LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiEndurnýting, Nýtni, Sjálfsþurft, Viðgerð
Ártal1968-2011
Spurningaskrá113 Heimatilbúið, viðgert og notað

ByggðaheitiKeflavík, Kópavogur, Reykjavík
Sveitarfélag 1950Keflavík, Kópavogshreppur, Reykjavík
Núv. sveitarfélagKópavogsbær, Reykjanesbær, Reykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1906

Nánari upplýsingar

Númer2010-2-70
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið17.11.2010/5.12.2011
Stærð9 A4
TækniTölvuskrift

Persónulegar upplýsingar um heimildarmann:

(...1...) 

 

Dvalarstaðir:

Gilá í Vatnsdal 1947–1956

Geithamrar í Svínadal 1956–1964 

Menntaskólinn á Akureyri 1964–1968

Keflavík 1968–1969

Reykjavík 1969–1975

London 1975–1976

Reykjavík 1976–1989

Kaupmannahöfn 1989–1990

Reykjavík 1990–1996

Kópavogur 1996–  

 

(...1...)

 

Við hvaða staði og tímabil er svarið miðað?

Ég miða frásögnina fyrst og fremst við mína eigin reynslu og störf en hvoru tveggja helgast mikið af uppeldi mínu, gildismati og aðstæðum þeirra sem ólu mig upp. Gildismat mitt er í grunninn mjög líkt en sjálf hef ég búið að flestu leyti við gjörólíkar aðstæður og ekki þarf að lýsa hvað viðhorf í þjóðfélaginu hafa breyst mikið á því tímabili sem um ræðir. Tengdafjölskyldur mínar (2) hafa átt svipaðar rætur, tengdaforeldrarnir fæddust allir úti á landi og ólust þar upp á fyrri hluta 20. aldar en fluttu suður á sínum ungdómssárum, störfuðu þar og ólu upp sín börn en héldu sambandi við sveitina með ýmsum hætti. Allt einstaklega duglegt og vel gert fólk.

 

 

Viðgerðir og endurbætur

Er gert við fatnað? Hvaða fatnað? Hversu umfangsmiklar eru viðgerðirnar? Hve algengt er þetta?

Hefur einhver á heimilinu kunnáttu sem nýtist við fataviðgerðir eða fatasaum og hvaðan er sú kunnátta komin? Hverju hefur hún skilað?

 

Ég hef alla tíð gert við fatnað fjölskyldunnar og hef eftir efnahagshrunið komið þeim skilaboðum skýrt til afkomenda okkar að það væri velkomið að bæta buxur eða gera við hvaða fatnað sem þeir vildu. Vissulega hafa afköstin verið eitthvað mismunandi eftir tímabilum en bæði í gær og dag hef ég t.d. gert við, annars vegar lagað lykkjufall á peysu barnabarns (með heklunál og nál og þræði), en hins vegar gert við gallabuxur af bóndanum. Hann er mikill garðyrkjumaður og hugsar vel um heimagarð og skógræktarland og er í þessum skrifuðum orðum úti að smíða utan um trjágróður. Við þessa iðju þurfum við vinnuföt og notum alltaf uppgjafa föt sem gjarnan eru viðgerð. Í þetta sinn notaði ég saumavélina; lagaði trosnaða vasa, sikksakkaði yfir gat eftir greiðu á rassvasa, bætti annað hnéð og styrkti rassinn í buxunum. Það hafði ég reyndar áður gert með því að stinga bót úr öðrum buxum undir efnið og stoppa í vélinni. Nú voru komnir slitblettir utan þeirrar viðgerðar.

 

Dæmi um það sem ég hef gert við: saumsprettur og slysagöt á alls konar fötum, rifur og göt vegna slits, fest og eða skipt um tölur, ég venti meira að segja skyrtukraga þegar ég var ung og efnaminni. Þá saumaði ég föt á öll mín börn upp úr gömlum fötum ef svo bar undir, t.d. kjól úr síðkjól, náttföt úr náttkjól af fullorðnum, skokk úr fullorðinspilsi o.fl.

