LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiEndurnýting, Nýtni, Sjálfsþurft, Viðgerð
Ártal1970-2010
Spurningaskrá113 Heimatilbúið, viðgert og notað

Sveitarfélag 1950Hrunamannahreppur
Núv. sveitarfélagHrunamannahreppur
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1963

Nánari upplýsingar

Númer2010-2-73
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið20.8.2014/20.8.2014
TækniTölvuskrift

(...)  (Kona fædd snemma á sjöunda áratug tuttugustu aldar, búsett í Reykjavík)

Ég kýs að hafa þetta að mestu frásögn í samfelldu mál og má segja að hún spanni allt frá því að ég man eftir mér (á ofanverðum sjöunda áratug 20. aldar) til nútíma. Ég hef spurningaskrána til hliðsjónar og í lokin er samtíningur sem er svör við þeim spurningum sem ég taldi standa eftir. Þótt ekki hafi verið beðið um það set ég með nokkrar myndir mér til skemmtunar.

 

Saumaskapur, fataviðgerðir, nýting og endurnýting efnis og fatnaðar:

Móðir mín saumaði föt á sjálfa sig og okkur systkinin og naut oft við það leiðsagnar móður sinnar. Ég man þegar amma kom og gerði það flóknasta, eins og að klippa við hálsmál (kringja) og handveg, og man líka þegar færni mömmu og sjálfstraust hafði vaxið svo að hún ákvað að gera þetta bara sjálf!

Ég lærði eitthvað að sauma föt í skóla. Þar saumaði ég til dæmis skyrtu á sjálfa mig og skyrtu á litla bróður minn. Mest lærði ég þó af móður minni og fikraði mig svo áfram. Ég keypti notaða sauma­vél þegar ég var 21 árs og gerði eftir það talsvert af því að sauma föt á sjálfa mig og síðar börnin mín en með tilkomu þeirra urðu fataviðgerðir og –breytingar líka fyrirferðarmeiri. Um 10 árum síðar keypti ég mér nýja vél sem ég hef notað síðan. Síðustu árin hef ég minna gert af því að sauma, nema þá eitthvað sérstakt sem mig langar í fyrir mig og mína og ekki fæst í búð. Ég geri hins vegar enn við föt og breyti fötum.

Á tímabili var ég oftast með saumavélina uppi við og saumaði jafnan nokkrar flíkur á ári, auk þess að breyta og bæta. Nú líða stundum mánuðir án þess að ég saumi nokkuð.

Ég saumaði föt af öllu tagi: hversdagsföt og spariföt, buxur, skyrtur, kjóla, jakka, frakka, úlpur, jafnvel peysur (úr keyptu prjónaefni og síðar flísefni). Oft var þetta til að spara fatakaup, en ekki síður til að eignast eitthvað sem ekki var til í búð, eitthvað aðeins öðruvísi. Í samræmi við það held ég að grímubúningar og spariföt á börnin mín hafi verið þær flíkur sem voru mun oftar heimasaumaðar en keyptar. Þetta voru þær flíkur þar sem verslanir gátu síst mætt óskum og væntingum, ýmist hjá mér eða börnunum.

Ég hef nokkrum sinnum látið sauma fyrir mig á saumastofu, þá flíkur sem ég hef ekki lagt í að sauma sjálf. Þetta hafa helst verið yfirhafnir, en einnig lét ég sérsauma vesti á son minn í stíl hátíðabúnings karla. Þá valdi ég efnið, saumaði sjálf kjól á dóttur mína en lét sauma fyrir mig vestið.

Skó látum við gera við ef hægt er og við viljum nota þá lengur. Þetta hygg ég að hafi ekkert breyst, hvorki minnkað né aukist.

Þegar elsta barnið mitt (fætt 1991) var lítið fór ég að sauma upp úr notuðum flíkum og nýta efnisbúta af eldri flíkum. Stundum notaði ég slíkt efni á móti keyptu efni, eða í viðgerðir. Þrátt fyrir lítil efni og mikla nýtingu á mörgum sviðum þegar ég var að alast upp var ég ekki alin upp við að saumað væri upp úr fötum.

