstu sveit og aldrei, svo ég muni, yfir nótt. Tvisvar eða þrisvar höfðu foreldrar mínir farið í lengri ferðir án mín: heimsótt vinafólk til Bolungarvíkur, og farið með kunningjum í margra daga bílferð (gist í tjaldi) sem endaði á heimsókn til móðursystur minnar á Vopnafirði.

Afi notaði sitt sumarfrí bara til að hvíla sig heima. Pabbi mest til að heimsækja okkur í sveitina, og ýmsa vini og ættingja í sömu sveit. Og konurnar áttu yfirleitt ekki sumarfrí.

 

Dagur í lífi heimilismanns

Ég hugsa mér virkan dag haustið 1960, þegar ég er 11 ára.

Þegar ég vakna er afi löngu farinn í vinnu (byrjar kl. 8 og nokkur spölur að ganga), amma hins vegar sofandi enda mesti nátthrafn. Pabbi, sem vinnur frá níu til sex, er enn ófarinn. Við borðum ekki sameiginlegan morgunmat heldur fær hver sér eitthvað í eldhúsinu, pabbi helst bara kalt kaffi og lítinn kökubita en hefur bitastæðara nesti með morgunkaffinu á vinnustað. Mamma gefur mér eitthvað, líklega hafragraut (þó ég sé hrifnari af skyri) með slátursneið út í og lýsi í skeið.

Þetta er líklega á þeim skamma tíma sem pabbi hjálpar mér að gera líkamsæfingar á morgnana, nokkrar léttar æfingar úr Atlas-kerfinu sem nýlega var komið í tísku. Ég var spikfeitur á þessum árum, lá í bókum en hreyfði mig lítið, og við vorum eitthvað aðeins að vinna í þeim málum. Atlaskerfinu fylgdi líka ráðlegging um rösklegar gönguferðir, og í þeim anda skálmaði ég stundum svosem eins og einn hring kringum Tjörnina – þó að oft freistaðist ég til að slóra og gefa öndunum ef eitthvað var til heima af hörðu brauði.

Svo fer ég í skólann, veit ekki af hverju ég hafði þennan einkennilega skólatíma kringum hádegið. Mamma býr mig út með mjólk og smurt brauð í nesti fyrir löngu frímínúturnar. Stutt að fara niður brekkuna í Miðbæjarskólann.

Ég er farinn að kunna nokkuð vel við mig í skólanum. Hafði ekki gert það fyrstu árin, lítið kunnað að leika við krakka og verið mjög uppsigað við suma bekkjarbræður mína sem gerðu það að skyldu sinni að stríða mér, einkum á holdafarinu. (Rauðleitt hár mátti nefna líka, en ég var ekki nema þriðji rauðhærðastur í bekknum, hins vegar feitastur, svo að þar lá ég betur við höggi.) En nú var ég farinn að taka þátt í frímínútnaleikjum (oft handbolta) og kunna yfirleitt vel við krakkana. Námið sjálft var líka skemmtilegra en áður, sem þakka má nýjum kennara, ungum manni sem hafði verið í framhaldsnámi í Danmörku og tók með sér þaðan nýjungar eins og hópvinnu og þemavinnu. Þetta gæti t.d. verið í vikunni þegar afi hafði lánað mér bókina um Noreg (úr bókaflokki Menningarsjóðs, Lönd og lýðir, sem hann var áskrifandi að) af því að í landafræðinni var ég í Noregshópi. Við bjuggum til stórt Noregskort með lopa á loðtöflu  og festum á það ýmsar upplýsingar. Mitt hlutverk var að lesa mér til um fiskveiðar og setja viðeigandi skip og veiðarfæri á helstu þorsk- og síldarmiðin.

Ég er í skóla fram yfir hádegi og missi því af hádegismat fjölskyldunnar. Hann er orðinn sameiginlegur núna, húsmæðurnar tvær farnar að elda á víxl en ekki hvor fyrir sitt fólk eins og fyrstu árin. Afi og pabbi ganga heim í mat en eru farnir þegar ég kem, sömuleiðis kostgangarinn sem nú var bara einn eftir, en áður hafði amma haft tvo og þrjá karlmenn í fæði og haft af því verulegar tekjur, auk þess sem einhleyp frænka hennar borðar hjá okkur um hádegið og geldur fyrir með húsverkum. Hún er trúlega ófarin þegar ég kem, kannski líka ömmubróðir minn, Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur, sem kom við í mat einu sinni eða tvisvar í viku. Þá hafði hann verið að kenna í Kvennaskólanum, en við vorum í leiðinni þaðan á hans fasta vinnustað í Safnahúsinu. Þegar Guðmundur hitti mig svona í lok matartíma var hann viljugur að spjalla við mig, gjarna um eitthvað sem hann gat frætt mig um, en hvers konar náttúrufræði fannst mér afar fróðleg.

Þó ég hafi haft nesti í skólann fær ég líka eitthvað af hádegismatnum, kannski velgt upp handa mér. Þær elda heitan mat tvisvar á dag, kjöt eða fisk og næstum alltaf kartöflur með, en matarleifar vel nýttar í viðeigandi rétti. Amma var t.d. vön að nota fiskafganga í búðing (deig úr fiski, kartöflum og eggjum bakað í ofni með raspi ofan á – móðir mín gerði frekar plokkfisk), nýta steikarafganga sem innbakaðar sneiðar (bakaðar á pönnu í deigi sem minnti á lummur) og afganga af kjötkássu sem fyllingu í eins konar hálfmána úr feitu deigi, sem hún bakaði í ofni og kallaði „svín“. Soðnar kartöflur voru hitaðar upp sem stappa („kartöflumús“), í jafningi eða sykurbrúnaðar, eða notaðar í plokkfisk og fiskbúðing. O.s.frv., ekki mikið sem á endanum fór í ruslið. Það var helst aðkeypt brauð sem gekk af og þornaði, en það fékk ég þá til að gefa öndunum.