 

Þekkist að fara með fatnað á saumastofur til viðgerða? Hvaða fatnað helst?

Sjaldan, en þar sem svo vill til að systir mín er saumakona og á „overlook“ vél hefur það komið fyrir að ég hafi beðið hana að laga eitthvað. Fyrir stuttu fór ég með bómullargalla af barnabarni til hennar og fékk að nota þann lúxus til að setja ný stroff framan á peysuermarnar. Hún hefur reyndar saumað á mig upphlut og notaði þá hluta úr upphlutsbol móður minnar.

 

Í hvaða mæli er gert við reiðhjól eða bíla?

Það hefur alltaf verið almennt viðhorf á heimilinu að reyna að finna út hvað er að og gera við það sem bilar. Maðurinn minn hefur gert upp hjól og dyttað að bílum en þó hefur hann  ekki stundað meiri háttar bílaviðgerðir.

 

Mig minnir að sonur okkar hafi verið átta eða níu ára þegar hann byrjaði að gera við hjólið sitt. Hann gerði sér ferð á verkstæði í nágrenninu og spurði hvernig ætti að fara að og fikraði sig svo áfram. Áður en langt um leið fór hann að gera líka við hjól fyrir vini sína.

 

Skiptir þú um dekk eða gerir við þau sjálf(ur)? Hve algengt er það?

Nú orðið er farið með bíla á dekkjaverkstæði til að skipta um dekk. Auðvitað skiptir maður um dekk þegar springur en við höfum aldrei gert aldrei við þau sjálf.

 

Er dyttað að leikföngum, heimilistækjum og áhöldum? Hvað er hér helst um að ræða?

Já, það hefur alltaf verið reynt að laga leikföng, t.d. bíla, tuskudúkkur og þ.h.

 

Hvað annað er gert við?

Það er bara alltaf reynt að gera við hluti sem bila nema þeir séu svo gjörsamlega einskís virði.

 

Hvaða verkfæri eru til á heimilinu?

Mikið er til af alls konar verkfærum til smíðaviðgerða, s.s. hamrar, naglbítar, tangir, sagir fyrir tré og járn, hallamál, vinklar, hefill, skrúflyklar, skrúfjárn, sporjárn, juðarar, borvél og jafnvel vélsög, sem er sameign með syni okkar, stendur nú í skúrnum. Þá eru til járnkarlar, hjólbörur og mikið af  garðyrkjuverkfærum. Nýjasta verkfærið er kurlari þar sem við hjónin viljum vera ákaflega vistvæn og komum öllum jurta- og jarðvegsúrgangi einhvern veginn til jarðarinnar aftur.

 

Ferð þú með skó í viðgerð? Er meira eða minna um það nú en áður?

Já, stundum en ekkert frekar nú en áður. Á einkum við þegar hælar skekkjast sem hægt er að ráða bót á með því að setja plötu undir.

 

Annast þú viðhald eða viðgerðir á þínu eigin húsnæði og í hverju er það helst fólgið?

Fjölskyldan hefur mikið gert af því í gegnum tíðina. Dæmi: þakviðgerðir, steypuskemmdir á veggjum (brotnar upp sprungur og múrað), málning á veggjum og gluggum, skipt um rúður í gluggum. Alls konar innanhússlagfæringar og nýsmíði, t.d. parketlögn, flísalögn, eldhússinnrétting smíðuð að hluta, settar upp hillur, pússað, sparslað, málað og lakkað eftir því sem þarf, tekið loft af ofnum, lagaðir kranar og skipt um hitt og þetta, sett upp ljós og skipt um rafmagnssnúrur. Settar upp (jafnvel smíðaðar, a.m.k. styttar) gardínustengur, saumaðar gardínur og gert við þær ef þarf, límdir stólar og önnur húsgögn, gerðar upp kommóður, skápar o.þ.h.

