LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDaglegt líf, Híbýli, Húsbúnaður, Húsnæði
Ártal1960-1975
Spurningaskrá117 Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf

StaðurHrafnagilsstræti 31
ByggðaheitiBrekkan
Sveitarfélag 1950Akureyri
Núv. sveitarfélagAkureyrarkaupstaður
SýslaEyjafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1956

Nánari upplýsingar

Númer2012-3-110
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið2013

Viðtal við [1] 16. september 2013

Efnisyfirlit 00:20 – 03:03            

Lýsing á æskuheimilinu, svefnaðstaða 03:04 – 05:33            

Umhverfis húsið, garðurinn 05:34 – 11:02            

Týpískur dagur í lífi fjölskyldunnar, sjónvarp, kynding 11:03 – 14:30            

Herbergjaskipan og lýsing á herbergjum. 14:31 – 15:46             Eldhúsið 15:47 – 18:25             Stofan 18:35 – 24:29             Svefnherbergin 24:30 – 27:06            

Tilfinningar viðmælanda til heimilisins, viðhald á húsinu 27:17 – 30:40            

Nýting á rými 30:54 – 35: 29            

Eldamennska, matarvenjur, matvinnsla, laufabrauð, eldhúsáhöld 35:32 – 36:51             

Lýsing á heimilinu 36:52 – 39:32             

Heimilisþrif 39:33 – 43:02             

Einkabíll, útilegur, skíði 43:03 – 45:47             

Skrautmunir   Uppskrift S: þá byrjum við semsagt bara á uppvaxtarheimili þínu, getur þý lýst ytra útliti hússins og nánasta umhverfi þess...? V: já S: ...og náttúrulega staðsetningunni og svoleiðis. V: jájá, við fluttum þangað þegar ég var sirka fjögurra, fjögurra ára, já eitthvað svoleiðis. Þetta var á brekkunni, í Hrafnagilsstræti 31, og pabbi minn byggði þetta hús sjálfur. Og við vorum á neðri hæðinni og annað fólk á efri hæðinni sem að við vorum samtíða, í fjöldamörg ár. Þannig að það var mikill samgangur á milli hæða. Og neðri íbúðin var þriggja- það voru tvö svefnherbergi og stofa og eldhús og vaskahús. Og húsið stendur enn þann dag í dag og er mjög flott viðhaldið og alltaf gaman að horfa þar heim. Við vorum fjórir krakkar þannig að það var þröngt í búi. S: Já. Tvö svefnherbergi? V: Tvö svefnherbergi og fyrstu árin þá var forstofuherbergið leigt. Það var forstofuherbergi, og það var menntaskóladrengur frá Austfjörðum. Og hérna, og hann var þar þangað til að ég var, ég man nú ekki sirka hvað sko, níu ára eða eitthvað. Og þá hrúgaðist fjölskyldan í eitt herbergi og einn svaf alltaf í stofunni. Nei það voru bara þrír krakkar, svo kom seinasta. Og þá hefur líklega stúdentinn verið farinn. S: mm og þú fengið að fara...? V: og þá fluttum við tvö eldri systkinin í hitt herbergið, og þangað til að ég var svona unglingur og þá vildi ég ekkert hafa hann lengur og hann var bara settur í stofuna og hann svaf þar þangað til ég fór að heiman. Og tveir í herberginu hjá mömmu og pabba, og ég man eftir mér þar, þar vorum við eldri systkinin tvö í koju í svefnherberginu hjá þeim. En þetta var eitthvað sem að maður fann bara ekkert fyrir, þetta var bara svona. Og svo fór maður í Barnaskólann og þetta gekk svona sinn gang. S: en hvernig var umhverfis húsið? V: já umhverfis húsið S: [...] garðurinn og... V: já þegar við flytjum þarna fyrst þá er bóndabær í næsta húsi og bara, það var bara fjárhús með skepnum og hlöðu og hænur og allt hvað eina. Þannig að það var náttúrulega skemmtilegur leikvangur þar. En svo flutti það náttúrulega í burtu og var bara byggt þarna í staðinn. Og garðurinn var bara, bara góður garður sko. S: mhm. Var gróðursett eitthvað? V: það var gróðursett, jájá, það voru gróðursett tré og svo voru alltaf sumarblóm. Og svo hlupu krakkarnir á milli eins og gengur og gerist, það voru alltaf miklir útileikir. Og lóðin er bara eins