Ýmsar ástæður voru fyrir því að ég tók upp á þessari endur­nýtingu: Efni úr fullorðins­flík dugir auðveld­lega í flík á barn og tilkostnaður lítill sem enginn. Eins voru efni í keyptum flíkum oft bæði öðruvísi og betri en það sem fékkst í vefnaðarvöru­verslunum. Á tímabili fannst mér sem ekki væri hægt að fá í búð jafngott efni og í jakkafötum karla. Því saumaði ég sparibuxur á syni mína upp úr keyptum buxum. Stundum var líka hægt að nýta flókinn og fallegan hluta af eldri flíkinni óbreyttan, t.d. fellingar á skyrtubrjósti, pífur o.fl., með því að vanda sig við að sníða. Síðast en ekki síst fannst mér og finnst ótrúlega skemmtilegt að endurskapa aflagða flík, sjá nýtt verða til úr „ónýtu“, og sérstök og gefandi tilfinning að horfa á barnið sitt í einhverju sem maður sjálfur eða einhver manni nákominn átti áður. Þannig varð ullarkápa sem ég eignaðist 17 ára gömul að herrafrakka á ungan son minn 17 árum síðar – og 30 árum eftir að ég eignaðist kápuna notaði yngri sonurinn hann. Þegar dóttir mín fermdist var hún í kjól sem var saumaður upp úr kjól sem amma hennar og nafna, móðir mín, gekk í hátt í 50 árum áður. – Fermingarstúlkan var stolt og ánægð, ekki síður en amman, mamman og móðursystirin sem í það skiptið bar hitann og þungann af saumaskapnum. Hún hefur saumað eins og ég gegnum tíðina, en einnig prjónað.

Ég geri við föt: stytti, síkka, þrengi, víkka, skipti um rennilása, bæti, laga saumsprettur, festi tölur. Stundum er þetta einfaldlega vegna þess að góð flík eða uppáhaldsflík bilar lítillega og einfalt mál að lengja líf hennar. Stundum vegna þess að ég eða aðrir á heimilinu eignast flík (nýja eða notaða) sem reynist ekki alveg henta og þarf að breyta aðeins.

Sumar viðgerðir eru þó erfiðari og tímafrekari en spara mikil útgjöld. Maður gæti ekki reiknað sér hátt tímakaup við að skipta um rennilás á kuldagalla af barni, það er óttalegt puð, en ef gallinn er góður er það vel þess virði. Mér finnst þetta heldur alls ekki leiðinlegt, og í vel heppnaðri, erfiðri viðgerð felst ákveðinn sigur! Stundum spilar líka inn í löngunin til að endurskapa. Oft laga ég föt með því að breyta þeim, set ekki bót yfir gat, heldur bæti við bryddingum eða skrauti, sem eiga „eins og af tilviljun“ að hylja gatið. Oft nýti ég gömul föt í slíkar viðgerðir, tek til dæmis einhvers konar „merki“ af úrsérgengnum buxum og set yfir gat á buxum sem enn eru í notkun. Eins hendi ég ekki ónýtri flík án þess að hirða af henni tölur, rennilás og jafnvel fleira og setja á „saumalagerinn“.

Einhvers staðar á milli þess að sauma upp úr gömlu og gera við liggur sú iðja að gera tvær flíkur að einni. Þá hef ég til dæmis tekið tvennar mjög líkar íþróttabuxur sem orðnar eru of stuttar, klippt aðrar sundur fyrir ofan hné og hinar fyrir neðan hné, saumað lengri efri hlutann við lengri neðri hlutann og fengið út einar nógu síðar buxur. Slíkar íþróttabuxur eru hvort eð er oft með saumum hér og þar til skrauts og því getur útkoman orðið eins og buxurnar hafi alltaf verið svona.

Ég nýti efni á fleiri vegu en að búa til föt. Ég sauma til dæmis gardínur, þ.e. kaupi efni og set á gardínuborða og falda. Gömlum bómullargardínum sem ég tek niður hef ég breytt í lök. Það geri ég í bland mér til skemmtunar. Mér finnst fyndið að breyta gardínu í lak og kemst í gott skap í hvert sinn sem ég set það á rúmið. Ekki síst ef hún er mynstruð. En svo verða þetta líka fyrirtakslök ef efnið er mjúkt og gott.

Hvað er sparsemi, nýtni, níska? Hvað er eðlileg „neysla“ í velmegunarríki og hvað sóun? – Hvenær er of og hvenær van? Ég velti þessu talsvert fyrir mér í kringum svokallað góðæri og hrun. Nýtni átti ekki upp á pallborðið í góðærinu. Þrátt fyrir það hélt ég mínu striki í sauma­skapnum og endurnýtingunni en fann þegar hrunið brast á að þessi iðja var eins og endurskilgreind á nánast einni nóttu. Það sem var „synd“ varð „dyggð“, það sem var sérviska og jafnvel níska varð að eftirsóknar­verðum hæfileika og aðdáunarverðum.

