LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDaglegt líf, Hús, Húsbúnaður
Ártal1954-1973
Spurningaskrá117 Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1946

Nánari upplýsingar

Númer2012-3-117
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið14.11.2013
TækniTölvuskrift

(Kona ...) Fædd 1946 Ellilífeyrisþegi.   Inngangur.   Ég ætla að segja frá heimili mínu í Langagerði 106 en áður en ég geri það vil ég greina frá aðdraganda þess að við foreldrar mínir fluttum þangað.   Ég er fædd á Landspítalanum en þá voru foreldrar mínir til heimilis í Jónshúsi á Grímsstaðarholti. Þau höfðu eitt lítið herbergi á heimili móðurforeldra minna. Ég gæti líka sagt frá húsaskipan þar, því þar var ég fastur gestur öll fyrstu árin mín.   Þegar ég var 6 mánaða fluttu foreldrar mínir í Melabraggann eins og hann var kallaður í daglegu tali. Þau höfðu innréttað litla íbúð sem var aðeins 20 fermetrar. Móðir mín,Ingigerður Steinþórsdóttir, sagði frá þeirri íbúð í bókinni Undir bárujárnsboga og sagði vel frá en hún gleymdi einum hlut. Bláum djúpum stól sem við vorum ákaflega stolt af.   Á þessum tíma bjó mest venjulegt fólk þarna.  Pabbi var verkamaður hjá Eimskip og hann vann þar í 50 ár.  Byrjaði 19 ára og hætti 69 ára þegar heilsan var orðin slæm.   Við mamma heimsóttum afa og ömmu á holtinu alla daga og fórum í búð þar í leiðinni.  Ég lék mér svo úti en mamma og amma drukku kaffi inni.   Ekki þótti skömm að búa í bragga og heyrði ég ekkert um slíkt fyrr en að byggðist upp á Kvisthaganum og þangað flutti fólk. Þá máttu sum börn ekki vera með okkur braggabörnunum.   Börn Gunnars Thoroddsens, máttu vera með okkur og einu sinni kom tengdafaðir hans forsetinn, Ásgeir Ásgeirsson og bauð okkur krökkunum í bíltúr í forsetabílnum. Mikið vorum við stolt þá.   Föðuramma mín átti heima á Framnesvegi 33.  Selland hét það hús.  Fyrst þegar ég man eftir mér var afi minn veikur heima en hann dó þegar ég var 3 eða 4 ára.  Samt man ég eftir honum í rúmi þarna. Rúmi sem hann smíðaði sjálfur því hann var bæði húsganasmiður og rennismiður. Ég gæti alveg lýst þessu litla heimili líka. Þar höfðu margir búið áður í þröngu plássi en þegar amma var orðin ekkja var hún þar ein.   Sama var með Jónshús þar sem móðurforeldrar mínir bjuggu. Húsið var  líklega 50 fermetrar að grunnfleti, með kjallara og risi og þar var alltaf mannmargt.   Við vorum aðeins 3 í heimili. Ég og foreldrar mínir. Besta vinkona mín Systa var í samskonar íbúð og við.  Foreldrar hennar bjuggu fyrir ofan okkur og voru með 3 börn þegar þetta var.   Það var farið að tala um hve óhollt það væri að búa í herskálum og foreldrar mínir fóru á fund vegna þessa máls.   Svo kom pabbi eitt kvöld með teikningu af húsi. Við höfðum fengið lóð í  smáíbúðarhverfinu.   Grunnur var steyptur og það var unnið öll kvöld og helgar í húsinu. Ég man að mamma beið oft með mig á kvöldin. Beið eftir pabba.     Hörður bróðir mömmu bjó líka í Melabragganum. Hann fékk lóð rétt hjá okkur.   Pabbi fór alltaf í vinnuna á hjóli en nú keyptu þeir mágar saman gamlan gráan pallbíl sem var með sveif  á framan til að setja bílinn í gang. Þetta var bíll til að flytja ýmislegt í byggingarnar.        Langagerðið.     Pabbi og mamma eignuðust vini. Fólk sem var að byggja samtímis og þetta fólk hjálpaði hvort öðru og hélt vinskap það sem eftir var ævinnar. Einnig á ég vini í afkomendum þess. Pabbi gerði allt í húsinu sjálfur nema að setja inn rafmagnið. Það gerði frændi minn Halldór sem var menntaður rafmagnsamaður, eins og ég kallaði það þá.   