LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHeimili, Heimilisbúnaður, Hversdagslíf
Ártal1930-1950
Spurningaskrá117 Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2012-3-61
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent3.3.2014
Stærð2 A4
TækniTölvuskrift
Nr. 2012-3-61 Heimildarmaður: Óþekkt kona. Bernskan. Þegar skilningarvitin vöknuðu var heimsstyrjöld. Skilaboð krakkanna í götunni voru skýr, ekki blikka ljósin, ekki segja Hitler, loftvarnarflaut þýðir: hlauptu í næsta loftvarnarbyrgi. Við hlýddum og lékum okkur eins og enginn væri morgundagurinn. Fjölskyldan bjó í hvítu, þriggja hæða steinhúsi með háalofti, í Reykjavík 101, 62 m² hver hæð. Á fyrstu hæð var smíðaverkstæði, þvottahús, kolageymsla og salerni fyrir fyrstu og aðra hæð. Úr verkstæðinu var gengið út í lítinn garð í suðurátt. Á annarri hæð var forstofa, þrjú herbergi og eldhús. Á þriðju hæð var forstofa, fjögur herbergi, lítið herbergi á stigapalli og eldhús. Rafmagnseldavél, enginn kæliskápur. Stífbónaðir línóleumgólfdúkar, mynstruð teppi á miðjum stofugólfum, póleraðar mublur, blúndugardínur og þung gluggatjöld, helst með kögri. Á háaloftinu var salerni fyrir þriðju hæð, geymslur og þvottasnúrur fyrir allt húsið. Þegar hitaveitan kom var kolageymslunni breytt í timburgeymslu fyrir verkstæðið. Einnig var sturtu komið fyrir í þvottahúsinu. Þar voru stórir tréstampar fyrir þvottinn og börnin voru böðuð í tréstömpunum áður en hitaveitan kom. Tæknivæðingin kom í formi þvottavélar með vindu, mikið gersemi. Við vorum fimm í fjölskyldunni, pabbi, mamma, bróðir og tvær systur. Pabbi og félagi hans keyptu húsið í sameiningu. Þeir voru húsgagnasmíðameistarar og settu upp verkstæðið á fyrstu hæð, fjölskyldurnar bjuggu á efri hæðunum. Við bjuggum á þriðju hæð. Í fyrstu var eitt herbergið leigt út, þannig að við höfðum þrjú herbergi til ráðstöfunar, svefnherbergi, borðstofu og betri stofu. Upphaflega svaf öll fjölskyldan í svefnherberginu, eldri börnin í koju, það yngsta naut nærveru foreldranna í hjónarúminu. Eftir nokkur ár smíðaði pabbi haganlega gerðan svefnsófa fyrir okkur systur og varð borðstofan þá okkar svefnstaður. Um tíma dvaldi móðursystir hjá okkur, hún svaf á „dívan“ gegnt svefnsófanum. Bróðir svaf enn um sinn í svefnherberginu. Þriðja herbergið var betri stofan. Í litla herberginu bjó amma. Við fráfall hennar var herberginu breytt í salerni og geymslu. Nokkru seinna tóku foreldrar okkar fjórða herbergið til eigin nota. Þannig mynduðust tvær samliggjandi stofur. Fyrrverandi betri stofan varð að borðstofu en sófasett og píanó prýddi hina. Í framhaldinu fórum við systkinin í píanótíma. Í nýju borðstofunni fékk bróðir okkar sinn svefnbekk með mörgum hirslum. Þar var áður „ottóman“. Pabbi smíðaði öll þau húsgögn sem við þurftum og voru þau sannkölluð listasmíð. Gamla borðstofuborðið, sem hægt var að stækka, breyttist í vinnuborð. Þetta borð er enn notað við hátíðleg tækifæri í fjölskyldunni, þótt það sé orðið ansi slitið. Við unnum að skólaverkefnum við borðið og mamma, sem var saumakona meðfram heimilisstörfum, notaði það við saumaskapinn. Okkur þykir mjög vænt um þetta borð með sínum fallegu minningum. Fyrir ofan svefnsófa okkar systra hékk virðuleg gömul veggklukka. Hún gengur enn og prýðir heimili mitt í dag. Einnig á ég skrifborð, teiknað og smíðað af pabba fyrir systur hans, sannkallað dömuskrifborð og mikill dýrgripur. Í betri stofunni var forláta skápur, meistarastykki pabba, og er hann stofustáss systur okkar í dag. Lífið í húsinu gekk sinn vanagang, lýsi og hafragrautur á morgnana, soðning, súrt slátur, skyr eða hræringur í hádeginu. Tvíréttað á kvöldin, alltaf hvítur dúkur á borðum og hvítar servíettur, allir áttu sinn sérmerkta servíettuhring. Við sváfum í náttfötum, rúmfötin voru drifhvít. Mamma hafði verið í kvennaskóla og var mjög fær húsmóðir, hún sultaði, saftaði og tók slátur. Þar að auki hafði hún lært saumaskap í Kaupmannahöfn. Þetta var fyrir tíma hönnuða þannig að pabbi teiknaði öll húsgögn og innréttingar fyrir viðskiptavinina. Ég man enn hversu gaman mér þótti að sjá teikningarnar hans á teiknibrettinu verða að veruleika á verkstæðinu. Hann var mjög vandvirkur og bjó til fallega og vandaða hluti. Ilmurinn á verkstæðinu var ómótstæðilegur. Viðurinn og lakkið. Við