LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDaglegt líf, Hús, Húsbúnaður
Ártal1913-1948
Spurningaskrá117 Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf

Sveitarfélag 1950Ólafsfjörður
Núv. sveitarfélagFjallabyggð
SýslaEyjafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1926

Nánari upplýsingar

Númer2012-3-119
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið20.3.2014
TækniTölvuskrift

 BERNSKUHEIMILI MITT      (...)                                                                              

Lokagerð des. 2013 Frásögn rituð af (...)  

Ég er  fæddur í Ólafsfirði (...)1926 og ól þar allan aldur minn þar til ég, 16 ára sjómannssonurinn í Ólafsfirði,  tók upp á því, þvert á viðteknar menntavenjur unglinga úr sjómannafjölskyldum fiskiþorpsins, að hefja langskólanám og þreyta inntökupróf í MA vorið 19(...). Vitaskuld var ekkert við því að segja að sjómannssynir færu í Stýrimannaskólann eða Iðnskóla og sæktu einhver námskeið í sjómannafræðum t.d. meðferð véla, en langskólanám var nánast óþekkt í Ólafsfirði nema hjá prests- læknis- og kaupmannssonum, ekki dætrum.  Ég náði inntökuptófinu og stundaði nám í MA frá hausti 19(...) til stúdentsprófs vorið 19(...). Þá um haustið hóf ég laganám við HÍ og lauk lögfræðiprófi  haustið 19(...). Á námsárunum dvaldist ég aðeins að sumarlagi í Ólafsfirði við ýmiskonar störf í Ólafsfirði, sjómennsku, fiskverkun, byggingarvinnu, vegavinnu og hvað eina sem skilaði einhverjum tekjum til framfærslu næsta námsvetur. Þá þekktust engin námslán og foreldrar mínir lítt aflögufærir til stuðnings mér við langtímanám eins og þeir hefðu þó helst viljað. Neðanskráð er ritað eftir brigðulu minni mínu og í upphafi aðeins ætlað niðjum mínum og nánustu aðstandendum til aflestrar. Ég hef lesið skáletraða 5. málsgrein í leiðbeiningum Þjóðminjasafns, þjóðháttasafns, um svör við spurningaskrá  117 um varðveislu frásagna um bernskuheimili sín og fellst á óskir safnsins, en vil samt taka fram, að það sem ég hef skrifað er ekki ætlað til birtingar með neinum hætti, nema sem heimild fyrir rannsóknarstörf fræðimanna og nauðsynlegar tilvitnanir í fræðiritum.

                                   -----------------ooooooooo----------------              Af kynnum mínum af þekkingarskorti yngri manna, einkum þeirra sem fara mikinn í fréttamiðlum, á sögu og lífsháttum Íslendinga fyrir aðeins örfáum áratugum tel ég brýnt að leggja alúð við að uppfræða þjóðina um lífskjör hennar áður fyrr og þá gjörbyltingu sem orðið hefur á kjörum hennar frá þvi á styrjaldarárunum síðari, 1939-1945. Það hafa ekki alltaf verið uppgangstímar á Íslandi eins og frá um 1990 og fram að 2008. Eftir „hrunið“ svonefnda hafa háværir kveinstafir fjölmiðlanna og annara um hörmungar heimilanna nú til dags, sem m.a. fjármögnuðu ýmiskonar bílífi með ótrúlegum lántökum sem þau gátu með engu móti staðið undir í venjulegu árferði. Ábyrgð á eigin ákvörðunum og gerðum er að mestu horfin. Nú leita menn að sökudólgum og krefjast refsinga og bóta úr vösum skattborgaranna. Ég fagna öllum rannsóknum sagnfræðinga og annara á lífskjörum Íslendinga fyrr og síðar, sem sjaldan hafa verið betri en nú þrátt fyrir allan barlóminn. Ég man ekki betur en að á bernskuárum mínum hafi menn almennt verið sáttir við þau lífskjör sem þeir bjuggu við en þau voru gjörólik þeim sem menn nú kveina undan.  Án efa styrkja þessar rannsóknir grunn að sannferðugri  uppfræðslu fjölmiðlafólks og þjóðarinnar allrar og auðveldar réttan samanburð á því sem nú er og áður var. Ég vona að frásögn mín af æskuheimili mínu og nokkrum minnisstæðum atriðum æskuáranna varpi ljóstýru á samfélagið í um 600-700 manna fiskiþorpi norðarlega á Tröllaskaga á árunum um 1930 – 1948.                              