Við fluttum inn vorið eða sumarið sem ég var 8 ára. Húsið var ekki fullgert.  Hurðin fyrir útidyrnar var ekki komin. Það var bráðarbyrgðar hurð þar. Svona fleki og lásinn var bara tölulás.  Við notuðum eldhúsið, stofuna, borðstofuna og þvottahúsið.  Í þvottahúsinu var sturta sem reyndar var aldrei tekin niður á meðan við áttum húsið og það var í yfir 50 ár. Undir sturtunni var stór trébali og fannst mér gaman að baða mig þar. Ber steininn á gólfunum var lakkaður og seinna komu gólfdúkar og teppi.   Mamma átti þvottavél með rullu. Mjöll hét hún og var íslensk. Hún notaði hana þar til um 1973 eða 4 og gaf hana þá í sveit.   Hún notaði líka bala og bretti.  Úti var garður sem var ekki gerður strax en var þó kominn árið 1958. Kannski var hann kominn fyrr  Mamma hafði snúrur úti og þær snúrur eða að minnstakosti snúrustaurinn hennar er þar enn. Garðinn skipulagði maður sem við kölluðum Sigga blóma. Hann átti heima í Fossvoginum og hann var seinna eigandi blómabúðarinnar Daggar.  Hann skipulagði líka garð Jóns Kristjánssonar vinar foreldra minna og sá garður var verlaunagarður eitt árið. Fegursti garður Reykjavíkur.     Nú ætla ég að snúa mér að útidyrunum og reyna að lýsa. Þegar komið er inn er þar fyrir smá gangur og til hægri er hurð. Þar fyrir innan er skonsa. Þar voru geymdar krukkur og ýmislegt smávegir.  Til vinstri er stigi upp á loft. Það er hurð með gleri beint á móti okkur þegar við komum inn.  Þegar komið er gegnum hana er gangur og beint á móti þessari hurð er þvottahúsið. Þar eru þrjár tröppur niður og ég sat oft í efstu tröppunni og talaði við mömmu þegar hún var eitthvað að gera þarna.  Til hliðar er eldhúsið. Þetta er notalegt eldhús. Innréttinguna gerði Stefán Gíslason sem var vinur afa og ömmu, einnig foreldra minna. Mér er minnistætt hve innilega hann gat hlegið.  Hann átti heima í Kópavogi ásamt konu sinni Guðlaugu.     Skáparnir voru úr ljósbrúnum við og hurðirnar á þeim voru dökkbrúnar.  Hillur voru til hliðar við skápa sem voru sín hvorum megin fyrir ofan eldavélina. Þessar hillur voru rúnaðar og voru fyrir ofan vélina sín hvorum megin.  Í skápunum yfir eldavélinni var leirtau. Diskar grunnir og djúpir, skálar og fl í þeim vinstra meginn þegar maður snýr að vélinni og glös, bollar, undirskálar, stórar desert skálar og fl í þeim hægra meginn.     Skúffur voru í borði við hliðina á vélini og það var lítill mjór skápur fyrir viskustykki og fleira bak við hurðina til hliðar við þessar skúffur. Í horni hinum megin við eldavélina var hornskápur og í honum voru færanlegar hillur. Það var hægt að snúa þeim og voru þær fyrir potta. Þá kom skápur undir eldhúsvaskinum. Vaskurinn var tvöfaldur og var gluggi á móti honum.  Skápur var svo uppi í horni við hliðina á glugganum og vaskinum.  Allt þetta tilheyrði eldhúsinnréttingunni sem Stefán smíðaði og fannst mér hún alltaf falleg. Eldavéin var íslensk.  Rafha og var hún með gormahellum og hitastigið í henni var merkt á farenheit.   Hún var allatíð í eldhúsinu á meðan  húsið var í okkar eign. Í efstu skúffunni við hliðina á eldavélinni voru hnífapör, skeiðar, gafflar og fl.  Í næstu voru ausur og fl. Það var nóg af  öllu hjá mömmu.   Seinna kom skenkur í borðstofuna og í honum geymdi hún sparistell og fleira. Þær vinkonurnar í Langagerðinu fóru að mála á postulín og hún málaði stell og geymdi í skenknum.   Mamma eignaðist ekki ísskáp fyrr enn 1957. Þá vann hún í happadrætti háskólans og notaði vinninginn til að kaupa ísskáp. Ísskápurinn var Kelvinator og hann dugði í 37 ár. Ekki komst hann inn í eldhúsið og var þess vegna í ganginum á móti eldhúsinu. Fyrir ofan hann voru rafmagnstöflurnar.   