 

Ef að þú ert með bílskúr til hvers er hann þá notaður?

Þar var innréttuð geymsla í einu horninu fyrir frystikistu og hillur undir ýmislegt dót sem ekki þolir að vera í alrýminu þar sem það er yfirleitt notað til alls kyns skítverka. Dæmi: kartöfluuppskeran er þurrkuð á gólfinu, gæsir reyttar á haustin, sagaðir skrokkar fyrr á árum fyrir utan smíðar og lagfæringar og viðhald á alls konar hlutum allt frá jeppakerru til garðstóla. Þar er t.d. alltaf borið á garðhúsgögnin á haustin áður en þau eru sett til hliðar.

 

Búið til heima

Er bakað á þínu heimili?

Já það hefur alltaf verið gert – en mjög mismikið eftir tímabilum.

 

Hvaða brauð, kökur eða tertur eru helst bakaðar og úr hvaða mjöli eða korntegundum? Hvenær og af hvaða tilefni er helst bakað? Hve oft er bakað (t.d. einu sinni í viku)?Getur þú nefnt einhverjar uppskriftir og hvaðan þær eru komar (úr bókum, af netinu t.d.)?

Já, það er oft eitthvað bakað um helgar eða þegar eitthvað stendur til, t.d. afmæli eða önnur hátíðahöld. Langoftast er bakað brauð eða bollur úr hveiti, heilhveiti, spelti og rúgmjöli, pönnukökur, lummur eða skonsur. Smákökur eru aldrei bakaðar nema 2-3 tegundir fyrir jólin. Aftur á móti er einstaka sinnum bökuð jólakaka eða formkökur sem ekki eru of sætar og svo grænmetisbökur og þess háttar. Nú er ég búin að lofa barnabörnunum að steikja kleinur a.m.k. einu sinni á ári. Steikti þær oftar áður fyrr en hætti því algjörlega í mörg ár. Nú er sem sagt verið að breyta til – allt fyrir barnabörnin. Kleinuuppskriftin er skrifuð upp eftir tengdamömmu, sonur hennar lét hana mæla og skrifaði það niður.

 

Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?

Já. Ég hef allan minn búskap búið til rabarbarasultu á sumrin og stundum aðra berjasultu. Á síðustu 10 árum hefur þessi framleiðsla aukist upp úr öllu valdi vegna þess að berjarunnum í garðinum hefur fjölgað og ef farið er á berjamó er alltaf gerð sulta eða hlaup. Dæmi: Sumarið 2010 voru sultukrukkurnar á milli 60 og 70 (yfirleitt frekar notaðar minni krukkur) með eftirtöldum tegundum af sultu: rabarbarasulta, sólberjasulta og sólberjahlaup, rifsberjasulta og rifsberjahlaup, hrútaberjasulta og auk þess blandaðar sultur, t.d. rabarbari og bláber, sólber og rifsber, sólber og bláber. Krækiberjasaft var oft búin til á fyrri árum, nú vill maður síður nota eins mikinn sykur og áður og því skellum við bláberjasaftinni ósykraðri í frystikistuna í ár og drekkum hana á eftir lýsinu á morgnana.

 

Kindakæfu hef ég sömuleiðis búið til allan minn búskap, í seinni tíð hefur framleiðslan frekar aukist en hitt því að stundum bý ég til fyrir börnin okkar. Svínalifrarkæfu geri ég oft fyrir jólin og sömuleiðis ýmiss konar sparikæfu í forrétti. Ís er búinn til fyrir jólin og einstaka sinnum sem eftirréttur af öðru tilefni.

 

Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?