HÚSAKYNNIN          Á árinu 1925 byggðu foreldrar mínir eigið hús við þá götu í Ólafsfjarðarhorni sem seinna hlaut nafnið Aðalgata, en húsið var í fyrstu kallað Tryggvahús. Það var lítið einlyft steinhús sem hvíldi á um eins meters háum niðurgröfnum kjallara með fjórum smárúðóttum gluggum niður við jörð, e.t.v um 80-90 sm á kant. Kjallarinn var vel manngengur með um 190 sm.lofthæð. Grunnflötur hússins var aðeins um 70 fermetrar að utanmáli og í fullu samræmi við efnahag foreldra minna, því að efnin voru sannarlega ekki mikil, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni. Húsið var að mestu byggt í sjálfboðavinnu fjölmargra ættingja og vina auk þess sem foreldrar mínur unnu sjálfir hörðum höndum að smíði hússins. Ég veit skv munnlegum upplýsinsgum byggingafulltrúa Fjallabyggðar að grunnflötur hússins var og er 69 fermetrar því að húsið stendur enn. Í mörg undanfarin ár hefur þar verið rekið apótek í eigu apótekarans á Dalvík.  Faðir minn seldi húsið haustið 1952 til Haraldar Þórðarssonar, skrifstofumanns, þegar foreldrar mínir fluttu til Reykjavíkur. Foreldrum mínum tókst að gera húsið íbúðarhæft skömmu fyrir miðjan desember 1925 og gátu því haldið jólin í eigin húsi, einum og hálfum mánuði áður en ég fæddist. Frá giftingu, 1915, höfðu þau búið í leiguhúsnæði, í einu herbergi með aðgangi að eldhúsi, hjá kaupmannshjónunum. Leiguna greiddu þau með vinnu mömmu við húsverkin og barnapössun, að auki var pabbi í ýmiskonar fiskvinnu fyrir kaupmanninn. Kjallarinn í Tryggvahúsi var lítið innréttaður. Þegar ég man fyrst eftir mér voru allir út-veggir hans að innan með grófri streinsteypuáferð án múrhúðunar og lítið einangraðir.  Á veggi suðurkjallarans voru þó festar timburklæðningar með hefluðum viði til að draga úr sagga og gera kjallarann eilítið vistlegri og hlýrri. Allir veggir kjallarans voru hvítkalkaðir. Gólfið var steinsteypt og ófrágengið með grófri áferð og á köflum ýft og hrufótt. Í norðvesturhorninu var kolastían.  Á haustin voru keyptar kolabirgðir sem áttu að duga til upphitunar og matreiðslu fram á sumar, a.m.k. þrjú til fjögur tonn í senn. Kolin voru keypt á Akureyri í hundrað punda strigapokum  sem fluttir voru sjóleiðina fyrir marga húseigendur í senn með stærstu vélbátum heimamanna. Vörubílar voru keyptir til Ólafsfjarðar, þeir fyrstu á árunum 1930 –1935, eða skömmu fyrir seinna stríð. Kolapokum okkar var því ekið fyrstu árin í hjólbörum alla leið frá bryggjunni, um 500 metra, norðan við Tryggvahús. Úr pokunum var síðan hellt í kolastíuna innum lítinn kjallaraglugga vestan á húsinu norðarlega, og innihaldinu staflað þétt og skipulega upp í stíuhorninu með stærstu kolahnullungana fremst en smælkið innar og upp við hornveggina. Innihaldið úr 60 – 80 pokum tók nokkurt gólfpláss þegar það hlóðst upp á haustin í horninu og teygðist fram á gólfið. Smám saman gekk á kolin þegar á veturinn leið og jókst þannig gólfrými í kjallaranum, sem við börnin notuðum oft til leikja þegar hlýna tók á vorin. Kolakaupin voru mun minni á vorin.  Heldur var dimmt í kjallaranum því rafmagn var ekki leitt í hann fyrr en um 1940. Þangað fórum við börnin ekki í myrkri nema í fylgd með fullorðnum sem þá báru með sér olíulugt með ljóstýru sem okkur fannst jafnvel gera kjallarann enn draugalegri í dimmu  vetrarmyrkrinu. Ljós var af mjög skornum skammti í þorpinu þessi fyrstu ár bernsku minnar. Og rættist ekki fyllilega úr fyrr en rafmagn til ljósa komst almennt í þorpsbyggðina. Heima voru sett upp ljós í öll íveruherbergi um 1930. Nokkrir framtaksmenn í þorpinu höfððu þó tekið sig til strax árið 1913 og keyptu sérstaka vél frá Noregi sem tengd var við rafmagnsdýnamó. „Ljósavélinni“ komu þeir fyrir í skúr rétt í þorpsmiðjunni. Þesssi vél gat framleitt rafmagn til takmarkaðra ljósa í flest hús í þorpinu. Smám saman létu menn leiða rafmagnsvíra á háum ljósastaurum um allt þorpið. Húseigendur kappkostuðu að setja upp rafleiðslur og fjölga ljósastæðum í húsum sínum svo að ljós kæmust í flest herbegi þeirra. En kjallarar og háaloft sátui á hakanum. Ljósavélin góða var sett í gang daglega þegar rökkvaði og gekk þar til slökkt var á henni kl 23.oo öll kvöld nema laugardaga og á stórhátíðum. Þá var vélin keyrð til kl. 24.oo. Gefið var merki með því að blikka með ljósunum þrisvar um það bil 10 mínutum áður en slökkt var á ljósavélinni og þá var eins gott að koma sér í bólið, en nokkur misbrestur varð þó á því hjá fullorðna fólkinu, sem gjarnan sat áfram við vinnu sína við ljós frá olíulömpum. Brattur stigi lá með miðjum norðurvegg hússins úr kjallarnum upp í sjálfa íbúðina, í geymslu þar, sem notuð var sem búr fyrstu 10 -15 árin til 1937-1940.  Hlemmur á hjörum var yfir stigagatinu, og þess vandlega gætt að hafa hann lokaðan nema meðan gengið var um stigann. Í norðaustur horni kjallarans var komið fyrir tveimur eða þremur stórum ámum úr tré með lausum hlemmum yfir. Í þeim var geymdur súrmatur eins og slátur en í minni tunnum einni eða tveimur var geymt saltkjöt, sem pabbi sá um að salta á haustin. Þá var venja að nota saltpétur ásamt  venjulegu salti á kjötið til að gera það rauðleitara og girnilegra til matar, en var að sjálfsögðu óhollara, en það vissu menn ekki í þá daga.

