LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiEndurnýting, Nýtni, Sjálfsþurft, Viðgerð
Ártal2010-2012
Spurningaskrá113 Heimatilbúið, viðgert og notað

ByggðaheitiReykjavík
Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1973

Nánari upplýsingar

Númer2010-2-72
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið22.2.2012/22.2.2012
TækniTölvuskrift

(..1..)

Viðgerðir og endurbætur

Er gert við fatnað? Hvaða fatnað? Hversu umfangsmiklar eru viðgerðirnar? Hve algengt er þetta? Já það er gert við fatnað, bæði af börnum og fullorðnum. Sérstaklega er gert við hné á buxum og eru þau bætt með bótum sem teknar eru af ónýtum buxum. Það sparast dágóðar upphæðir árlega við að bæta hné með þessum hætti. Eins er gert við minni göt á bolum og peysum en sjaldan er gert við sokka og vettlinga. Þetta eru sjálfsagt ein 14 hné á ári sem gert er við, annað er meira tilfallandi.

Hefur einhver á heimilinu kunnáttu sem nýtist við fataviðgerðir eða fatasaum og hvaðan er sú kunnátta komin? Hverju hefur hún skilað? Húsmóðirin, ég, lærði þetta af mömmu sinni og ömmu, þetta hefur skilað umtalsverðum sparnaði sérstaklega í buxnakaupum á börnin. Ég byrjaði snemma að gera við fötin mín sjálf og fékk góðar leiðbeiningar frá mömmu og einnig í handavinnu í skólanum þar sem allt varðandi saumavélina var kennt.

Þekkist að fara með fatnað á saumastofur til viðgerða? Já Hvaða fatnað helst? Jakkaföt og þegar stytta á betri buxur.

Í hvaða mæli er gert við reiðhjól eða bíla? Litlum – skipt um peru kannski og bætt í ryðgöt en allar stærri viðgerðir eru á verkstæði.

Er dyttað að leikföngum, heimilistækjum og áhöldum? Já en ekki í miklum mæli. Hvað er hér helst um að ræða? Stoppuð leikföng eins og bangsa er gert við ef það koma göt, hlutir sem detta sundur eru settir saman aftur en ekki mikið umfram það.

Hvað annað er gert við?

Ferð þú með skó í viðgerð? Er meira eða minna um það nú en áður? Já ég hef alltaf gert það en líkast til meira nú en áður enda liggja mikil verðmæti í skóm.

Annast þú viðhald eða viðgerðir á þínu eigin húsnæði og í hverju er það helst fólgið? Já, mála, setja upp hluti innan húss (eins og skápa og hillur), rífa og undirbúa fínvinnu iðnaðarmanna. Þegar baðherbergið var tekið í gegn þá unnum við saman að því að rífa allt innan úr baðinu, taka flísar og gólfefni og fjarlægja baðið en öll uppsetning var í höndum fagmanna. Við höfum verið að lakka glugga og hurðir utan og innandyra.

 

Búið til heima

Er bakað á þínu heimili?  Já

Hvaða brauð, kökur eða tertur eru helst bakaðar og úr hvaða mjöli eða korntegundum? Heilhveitibrauð, pizzur (vikulega), súkkulaði kökur bæði Mömmudraumur úr Unga fólkið og elhússtörfin og frönsk súkkulaðikaka úr landsliðsbók Hagkaups. Eplapæ frá Völu systur hennar Eirnýjar sem fjölmargir hafa fengið uppskrift af. Marengs fyrir afmæli og muffins. Bananabrauð er einnig sívinsælt. Mest er bakað úr hveiti, heilhveiti og haframjöli en það er til spelt, hveitiklíð og rúgmjöl í skápunum.

Hvenær og af hvaða tilefni er helst bakað? Fyrir afmæli bæði okkar og vina og fjölskyldu því það eru ýmis kökuskipti í gangi og veislur en unglingurinn bakar oft út úr leiðindum (það gerði ég sjálf líka þegar ég var unglingur). Síðan er bakað reglulega fyrir kórinn sem eitt barnið er í.

Hve oft er bakað (t.d. einu sinni í viku)? Sirka einu sinni í viku, pizza á föstudögum og þá oft brauð úr afgangsdegi. Bollur, muffins og bananabrauð eru líka bökuð reglulega.