Já, ég hef alltaf tekið slátur ef ég hef verið á Íslandi að hausti til. Ég lærði til sláturgerðar í áföngum sem krakki. Fékk fyrst létt verkefni um 6-7 ára aldur en fleiri  bættust við ár frá ári. Sjálfa sláturhræruna held ég að ég hafi fyrst gert eftir að ég fór sjálf að búa. Á meðan börnin voru lítil tókum við yfirleitt 10 slátur til að fá hollan og ódýran mat til vetrarins. Haustið 2010 (og nokkrum sinnum áður) stjórnaði ég sláturgerð í stórfjölskyldunni og við tókum 20 slátur og auk þess 5 lifrar. Börnin sækjast eftir því að við sláum saman svo ég á ekki von á því að þessu verki verði hætt á næstunni. Mest af slátrinu er geymt í frysti og borðað heitt en við hjónin setjum alltaf töluvert í súr og borðum daglega súrt slátur með hafragrautnum á virkum vinnudögum. Eitt barnið hafði ekki tíma haustið 2011 og því var slátrunum fækkað í 15 en áfram haldið með aukalifrarnar.

 

Ræktar þú grænmeti (kartöflur, rófur, kál, rabbarbara t.d.)? Í hvaða mæli? Hvað hefur þetta tíðkast lengi á þínu heimili?

 

Fjölskyldan hefur lengi ræktað kartöflur og rabarbara. Frá 1996 höfum við líka ræktað gulrætur og ýmiss konar salöt, spínat, hreðkur, kryddjurtir o.fl. Frá 2005 höfum við haft gróðurhús og þar með hefur ræktunin færst í aukana, t.d. höfum við fengið ágæta uppskeru af tómötum í nokkur ár. Vínber spruttu í fyrsta sinn sumarið 2010 og þá spratt kúrbítur líka.

 

Ferð þú eða einhver í fjölskyldunni á berjamó, í fjöruna eða tínir sveppi? Hvers vegna?

 

Við hjónin höfum tínt sveppi frá því árið 1974 og átt dálitlar birgðir af smjörsteiktum sveppum í frysti öll árin. Stundum höfum við þurrkað sveppina. Sömuleiðis höfum við oft farið til berja (bláber og krækiber), þó hafa komið sumur þar sem uppskeran í eigin garði hefur verið látin nægja. Nú í vetur eigum við fleiri fleiri lítra í frystikistunni af rifsberjum, bláberjum, sólberjum og stikilsberjum. Þetta leggjum við fyrst og fremst á okkur vegna hollustunnar og útiverunnar.

 

Eru saumuð föt heima hjá þér? Hvers konar föt og á hverja er saumað (t.d. börn)? Hve mikið er um þetta? 

 

Frá tvítugu og fram yfir fertugt saumaði ég töluvert af fötum, fyrst og fremst á sjálfa mig og börnin en einnig t.d. skyrtur á bóndann fyrir utan rúmföt og fleira sem vantaði á heimilið (dæmi: sóltjald, gluggatjöld, grímubúningar).  Líklega saumaði ég langoftast jólaföt á krakkana. Ég hætti því í mörg ár af nokkrum ástæðum: Ég lenti í veikindum upp úr fertugu, sinnti erilsömum störfum utan heimilis, og svo voru börnin uppkomin. Sjálfsagt hefur það líka skipt máli að hægt var að fá misdýr föt og þurfti því ekki að vera mjög dýrt að fata sig upp.

 

Hvaða áhöld til fatasaums eða fataviðgerða eru á heimilinu (t.d. saumavél)?

 

Haustið 1968 eignaðist ég mjög góða Pfaff saumavél í borði sem ég hef notað alla tíð síðan. Hún fékk að hvíla sig töluvert í 15-20 ár vegna annríkis utan heimilis en núna hafa aðstæður breyst og hún fær að spreyta sig við viðgerðirnar. Ég lét hreinsa hana upp í haust og hún gengur eins og klukka.

 

Prjónar þú eða einhver á heimilinu? Hvað er prjónað og á hverja? Er mikið/lítið um þetta?