Hvers vegna geri ég þetta? Vissulega spara ég og nýti með því að gera við föt og sauma ný upp úr gömlum. Hvort tveggja finnst mér mikilvægt fyrir sjálfa mig og fyrir umhverfið. Mér finnst líka mikilvægt að börnin mín séu vel til fara. Ég geng sjálf ekki í stagbættum fötum og býð þeim ekki heldur upp á það. Ég geri því aðeins við föt að hægt sé að gera það vel og fallega að mínu mati.

Viðgerðir og saumaskapur eru ekki aðeins sparsemi, ég bý líka til margt sem ég myndi ekki kaupa þannig að þá spara ég mér engin kaup. Mér finnst þetta einfaldlega skemmtilegt – gefandi. Ef þetta bauk byggðist allt á skynsemi og sparsemi myndi ég líka prjóna, en flíkur sem ég hef prjónað um ævina eru teljandi á fingrum. Þegar maður saumar flík verður eitthvað til. Mér finnst gaman að búa eitthvað til, gaman að umbreyta hlutum og sjá nýja verða til. Og mér finnst gaman að sjá börnin mín í flíkum sem ég bjó til.

Í heimi þar sem fátækt er víða böl og rusl sívaxandi vandamál finnst mér að nýtni þyrfti að vera meiri. Það truflar mig að henda flík sem er einfalt að gefa nýtt líf og ég hef lagað góð föt sem börnin mín eru um það bil að vaxa upp úr og síðan gefið þau öðrum eða í fatasöfnunargám. Mér finnst sóun á jörðinni að búa til ruslahauga úr nothæfum fötum, ekki síst meðan fullt er af örsnauðu fólki í veröldinni.

Slík umhverfissjónarmið – og um leið vinnuhagræði – ráða því að þegar ég þarf að henda ónýtri bómullarflík, laki, sængurveri, handklæði eða öðru náttúruefni læt ég það „millilenda“ sem tusku í heimilisþrif, málningarvinnu eða slíkt áður en það fer í ruslið. Þegar börnin voru lítil klippti ég slitin handklæði í litlar tuskur sem ég notaði við bleyjuskipti og henti svo, þ.e. þau urðu að einnota klútum áður en þau fóru í ruslið. Á þeim tíma var ekki tekið við slíku í neinni söfnun en nú eru skilaboðin a.m.k. stundum að allt nýtist einhvern veginn, gatslitið sem heilt.

Föt af börnum ganga manna á milli í fjölskyldunni, bæði minni og tengdafjölskyldunni og í vinkvennahópnum. Ég held að þetta sé algengt. Ég hef fengið fatasendingar frá frekar fjarskyldum ættingjum og vinkonum, sem einfaldlega vildu að einhver notaði fötin sem börnin voru vaxin upp úr. Eins hef ég gefið föt á mér skyld og óskyld börn, auk þess að setja í fatasafnanir. Minna held ég að sé um að föt á fullorðna gangi manna á milli, en þó þekki ég það, t.d. þegar fólk vex upp úr eða „niður úr“ fötum. Notuð, nýtileg föt af okkur hjónum fara yfirleitt í fatasöfnunargáma.

 

 

Aðrar viðgerðir, viðhald og endurnýting

Faðir minn er góður járnsmiður, ekki menntaður en flinkur. Auk þess var hann – og er þótt heilsan leyfi ekki lengur að hann standi í stórræðum – óvenju útsjónarsamur og laginn við að sjá og útfæra vinnusparandi tæki og tól. Fyrir vikið ólst ég upp við að sitthvað sem hægt var að kaupa í búðum væri smíðað heima en þá helst betrumbætt í leiðinni og jafnframt að ýmislegt væri smíðað heima sem alls ekki fékkst í búðum. Sem dæmi um þetta má nefna að þegar hann vann á jarðýtu smíðaði hann einhvers konar vængi utan á ýtutönnina sem komu í veg fyrir að efni (t.d. möl) sem hann var að moka flæddi út fyrir til hliðanna. Sem fyrirmynd að þessu hafði hann mynd í útlendum bæklingi. Einnig smíðaði hann einhvers konar viðbót við tönnina þannig að snjómokstur á ýtunni gengi betur og hraðar. Mér skilst á honum að eitthvað svipað þessu þyki nú sjálfsagt á jarðýtum.