Getur þú nefnt einhverjar uppskriftir og hvaðan þær eru komar (úr bókum, af netinu t.d.)? Sjá að ofan. Ef verið er að leita að uppskrift er það oft netið  sem virkar best en líka gömul Gestgjafablöð – ég kaupi sirka eitt á ári. Man sérstaklega eftir Pavlovu uppskrift úr Gestgjafanum frá Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur sem ég hef oft baka og alltaf gert grín að því að fólk verði að passa sig að verða ekki sjálfstæðismenn af því að borða hana. Allt sem bakað er fyrir jólin eru uppskriftir úr fjölskyldunni, frá ömmu og mömmu. Síðan er klassísk skyrterta oft á boðstólnum, upphaflega var uppskriftin sænsk og úr kvargi en síðan hefur hún blandast við ýmsar aðrar uppskriftir.

Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?  Konfekt og ís eru meðal þess sem gert er fyrir jólin – í litlu magni þó. Uppskriftirnar eru einhversstaðar á milli þess að vera impróvíseraðar, úr fjölskyldunni og úr bókum og blöðum.

Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu? Já, við sytskinin höfum tekið slátur með mömmu síðan við eignuðumst börn – sirka 10-12 slátur samtals. Við erum vön þessu úr æsku og finnst þetta frábært bæði maturinn og atburðurinn sjálfur. Síðan er þetta ekkert mál í dag því það er allt tilbúið í kassanum.

Ræktar þú grænmeti (kartöflur, rófur, kál, rabbarbara t.d.)? Í hvaða mæli? Hvað hefur þetta tíðkast lengi á þínu heimili? Kartöflur ræktum við saman systkinin og höfum garð í Mosó – á svipuðum slóðum og afi. Þetta er samt ekki nein framleiðsla að ráði og við höfum reynt að halda umstangi í lágmarki. ég hef ræktað kál og krydd á svölunum og í garðinum ásamt frekar mislukkaðri rabbabararækt. En þá hef ég keypt litlar plöntur. Það hefur verið mikill sparnaður í þessu.

Ferð þú eða einhver í fjölskyldunni á berjamó, í fjöruna eða tínir sveppi? Hvers vegna?  Við förum alltaf í berjamó uppí sumarbústað eða í Heiðmörkina. Við tínum bara í eftirmat og út á súrmjólkina en tangdamamma er stórtæk og má ekki til þess hugsa að einhverstaðar liggi ótínd bláber. Hún er ekki mönnum sinnandi í september nema á fjórum fótum út í móa með tínuna sína.

Eru saumuð föt heima hjá þér? Já Hvers konar föt og á hverja er saumað (t.d. börn)? Ég hef aðeins saumað á mig og eins á frænkur mínar. Unglingsstúlkan á heimilinu gerir ýmsar tilrauninr með saumaskap en það verður ekki allt að flík. Síðan sauma ég grímubúninga fyrir öskudaginn – fyrst á yngri bróður minn og síðan á syni mína. Hve mikið er um þetta?  Saumavélin fer upp svona 6  sinnum á ári og er þá gjarna tekið saumakast.

Hvaða áhöld til fatasaums eða fataviðgerða eru á heimilinu (t.d. saumavél)? Saumavél og saumadós ömmu minnar sem fædd var 1908.

Prjónar þú eða einhver á heimilinu? Já Hvað er prjónað og á hverja? Ég hef prjónað sirka tvær peysur á ári undanfarin ár.  Á mig, börnin, börn vinkvenna minna, vinkonur mínar, mömmu ofl. Er mikið/lítið um þetta? Það er alltaf eitthvað á prjónunum en ég held mér mis vel að verki.

Þekkir þú heimatilbúna (grímu)búninga, skraut, jólagjafir, jólakort og fleira þess háttar? Já Hve algengt er þetta? Grímubúningar eru mest samsull úr einhverju úr búningakistunni, jólaskraut er gjarna búið til en stundum er efnið keypt í pakka. Jólakortin eru gjarna heimagerð en þá í tölvu, síðast var það mynd af börnunum í búning og heimasamin jólasaga með.