 

Ég lærði snemma að prjóna og prjónaði mikið á yngri árum. Lagði prjónana svo frá mér á sama tímabili og ég minnkaði saumaskapinn en hef nú tekið upp þráðinn aftur og prjóna þá mest á barnabörnin. Það er þó misjafnt eftir tímabilum, stundum tek ég að mér of mörg verkefni og þá fá prjónarnir að hvíla sig.

 

Þekkir þú heimatilbúna (grímu)búninga, skraut, jólagjafir, jólakort og fleira þess háttar? Hve algengt er þetta og um hvað er helst að ræða?

 

Ég bý stundum til jólagjafir eða afmælisgjafir handa fjölskyldunni, oftast hafa þær verið prjónaðar eða saumaðar. T.d. saumaði ég jólasveinabúninga á börnin mín þegar þau voru lítil og gaf þeim í jólagjöf, oft hef ég gefið rúmföt og einu sinni meira að segja með ísaumuðu harðangurs- og klaustursmilliverki (tók mörg ár), stundum svuntur eða eitthvað smálegt. Skraut og jólakort geri ég ekki. Hins vegar hef ég í nokkur undanfarin ár skrifað jólabréf sem ég vel myndir í úr myndunum sem ég hef tekið á árinu.

 

Kannast þú við heimatilbúin leikföng? Hvaða leikföng og úr hvaða efnum? Eru búin til leikföng á þínu heimili?

 

Eitt af mínum mestu uppáhaldsleikföngum var tuskustrákur með ullartróði sem fóstra mín saumaði úr pokalérefti og gaf mér þegar ég var níu ára. Sjálf saumaði ég á hann augu, nef og munn með kontorsting. Hann var einstaklega ófríður, blessaður, en það breytti því ekki að dóttir mín elskaði hann út af lífinu þegar ég loksins tímdi að leyfa henni að leika sér með hann. Hún smyglaði honum inn á Landsspítalann átta ára gömul og komst upp með að hafa hann hjá sér þar skítugan og slitinn. Nú er þriðja kynslóð farin að stumra yfir Steina, eins illa farinn og hann er 55 ára gamall. Þá er hann gjarnan látinn liggja á spítala stórslasaður og bundið varfærnislega um handleggi og fætur þar sem skín í gráa ullina inn um rifurnar.

 

Hvað annað er búið til?

Í sláturtíðinni býr húsbóndinn alltaf til töluvert af sviðasultu sem hann annars vegar setur í súr fyrir Þorrann en hins vegar frystir. Hann súrsar einnig sviðalappir, stundum bringukolla fyrir utan blóðmör og lifrarpylsu. Kjöt hefur hann oft saltað þó það hafi minnkað með árunum.

 

Hafa heimastörf af framangreindu tagi einhverja efnahagslega þýðingu eða telur þú þau fremur til tómstundaiðju? Finnst þér að störfin hafi uppeldis- eða þjóðfélagslegt gildi? Hvernig þá ef svo er?

 

Mér finnst þau hafi bæði uppeldis- og þjóðfélagslegt gildi og auk þess menningarsögulegt gildi. „Það læra börnin sem fyrir þeim er haft,“ þau velja auðvitað sjálf hvað þau tileinka sér á fullorðinsárum. Fyrir okkur sem erum farin að eldast er þetta bæði tómstundaiðja og vani en getur haft holl áhrif á yngstu kynslóðina. Barnabörnin gangast upp í því að setja niður og taka upp kartöflur, kynnast og aðstoða við alls konar matjurtarækt og hjálpa til við ýmis smærri og stærri viðvik eftir aldri og áhuga. Þau áhugasömu finna verðug verkefni í sláturgerðinni, bakstrinum, ræktunarstörfunum og viðgerðunum.

 

Nýting

Notar þú húsgögn eða tæki sem aðrir hafa átt áður? Hvaða hluti er hér einkum um að ræða og hvaðan eru þeir fengnir (t.d. frá nytjamörkuðum eða skyldfólki)?