Þegar foreldrar mínir byggðu gróður­hús og gerðust garðyrkjubændur tíðkaðist víðast hvar að tómatar væru tíndir í fötu. Þegar hún var orðin full gekk sá sem tíndi út í enda gróðurhússins og hellti úr henni í kassa eða körfu. Pabbi smíðaði hjólatík undir körfurnar þannig að ekki þurfti að bera neitt og ferðirnar til að tæma tínsluílátið urðu færri. Einhvers konar fyrirmynd hafði hann en betrumbætti hana mjög, meðal annars með því að nota dekk af barnahjóli sem systir mín eignaðist upp úr 1963. Þetta hjól hafði verið hirt á ruslahaugunum í Gufunesi, gert upp og henni síðan gefið það. Miklu munaði, sagði pabbi, að hafa vind í dekkjunum. Það bætti „aksturseiginleika“ þessa „ökutækis“.

Hann smíðaði líka pall sem einhvern veginn var festur á ámoksturstæki. Hann var notaður til að lyfta grænmetinu upp á flutningabílinn, en þá tíðkaðist sem sagt á öðrum bæjum að lyfta öllu grænmeti með höndum upp á bílinn. Pallurinn var einnig notaður eins og færanlegur vinnupallur, t.d. þegar bæta þurfti brotið gler í gróðurhúsinu. Þá má nefna „hillur“ sem hann smíðaði utan á gamlan traktor sem notaður var við útplöntun. Áður var aðeins hægt að taka með út í garð fáa bakka með plöntum. Þegar þær voru búnar þurfti að keyra til baka, garðinn á enda, og sækja fleiri. Þessum ferðum til að sækja plöntur fækkaði um helming eða meira þegar hillunum hafði verið bætt við. Þegar farið var að nota akríldúka við útiræktun hannaði hann einnig einhvers konar græju til að rúlla þeim upp eftir notkun og síðan af aftur árið eftir. Önnur viðbót við traktorinn mokaði mold upp á kantinn á dúknum til að hann fyki ekki. Á öðrum bæjum var moldinni mokað í höndunum með skóflum.

Loks má geta þess að hann á Land Rover árgerð 1962. Í hann setti hann rúðupiss þegar slíkt fór að tíðkast í nýjum bílum og bætti við bæði afturþurrku og rúðupissi að aftan.

Efniviður föður míns er gjarna eitthvað gamalt sem hann endurnýtir. Rúðupissið í Land Rovernum var t.d. áður í Volvo sem lagði upp laupana. Hann endurnýtir líka bæði járn og timbur.

Í æsku minni var einnig gert við flest sem hægt var að gera við heima. Pabbi gerði við bíla og traktora, sem og heimilistæki eftir því sem hægt var. Smám saman kröfðust biluð heimilistæki þó meiri eða a.m.k. annarrar þekkingar en hann hafði. Hann var þó alltaf minna fyrir að smíða úr timbri og ýmislegt viðhald sem tengdist timbri eða málningarvinnu varð frekar út undan en vélaviðgerðir og járnsmíði.

Maðurinn minn er einnig alinn upp við nokkra sjálfsbjargarviðleitni og endurnýtingu, en þó á smærri skala ef svo má segja. Faðir hans gerði við bíla og lagaði margt heima fyrir en hafði ekki sömu vinnuaðstöðu og faðir minn. Eftir hann liggja fínlegri hlutir. Hann smíðaði til dæmis dúkkuhús handa dóttur sinni og nostraði við það.

Við höfum því sama bakgrunn að þessu leyti – kannski er hann ekki svo ólíkur bakgrunni annarra, ég veit það ekki vel. Þó hygg ég að útsjónarsemi föður míns sé dálítið einstök.

Við hjónin gerum við og lögum eftir föngum. Sumt gerum við saman og sumt hvort í sínu lagi. Við höfum til dæmis bæði pússað upp húsgögn og lakkað, en það hefur ekki verið samstarfsverkefni. Sama gildir um lélegt parket. Við höfum tekið slíkt í gegn með juðara og pensil að vopni, hvort sitt herbergisgólfið. Við höfum líka stytt barnarúm til að nýta betur pláss og lengt rúm ömmu minnar og afa með nýjum hliðum til að við gætum sjálf notað það. Einnig sjáum við sjálf um að mála hýbýli að utan og innan og dyttum að ýmsu sem bilar. Þar er verkaskipting að hluta. Sjálf kem ég til dæmis aldrei nálægt viðgerðum á rafmagnstækjum eða sem tengjast rafmagni á einhvern hátt. Stórgerðari smíðavinna er gjarna á hans herðum, þó er það ekki algilt. Einu sinni fór ég á smíðanámskeið sem var sérstaklega ætlað konum og smíðaði þá sófaborð sem við notum enn. Um tíma áttum við bíl sem tveir felguumgangar fylgdu. Þá sá hann um að setja undir vetrardekkin að hausti og svo aftur sumardekkin þegar voraði. Það springur orðið sjaldan á bílum, en ég hugsa að hann myndi skipta um dekk ef við værum bæði á ferð. Ég hef gert það þegar ég hef verið ein á ferð.