Við eignuðumst amerísk eldhúshúsgögn, stálborð, tvo stóla og kolla.  Tvíburabróðir pabba sem var í siglingum keypti þetta og pabbi keypti það af honum þegar Sæmi bróðir hans fékk sér nýtt.    Borðplatan var rauð en með hvítu í.  Stólarnir og kollarnir rauðir. Ég á þetta ennþá, þó að stólarnir séu frekar laskaðir og þó ég komi þessu hvergi fyrir vil ég ekki láta það. Þetta er í geymslu ásmat fleira dóti úr Langagerðinu. Það var gengt úr eldhúsinu inn í borðstofuna. Fyrst notuðu pabbi og mamma hana fyrir svefnherbergi og ég svaf í stofunni. Stofan og borðstofan voru sameinaðar með stóru opi eða hurðalausum dyrum.   Seinna þegar hlutirnir breyttust vorum við með sjónvarp í borðstofunni og gátum þá  séð úr eldhúsinu líka.   Sjónvarpið fór svo í stofuna.   Þegar ég var 10 ára fékk ég mitt eigið herbergi. Þetta var lítið, já mjög lítið herbergi við enda gangsins, á móti stofunni. Pabbi og mamma fengu sitt svefnherergi og var það  við hliðina á mínu herbergi og beint á móti var svo baðherbergið. Í baðherberginu var bað, klósett, handlaug og þetta venjulega, sem er í baðherbergum.   Þetta ár þegar ég var 10 ára kom yngsti bróðir mömmu að tali við foreldra mína. Hann var tvítugur og var búinn að stofna fjölskyldu, átti konu og lítinn son. Hann spurði hvort hann gæti fengið loftið til að búa í og hann sagðist vilja innrétta það. Það varð úr. Gunni frændi minn, Þóra konan hans og Ármann litli fluttu inn. Það var ekki lokað  á milli. Við vorum ein stór fjölskylda. Ég passaði Ármann mikið og var oft hjá Gunna og Þóru.  Gekk upp til þeirra þegar ég vildi. Enginn amaðist við því.  Þau komu niður en ég gæti hugsað að fullorna fólkið hafi gætt þess að gefa hverju öðru næði. Pabbi, mamma, Þóra og Gunni voru miklir vinir alla æfi, foreldra minna. Þóra og Gunni lifa ennþá. Steinþór fæddist og svo kom Unnur. Þau fluttu þá í burt úr þessari litlu íbúð en afi og amma úr Jónshúsi fluttu inn og vorum við enn ein fjölskylda. Þau fluttu inn þegar ég var annað hvort 15 eða 16 ára. Bæði Gunni og afi greiddu pabba leigu en hún var lág. Þeir hefðu ekki viljað hafa það öðruvísi. Uppi er geymsla og smá skonsa sem er klósett. Hún er á pallinum. Þegar inn í íbúðina er komið, var eldhús, smá herbergi og svefnherbergi.  Í eldhúsinu voru skápar innbyrðir á veggnum á milli svefnherbergsins og eldhússins. Þeir fóru þegar pabbi gerði loftið upp seinna. Það var eldavél við hliðina á innganginum, beint á móti þessum skápum og kvistgluggi til hliðar, þar var eldhúsvaskur og á móti hinum megin var borð.  Oft var setið við það og talað. Þetta var allt eins þegar afi og amma voru þarna. Það var reyndar annað borð og afi keypti ísskáp sem var við hliðina á eldavélinni. Í smáherberginu voru innbyggðir skápar. Það hafði verið sett  upp þil á milli smáherbergisins og eldhússins og þegar afi og amma voru ekki lengur þarna  tók pabbi niður þilið og þá var þetta eitt herbergi. Annað var svo í gaflinum. Pabbi klæddi þetta allt með panel.   Ég var 17 ára þegar pabbi og mamma fengu smið til að gera innbyggða skápa í svefnherbergi þeirra. Smámsaman breyttist allt og ég man best hvernig stofan var á unglingsárum mínum og fullorðinsárum. Mamma keypti ný húsgögn þegar ég var komin langt yfir tvítugt..   