enn þann dag í dag nánast. Henni hefur lítið verið breytt. Þannig að já. Þetta var bara mjög skemmtilegt. Og þegar við fluttum þá var hérna náttúrulega ekki malbikað, þetta var malargata, og svo kom pissubíllinn og þá fóru allir krakkar að elta pissubílinn sem vökvaði götuna. Og svo var malbikað og maður man alltaf eftir því þegar var malbikað. S: mm. Þannig að þú upplifðir miklar breytingar þarna í þessu húsi, á umhverfinu? V: jájá, jájá. Það var það. Mjög mikið og þá var þetta efsta byggðin og þá var stutt að fara upp í einhverja skurði þarna fyrir ofan. Þar voru veidd hornsíli og farnar nestisferðir, þangað sem að þau fluttu seinna, foreldrarnir. Þannig að þetta var mikið ævintýraumhverfi þarna. Margt að gera og farið að skíði þar sem að gamli golfskálinn var, sunnan við elliheimilið, eða já. Þar var farið á skíði í gamla daga. Gömul, eða svona tréskíði, sem ég man nú ekkert hvort voru heimasmíðuð eða hvað, nei sennilega ekki heimasmíðuð. Og þau voru úr tré með gormabindingum. Og svo var fari á skauta og, þannig að það var oft eitthvað í gangi. S: en hvernig var svona týpískur dagur í lífi ykkar, fjölskyldunnar? V: ja það var hafragrautur á morgnana. Sem að ég man að ég gat ekki borðað nema hræra vel saman við mjólk, en það var alltaf borðaður hafragrautur á morgnana. Og svo var hádegismatur. Pabbi kom heim í hádeginu, og þá var hádegismatur og svo lagði hann sig í 20 mínútur og fór aftur í vinnuna. Lagð sig alltaf á sófanum í stofunni, sem var blár á litinn. S: og hvað gerðuð þið á milli? V: ja svo náttúrulega var skóli þegar við fórum í skólann, þá var skóli fyrir hádegi og já ég man reyndar að ég fór í smábarnaskóla. Sem var við hliðina á Sjallanum[?]. Gamli Hreiðarskóli. Þar fór ég í skóla og var látin labba á milli, þá var ekkert keyrt. Og þá stoppaði ég á mili þar sem amma og afi áttu heima í Munkaþverárstræti 1, þar sem ég fæddist, og var gott að stoppa á milli annars var bara labbað niður á eyri og heim aftur. Og hérna, jájá svo fór maður bara í Barnaskólann sem var náttúrulega mun þægilegri leið og allir krakkarnir í götunni fóru þangað. Já. S: var ekki mamma þín að vinna þá líka? V: jú mamma fór að vinna, ég man nú ekki alveg hvað ég var gömul þá. Svona kannski, ég veit það ekki, tíu ellefu, ég man þetta ekki alveg. Og þá var svona meira stress í gangi, meiri hamagangur í hádeginu. Og það var ekki skemmtilegt. Það var svona- þetta var svo langur vinnudagur hjá henni. Það að maður- við vorum mikið ein, krakkarnir. Ég man reyndar ekki með yngri krakkana, hvert þau fóru. S: Varst þú ekkert látin passa mikið? V: nei, ekki man ég nú eftir því að ég hafi verið neitt að passa sérstaklega, ég man það nú ekki. Og svo á sumrin þá voru alltaf- þá voru bara útileikirnir. Því að þá var náttúrulega ekkert sjónvarp og engar tölvur og. Þannig að krakkarnir léku sér við hvort annað.             Svo náttúrulega man ég alltaf þegar fyrsta sjónvarpið kom. Það kom frá, það kom í gegnum einhverjar dularfullar leiðir, gegnum vini eða kunningja þeirra. Þetta var mubla í rosalega flottum skáp, sem var hægt að loka. Svona póleruð mubla, glansaði öll- voða flott. Og náttúrulega svart-hvítt, og þetta var rosalega mikil breyting, þegar það kom. Og það entist í- ja það entist nú ekki lengi, svo bilaði það. Og þá kom bara annað sjónvarp. Og svo man ég eftir því að það var olíukynding í þessu húsi eins og alls staðar, og það var alltaf slökkt á nóttunni, og helst á sumrin líka, þegar var gott veður. Það var reynt að spara það sem hægt var að spara á þessum tíma, það voru blankheit. S: mm V: og alltaf slökkt á nóttunni og alltaf vaknaði maður í sama skítakuldanum á morgnana þegar maður þurfti að fara í skólann. Það er minnisstætt. S: mhm, en þegar, semsagt svo við höldum áfram með daginn, þið fóruð út að leika ykkur bara eftir skóla... V: já. Jájá. S: ...