LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiDaglegt líf, Hús, Húsbúnaður
Ártal1940-1950
Spurningaskrá117 Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf

StaðurSkáney
ByggðaheitiReykholtsdalur
Sveitarfélag 1950Reykholtsdalshreppur
Núv. sveitarfélagBorgarbyggð
SýslaBorgarfjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1936

Nánari upplýsingar

Númer2012-3-118
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið14.4.2014
Stærð3 A4
TækniTölvuskrift

  Svör við spurningum þjóðháttadeildar Þjóðinjasafnsins.   Bernskuheimilið Minningar frá árunum 1940- 1950.   Ég er (...),  fædd að Skáney í Reykholtsdal (...) 1936. Foreldrar mínir voru (...), fædd og uppalin á Skáney og (...), kom vestan af Snæfellsnesi.   Þau giftust 1930. Í fyrstu voru þau heima á Skáney, en 1936 hófu þau búskap á 1/3 hluta af jörðinni Skáney, þar heitir í Nesi. Afi skipti jörð sinni í þrennt á milli barna sina. Þau byggðu sér sér 64 fermetra hús, í því voru þrjú svefnherbergi, stofa, eldhús, búr og klósett. Flutt var í það árið eftir. Smiður úr sveitinni var fenginn sem verkstjóri. Á jörðinni voru fjárhús fyrir 150 - 200 fjár. Bústofninn var 5 - 7 mjólkandi kýr, 150 kindur og 6 - 8 hross. Íbúðarhúsið var byggt á hól og var vatnslind austan við hólinn, hún var hreinsuð upp og steyptur djúpur brunnur og smíðaður yfir hann góður hleri svo krakkar dyttu ekki ofaní. Vatn var leitt í húsið, dæla sett niður í kjallara og vatni dælt í stóra tunnu uppi á lofti. Svo var dælt með handafli þangað til tunnan var full, það sá maður þegar rann í eldhúsvaskinn (úr litlu röri frá tunnunni á loftinu). Vatni var dælt með handafli í 10 - 15 ár. Kokseldavél kom strax í eldhúsið, þá var alltaf heitt í eldhúsinu og nóg heitt vatn úr  vélinni. Húsið var hitað upp með ofnum í hverju herbergi. Miðstöðvarketill var inni á klósetti. Brennt var kolum og spýtum og fyrstu árin var notaður mór. Loftið yfir húsinu var notað til að geyma vatn fyrir miðstöðina og þar var neysluvatnsgeymir fyrir heimilið. Seinna (ca. 1947) var sett upp vindmylla á hlöðuþakið, þá vóru rafgeymarnir settir upp á loft. Kjallari var undir hálfu húsinu, notaður sem kaldar geymslur, t.d. fyrir súrmat, saltkjöt og saltfisk. Ekki vóru dyr inn í kjallarann, allt borið inn gegnum gang og eldhús og niður frekar brattan stiga. Ég á tvo bræður, eldri en ég, fædda 1932 og 1935. Þegar flutt var í hálfbyggt húsið varð yngri drengurinn eftir hjá ömmu og afa. Trúlega hefur ömmu þótt nóg að fara með tvö lítil börn í hálfbyggt hús. Hann var hjá þeim í tólf ár. Eldri bróðir minn fékk það verkefni að passa systur sína þegar foreldrarnir vóru í útivinnu. Fyrstu árin svaf ég inni hjá foreldrum mínum. Bróðir fékk annað litla herbergið. Á sumrin vóru alltaf einhverjir unglingar til snúninga og vinnu, (aðallega frændur). Farskóli var heima á veturna, þá var stofan notuð sem kennslustofa. Börn,   sem lengra áttu heim, gistu. Allir vóru í hádegismat og miðdagskaffi. Nokkur haust vóru saumanámskeið. Fengin var kona til að kenna að taka mál, gera  snið og sauma. 6 – 8 konur vóru í einu á námskeiði. Konur komu með vélarnar sínar. Stofuhúsgögn komu seinna, orgel, borð, sem hægt var að stækka, 4 stólar, 2 tágarkörfustólar, dívan (heimasmíðaður), stofuskápur (svartur). Klósettið var mjög lítið. Þar var klósett og vaskur og svo stór miðstöðvarketill sem kveikt var upp í á veturna og þegar kalt var. Aldrei man ég eftir kulda í húsinu. Eldhúsið var notaleg vistarvera, enda koksvélin alltaf heit. Útvarp kom fljótlega og var sett á hillu í horni yfir matarborðinu. Það gekk fyrir rafhlöðu, sem þurfti að hlaða. Yfir borðinu hékk Aladin gaslampi sem gaf góða birtu. Olíulampar vóru notaðir líka í herbergjum. Ekki var mikið verið með kertaljós. Alltaf var borðað í eldhúsinu og ef gestir komu var þeim oftast boðið að matast í eldhúsinu. Mamma sá um eldamennsku og alla matargerð, sláturgerð, að sjóða niður kjöt í glös, (mjög gott), salta kjöt, fara