 

Nánast allt okkar innbú á sér einhverja sögu. Sófasettin tvö sem til eru á heimilinu komu bæði notuð í okkar eigu. Annað er líklega frá árunum 1940-50 og við keyptum það af bróður fóstra míns fyrir tæpum 20 árum. Hitt er rúmlega 100 ára gamalt (sessulangur og fjórir stólar með dumbrauðu plusáklæði) sem var gert upp fyrir rúmlega 20 árum af manni sem þá var kominn nálægt níræðu. Settið kom upphaflega í eigu fóstra míns úr dánarbúi frænku hans í Reykjavík skömmu eftir að ég fór til hans í fóstur (1956). Það var þá orðið nokkuð slitið og varð á endanum ónothæft en fólkið mitt lét þó ekki gera það upp á þeim tíma. Ég bað fóstra minn að henda ekki grindinni, mig langaði til að gera það upp og eiga til minningar um heimilið ef það væri öðrum að meinalausu. Það gekk eftir og árið 1990 keyptum við notað sporöskjulagað borð í Kaupmannahöfn sem stólarnir standa nú við.

 

Nánast allir bókaskápar á heimilinu eru annað hvort heimasmíðaðir eða keyptir notaðir. Borðstofuborð og stólar fylgdu með íbúðinni þegar við keyptum hana af tengdaföður mínum, tveir íslenskir litlir hægindastólar einnig og bambushúsgögn í forstofu. Lítil borð og náttborðin okkar hafa einnig verið áður í annarra eigu, náttborðin keypt í Fríðu frænku en hin fengin úr fjölskyldunni. Gamall saumavélarskápur tengdamömmu þjónar nú sem skápur undir matreiðslubækur og skápur sem geymir spariborðbúnaðinn er keyptur gamall í Svíþjóð. Fjórir lampar (af sex sem til eru) hafa verið notaðir af öðrum á undan okkur, tveir keyptir á fornsölu en tveir okkur gefnir.

 

Þegar við endurbættum eldhúsið okkar árið 1998 (veggi þess hafði ekki þurft að mála frá því húsið var byggt 1964) lögðum við áherslu á að nýta alla innviði skápa en skiptum um hurðir og borðplötur. Sama viðhorf höfum við til annarra viðgerða á húsinu, við nýtum gamalt, látum gera við slit eins og hægt er en forðumst að breyta stíl og anda umhverfisins.

 

Ganga yngri börn í fötum af eldri systkinum? Er það algengt? Þykir niðurlægjandi að vera í fötum af öðrum, ættingjum eða vandalausum?

 

Börnin okkar gengu í ýmsum gömlum fötum af öðrum en mér finnst það jafnvel algengara núna, sérstaklega eru foreldrar meðvitaðir eftir hrun. Barnabörnin eiga stafla af notuðum fötum, nú eiga börn miklu fleiri umganga en áður tíðkaðist og fötin eru auk þess úr betra efni en var. Mjög auðvelt er að fá lítið notuð barnaföt á miklu lægra verði en ný.

 

Kemur fyrir að notuð föt séu gefin? Hverjum er gefið og af hvaða tilefni? 

 

Ég gaf yfirleitt öll föt nema nokkur sýnishorn hef ég geymt til minja. Mest fór til sömu fjölskyldunnar, fráskilinnar vinkonu okkar með fjögur börn.

 

Er saumað upp úr gömlum fötum? Hve algengt er það?

 

Það var algengt á árunum 1970-1985 ca, sömuleiðis keypti ég mikið af ódýrum efnisbútum og átti þá dálitla lagera. Fyrir mörgum árum losaði ég mig við öll efni og allt afgangs garn og hætti að kaupa í neitt nema það sem ég ætlaði að nota.

 

Þekkist að brúðkaups- eða veisluföt séu fengin að láni eða tekin á leigu?