Ég hef litlar skyldur heima. Í mesta lagi að ég sé sendur í búð einfaldra erinda. Það gæti verið nýlenduvörubúðin, mjólkurbúðin eða fiskbúðin – allar við Grundarstíginn – eða bakaríið, en þau voru tvö við næstu götu. Líklegra er þó að ég fái að ráða mér sjálfur alveg fram að kvöldmat. Einhverja heimavinnu hef ég fyrir skólann, er fljótur að lesa og reikna það sem fyrir var sett en er stundum lengur að nostra við blöðin sem eiga að fara í „vinnubækur“ í lesgreinum. (Litlar lausblaðamöppur, lítið um tilbúin blöð til útfyllingar, mest bara línustrikuð blöð sem ég má skrifa á mína eigin útgáfu af námsefninu og teikna myndir með eða klippa út og líma.) Með skólavinnuna get ég sest við borð í svefnherbergi afa og ömmu, en annars hefst ég mest við í stofunum. Heyri þá talsverðan hluta af útvarpsdagskránni því að mikinn hluta dagsins var útvarp í gangi – og ekki síður á kvöldin. Dagblöðin (Moggann og Tímann) er ég ekki farinn að lesa skipulega en fletti þeim líklega eitthvað. Og örugglega nota ég hluta dagsins til að lesa í bók, trúlega einhverri þýddri barna- eða unglingabók. Væntanlega af Borgarbókasafninu, því að mínar eigin bækur eignast ég sem jólagjafir eða afmælisgjafir (í febrúar) og les þær strax; þó kemur fyrir að ég endurles bækur úr hillunni minni, sumar margsinnis.

Það er ekki líklegt að ég hitti leikfélaga eftir skóla. (Sá bekkjarbróðir minn, sem helst hafði heimsótt mig, er nýlega fluttur úr hverfinu.) Hins vegar er gestkvæmt á heimilinu, eins líklegt að eitthvert aðkomufólk sé í síðdegiskaffi og ég sitji þá til borðs með því. Ég drekk auðvitað mjólk og fæ með henni einhvers konar sætabrauð, yfirleitt heimabakað (en matbrauð var að jafnaði úr bakaríi, aldrei bakað úr gerdeigi heima; amma bakaði hins vegar flatkökur á þurri pönnu). Ef ekki koma gestir, sem amma þarf að sinna, býst ég við að hún vilji gera eitthvað með mér einum. Það var t.d. um þetta leyti sem hún spilaði oft við mig tveggja manna bridds til að geta síðar kennt mér að spila alvöru bridds við fullorðna, en það var algeng kvöldskemmtun fjölskyldunnar, oft með gestum.

Þegar karlmennirnir koma heim úr vinnu er afi vanur að leggja sig með dagblöðin. Pabbi hefur ekki eins fasta dagskrá. Þennan dag má t.d. vel vera að hann eigi erindi á Borgarbókasafnið – það er líka við Grundarstíginn – til að skipta um bækur. Hann á hámarksfjölda lánsskírteina (sjö eða átta að mig minnir) og leyfir mér að nota tvö eða þrjú. Ég fer helst alltaf með honum og skipti um bækur eins og hann. Ég vel bækur að nokkru leyti sjálfur en hann leiðbeinir mér líka, bendir á bækur sem hann þekkir og heldur að ég hafi nú aldur til að lesa. Það geta bæði verið unglingaskáldsögur og fræðslurit.

Kvöldmat borðar fjölskyldan saman undir útvarpsfréttum kl. 7.

Um kvöldið er eins líklegt að einhverjir gestir líti inn. Ég get t.d. hugsað mér að það sé frænka mín ein, sem hafði verið heimagangur og stundum heimilismaður en er nú gift fyrir nokkru, og komi nú í kvöldheimsókn með manni sínum. Það er viðkunnanlegur maður sem amma hefur mikið dálæti á og deilir með henni áhuganum á bridds. Þau setjast við spilaborðið með afa og pabba. Frænka mín spilar ekki, en þær mamma eru sveitungar og æskuvinkonur og hafa um nóg að spjalla. Ég get setið hjá ömmu og fylgst með henni spila („verið henni til heilla“ eins og hún kallar það) meðan ég nenni, eða öðrum kosti sest með bók í hinni stofunni. Og beðið eftir mjólk og kökum sem ég fæ örugglega þegar gestunum er borið kvöldkaffið. Ekki hentugt fyrir holdafarið, en tilhlökkunarefni að öðru leyti.


Kafli 1 af 3 - Lýsing á uppvaxtarheimili

Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd. Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið. Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að næsta spurningakafla sé svarað.

Kafli 2 af 3 - Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum

Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.
Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?
Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?
Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?
Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?
Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.
Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?
Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?
Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?
Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?
Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?
Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.
Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?
Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?
Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?
Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.
Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?
Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?
Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?
Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.
Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 3 - Dagur í lífi heimilismanns

Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.