GEYMSLA Á KJÖTI, SALTKJÖTI, SLÁTRI, HANGIKJÖTI.  Kjöt var allt geymt saltað eða reykt til vetrarforða þar til frystihús var  reist um 1937 og unnt var að fá þar leigða smáskápa fyrir kjöt og aðrar matvörur. Pabbi átti vestur á Sandi, eins og margir aðrir, sérstakan skúr eða öllu heldur stóran trékassa, sem stóð upp á endannn á olíutunnu úr járni og var tunnan með gati á hliðinni og loki fyrir niður við jörð  þar sem sauðataði og öðrum eldsmat var stungið inn í eldhólfið. Á botn hólfsins voru lagðir nokkrir steinhnullungar og ofan á þá voru settar þurrar spýtur eða spænir en ofan á þá lögðu menn nokkrar þykkar þurrar taðflögur til að mynda reykinn, sem kjötið var reykt við. Ekki voru strompar á þessum reykkössum, en reykurinn smaug út með hurðinni sem ekki féll fast að hjörum. Kassarnir stóðu nokkuð þétt aðeins vestan við þorpið. Voru þeir notaðir á haustin eftir sláturtíðina til að reykja kjöt þorpsbúa, en að reykingu lokinni var kjötið sótt og látið hanga heima hjá eiganda sínum. Hjá okkur hengdi pabbi okkar kjöt á sérstaka slá í norðurhluta kjallarans næst öðrum austur glugganum. Kom sér þá vel að kjallaragluggarnir voru  smárúðótttir, en í staðinn fyrir glerið, var fyrir sumum rúðunum þéttriðið vírnet svo að loftræsing var þarna býsna góð, það gustaði oft inn og á stundum var svalt þarna niðri á veturna. Nokkuð óttaðist fólk að rottur eða mýs kæmust í svona kjallara, en slíkt gerðist afar sjaldan heima hjá okkur, enda var móðir mín einkar vel á verði um að slíkur ódámur kæmist ekki inn í hennar hús. Voru hafðar til taks músa- og rottugildrur á fleiri en einum stað í kjallaranum  og man ég aðeins eftir einu tilviki þegar mús veiddist í slíka gildru hjá okkur. Athyglisvert er að þótt hurðir á fyrrnefndum reykkössum vestur á “Sandi” væru aðeins með læstum ómerkilegum hengilásum, heyrði ég aldrei talað um að kjöti hafi verið stolið úr þeim eða skemmdarverk unnin, því að lítill vandi var t.d. að velta þessum kössum og járntunnunum um koll og komast þannig að kjötinu. En fólk virti eignarrétt hvers annars mikils í þá daga og aldrei bar á þjófnaði svo að ég muni.              

VERKFÆRAGEYMSLA  PABBA  Í KJALLARANUM   Eftir miðjum kjallaranum í austur vestur hafði pabbi sett upp tréskilrúm sem greindi hann í suður- og norðurkjallara. Á skilrúminu voru aðeins einar dyr, vestan við miðjan vegg. Á suðurkjallaranum voru bæði austurog suður gluggi. Sunnan skilrúmsins hafði  pabbi hefilbekk sinn við suðurvegg kjallarans. Yfir bekknum héngu ýmis verkfæri  eins og þvingur, sagir, misstórir heflar og fleiri forvitnileg smíðatól. Þar hékk einnig löng hilla efst uppi. Á henni voru geymdar málningadósir og penslar í terpentínukrúsum. Austar á veggnum voru nokkrir krókar fyrir  ýmiskonar veiðarfæri eins og handfæri, sökkur  og haglabyssur til fuglaveiða og stórar haglabyssur til sel-og höfrungaveiða og til að skjóta hnísur. Var faðir minn annálaður veiðimaður og skaut bæði rjúpur, seli og hvali. Hann átti þó aldrei rifla en gekk til rjúpna með haglabyssurnar sínar og selabyssurnar tók henn með sér á sjóinn. Ekki hef ég erft neitt af þessum veiðihæfileikum pabba, nema síður væri og var ég í æsku hálfhræddur við allar  byssurnar í kjallaranum, að ég nefni ekki skotfærakassana hans, þar sem ég vissi að hann geymdi margskonar patrónur, sem í voru misstór haglaskot, sum fyrir fuglaveiða önnur fyrir sela- eða höfrungaveiðar. Þarna var einnig geymt byssupúður og fleiri stórvarhugaverð efni fyrir skotfæri. Þessir kassar voru harðlæstir niðri í voldugri kistu og ekki aðgengilegir fyrir stráka eins og mig.            