Dætur okkar og tengdadætur hafa gift sig í gömlum fjölskyldukjólum eða leigðum kjól. Bóndinn hefur tvisvar sinnum fengið leigðan smóking, í annað sinn var hann svaramaður, í hitt skiptið veislustjóri.

 

Hve algengt er að nota gamlar skólabækur? En að selja eða skipta á þeim og öðrum námsbókum?

 

Á framhaldsskólastigi notuðu börn, tengdabörn og barnabörn örugglega skiptibókamarkaði eftir atvikum. Ýmsar bækur vildu þau þó eiga. Ætli söfnunarárátta sé ekki ættgeng?

 

Stundum fá gamlir hlutir nýtt hlutverk eða er breytt í eitthvað annað að hluta til eða alveg. Hvað getur þú sagt um þetta? Nefndu dæmi ef til eru.

 

Ferð þú með dósir og flöskur í endurvinnslu, endurnýtir poka, krukkur, snjáð handklæði og boli (t.d. sem tuskur)? Segðu frá!

 

Við flokkum dósir, flöskur og plast og förum reglulega með í Sorpu. Auk þess pappír/pappa, mjólkurfernur, batterí og yfirleitt allt rusl. Glerkrukkur eru endurnýttar fyrir sulturnar og fleira og berin frystum við í gömlum ísboxum. Sömuleiðis er kæfan alltaf sett í gamlar umbúðir utan af paté eða t.d. í dósir undan sýrðum rjóma. Kjöt- og fisksoð er stundum fryst í mjólkurfernum. Handklæði og rúmföt fá gjarnan nýtt hlutverk sem tuskur og ljósar sokkabuxur hef ég lengi notað utan um slátur. Þá klippi ég sokkana frá og skipti þeim í nokkra búta, bind hnút á annan endann og set t.d. blóðmör í og bind svo aftur fyrir hinn endann. Gráar sokkabuxur hef ég nýtt til þess að setja yfir viðkvæman gróður í steinabeðum, þá klippi ég út ferkantaðan bút og festi niður með svona þriggja tommu nöglum. Skálmar af gömlum gallabuxum geymi ég í bætur á aðrar og ýmis efni geta nýst til viðgerða. Tölum hendi ég sjaldan nema ég er hætt að klippa þær af karlmannsskyrtum.  Gríp til þeirra þegar þarf en leyfi líka barnabörnum að leika sér að þeim. Það er hægt að gera góðan leik að tölum, fjörusteinum og trékubbum.

 

Hvað getur þú sagt um samnýtingu á tækjum, samakstur eða sameiginleg kaup á dagblöðum og tímaritum?

 

Við hjónin höfum átt tvo gamla bíla í nokkur ár. Annar er jepplingur með krók sem er notaður í skógræktarstörf og kartöflurækt úti á landi og ferðalög, hinn er notaður í bænum. Við reynum alltaf að fara til vinnu á einum bíl og nýta ferðina.

 

Reynir þú að spara rafmagn og hita? Með hvaða hætti?

Já og nei. Við gætum þess að kerfið sé í lagi, stillum ofnana eftir því hvernig viðrar og við erum með ofn í gróðurhúsinu sem tekur inn á sig vatn af kerfinu í íbúðinni. Bílskúrinn er hitaður upp með affallsvatni af húsinu og það endar með því að hita upp bílaplanið fyrir utan.

 

Hvaða máli skipta umhverfissjónarmið í sambandi við endurnýtingu eða að nota hlutina vel? Býrð þú t.d. til gróðurmold úr lífrænum úrgangi?

Já, við höfum í nokkur ár tekið allan lífrænan úrgang af jarðargróða og sett í safnkassa. Sonur okkar fékk sér slíkan kassa á árinu og nú ætlum við að gefa einni fjölskyldunni safnkassa í jólagjöf.

 

Hversu vel er matur nýttur? Eru t.d. notaðir matar- eða brauðafgangar? Hvernig?