Það var grár og rauður sófi í stofunni á unglingárum mínum . Þetta var ekta 60's sófi, frekar smár en þægilegur að sitja í. Honum fylgdu tveir stólar sem stóðu sín hvorum megin við hann. Fyrir ofan var málverk sem bróðir mömmu málaði. Fyrir framan sófann var borð. Lágt tekk sófaborð. Á honum var dúkrenningur og á dúkum falleg græn glerskál. Það glitraði á hana í sólskini og komu þá fram allskonar litir. Í hliðarglugga hjá sófanum var stytta, af túnfiski. Hún var blá og á ég hana núna. Á móti sófanum við vegginn hinum meginn var radíógrammafónn. Falleg mubla.  Ég gaf syni mínum hann en hann er í geymslu hjá mér núna. Það voru blóm út um allt. Stórar aspadistur og á ég ennþá aspadistu frá mömmu.  Einu sinni var skriðjurt sem var kominn allan hringinn í stofunni. Það var gauksklukka við hliðina á glugga sem snéri á móti dyrunum og var aðalgluggi stofunnar, á gafli hússins. Þessi gauksklukka kom til okkar þegar við vorum ennþá í bragganum og var keypt erlendis. Á sama tíma kom amerískur lampi sem ég á ennþá  og er á heimili mínu. Klukkuna á ég í geymslu. Börn voru hrifin af klukkunni og oft horfðu þau hugfangin á fuglinn þegar hann kom út. Nokkrar kynslóðir af börnum. Síðast mín eigin barnabörn. Lampinn var á hliðarborði undir klukkunni. Þar,   Svör.   Ég svaf ein í mínu herbergi. Foreldrar mínir í sínu herbergi.  Afi og amma uppi og stundum var Oddur sonur þeirra og frændi minn í hliðarherberginu.  Þegar Gunni og þóra voru þar, áttu börnin öll sitt rúm. Fólk svaf í náttfötum, eða náttkjólum. Í Langagerði svaf ég ekki í sama herbergi og foreldrar mínir en þar sem þau sváfu í borðstofunni og ég í stofunni var opið á milli. Ég var 10 ára þegar ég fékk herbergi fyrir mig. Í bragganum sváfum við öll 3 í sama herbergi, sem var lika samastaður á daginn og kvöldin og við höfðum borðstofuborð þar.   Vinkona mín svaf í sama rúmi og systir hennar þó nokkuð lengi og kvartaði undan því að systir hennar sparkaði í hana. Mitt rými var í herberginu mínu en ég var mikið með heimilisfólkinu.   Stofan var nýtt til að vera saman í henni á kvöldum og þegar fjölskyldan kom saman. Hún var engin sparistofa sem ekki mátti koma í. Hún var nýtt við öll tækifæri og einnig var setið mikið í eldhúsinu. Húsið er 120 fermetrar í heildina. 80 fermetrar er grunnflöturinn.   Salernisaðstaða.   Í Jónshúsi hjá afa og ömmu var kamar fyrst þegar ég man eftir mér en svo kom vatnssalerni niðri í kjallara.   Hjá ömmu á Framnesveginum var vatnssalerni niðri sem hún deildi með fólkinu sem átti húsið. Amma leigði þarna.   Í bragganum urðum við að fara fram á gang til að fara á vatnssalerni Ég man ekki hvernig þessu var háttað fyrst þegar við fluttum inn í Langagerði, líklega hefur pabbi verið búinn að setja upp salerni í baðherberginu en baðið kom ekki strax. Það var alltaf notaður salernispappír á öllum þessum stöðum.   Ég man ekki hve oft við fórum í bað en ég held að það hafi ekki verið sjaldan eftir að við komum í Langagerði. Í bragganum var ég böðuð í bala á gólfinu og það hljóta foreldrar mínir líka að hafa gert en það man ég ekkert eftir.   Það var alltaf borðað í eldhúsi nema á hátíðum. Mamma sá um eldamennskuna og það var borðuð heit máltíð tvisvar á dag. Pabbi kom heim í hádeginu til að borða. Það var ævinlega fiskur í hádeginu á virkum dögum.  Kannski einhver kjötmatur á kvöldin. Um helgar var steik á sunnudögum.   Á meðan við vorum í bragganum gengum við til ömmu á Framnesvegi og borðuðum sunnudagslæri með henni en þegar við fluttum í Langagerði borðuðum við heima.   Við fórum aldrei út að borða. Ég man ekki eftir gestum í mat, en  gestir komu oft á kvöldin og fengu þá kaffi og kökur. Einnig voru oft gestir í 3 kaffi. Mamma smurði þá en á helgum átti hún kökur sem hún bakaði. Eða þá að hún bakaði vöfflur eða pönnukökur handa gestum.   