Allur kjallarinnn, einkum suður hlutinn, hafði sterkt aðdráttarafl fyrir okkur systkinin og vini okkar og þótti ævintýralegt leiksvæði. Við vorum þarna samt lítið sem ekkert á veturna, sökum kulda í kjallaranum enda ekkert upphitaður og  illa einangraður. Þarna var því oft hráslagalegt.  Einnig var kjallarinn harla dimmur, því að rafmagnsljós voru þar engin fyrstu árin sem ég man eftir og vegna eldhættu var okkur krökkunum ekki leyft að vera þar með kerti eða olíulampa, nema í fylgd með fullorðnum. En þegar hlýna tók í veðri á vorin og næg birta barst inn um gluggana var þarna mikill ævintýraheimur. Einkum sótti ég í smíðatólin og málninguna og penslana hans pabba.  Þótt ég reyndist lítill smiður eða málari var þó gríðarlega gaman að prófa tólin hans pabba. Að sjálfsögðu vantaði ekki fyrirmælin um að snerta ekki við hættulegum tólum eins og sporjárnum, öxum, heflum og hnífum, sem hægt var að skera sig á. Að jafnaði hlýddi ég þessu, en þegar maður gat verið þarna einn niðri í kjallaranum sóttu freistingarnar hart að og brast þá fyrirstaðan oftar en skyldi.og þá kom fyrir að maður skar sig og þurfti þá að leita til mömmu og láta binda um báttið og láta pabba helst ekki vita, sem auðvitað dugði lítið þegar fingurtraf eða sáraumbúnaður voru harla augljós sönunargögn um að ég hefði ekki farið að orðum hans i kjallaranum. Ekki minnist ég að hafa fengið aðra refsingu en alvarlegar áminningar um að endurtaka ekki þessi afbrot.            

Norðan við tréskilrúmið næst öðrum austurglugganum með opnu glugga-fögunum með vírnetinu fyrir var sterkleg tréslá fest upp í loftið eins og fyrr segir. Á hana voru festir krókar til að hengja upp hangikjötið og fleira eins og sigin fisk eða harðfisk. Þegar pabbi fór á rjúpnaskyttirí á vetrum var veiðin einnig hengd þarna upp. Í geymslunni var og geymdur á sérhillu niður undir gólfi, þurrkaður saltfiskur í strigapokum. Þarna gat því verið meiri háttar matarlykt, ef ekki hefði verið við því séð með því að hafa sem flest gluggafög kjallarans glerlaus með vírneti. Í frostum orsökuðu opnu gluggafögin kuldagjóstur, nema þegar snjóaði það mikið að gluggana fennti í kaf, sem oft skeði, jafnvel langtímum saman. Snjórinn útilokaði þó ekki að loftræsingin gengi mæta vel. Þegar líða tók á veturinn  minnkuðu matar- og kolabirgðirnar í kjallaranum en reynt var að treina hangikjötið eins lengi og kostur var, en með vorinu fékkst nægur nýr fiskur úr sjónum og fiskbirgðirnar í kjallaranum snarminnkuðu.          

HREINLÆTISAÐSTAÐAN   Þegar ég man fyrst eftir, var eini inngangurinn í sjálft íbúðarhúsið að vestanverðu (bakdyramegin) og gengið þar upp fjórar trétröppur inn í lítið bíslag eða skúr.  Til hliðar við það var gamaldags kamar með einfaldri hurð fyrir vinstramegin, þegar inn í bíslagið var gengið utanfrá. Kamarfata var undir vel hefluðum trébekk með gati, sem sest var á, þegar teflt var við páfann. Á kamrinum var stundum kalsamt á vetrum, því að loftgat var á bíslaginu efst, svo að óþefur var þar oftast sáralitill. Enda hefði þá heyrst hljóð úr horni frá móður minni, sem mér fannst óvenju hreinlát og þrifin. Dag hvern árið um kring var það löngum eitt fyrsta morgunverk föður míns, eins og annara fjölskyldufeðra í Ólafsfirði fyrir tíma holræsanna, að fara, hvernig sem viðraði alllanga leið með kamarfötu hússins og fleygja úr henni í sjóinn á vissum stað í fjörunni, framan við fjörukambinn, vestarlega, þar sem nægur straumur bar innihaldið úr kamarfötum þorpsbúa út í hafið. Seinna eða um haustið 1936 var grafin skolpveita um allt þorpið og sameiginlegu afrennsli hennar komið fyrir all miklu vestar í steinsteyptum stokk nokkra tugi metra út í sjóinn, þar sem straumur var enn meiri út í fjörðinn frá Fjarðaránni, “Ósinn” sem rann þar úr Ólafsfjarðarvatni. Eftir það komu smám saman vatnssalerni í flest eða öll hús í þorpinu. Heima var komið fyrir vatnssalerni og baðkari í norðvesturhorni hússins haustið 1937 eða 1938, þar sem áður var geymsla og búr. Ég held að enginn nema sá sem reynt hefur geti gert sér í hugarlund hversu gríðarleg þessi breyting,með lagningu skolpveitunnar, var fyrir allt heimilishaldið, þrifnað og þægindi. Þá var hitaveitan ekki komin og aðeins kalt vatn í krönum.