á meðan þau, foreldrarnir voru í vinnunni...? V: já. Ég reyndar var svo mikill lestrarhestur, ég las rosalega mikið, þótti voða gott bara að vera inni og lesa. Og hérna, las Þjóðsögur Jóns Árnasonar og bara allt sem ég komst yfir. S: og svo söfnuðust allir saman í kvöldmat? V: já, svo söfnðuðust allir saman í kvöldmat og, ef það var gott veður á sumrin þá var farið út að leika. S: eftir kvöldmat? V: jájá. S: voruði einhvern tímann að gera eitthvað saman fjölskyldan á kvöldin? V: nei, ekki man ég það nú sérstaklega, nema kannski fyrir jólin, þegar var verið að undirbúa jólin eitthvað, baka og svona. S: okei. En innanhúss. Getur þú lýst staðsetningu herbergjanna, og semsagt afstöðu þeirra til hvors annars? Og hvernig íbúðin leit út. V: já það voru, við inngangur þá voru þrjár tröppur niður, úti sko, það var svona... S: já. V: og það var komið inn á gang sem var dáltið langur í minningunni og mjór. Og þar voru fatahengin og forstofuherbergið var þar. Og þá var hurð við endann á þessum gangi, og þar var komið inn í hol. Og og hérna, á hægri hönd var gengið inn á baðið, sem var nú frekar lítið. Það var með litlum mósaík flísum. Og skápur yfir klósettinu, og baðkar og lítill vaskur. Og svo var þarna fatahengi í litlum skáp. S: á baðherberginu? V: nei frammi á holinu, það var lítill- lítill, til að geyma útifötin, það var svona skápur, eða þetta var lítið herbergi. Ekki rétt að kalla það skáp því það var. Já. Ein ljósapera þar inni og, og svo kom þvottahúsið og í minningunni var það alltaf stórt. Og það var, olíukyndingin þar inni, stór og mikill olíu, svona það sem að, þar sem að kyndingin logaði inni í eða eldurinn, og maður gat kíkt- opnað lok og kíkt á eldinn. Þetta var mikill járnhlunkur og rör upp úr honum og lá eitthvað svona upp i loftið. Og þar var sett upp sturta seinna meir. Og þar var pabbi með aðstöðu, og bekki og hillur, alls konar verkfæri og dót. Og það var náttúrulega líka geymsla. S: já en, var þá baðkarið inni á baðherberginu? V: það var baðkar á baðherberginu já, lítið baðkar. Og það þótti voða gott að fá sturtuna í þvottahúsið. S: já. V: Og af því að pabbi var nú oft að brasa þarna eitthvað með skrúfjárn og eitthvað svoleiðis, þá man ég eftir jarðskálfanum sem kom 1963, og þá vorum við semsagt ein heima með pabba af því að mamma var á fæðingardeildinni með yngsta. Og hérna, man alltaf eftir jarðskjálftanum, þá titraði allt og skalf. Og þá fannst mér, krakkanum að þetta væri- að pabbi væri eitthvað að gera í þvottahúsinu vegna þess að þegar hann herti á þá titraði alltaf róin... S: titraði alltaf? V: þá titraði hendin sko þegar hann var að herða eða gera eitthvað sko, og það var fyrsta hugsunin að nú væri pabbi að gera eitthvað því það hristist allt og skalf húsið. Þannig að maður vissi ekkert fyrr en seinna að þetta var jarðskjálfti. Og hérna, já, við hliðina á þvottahúsinu kom svo eldhúsið og það var bara í þeirra stíl. Það voru hallandi eldhússkápar með svona rennihurðum, allt úr svona þykkum spónaplötum. S: hvað meinarðu með hallandi? V: ja, það var bara þannig að eldhússkáparnir hölluðu fram. Það var bara byggt svoleiðis á þessum tíma. Það var semsagt, já, það var bara halli á þeim. Þetta þótti flott. Semsagt efri eldhússkáparnir. Svo var rafa eldavél, á endanum á bekknum og svo kom eldhúsvaskurinn. Og svo kom borðplatan sem var undir þessum hallandi skáp. Og þar við endann kom svona- eldhúsið var í svona ferhyrning, eldhúsinnréttingin. Og þetta var bara mjög fínt eldhús á þessum tíma. Og þá kom semsagt