Mamma gerði sultur. Í garðinum okkar var rabarbari, sólber og rifsber og gerði hún sultur úr þessu. Einnig gerði hún krækiberjasaft sérstaklega efir að þau fengu bíl og gátu farið í berjamó. Hún tók slátur og var gaman að sauma vambir. Þá mættu líka vinkonur hennar og var glatt á hjalla.   Bæði í bragganum og í Langagerði var miðstöðvarkynding og var allaf nógu heitt hjá okkur.  Þangað til að hitaveitan kom í Langagerðið var olíukynnt.   Lýsing var jöfn í öllum herbergum og ósköp lík því sem hún er ennþá. Það var venja að slökkva ljós þegar farið var úr herbergi og gerum við hjónin það ennþá af vana.   Heimilistæki. Mamma fékk þvottavél. Mjöll hét hún þegar ég var um það bil 6 ára. Þetta var mikill munur fyrir hana þó svo að hún hafi ekki verið sjálfvirk. Um 1973 eða 4 fékk hún sjálfvirka vél Candy.  Mamma átti stigna Singer saumavél, í skáp. Seinna fékk hún Phaff rafmagnsvél. Hún saumaði alltaf mikið. Saumaði úlpur, buxur, kjóla Ég hef talað um eldavélina í Langagerði.  Rafha sem hún átti alla tíð. Ryksuga kom í braggann. Ísskápinn sem hún keypti 1957 talaði ég líka um. Hann varð 37 ára og var amerískur Kelvinator. Sónvarp kom í Langagerði 1963 og keypti afi það. Það var Normande  en seinna keypti hann rússneskt tæki. Pabbi keyptir líka tæki 1964 og var horft á kanasjónvarpið á Keflavíkurvelli.  Ekki held ég að það hafi eyðilagt okkur neitt.  ´ Ég ekki mjög hrifin af amerísku efni í dag. Sími kom til okkar 1957.  Ekki var sími í Jónshúsi eða á Frammnesveginum. Pabbi keypti svart  útvarp árið 1945 og á ég það ennþá. Það var með skífu þar sem stóð hvaða stöðvar væru hér og þar. T.d var Reykjavík á skífunni og ég man eftir Hilversum.     Við höfðum alltaf gott neysluvatn.   Það var þrifið vikulega og farið yfir gólf og fleira, þurrkað af og þannig.  Fyrir jól var allt tekið fyrir í hólf og gólf, veggir þvegnir og  fl. Mamma sá um þrifin og fyrir jólin hjálpuðumst við öll að. Einnig var alltaf vorhreingerning.   Mér leið alltaf vel á heimili mínu. Við fórum ekki í ferðalög.  Áttum ekki bíl fyrr en ég var tvítug og þá fór ég með foreldrum mínum í ferðalag og heimsóknir þó ég væri orðin þetta gömul. Þó vorum við í sumarbústað við Meðalfellsvatn þegar ég var 5 ára en ég naut þess ekki mikið. Ég fékk mislinga og var mjög veik. Héraðslæknirinn var kallaður til okkar. Við sigldum líka til Norðfjarðar þegar ég var 4 ára en pabbi er ættaður þaðan. Þetta voru einu ferðalögin í æsku með foreldrum mínum.   Foreldrar mínir fóru ekki til útlanda fyrr en efir að pabbi var sextugur og var sendur til London í hjartaþræðingu. Eftir það fóru þau oft í ferðalög til útlanda en ég fór ekki með þeim.   Ég var þá með mitt heimili og hafði farið mikið frá því ég var 15 ára en ekki með þeim.   Ég man ekki efir neinum sérstökum fríum á uppvaxtarárumum.         Þó það væri salerni í íbúðinni uppi hjá afa og ömmu höfðu þau alltaf kopp undir rúminu sem þau notuðu á nóttinni. Amma hellti úr honum á morgnana.       Í svefnherbergi afa og ömmu voru tveir svefnsófar og sófaborð á milli Sófarnir voru undir súð og þegar farið var að sofa ýttu þau sófunum saman. Það var líka orgel undir súð hinum megin við hurðina og amma spilaði og söng oft fyrir okkur. Þarna var líka gömul klukka sem ég á ennþá og bókaskápurinn hans afa. Hann hefur líklega verið heimasmíðaður en hann var með gleri og það hlífði bókunum. Afi var alltaf mikill bókamaður og kenndi mér að meta bækur.   