Kannast þú við heimatilbúin leikföng? Það er lítið um það. Amma prjónaði og heklaði tuskudýr handa mínum börnum. Pabbi smíðaði handa mér barbiehús þegar ég var stelpa. Hvaða leikföng og úr hvaða efnum? Eru búin til leikföng á þínu heimili? Já og nei – börnin eru dugleg við að breyta og bæta og nýta tilfallandi hluti eins og kassa, pappa og hólka en við búum ekki markvisst til leikföng.

Hvað annað er búið til?

Hafa heimastörf af framangreindu tagi einhverja efnahagslega þýðingu eða telur þú þau fremur til tómstundaiðju? Ég held að af því sem ég geri þá séu það buxnaviðgerðirnar sem skipta mestu máli fjárhagslega. Hitt er meira til skemmtunar.

Finnst þér að störfin hafi uppeldis- eða þjóðfélagslegt gildi? Hvernig þá ef svo er? Já, það er mikilvægt að kenna nýtni, og að bera virðingu fyrir verðmætum.

 

Nýting

Notar þú húsgögn eða tæki sem aðrir hafa átt áður? Já Hvað hluti er hér einkum um að ræða og hvaðan eru þeir fengnir (t.d. frá nytjamörkuðum eða skyldfólki)? Borðstofuborðið frá mömmu (sem hún fékk hjá nágranna sínum en hann fékk það frá ömmu sinni), náttborð úr dánarbúi foreldra gamals vinnufélga (keypt), skenkur frá fyrrverandi eiginkonu stjúpa míns (keypt), hliðarborð frá ömmu og afa, stóll úr ruslagámi í Svíþjóð, sófaborð frá frænda stjúpa míns, eldhússtólar frá ömmu og afa frænda míns, hjól frá stjúpbróður mínum, þurrkari frá bróður mínum, barnarúm frá mágkonu minni og örugglega margt fleira,

Ganga yngri börn í fötum af eldri systkinum? Já Er það algengt? Já Þykir niðurlægjandi að vera í fötum af öðrum, ættingjum eða vandalausum? Nei alls ekki – það er bara skemmtilegt og spennandi. Úlpan frá Bjössa frænda í Ameríku, skórnir frá Hlyni, peysan frá Halldóri gerir það bara meira spennandi að klæða sig þegar fötin eiga sér skemmtilega sögu.

Kemur fyrir að notuð föt séu gefin? Já Hverjum er gefið og af hvaða tilefni?  Ég gef föt í Rauða krossinn reglulega, en þegar ég var með mikið af ungbarnafötum og vissi að það væri hvergi strákur á leiðinni í fjölskyldunni þá fann ég fólk með lítinn strák sem tók stóran bunka. Síðan fá vinkonur föt frá mér sem ég er hætt að nota og ég hjá þeim.

Er saumað upp úr gömlum fötum? Nei – það hefur þó verið gert og gallabuxur eru nýttar til að bæta aðrar buxur. Hve algengt er það?

Þekkist að brúðkaups- eða veisluföt séu fengin að láni eða tekin á leigu? Kjóllinn  var tekinn á leigu og skórnir fengnir að láni.

Hve algengt er að nota gamlar skólabækur? En að selja eða skipta á þeim og öðrum námsbókum? Eins oft og því verður við komið.

Stundum fá gamlir hlutir nýtt hlutverk eða er breytt í eitthvað annað að hluta til eða alveg. Hvað getur þú sagt um þetta? Nefndu dæmi ef til eru.

Ferð þú með dósir og flöskur í endurvinnslu, endurnýtir poka, krukkur, snjáð handklæði og boli (t.d. sem tuskur)? Segðu frá! Við sendum flöskur, dósir, fernur og dagblöð í endurvinnslu. Einstaka glerkrukkur eru teknar frá og geymdar.

Hvað getur þú sagt um samnýtingu á tækjum, samakstur eða sameiginleg kaup á dagblöðum og tímaritum? Við systkinin eigum saman hjól til að hengja aftan í fullorðinshjól, það hefur verið notað af börnunum okkar til skiptis. Síðan er vagn sem hefur gengið á milli og margt annað barnadót.

Reynir þú að spara rafmagn og hita? Já Með hvaða hætti? Reyna að hafa ekki kveikt á ljós að óþörfu  og nota sparprógrömm á vélum.