Við límum ef hægt er hluti sem brotna og okkur finnst verðmætir, til dæmis skrautmuni. Það sama gildir um alls kyns búsáhöld ef okkur finnst ekki koma að sök eða bitna á notagildinu að hafa þá límda. Þegar þetta er skrifað er til dæmis í eldhúsinu límt hnífskaft, límt lok á hrærivélarskál og límdur tertuhjálmur. Alla jafna nennum við hins vegar ekki að nota laskaða hluti þegar það bitnar á notagildinu eða hefur í för með sér vesen við notkun, nema þá kannski eitthvað sem notað er sjaldan.

Einnig höfum við lagað leikföng, bæði límt, saumað og lagað. Yngri systkini hafa fengið hjól frá eldri systkinum og þá hafa þau gjarna verið tekin í gegn, til dæmis punktað í helstu rispur og bónað.

Eins höfum við breitt efni yfir illa farið áklæði á húsgögnum. Tveir stólar í stofunni eru til dæmis nú „klæddir“ í efni sem áður var gardínur. Fyrir þessu liggur sú ástæða að stólarnir eru orðnir illa farnir, en dýrt væri að gera við þá. Þeir voru hins vegar áður eign ömmu mannsins míns þannig að við tímum ekki að henda þeim.

Fyrir utan þá iðju að breyta fötum og öðrum vefnaði í eitthvað nýtt held ég að við höfum ekki verið stórtæk í því að breyta gömlum hlutum í eitthvað annað. Við höfum þó smíðað upp úr eldri hlutum, t.d. urðu hliðar úr úrsérgengnum bókaskáp að hillum í geymslunni og úr litlu grindverki, sem var í garðinum þegar við keyptum húsið,  smíðaði maðurinn minn kistu fyrir garðverkfærin. Þá fá ýmis ílát nýtt hlutverk, hólkur undan viskíflösku er til dæmis góður undir prjóna og rótgróið samband virðist vera milli Mackintosh-dósa og talna.

Verkfæri á heimilinu eru að ég held frekar hefðbundin, hamrar, sagir, ýmsir lyklar og skrúfjárn. Rafmagnsverkfæri eru helst borvél, lítil hjólsög, juðari og stingsög. Við eigum lítinn bílskúr sem rúmar lítið meira en bílinn. Þar höfum við sinnt ýmsu sem lýtur að viðhaldi heimilisins og skúrinn stundum verið lagður undir ákveðið verk í einhverjar vikur, en á veturna fær bíllinn skúrinn. Stór verkefni af þessu tagi þarf því að vinna á sumrin.  

 

 

Matargerð

Á síðustu árum höfum við gert meira af því en áður að búa til mat frá grunni, til dæmis kjöt- og fiskbollur og slíkt. Þessi þróun hófst upp úr aldamótum og undanfarin ár höfum við talsvert gert af því að kaupa kjöt beint frá býli. Við erum þó langt í frá „heittrúuð“ í sambandi við mataræði, það eru fyrst og fremst mikið unnar matvörur sem hafa heldur fengið að víkja

Við höfum einnig tekið okkur á í sambandi við nýtingu á mat. Brauðendar hafa lengi orðið að brauðraspi og við höfum reynt að fara vel með mat, en þegar farið var að ræða um matarsóun í heiminum nú nýlega (2013-2014) ákvað ég að vanda mig sérstaklega við að henda sem allra minnstu af mat. Það breytti talsvert miklu. Við frystum „þreytta“ ávexti í þykka ávaxtadrykki, nýtum kjötafganga í pastasalat og höfum stundum afganga með okkur í nesti.