Já, allur matur er vel nýttur. Við eldum alltaf kvöldmat, stundum verða afgangar og þeir eru þá teknir með í nesti eða borðaðir í aðrar máltíðir á næstu dögum. Brauð er sett í frysti eða ísskáp til þess að það skemmist ekki. Ef fyrir kemur að brauð myglar eða harnar er það gefið fuglum.

 

Ferðu með nesti í vinnuna? 
Já, ég gerði það alltaf þegar ég var í fullri vinnu, nú vinn ég hálfa vinnu og það breytir venjunum dálítið. En ég kaupi mér sárasjaldan eitthvað í hádeginu og þá helst skyrdós eða hollustudrykk.

 

Hver eru tengsl nýtni og þess að gera hlutina sjálfur við efnahag fólks að þínu mati?

Ég skal ekki segja,  held líklega að það skipti mestu máli hverju maður vandist sem krakki. Mitt fólk og eins tengdafólk var allt nýtið og mér hefur alltaf fundist rangt að henda nothæfum hlutum bara til að fá sér nýja, sömuleiðis finnst mér óviðunandi að henda mat.

 

Hvernig mundir þú segja að nýtni væri háttað á þínum vinnustað?

Ég tel að hrunið hafi haft góð áhrif að þessu leyti.

 

Hvað finnst þér um útsjónarsemi og nýtni svona yfirleitt? Getur þetta gengið of langt eða of skammt? Nefndu dæmi ef til eru.

Mér finnst þetta jákvæðir eiginleikar almennt talað en auðvitað getur nýtni gengið út í öfgar. Um leið og hún verður að nísku finnst mér hún hvimleið. Sama á við um útsjónarsemi, hún má t.d. ekki leiðast út í að fólk útvegi sér eitthvað með ósæmilegum hætti.

 

Er þér kunnugt um viðgerðir og nýtni á öðrum heimilum og hvað búið er til þar? Segðu frá því sem þú veist um þetta efni.

Ég get ekki fullyrt neitt um þetta en mig grunar að ég geri meira við en margur annar. En þó veit ég að systir mín saumakonan, 84 ára gömul og enn að sauma, hefur lengi boðið upp á viðgerðir og breytingar á fötum og hún hefur miklu meira að gera en hún ætti að hafa.


Kafli 1 af 4 - Viðgerðir og endurbætur

Er gert við fatnað? Hvaða fatnað? Hversu umfangsmiklar eru viðgerðirnar? Hve algengt er þetta? Hefur einhver á heimilinu kunnáttu sem nýtist við fataviðgerðir eða fatasaum og hvaðan er sú kunnátta komin? Hverju hefur hún skilað?
Í hvaða mæli er gert við reiðhjól eða bíla? Skiptir þú um dekk eða gerir við þau sjálf(ur)? Hve algengt er það?
Er dyttað að leikföngum, heimilistækjum og áhöldum? Hvað er hér helst um að ræða?

Kafli 2 af 4 - Búið til heima

Er bakað á þínu heimili? Hvaða brauð, kökur eða tertur eru helst bakaðar og úr hvaða mjöli eða korntegundum? Hvenær og af hvaða tilefni er helst bakað? Hve oft er bakað (t.d. einu sinni í viku)? Getur þú nefnt einhverjar uppskriftir og hvaðan þær eru komar (úr bókum, af netinu t.d.)?
Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?

Kafli 3 af 4 - aadas

Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?
Notar þú húsgögn eða tæki sem aðrir hafa átt áður? Hvað hluti er hér einkum um að ræða og hvaðan eru þeir fengnir (t.d. frá nytjamörkuðum eða skyldfólki)?

Kafli 4 af 4 - Nýting

Kemur fyrir að notuð föt séu gefin? Hverjum er gefið og af hvaða tilefni? Er saumað upp úr gömlum fötum? Hve algengt er það?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.