borðkrókur þar sem var eldhúsborðið og það voru tveir gluggar við eldhúsborðið. Og gengið úr eldhúsinu svo aftur inn í stofuna. Og þar var svona hansa rennihurð, sem þótti mjög fínt. S: þar á milli eða? V: já þar á milil eldhúss og stofu, þar var svona rennihurð, með svona bylgjum... S: já svona sem leggst saman. V: já. Og inni í borðst- inni í stofunni var borðstofuborð. Og hansahillur. Og sófasett, úr tekki og með aklæði, og tekk hérna, sófaborð, hringlaga. Og- og hérna , milli stofu og holsins, þar voru vængjahurðir, með sandblástursfilmumunstri svona. Hvítar með stórum gluggum og í því var svona sandblástursmynstur. Þetta var rosalega flot-t í minningunni sko. Og svo náttúrulega af því að það var hægt að opna allar þessar hurðir þá var hægt að hlaupa hringinn og það var óspart gert. S: hvernig eru þessar hansa hillur? SV: hansahillurnar eru úr tekki, og þá voru semsagt stoðir, og held það hafi verið þrjár stoðir, og það voru semsagt tvær hillu- tvær hillueiningar so. Og þetta var það sem allir höfðu í þá daga- hansahillur, og einhverjar bækur og svona fínir gripir í þessum hansahillum. Og hérna svo man ég alltaf eftir stofugardínunum hennar mömmu. Það var skipt um gardínum um jólin- nei, ja eða semsagt þegar veturinn kom og svo voru settar sumargardínur. Og vetrargardínurnar voru svona dökk- eða þær voru svona dökklillabláar með gylltu mynstri, okkur fannst þær svo rosalega flottar alltaf, þegar var dregið fyrir á kvöldin? S: voru engar jólagardínur? V: jú það voru örugglega jólagardínur í eldhúsinu. Jájá. Og svo man maður eftir jólatrénu alltaf, það var alltaf sama jólatréð. S: já, svo labbaði maður úr stofunni og þá næst svefnherbergi? V: já, og þá kom svefnherbergið sem var hjónaherbergið og þar sem að allir krakkarnir voru í, meira og minna. Og þar var náttúrulega einn fataskápur. Já það líklega var bara sá fataskápur, það var enginn annar fataskápur heldur en sá. Það var enginn fataskápur í litla herberginu sem var kallað, að mig minnir. Og svo var þarna- það voru tveir gluggar á því svefnherbergi. Það voru dúkar á gólfinu, eða já teppi í stofunni. Og í holinu var síminn, þar var síminn staðsettur og þar var útarpið staðsett, á litlu tekk-borði, þar var útvarpið, stórt og mikið útvarp, sem að allir hlustuðu á. Og ég man alltaf eftir Lögum unga fólksins, það var það eina sem var í boði fyrir ungt fólk, Lög unga fólksins. Og ég man þegar Bítlarnir byrjuðu, þá hækkaði maður í útvarpinu og lagði eyrað fast upp að. S: en hvernig var til dæmis svefnherbergið innréttað? V: ja það var hjónarúm úr tekki sem að er til ennþá. Þannig að það var reynt að kaupa vandað. Og svo voru þesasr tvær kojur, ég og bróðir minn voru þar. Ég var uppi og hann niðri. Og fataskápurinn var byggður úr svona spónaplötum eins og þá var gert. S: voru engin náttborð? V: það voru náttborð við hjónarúmið, jújú. Og það er notað enn þann dag í dag, enda tekkið í tísku í dag. Og svo er litla herbergið- það var keypt skrifborð úr tekki. Og þar var- fékk ég minnir mig eina hansahillu. Og kojunum var ksipt semsagt, við vorum látin semsagt sofa áfram bara í þessum kojum. Og já. Manni fannst þetta nú ekkert þröngt en það hefur nú eflaust verið það. S: mhm. Hvar gátuði geymt leikföng? Það var kannski ekkert svo mikið af leikföngum? V: nei, það var nú ekkert, það var allavega ekkert mikið af drasli sko. Ég man að ég átti stóra dúkku, mjög stóra sem kom frá útlöndum. Mágur pabba var sjómaður á gamla Harðbaki og þeir sigldu til Englands og komu stundum með eitthvað svona. Ég fékk rosa stóra dúkku sem var í rosalega fallegum kjól, með uppsett hár, svakalega flott. Og hún fékk sinn stað uppi á gömlum bókaskáp. S: hvar