SJALDAN LÆSTAR ÚTIDYR   Aðalinngangurinn í sjálft íbúðarhúsið var í fyrstu vestanmegin (bakdyramegin) í gegnum bíslagið “skúrinn” og beint inn í eldhúsið. Þessi inngangur átti skv hugmyndum foreldra minna að vera austan á húsinu út að Aðalgötunni, en fjárskortur réð því að að bíslagið var reist og inngangurinn settur til bráðabirgða  bakdyramegin.  Á vesturvegg eldhússins var allstór gluggi, sunnan við “skúrinn” . Neðan við gluggann niður við jörð var unnt að ganga utan frá inn í kjallarann niður nokkrar steintröppur. Teygðu þessar tröppur sig rúman meter í vestur frá húsveggnum en í norðanskjóli af pappaslegnum skúrnum með tjörupappa. Skúrinn,bíslagið,stóð á tjörguðum timburstokkum.

Kjallarainnganginum var lokað með tveimur hallandi tréhlerum upp að húsveggnum neðan við elsdhúsgluggann Við húsvegginn náðu hlerarnir um hálfan meter frá jörð og teygðu sig skáhalt niður undir jörð um 120 sm.til vesturs. Þeir voru á hjörum og lokuðust yfir miðju inngangsins. Sett var hespa fyrir samskeytin og átti að setja fyrir hana sterkan hengilás. En verulegur misbrestur varð á að koma honum fyrir og man ég ekki til að hann hafi nokkurn tíman verið settur þar, og því var greið leið inn í kjallarann utanfrá fyrir óboðna gesti að degi sem nóttu, en ég minnist ekki að nokkur talaði einu sinni um að nauðsynlegt væri að læsa kjallaranum með sérstökum lás, svo var þjófhræðsla fjarlæg fólki. Einnig man ég ekki til að útidyrnar á skúrnum, aðalinnganginum, í húsið væru læstar, nema ef fjölskyldan færi a.m.k.daglangt af bæ.            

Þessi kjallarainngangur var nánast ónotaður að vetrarlagi, þar sem hann var þá yfirleitt á kafi í snjó. Að hausti fyrir snjóa voru matarbirgðir svo sem harðfiskur, saltfiskur, hangiðkjöt og sláturvörur bornar þarna um, einnig voru t.d. þurr og hrein veiðarfæri flutt þarna inn til geymslu, en fara varð með gát því að ekki máttu óhreinindi berast inn í kjallarann vegna allra matvælannna sem þar voru geymd. Ærna varfærni þurfti til að hafa til að forðast að kolaryk þyrlaðist upp, þegar kol voru sótt, niður bratta stigann við norðurvegginn úr búrinu  í kolastíuna fyrir eldavélina uppi í eldhúsinu.            

Haustið 1943 eða ´44 voru gerðar verulegar umbætur á húsinu. Trétröppurnar að vestanverðu upp í bíslagið “skúrinn” voru fjarlægðar og rýminu, þar sem kamarinn var áður fyrr, var breytt í snyrtilegt kuldabúr og fatahengi fyrir útiföt.  Vatnssalerni  hafði verið sett upp um 1938 í hluta af gamla búrinu norður af eldhúsinu og var þar áfram, en nú bættist þar við baðker með sturtu, enda var nú komið heitt vatn í húsið með miðstöðinni.. Við miðjan norðurvegg var áfram austur/vestur skilrúm og hlerinn yfir stigagatið niður í kjallarann var nú í baðherberginu. Austan við skilrúmið var Dimmageymsla sem nú var breytt í anddyri með fatahengi. Útidyrnar sneru nú út að Aðalgötunni til  austurs, norðarlega eins og upphaflega stóð til við byggingu þess 1925. Þar steypti pabbi góðar tröppur og kom þar fyrir forláta handriði að mestu úr mjóum járnpípum sem hann smíðaði sjálfur á verkstæði Jóns Frímannssonar. Handriðið málaði hann rústrautt og stendur það enn. (2009)                         