á grasafjall og hreinsa svo grösin. Kartöflur vóru ræktaðar, eins rabarbari og rifsber. Eldhúsáhöld vóru í fyrstu minningu emileraðir diskar, bæði grunnir og djúpir, seinna leir. Eldaður hafragrautur í morgunmat, slátur með. Hádegismatur kjöt eða fiskur, alltaf súpa eða grautur á eftir. Miðdagskaffi kl. 4. Kvöldmatur eftir mjaltir, afgangar frá deginum. Mitt uppáhalds fæði á kvöldin var kæfa og kartöflur. Út að borða fórum við alltaf á aðfangadagskvöld til afa og ömmu. Svo var þeim boðið til okkar á gamlárdagskvöld. Ekki fleiri matarboð. Hreinlæti var í góðum málum. Mamma sá um það. Bjó til sápu úr floti og vítissóta. Þvottur þveginn úr henni heima, svo farið með hann í hver til skolunar. Farið ríðndi með blautan þvottinn fyrir framan sig. Vatnssalerni kom strax, skorin hæfileg blöð fyrir klósettpappír. Koppar vóru til, sjaldan notaðir, helst seinnipart vetrar eða vor þegar þurfti að safna keytu til ullarþvotta. Baðkar eða sturta ekki til á bænum, notaðir þvottapokar. Stórt baðkar heima hjá ömmu og afa. Sundlaug og sturtur í 20 mín. gangfæri og  svo áin við túnfótinn. Þetta var allt notað til hreinlætis á sál og líkama. Á stríðsárunum kom kona með börn heim og dvaldi um sumartíma. Þá fékk hún stærsta svefnherbergið til afnota. Enginn bíll var á heimilinu. Farið á hestum eða gangandi ef farið var eitthvað. Fjölskyldan ferðaðist ekki saman. Mamma prjónaði og saumaði allt á okkur. Prjónavél kom fyrir mitt minni, var skrúfuð föst í gluggakistu í svefnherbergi pabba og mömmu. Mamma prjónaði, nærföt, peysur, sokka og hvaðeina annað sem þurfti. Man eftir felldu pilsi og peysu sem þótti fallegt og vel gert. Fín á jólaballi. Vefstóll var settur upp þegar skólinn var ekki að vetrinum. Mamma óf teppi, púða, handklæði og fleira. Fótstigin saumavél kom á þessum árum. Algjört stofustáss. Síminn kom, hringing þrjár stuttar. Rafmagn frá orkuveitu kom 1951. Stór garður er í kringum húsið. Plantað var trjám og fjölærum jurtum. Kúmen var sótt í garðinn og sett í kleinurnar. Mér leið alltaf vel. Fann ekki til neinna leiðinda þó væru stundum margir næturgestir og ég þyrfti oft að ganga úr rúmi. Það kom fyrir að við systkynin sváfum úti í tjaldi eða hlöðu á sumrin.       Aldrei fann ég mun á því, hvort vinkona mín hefði það betra eða verra en ég. Ég átti gott heimili og lærði að meta það. Þar var enginn íburður en alltaf nóg af öllu.    


Kafli 1 af 3 - Lýsing á uppvaxtarheimili

Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd. Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið. Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að næsta spurningakafla sé svarað.

Kafli 2 af 3 - Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum

Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.
Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?
Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?
Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?
Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?
Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.
Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?
Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?
Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?
Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?
Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?
Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.
Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?
Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?
Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?
Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.
Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?
Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?
Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?
Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.
Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 3 - Dagur í lífi heimilismanns

Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.