Hvaða máli skipta umhverfissjónarmið í sambandi við endurnýtingu eða að nota hlutina vel? Nokkru. Býrð þú t.d. til gróðurmold úr lífrænum úrgangi? Nei.

Hversu vel er matur nýttur? Þokkalega – flest klárast bara og leyfar eru yfirleitt borðaðar.  Ávextir og grænmeti fá þó stundum að skemmast en þá reynir maður að gera ekki sömu innkaupsmistök aftur. Eru t.d. notaðir matar- eða brauðafgangar? Matarafgangar já ekki brauð. Hvernig? Ferðu með nesti í vinnuna?  Já stundum.

Hver eru tengsl nýtni og þess að gera hlutina sjálfur við efnahag fólks að þínu mati? Þeir sem eru meðvitaðir um eyðslu og sóun nýta oft hlutina betur og eyða kannski síður um efni fram.

Hvernig mundir þú segja að nýtni væri háttað á þínum vinnustað? Bærilega, endurvinnsla mætti þó vera markvissari. En við nýtum gamlan búnað ágætlega og endurnýtum efni reglulega.

Hvað finnst þér um útsjónarsemi og nýtni svona yfirleitt? Getur þetta gengið of langt eða of skammt? sumar ömmur í fjölskyldunni eiga það til að bera fram ónýtan mat eða fara út í sokkabuxum sem eru viðgerðar á áberandi hátt – það er kannski óþarfi. Pabbi var alinn upp við svo mikla nýtni að hann hafði antipat á henni – sérstaklega að ganga í fötum af öðrum, hann gerði hins vegar alltaf við bílinn sjálfur. Nefndu dæmi ef til eru.

Er þér kunnugt um viðgerðir og nýtni á öðrum heimilum og hvað búið er til þar? Já. Segðu frá því sem þú veist um þetta efni. Margir á mínum aldri eru á svipuðum nótum og ég, sumar sulta meira, prjóna minna eða baka. Sérstaklega á þetta við um barnafjölskyldur. Nokkrir gera við bílana sína, aðrir við tölvurnar – allt eftir því hvar þekking og áhugi liggur. ´68 kynslóðin (kynslóð foreldra minna) virðist hins vegar komin yfir þetta og kaupir og hendir núna sem hún gerði ekki þegar hún var á mínum aldri. En þetta fylgir örugglega fjárráðum fólks, mér finnst taka því að eyða tíma í að gera við föt vegna þess hve dýr þau eru. Ég held að þetta fylgi ákveðnu aldursskeiði – fólk með börn rekur oft stór og dýr heimili svo tækifæri til sparnaðar eru flest nýtt vel.


Kafli 1 af 4 - Viðgerðir og endurbætur

Er gert við fatnað? Hvaða fatnað? Hversu umfangsmiklar eru viðgerðirnar? Hve algengt er þetta? Hefur einhver á heimilinu kunnáttu sem nýtist við fataviðgerðir eða fatasaum og hvaðan er sú kunnátta komin? Hverju hefur hún skilað?
Í hvaða mæli er gert við reiðhjól eða bíla? Skiptir þú um dekk eða gerir við þau sjálf(ur)? Hve algengt er það?
Er dyttað að leikföngum, heimilistækjum og áhöldum? Hvað er hér helst um að ræða?

Kafli 2 af 4 - Búið til heima

Er bakað á þínu heimili? Hvaða brauð, kökur eða tertur eru helst bakaðar og úr hvaða mjöli eða korntegundum? Hvenær og af hvaða tilefni er helst bakað? Hve oft er bakað (t.d. einu sinni í viku)? Getur þú nefnt einhverjar uppskriftir og hvaðan þær eru komar (úr bókum, af netinu t.d.)?
Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?

Kafli 3 af 4 - aadas

Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?
Notar þú húsgögn eða tæki sem aðrir hafa átt áður? Hvað hluti er hér einkum um að ræða og hvaðan eru þeir fengnir (t.d. frá nytjamörkuðum eða skyldfólki)?

Kafli 4 af 4 - Nýting

Kemur fyrir að notuð föt séu gefin? Hverjum er gefið og af hvaða tilefni? Er saumað upp úr gömlum fötum? Hve algengt er það?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.