ELDHÚSIÐ Í eldhúsinu fór megnið af daglegu heimilislífi fjölskyldunnar fram. Þar var samverustaður fjölskyldunnar fram á kvöld. Þegar gesti bar að garði sem gerðist mjö oft sátu þeir gjarnan þar og drukku kaffi við eldhúsbekkinn og mösuðu. Þar réði móðir mín ríkjum og vann öll sín heimilisstörf og þar var matstaður heimilisins. Pabbi var auðvitað oft fjarverandi, í sjóróðrum eða við önnur störf vegna trillunnar og sjósóknarinnar.  Seint á haustin og fram eftir vetri vann hann oft við fiskimat, enda löggiltur fiskimatsmaður með allan fisk. Í eldhúsinu undum við börnin okkur afar vel hjá mömmu sem næstum alltaf var heima.  Hún las þá eitthvað fyrir okkur eða sagði okkur sögur og reyndi að kenna okkur ljóð og visur. Undir eldhúsglugganum var eldhúsborðið, sem ætíð var kallað eldhúsbekkur, áfast við vesturvegginn og náði nokkru hærra en neðri brún gluggans. Þar var því ágætt glugghús, og hefur mér verið sagt, að svo þægur hafi ég verið sem barn, að oft nægði að koma mér fyrir í glugghúsinu og þar sat ég víst hinn rólegasti og virti fyrir mér gengum rúðurnar það sem fyrir augu bar úti. Þegar ég var minntur á þetta seinna, fannst mér þessi mikla þægð mín bera keim af ótrúlegri nægjusemi minni eða jafnvel, að ég hafi verið heldur daufgert barn.  En svo var víst ekki. Ég sóttist eftir að komast í glugghúsið og klifraði upp á eldhúsbekkinn þegar síst skyldi og kom mér fyrir við gluggann. Mér var sagt að ég hefði gjarnan unað mér einn á gólfinu við leik að leggjum, skeljum og kuðungum og mislitum leikfangakubbum og lítlum gúmmífíl og forláta spiladós sem ég heillaðist mjög  af. Ég man ekki til að hafa eignast bangsa eða uppsstoppuð dýr. Undir eldhúsbekknum  (- borðinu) voru þrír skápar með hurðum fyrir sem náðu niður að gólfi. Í skápunum voru geymdir matardiskar, pottar og pönnur og önnur eldhúsáhöld. Í borðinu ofan við skápana voru hlið við hlið þrjár skúffur í röð fyrir borðbúnað, bökunaráhöld og þessháttar.  Við þetta eldhúsborð var matast og þar sátu heimilisgestir og drukku kaffi og spjölluðu þótt ekki væri sérlega þægilegt fyrir fullorðna að sitja við bekkinn einhvernvegin út á hlið vegna lokuðu skápanna. Eldhúsbekkurinn var einnig aðalvinnuborð mömmu við hverskonar saumaskap, matargerð og önnur eldhússtörf að ógleymdum stífingunum, sem hún vann fyrir ýmsa, einkum fyri jól og hátiðar. Karlar klæddust þá gjarnan kjólsskyrtum, kjólvestum og mansjettum. Þetta fínerý þurfti allt að stífa og mamma þvoði og stífaði þess háttar tískufatnað með sérstöku stífelsi. Mest vinna fór í sjálfar stífingarnar. Mamma notaði straubretti svipað í lögun og nú (2013) þekkjast en það var allt úr tré og nokkuð þungt og óstöðugt. Hún notaði straubolta sem hitaður var með glótungu úr málmi sem stungið var eldtöng aftan í boltann en glótungan var hituð inni í eldholi eldavélarinnar þar til hún var glóandi rauð en aðeins látin kólna um stund á eldavélinni. Mikla nákvæmni þurfti svo að strauboltinn ofhitnaði ekki og brenndi skyrtubrjóstið. Mig minnir að við stífingarnar notaði mamma hverju sinni jafnavel þrenna misstóra straubolta og þrjár glótungur í einu og á mismunandi hitastigi. Ekki var auðvelt að fylgjast með hitastigi hverrar glótungu í kolaeldavél og þessar stífingar því ekki einfaldar.  Mamma var nokkuð eftirsótt til þessa starfs vegna þess, hve hún þótti vandvirk og nákvæm. Einhverjar greiðslur fékk hún fyrir þessa vinnu, en varla hafa þær verið umtalsverðar.  Á suðurvegg eldhússins innst yfir eldhúsborðinu var 15-20 sm. breið hilla í sömu hæð og efri brún eldhúsgluggans. Framan á hillunni hékk hvítt puntuhandklæði og á því útsaumuð með bláu garni mynd af svani á sundi, en á bak við handklæðið, sem hékk nokkuð frá vggnum, faldi mamma þurr viskustykki, handklæði og þessháttar á krókum sem voru festir á slá á veggnum. Á suðurveggnum til vinstri voru dyr inn í suðurherbergið, en í eldhúshorninu austan við dyrnar voru þrjár hornhillur og var sú efsta í sömu hæð og gerettið yfir dyrunum. Á þeirri neðstu ofan við miðjan vegg stóð gljáfægður prímus úr látúni. Aldrei man ég eftir að hann væri notaður við eldamennsku, heldur hafður þarna til skrauts. Ofan við hann í næstu hillu var svokölluð olíuvél, sem gegndi svipuðu fegrunar hlutverki. Hún var með koparlitaðan “behollara” þar sem olían var geymd og ofan í hann náði kveikur, sem hægt var að skrúfa upp og niður með sérstökum stillibúnaði, efst á „behollaranum“, Kveikurinn sem logaði á var innan í bláum sporöskjulöguðum málmbelg með rúðu framan á úr “Maríugleri” sem svo var nefnt.(þynna úr glærum glimmer (mica) ; lítil hlíf úr gegnsæju efni eins og t.d. á gluggaumslagi nema mun þykkra.) Ofan á belgnum var statíf líkt og á prímusi og á það var hægt að setja lítinn pott eða ketil og sjóða í vatn eða annað eða halda einhverjum mat  heitum. Ekki man ég til að þessi olíuvél væri notuð nema til skrauts.  