var þessi bókaskápur? V: bókaskápurinn var í einu horninu á milli glugganna. S: í svefnherberginu? V: já í litla herberginu semsagt. S: mm já. V: þar sem við krakkarnir voru. Og ég man að systir mín fékk dúkkuvagn frá þesssum sjómanni, sem hann kom með. Og hann kom með mackintosh konfekt fyrir jólin, og það var nú þekkt, það voru ekki allir sem áttu mackintosh konfekt á jólunum í þá daga. Og svo- ég man nú svosem ekki hvar var geymt sérstaklega dót. Ég man bara eftir bókum- bókum í bókahillu og svo átti ég- fékk ég- þegar ég var krakki fékk ég styttur í jólagjöf. Eina- þær voru bláar og hvítar, svona postulíns, voða fint. Ein var fugl, svona þröstur, og hinar eru af litlum krökkum sem sitja. Og þetta hefur fylgt mér alveg hreint í gegnum tíðina og ég passa alveg rosalega þetta enn þann dag í dag. Og þær eru í mínu svefnherbergi í dag þessar styttur. Þær hafa fylgt mér. En þessi stóra dúkka fylgdi mér nú lengi vel. Og ég lét hana sitja á hjónarúminu seinna meir. En svo í einhverjum flutningum fór hún eitthvert, ég veit ekki hvað varð af henni. S: Það var leiðinlegt. V: já, það var frekar leiðinlegt. Hún var sennilega orðin eitthvað tuskuleg, kjóllinn var farinn að láta á sjá. Þannig að ég veit ekki hvað varð af henni, ég man það ekki. S: já. Skipti þig það máli að foreldrar þínir áttu húsið? Eða íbúðina það er að segja. V:  jaá, það var mikið lagt á sig til að eignast eigið. Það var mikil vinna lögð í það. Hann handgróf grunninn sjálfur. Og sem betur fer var nú ekki langt ofan á fast þarna. En þá var mikið á sig lagt til að eignast eigið húsnææði jájá. S: varstu stolt af híbýlum þínum? Eða hvað fannst þér um þau svona? V: já já maður fann nú ekkert fyrir neitt öðru annað en þetta væri bara fínt. S: já, svona í samanburði við aðrar íbúðir sem þú komst í? V: já, ja reyndar var sko fólkið uppi, það var efnafólk, fólk sem hafði það miklu betra en við. Maður fann dáltið fyrir því reyndar. Það var svona, já þar var eiginlega miklu fínna að manni fannst, það var meira dót, og íbúðin stærri og. Og það var svona já, það voru meiri peningar á því heimili, maður fann það svosem. Annars var þetta voða svipað bara, hjá nágrönnunum, að manni fannst. S: mm. Og sá pabbi þinn um viðhaldið á húsinu? V: jájá hann gerði það og þeir, og þeir semsagt þessar fjölskyldur. S: já, saman? V: jájá. Og hann byggði þetta hús semsagt og, og ég hef þá trú að hann hafi ætlað sjálfum sér og okkur efri hæðina en þar sem það var mjög þröngt í búi þá fluttum við niður og þetta fólk fékk efri hæðina og ég held það hafi verið þannig. Þannig að það- ég man það náttúrulega að það var oft þröngt í búi. S: mm. En í hvaða var stofan nýtt? Eða hvernig nýttuð þið herbergin? V: já, stofan var náttúrulega- það var þessar fínu vængjahurðir fyrir stofunni og manni fannst þetta bara mjög fín stofa. S: en voruði ekkert að leika ykkur þar mikið? V: jú það held ég, jújú. S: fenguð það alveg? V: jájá við fengum það jájá. Mamma saumaði þar inni, hún saumaði föt á okkur öll, langt fram eftir. Ég man eftir rosalega fínum kápum og jökkum sem hún saumaði á mig. Og hún jájá, það var- við vorum þar alveg hreint. Svo man ég eftir að þar voru saumaklúbbar. Maður man alltaf eftir saumaklúbbunum þegar kellingarnar komu voða kátar. Og sátu þar í sófasettinu og í kringum þetta kringlótta stofuborð. Og svo man ég eftir að það var skírt þar. Allavega yngsta barnið var skírt í stofunni, þá kom séra Birgir heim og stóð í horninu þar sem hansahillurnar voru og þar var líka fínn standlampi sem ég man eftir, í því horni. Það var voða virðulegt. S: Já. Var herbergið- var stofan kölluð eitthvað annað en bara stofan? V: Nei það held ég ekki, nema bara