Ég er alin upp á garðyrkjubýli og amma mín og afi í næsta húsi voru líka garðyrkjubændur. Ég ólst því upp við fjölbreytta grænmetisræktun og nýt enn góðs af því hjá foreldrum mínum. Mamma ræktar enn tómata til sölu en að auki alls konar tegundir til skemmtunar og búdrýginda. Þetta jókst í kjölfar hrunsins. Þá voru foreldrar mínir nánast hættir útræktun en við mæðgurnar þrjár ákváðum að koma á fót garði til heimanota. Hann hefur verið síðan 2009 og nefnist „Kreppugarður“. Vinnan lendir þó talsvert á mömmu og barnabörnum sem dvelja hjá henni á sumrin og systir mín er með græna fingur, sem ég hef ekki, og tekur því mikinn þátt í forræktuninni. Ég hef lítið frumkvæði í ræktuninni en planta og tek upp – geri það sem mér er sagt og finnst skipta miklu að fá þetta grænmeti „að heiman“.

Við bökum oft til heimilisins. Kökur eru bakaðar fyrir veislur, einnig einfaldar kökur til að hafa hversdags. Pitsur eru bakaðar um flestar helgar. Stundum er bakað brauð, en ekki oft. Verkaskiptingin er nánast þannig að ég sé um marengstertur og aðrar hnallþórur ef slíkt er haft á borðum, við bæði um hversdagskökur en maðurinn minn um brauð- og pitsubakstur. Síðustu ár hefur verið „matarskiptasamningur“ milli mín og tengdamóður minnar. Henni hentar illa að elda handa sér einni en finnst gaman að baka. Ég elda því matarskammta í frystinn hjá henni og hún bakar eina köku á viku handa mínu heimili.

Í minni fjölskyldu er sterk hefð fyrir því að allir hjálpist að þegar veislur eru haldnar. Það er nánast sjálfsagt að fermingarveislur séu samstarfsverkefni stórfjölskyldunnar (foreldra minna og okkar systkinanna og þeirra fólks). Sömuleiðis hjálpast fólk að í tengdafjölskyldunni.

Margar uppskriftir eru ættaðar frá mæðrum okkar hjóna. Algengasta hversdagskakan er til dæmis skúffukaka eftir uppskrift frá tengdamóður minni. Sparikökur í veislum koma meira og fara. Við höfum haldið tvær fermingar­veislur. Í annarri voru kökur. Þá lögðum við okkur nokkuð eftir uppskriftum frá fjölskyldunum og þjóðlegu ívafi í bland við nýjungar. Til að mynda steikti ég ásamt móðursystur minni kleinur eftir uppskrift móðurömmu minnar. Einnig var boðið upp á súkkulaði sem lagað var eftir uppskrift Kvenfélags Hrunamannahrepps, nokkurs konar blanda af súkkulaði og kakói. Til gamans var boðið upp á 17 sortir, með tilvísun í hina metnaðarfullu húsmóður Hnallþóru. Við bökum fyrir jólin og þá helst einhverjar smákökur sem við ólumst sjálf upp við. Ég baka til dæmis oftast vanilluhringi eftir uppskrift mömmu en hann jólarósir að hætti móður sinnar.

Við leggjum okkur nokkuð eftir því sem kalla mætti þjóðlegar hefðir en þó frekar eftir okkar eigin fjölskylduhefðum. Ég elda kjötsúpu og saltkjöt og baunir samkvæmt uppskrift móður minnar og við búum til sviðasultu eins og gert var á æskuheimili hans (heima hjá mér voru sviðin etin „eins og þau koma fyrir af skepnunni“). Einnig tökum við stundum slátur og þá gjarna í félagi við aðra í annarri hvorri fjölskyldunni. Ég held að þrjú slátur sé hæfilegur ársskammtur handa heimilinu, en þó ágætt að sleppa slátri alveg af og til. Fyrir sláturgerðinni er löng hefð en þó vorum við orðin óduglegri við þetta í kringum góðærið svokallaða en það breyttist í hruninu. Ástæðan var ekki endilega fjárhagsleg, hrunið breytti fjárhag okkar ekki svo mjög, heldur fann maður fyrir einhvers konar sjálfsbjargarþörf, þörf fyrir að gera eitthvað sjálfur og vera ekki öðrum háður. Þess má geta að orðið slátur merkir ekki alveg það sama hjá okkur hjónum, ég nota orðið sem samheiti fyrir blóðmör og lifrarpylsu, en hann kallar blóðmörinn slátur (og getur því t.d. sagt að í matinn sé „slátur og lifrarpylsa“).

Á haustin gerum við rifsberjahlaup og rabarbarasultu og stundum eitthvað fleira af því tagi. Rifsberin fáum við í eigin garði en rabarbarann hjá foreldrum mínum – en sjáum þó sjálf um að skera hann upp. Fyrir jólin sýður maðurinn minn rauðkál sem helst á að duga allt árið. Hann hefur búið til líkjör úr bæði rifsberjum og rabarbara. Ekki er þó um eiginlega bruggun að ræða heldur frekar bragðbættan og sykraðan vodka.