Á efstu hillunni stóð svo eldhúsklukkan, mikil vekjaraklukka, og á bakvið hana geymdi pabbi meðalaglas með háum glertappa. Í því glasi var alltaf geymt lýsól, sótthreinsandi lyf, sem pabbi hafði tröllatrú á. Ef maður fékk á sig skrámu, var lýsólið komið á loft og borið á allt í kringum sárið, en ekki í það, því að þá sveið illilega af lýsólinu. Pabbi bar alltaf á sér smálýsólglös þegar hann var á sjónum eða í vinnunni ef hann eða einhver meiddist og sótthreinsunar var þörf í kringum sárið svo að unnt væri koma í veg fyrir að græfi í þeim. Þetta var skynsamleg ráðstöfun fyrir daga penicilínsins.   Við suðurdyrnar í suðausturhorni eldhússins aðeins til hliðar við hornhilluna var reykháfurinn úr steinsteypu eins og húsið sem allt var steinsteypt, en allar innréttingar í húsinu, skilrúm, gólf og loft,  voru úr timbri. Einangrun við útveggi var úr tróði ýmiskonar t.d.gömlum blöðum, reiðingi þ.e. þurrkuðum torfum úr seigum grassverði. Eldhúsið var allt þiljað með timbri, panel, vel máluðum í ljósum lit en önnur herbergi voru veggfóðruð og öll loft strigalögð og hvítmáluð. Panellinn var, árin áður en ég fór í Menntaskólann haustið 1942, ætíð málaður með olíumálningu eins og öll loftin í húsinu sem ætíð var máluð hvít einnig með olíumálningu með glampandi áferð. Seinna kom  hentugri málning til skjalanna svonefnd rúllumálning eða vatnsmálning sem borin var á með rúllum og þakti mun betur og jafnar. Ljós gulbrúnn draplitur var á olíumálningunni á þilpanelnum, en gólflistar og geretti voru nokkrum mun dekkri og brúnleitari, en sjálft gólfið var ýmist ferniserað eða lakkborið, þar til gólfdúkur var settur á það um 1935. Mikið nostur og vinna var við að mála allt eldhúsið öll loft og glugga með misstórum hringlaga pennslum og sá faðir minn einn um það jafnvel árlega fyrir jólin. Ég fékk að grófmála neðri hluta þilpanelsins og bera fernis á gólf, þegar ég hafði aldur til, um 12 ára aldurinn. Einfaldur vaskur var í eldhúsinu við austurvegginn  norðann við dyrnar inn í stássstofun.  Upphaflega var aðeins kalt vatn í krananum yfir vaskinum, en eftir að eldavélarmiðstöð frá stóru kolaeldavélinni var sett upp um 1938, og sérstökum hitavatnskúti fyrir eldhúsvaskinn og baðið komið fyrir uppi á háalofti var keyptur tvöfaldur vaskur og þeim gamla hent. Ekki veit ég hve mikið heitt vatn komst fyrir í kútnum, en sparlega þurfti að fara með það. Maður gat ekki setið undir heitri sturtunni nema örstutta stund, heita vatnið kláraðist fljótt. Keyptur var tvöfaldur vaskur og pabbi smíðaði lítil borð, sín  hvoru megin við nýja vaskinn og undir þeim tvo skápa fyrir skólpfötu og hreinsiefni. Þegar hitaveitan kom 1945 hvarf hitakúturinn, enda alltof lítill, og blöndunartæki með heitu og köldu vatni sett upp bæði á baðinu og við eldhúsvaskinn. Hvílíkur munur að hafa alltaf kalt og heitt vatn á báðum stöðum. Það var óvæntur lúxus. Áður en hitaveitan kom þurfti að hita allt vatn til þvotta og hreinlætis í stórum bláum katli á kolaeldavélinni eða stórum pottum. Þessu heita vatni var blandað saman við kalt vatn í vaskafat og/eða þvottabala sem fólk gat staðið í og þvegið sér með þvottapokum og sápu. STÁSS-STOFAN Dídí systir hefur eftir mömmu, að hún og Gunnlaugur bróðir hennar, hafi þegar á barnsaldri ákveðið að „þegar þau yrðu stór“ ætluðu þau að hafa fínu stofuna sína rauðmálaða á framtíðarheimili þeirra. Bæði stóðu þau við þá fyrirætlun. Í Díönu, heimili Gunnlaugs og heima hjá okkur var stássstofan með rauðu veggfóðri. Heima sneri hún í austur (út að Aðalgötunni) með tveimur hvítmáluðum gerettum um tvo glugga. Hurðin fram í eldhúsið og önnur hurð sem sneri í norður út í “Dimmu geymslu” og gerettin um þær voru hvítmálaðar. Þessi geymsla var í norausturhorni hússins þar sem aðalinngangurinn í húsið átti að vera 1925.  Stofan var sem sagt eins og mamma óskaði. Seinna um 1939 var þar skipt um veggfóðurog sett á nýtt, brúnt að lit með lakkáferð. Það var mun endingarbetra og  auðveldara að þrífa. Gengið var í stofuna beint úr eldhúsinu um dyr á austurvegg þess. Stofan var ætíð kölluð „stássstofan“ og ekki mikið notuð daglega af okkur heimilisfólkinu, nema þegar gesti bar að garði og á hátíðum. Hún var hins vegar ætíð notuð þegar þar voru söngæfingar fyrir kirkjukórinn eða aðra kóra, aðallega raddæfingar. Þröngt var þar á þingi þegar allur kórinn var þar mættur en slíkt gerðist stöku sinnum, þegar mikið lá við, einkum á vetrum vegna kulda í kirkjunni. Foreldrar mínir tóku ætíð virkan þátt a.m. k. í kirkjukórnum og mamma í allstórum og kröftugum kvennakór á vegum Slysavarnarsveitar kvenna í Ólafsfirði, sem mamma starfaði í um margra ára skeið einkum á árunum fyrir og eftir 1940,  líklega til ársins 1945. Sá kór æfði raddæfingar mestan part heima í stofunni hjá foreldrum mínum. Pabbi söng að sjálfsögðu ekki í kvennakórnum, en lék á orgelið á æfingum og stjórnaði raddæfingarnar.  