systkinin lékum okkur áhyggjulaus í kringum húsið, pabbi á fyrstu hæð og mamma á þeirri þriðju. Skólagangan var hefðbundin, okkur fannst gaman í skólanum enda kennararnir góðir. Eftir skóla fórum við út að leika við hina krakkana í götunni. Leikirnir voru til dæmis Kallaparís, Fallin spýta, Hlaupa í skarðið, Brennó og fleiri boltaleikir. Við sippuðum eða fórum á næsta róló. Samgangur var töluverður í húsinu og höfðu húsmæður til siðs að hittast yfir molasopa að loknum morgunverkum. Litlar búðir voru á hverju götuhorni, matvörubúðir, smávörubúðir, vefnaðarvörubúðir og kjötbúð. Við fórum með brúsa til mjólkurkaupa á næsta horni. Þar var einnig fisksalinn með hjólbörurnar sínar sem innihéldu fiskinn. Þar var fiskurinn valinn, vír stungið í gegnum augun og svo drógum við hann heim á vírnum. Foreldrar okkar keyptu sumarbústað í nágrenni Reykjavíkur þegar við vorum mjög ung. Þangað var flutt strax í maí og í bæinn um haustið. Bæði var bústaðurinn og umhverfið fallegt, lítill lækur liðaðist um landareignina. Þar þvoði mamma þvottinn og við systkinin veiddum litla silunga. Pabbi gróf fyrir lind, ekki langt frá bústaðnum, og þar fengum við tært drykkjarvatn. Stærð bústaðarins var eldhús, tvö svefnherbergi og stofa með verönd. Undir bárujárnsklæddum bústaðnum var steyptur kjallari og við húsið var útikamar. Hvorki var rafmagn né vatn. Kolaeldavél hitaði upp húsið, við systkinin vorum böðuð upp úr stórum bala í eldhúsinu Pabbi hjólaði í vinnuna en fljótlega þróuðust samgöngur. Strætisvagnar mjökuðust út fyrir bæjarmörkin og pabbi nýtti sér framfarirnar. Seinna keypti hann sér lítinn bíl. Þarna fékk pabbi útrás fyrir skógræktaráhuga sinn. Einnig voru ræktaðar kartöflur. Við sóttum mjólk í brúsum á næsta bæ og fiskbíllinn kom þrisvar í viku. Lítill aldursmunur er á okkur systkinum og lékum við okkur mikið saman. Í kjallaranum leyndist fjársjóður. Tveir þykkir innbundnir doðrantar með teiknimyndasögum af „Knold og Tot“. Við minnumst endalausra gleðistunda með þeim vinum á rigningardögum. Á stríðsárunum var herstöð „camp“ staðsett í hæfilegri fjarlægð frá bústaðnum, úr augsýn. Sælustundirnar voru þegar hermennirnir hentu til okkar sælgæti og ávöxtum á leið sinni í herstöðina. Seinna fluttum við í stærra húsnæði í Reykjavík, ennþá 101, og var bústaðurinn þá seldur. Fjölskyldan gat ekki notað hann sem skyldi, við systkinin vorum farin að vinna á sumrin. Ég held við höfum öll grátið. Húsið sem við fluttum í var stórt og þar voru íðbúir á fjórum hæðum. Stór garður fylgdi, til mikillar ánægju fyrir pabba og skógræktaráhugann. Allir þekktust í húsinu og fjölbreytileiki mannlífsins endurspeglaðist í þessu litla sjálfstæða samfélagi í miðri Reykjavík en það er önnur saga.

Kafli 1 af 3 - Lýsing á uppvaxtarheimili

Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd. Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið. Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að næsta spurningakafla sé svarað.

Kafli 2 af 3 - Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum

Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.
Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?
Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?
Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?
Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?
Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.
Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?
Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?
Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?
Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?
Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?
Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.
Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?
Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?
Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?
Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.
Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?
Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?
Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?
Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.
Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 3 - Dagur í lífi heimilismanns

Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.