Ég er alin upp við mikla niðursuðu á haustin. Mamma sauð alltaf niður græna tómata og gúrkur, gerði pikkles úr papriku og gerði alls konar tilraunir á þessu sviði. Ég gerði þetta á tímabili en ekki á seinni árum. Hún gerir þetta enn og gefur okkur alltaf einhverjar krukkur og það hefur fullnægt „þörfinni“. Ég frysti hins vegar talsvert af grænmeti á haustin, einkum spergilkál.

Við förum ekki í berjamó. Aðalástæðan er líklega að mér finnst óstjórnlega leiðinlegt að tína ber í ílát. Ekki höfum við heldur vanist fjöruferðum til að safna í matinn eða sveppatínslu. Ég tíni hins vegar ýmsar jurtir á sumrin, þurrka og nota í te, til dæmis birkilauf, blóðberg og maríustakk. Við notum einnig fjallagrös en þau hef ég frekar fengið hjá systur minni sem er iðnari en ég við alls kyns tínslu.

 

Annað heimatilbúið, endurnýtt og endurunnið

Margir skrautmunir heimilisins eru, eins og gjarna á heimilum þar sem eru börn, afrakstur af leikskóla- og skólastarfi barnanna. Við hjónin búum ekki, eða a.m.k. afar sjaldan, til hluti til skrauts. Við búum ekki oft til gjafir, þó hef ég stöku sinnum saumað jólagjafir eða afmælisgjafir, jafnvel prjónað (þótt ég hafi lítið prjónað), einnig sængurgjafir. Þá er nær undantekninga­laust um að ræða nytjahluti (flíkur, merkt sængurver o.s.frv.) en ekki útsaumaða skrautmuni (eins og rósapúða). Einnig höfum við gefið eitthvað heimatilbúið matarkyns, t.d. kökur, sultur og rifsberjalíkjör. Stundum fylgir það í pakka með einhverju keyptu, stundum ekki. Börnin hafa einnig búið til gjafir handa ömmum og öfum.

Merkispjöld á jólapakka höfum við gert sjálf í nokkur ár og notum þá skannaðar jólamyndir frá yngsta barninu. Öll kort á afmælispakka hafa börnin útbúið frá því það elsta var farið að teikna höfuðfætlur.

Við höfum ekki búið til mörg leikföng. Eitthvað saumaði ég þó af dúkkufötum og gerði upp ónýta dúkkukerru sem ég keypti á slikk í Kolaportinu með því að sauma nýtt sæti en nota grindina. Þetta varð ákaflega vel heppnað og langlíft leikfang. Dóttir mín fékk dúkkurúm úr pappamassa sem systir mín bjó til. Hins vegar höfum við gert við leikföng af öllum mögulegum stærðum og gerðum, allt frá því að líma saman karla og bíla til þess að pússa upp hjól.

Þetta er eins og svo margt annað einhvers konar blanda af nýtni og tómstundaiðju, en viðgerðir á leikföngum snúast líka um löngun til að eiga áfram skemmtilegt dót.

Við kaupum talsvert af notuðum hlutum af ýmsu tagi, bæði á mörkuðum og á netinu. Þetta gildir um húsgögn, húsbúnað og sumar gerðir af fatnaði. Þetta snýst annars vegar um smekk – því við erum frekar hrifin af gömlum hlutum – en einnig um kostnað. Í góðærinu var ýmislegt endurnýjað hér á heimilinu með því að kaupa nýlega hluti sem annað fólk hafði ákveðið að henda, til dæmis bæði eldavél og frystikista. Ég hef einnig keypt notuð föt á netinu og í Kolaportinu. Mér finnst það betri kaup að eyða peningunum í lítið notaða vandaða flík heldur en sambærilegri upphæð í nýja en óvandaðri flík. Hér ræður því fjárhagurinn nokkru, en þetta er líka ákveðin aðferð til gera sitt til að draga úr sóun í veröldinni.

Við höfum líka keypt notaðar skólabækur og selt bækur. Það er auðvelt eftir að skiptibókamarkaðir urðu eins góðir og raun ber vitni og er held ég algengt.