Hann var fyrsti organisti nýju kirkjunnar í þorpinu sem vígð var 1915 en  lét af störfum 1921 enda fór formennska á fiskibát illa saman við kröfur kirkjustarfsins. Hann lærði að spila á orgel og fiðlu eftir nótum hjá Hallgrími Einarssyni tónlistarmanni á Akureyri veturinn 1915. Í stássstofunni var orgelið hans pabba við norðurvegginn. Þar voru einnig nær austurvegg, dyr út í gluggalausa geymslu, „dimmu geymslu“, sem seinna varð að anddyri þegar efni leyfðu og útidyrnar settar á austurhlið hússins eins og upphaflega var ráðgert. Í þessu dimma herbergi  var geymt margvíslegt dót í kössum og á hillum m.a. fiðlan hans pabba. Þar héngu einnig spariföt, frakkar og kápur. Ef við börnin vorum með einhver ólæti var okkur hótað að vera lokuð inni í þessari dimmu geymslu. Ekki minninst ég að alvara hafi verið gerð úr þeim hótunum. En þær höfðu sín áhrif. Við austurvegg stássstofunnar næst geymslunni var bókaskápur frá gólfi til lofts. Neðst var hann læstur með tveimur skáphurðum og lykillinn falinn. Einhverju sinni þegar ég var einn heima, komst ég í þennan dularfullu skáp, og fann þar nokkuð af óinnbundnum  bókum og tímaritum sem þótti ekki nógu fínt að skarta með í bókahhillunum sökum útlitsins. Fátt annað merkilegt var í læstu skápunum nema hálffull áfengisflaska og sérlega áhugaverð bók, sem hét því magnaða  nafni, „Hjónaástir“. Ég hef væntanlega verið um 12 eða 13 ára og þótti bókin svo áhrifarík, að ég átti erfitt með að hætta lestrinu og koma henni aftur fyrir í skápnum áður en upp um mig kæmist og var með hjartslátt af spenningi yfir þeim mögnuðu fræðum sem í bókinni var að finna. Í bókahillunum voru margar ljóðabækur t.d.eftir Jónas Hallgrímsson, Davíð Stefánsson, Kristján Fjallaskáld Bólu-Hjálmar og Matthías Jochumsson. Fornaldarsögur Norðurlanda, Mál og menntir eftir Pál Eggert Ólafsson, Sögur Herlæknisins og ýmsar rómantískar skáldsögur aðallega þýddar og einstaka danskir rómanar. Eitthvað af þessum bókum höfðu verið keyptar af Jóni J. Þorsteinssyni kennara og kostgangara okkar, mági pabba, sem flutti til Akureyrar og skyldi þær eftir sem greiðslu eða þakkir fyrir ódýrt fæði.   Milli stofuglugganna tveggja í austur var skrifborðið hans pabba. Það var smíðað af honum sjálfum. Hann fékk að komast í rennibekk og renndi fjóra fætur undir borðið sem enn er til, í eigu Tryggva, sonar míns. Borðplatan er 95 x 50 sm úr vel plægðum samlímdum þremur borðum með fallega hefluðum listum 7 sm. háum á þrjá vegu um 10 sm. frá brúnum borðplötunnar.  Undir plötunni eru 5 skúffur, ein undir miðju borði og tvær til hliðar báðum megin. Gólfið í skúffunum er úr rekaviði sem m.a.sést á því að misjafnlega liggur í viðnum. Borðið var sjaldan notat við skriftir en aðallega sem fallegur húsmunur, enda fagurlega málaður dökkri mamaramálningu á öllum hliðum. Framan á skúffunum  eru fallegar gylltar höldur. Borðplatan er máluð svörtu lakki með glansáferð. Mest áberandi á borðinu var lituð ljósmynd af Hannesi Hafstein „átrúnaðargoði“ pabba, en hann hafði ásamt fleiri Ólafsfirðingum farið á árabát til að mæta á fundi ráðherrans á Akureyri líklega 1914. Á miðju borðinu var snotur bakki með tveimur ferköntuðum blekhylkjum sem í voru kringlótt glös. Hringlaga lok á hjörum voru á blekhylkjunum og aftan við þau var gott rými á bakkanum fyrir pennastengur.  Allt var þetta úr gylltu látúni. Á borðinu voru enn fremur tvær innrammaðar ljósmyndir af nánum ættingjum. Í tilefni af Lýðveldishátíðinni 1944 var keypt silfurlituð borðstöng með íslenska fánanum, steypt í Ofnasmiðjunni í Reykjavík, en Sveinbjörn Jónsson forstjóri hennar var náfrændi mömmu.   Á bernskuárum mínum var lítið til af málverkum í heimilum í Ólafsfirði. Ekkert var í eigu foreldra minna. Á miðjum suðurvegg stássstofunnar hékk lituð ljósmynd með grænum torfbæ sem yfir stóð „Drottinn blessi heimilið“ Einnig hékk uppi vatnslitamynd (nú glötuð)eftir


Kafli 1 af 3 - Lýsing á uppvaxtarheimili

Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd. Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið. Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að næsta spurningakafla sé svarað.

Kafli 2 af 3 - Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum

Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.
Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?
Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?
Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?
Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?
Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.
Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?
Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?
Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?
Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?
Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?
Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.
Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?
Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?
Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?
Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.
Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?
Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?
Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?
Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.
Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 3 - Dagur í lífi heimilismanns

Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.