Mamma var heimavinnandi húsmóðir og fór ekki út á vinnumarkaðinn fyrr en fimmtug og vann þá til sjötugs, hlutavinnu.       Dagur í lífi heimilismanns.   Tek hér af handhófi færslu úr dagbók minni.   Skrifað með stórri barnalegri skrift með blekpenna   Miðvikudagur 18/6 1958 Veður ágætt en sólarlaust.  Ég fór í garðanna og hjólaði en þurfi bara að vökva. Ég og mamma fórum til ömmu og síðan Sigríðar en hún er vinkona mömmu. Ég skifaði Oddi bréf en hann á heima í Þýskalandi, í Berlin. Hann er bróðir mömmu og á afmæli í dag. Ég fór á skátaafund um skátamót  í Hveragerði og kostar ekkert nema bílferðin 50 krónur í allt. Guðborg fékk ekki ákveðið svar um hvort hún mætti fara en ég má það. Um kvöldið komu Nilli og Stína með Heiðu, Siggi, Steina og Kidda. Þarna endaði þessi færsla sem ég man ekkert eftir. Garðarnir voru skólagarðarnir og voru þeir á Klambratúni. Stína var systir mömmu og Nilli maður hennar. Börnin voru svo Heiða, Steini, Siggi og Kiddi. Guðborg var vinkona mín og nágranni. Ég hjólaði í skólagarðana og við mamma tókum strætó til ömmu á Grímstaðarholti. Ég talaði um hana sem ömmu og hina sem Sólveigu ömmu. Ég tók þetta úr fyrstu dagbókinni sem ég skrifaði og hafði ég horft á þessa bók í búðarglugga í Bústaðarhverfinu lengi áður en ég eignaðist pening til að kaupa hana. Eftir það komu margar dagbækur.      [Viðbót 3. desember 2013: "Ég var að taka til hjá mér í gær og fann þá teikningarnar af húsinu í Langagerðinu. Ég hélt kannski að þú vildir líta á þetta til að glöggava þig á frasögn minni.  Í kálfinum var lilta herbergið mitt, svefherbergi foreldra minna og  baðherbergið. Uppi var geymsla í viðbyggingunni og salernið uppi var við pallinn þegar gengið var upp. ég vona að teikningarnar skíri herbergjaskipan.  Bestu kveðjur ....  Ps. Það var erfitt að skanna þetta og ég vona að það komi til skila. Skjölin eru stór og upprúlluð svo erfitt var að eiga við þau."]  


Kafli 1 af 3 - Lýsing á uppvaxtarheimili

Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd. Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið. Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að næsta spurningakafla sé svarað.

Kafli 2 af 3 - Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum

Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.
Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?
Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?
Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?
Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?
Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.
Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?
Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?
Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?
Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?
Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?
Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.
Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?
Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?
Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?
Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.
Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?
Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?
Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?
Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.
Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 3 - Dagur í lífi heimilismanns

Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.