Dósir og flöskur fara í endurvinnslu, einnig allt plast, gler, pappír og niðursuðudósir. Plastnotkun er þó enn of mikil þótt við séum sífellt að minnka hana. Breyting á sorpmálum heimilisins hefur verið gríðarlega undanfarin 6-8 ár. Hún sést til dæmis á því að hér áður fyrr var ruslatunnan tæmd einu sinni í viku og var stundum full, nú erum við með græna tunnu sem er tæmd á 20 daga fresti og er iðulega varla hálf. Við erum með moltutunnu í garðinum sem við eigum með nágrönnunum. Hún er eiginlega í runnanum sem skilur að lóðirnar og þannig hafa bæði heimilin aðgengi að henni. Ástæðan er ekki síst sú að lóðirnar eru litlar en þessar tunnur nokkuð stórar. Við tímdum því ekki plássi undir heila tunnu. Fyrir vikið þurfum við stundum að fara með gras í Sorpu, tunnan gæti ekki tekið við því úr báðum görðunum. Um aðra samnýtingu með öðrum er varla að ræða og ég get ekki sagt að við gerum mikið til að spara rafmagn eða hita.

 

Ég veit ekki vel hvernig við erum í samanburði við aðra, hvort við nýtum meira og gerum meira sjálf heldur en aðrir. Þó held ég að frekar fáar konur á mínum aldri saumi mikið af fatnaði (og karlar nánast alls ekki) eða leggi á sig jafnmiklar viðgerðir og ég hef gert, enda held ég að það sé frekar óvenjulegt að þykja slíkt skemmtilegt eins og mér finnst. Margar konur prjóna hins vegar mikið og aðrar föndra mikið.

Matargerð er mjög misjöfn eftir heimilum en ég held að mjög víða hafi þróunin verið svipuð og hér, í átt til þess að búa fleira til frá grunni en áður. Framboð í verslunum kann þó að benda til hins gagnstæða. Margir rækta grænmeti og kryddjurtir til heimilisins. Ég held að fjárhagur stýri þessu aðeins að litlu leyti, fólk með nóg efni ræktar ekkert síður til heimilisins en fólk í litlum efnum. Þetta fer meira eftir áhugamálum og kannski uppeldi viðkomandi. Ég hugsa þó að hér sé tiltölulega oft á borðum einhvers konar gamaldags matur miðað við það sem gengur og gerist í borginni, a.m.k. heyrist mér það þegar ég ræði við aðra og tengdadóttir mín, tvítug, hefur bragðað ýmislegt hér sem aldrei er á borðum heima hjá henni. Á sveitaheimilum hjá jafnöldrum mínum þar sem ég þekki til er matur svipaður og hér.

Líklega gildir um allt þetta, saumaskap, matseld og heimagerða hluti, að fjárhagsleg þörf ýtir undir slík verk (þótt fólk skilgreini „þörf“ misjafnlega) en um leið held ég að einhver ánægja verði að fylgja til að þau verði sjálfsagður hluti af heimilishaldinu. Ég er ekki viss um að neyðin ein kenni naktri konu að spinna nú til dags, hana þarf líka að langa til þess.

 

 


Kafli 1 af 4 - Viðgerðir og endurbætur

Er gert við fatnað? Hvaða fatnað? Hversu umfangsmiklar eru viðgerðirnar? Hve algengt er þetta? Hefur einhver á heimilinu kunnáttu sem nýtist við fataviðgerðir eða fatasaum og hvaðan er sú kunnátta komin? Hverju hefur hún skilað?
Í hvaða mæli er gert við reiðhjól eða bíla? Skiptir þú um dekk eða gerir við þau sjálf(ur)? Hve algengt er það?
Er dyttað að leikföngum, heimilistækjum og áhöldum? Hvað er hér helst um að ræða?

Kafli 2 af 4 - Búið til heima

Er bakað á þínu heimili? Hvaða brauð, kökur eða tertur eru helst bakaðar og úr hvaða mjöli eða korntegundum? Hvenær og af hvaða tilefni er helst bakað? Hve oft er bakað (t.d. einu sinni í viku)? Getur þú nefnt einhverjar uppskriftir og hvaðan þær eru komar (úr bókum, af netinu t.d.)?
Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?

Kafli 3 af 4 - aadas

Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?
Notar þú húsgögn eða tæki sem aðrir hafa átt áður? Hvað hluti er hér einkum um að ræða og hvaðan eru þeir fengnir (t.d. frá nytjamörkuðum eða skyldfólki)?

Kafli 4 af 4 - Nýting

Kemur fyrir að notuð föt séu gefin? Hverjum er gefið og af hvaða tilefni? Er saumað upp úr gömlum fötum? Hve algengt er það?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.