forstofuherbergið var alltaf kallað litla herbergið, og sennilega hefur það þá verið lítið sko. Það gekk undir því nafni, litla herbergið. S: já. En þegar þið sváfuð öll þarna inni í sama herberginu... V: já? S: voru þá, þið tvö- þið elsu sváfuð í sömu kojunni? V: við vorum í kojunni jájá. S: en hin tvö? Voruði kannski aldrei öll í sama herbergi? V: nei þá- við höfum sennilega flutt þegar þriðja barnið sko. S: já þá fluttuð þið í litla. V: já, þá hefur stúdentinn verið farinn og við fluttum þar inn. S: þegar þriðja barnið kom? V: já S: já. Og já, fór þau þá í kojur líka. V: já, hún er semsagt, og hún er fimm árum yngri en ég... S: þriðja barnið? V: þriðja barnið, og þá fjórum árum yngri en bróðir minn. Og ég man alveg eftir okkur þarna í þessari koju, inni í hjónaherberginu. S: já. Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? V: já, mamma náttúrulega eldaði í hádeginu. Hún eldaði alltaf á þessum tíma sko, hún var dugleg að baka og pabbi náttúrulega vann mikið, þannig að hún sá um eldamennsku. S: voruð þið börnið aldrei látin hjálpa til með matinn? V: nei ekki- nei það held ég ekki. Nei. Ekki nema þá kannski við bakstur að maður fékk að vera með í því eitthvað. En ekki við eldamennsku held ég, nei. S: og var þá matur unninn á heimilinu eins og slátur og sulta og... V: ég er nú hrædd um það, jájájájá. Og manni þótti þetta allt rosalega gott. Jájájájá. Það var það. Og laufabrauðið, var reyndar varið niður í Munka og allir komið saman að gera laufabrauð. Og þá var það gert þannig að náttúrulega deigið var búið til, svo voru kökurnar flattar út og það var farið með þær inn í svefnherbergi, og þar voru þær settar undir lak, og þar voru þær látnar bíða þangað til var farið að steikja. Við krakkarnir hlupum á milli með laufabrauðskökurnar og settu þær í rúmið til afa og ömmu. Og fleiri hafa talað um þessa aðferð, á þessum tíma. S: já. V: og þetta- já það var gert þannig. S: en eldhúsáhöld, hvernig var það til dæmis miðað við nú til dags þegar allir eiga fullar skúffur og skápa af öllu svona? V: já það var náttúrulega þessi fína rafa eldavél og kenwood hrærivélin. Etta var bara aðaláhöldin og brauðristin svo var hellt upp á kaffi bara á gamla mátann. Og það var, þau áttu rosalega fínt matarstell, og kaffibollastell, sem er til ennþá, og þau áttu mjög fín sparihnífapör. Og pabbi átti alltaf sérhnífaprö, hann átti sér hnífapör. Þau voru svona skrautleg, og veruleg, þau voru voða flott. Afi átti líka svoleiðis og hérna- þannig að já, þetta þótti eitthvað mjög fínt. Og svo var náttúrulega til held ég allt til alls sko. Hún bakaði mikið þannig að það voru til fín tertuföt og formar og. Jájá. Þannig að það var bara- jájá. S: en fóruð þið einhvern tímann út að borða? V: nei, það var ekki gert. Það var ekki gert, aldrei nokkurn tímann. S: en fenguði gesti stundum í mat? V: jájá það komu gestir í mat. S: var þá borðað á borðstofuborðinu? V: já, þá var borðað á borðstofuborðinu. S: og annars borðað inni í eldhúsi? V: jájá, jájá. En svo var alltaf á jólunum, var farið til ömmu og afa, fyrstu árin. S: Fyrstu árin? V: fyrstu árin eftir að- ja eftir að ég man eftir mér, eftir að við fluttum þangað upp eftir. Ég man alltaf eftir því. Og svo var það bara hætt þegar krökkunum fór að fjölga, þá voru bara allir heima hjá sér. S: umm fyrirgefðu, hvað ertu að tala um? V: á jólunum. S: já. Á aðfangadagskvöld? V: á aðfangadagskvöld, jájá. S: já. Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum? V: jájá það var ein ljósakróna í öllum herbergjum. S: já V: það tíðkaðist ekki annað. Jú það var náttúrulega lampar fyrir ofan rúmin, bæði hjá okkur í litla herberginu og þau höfðu líka fína náttborðslampa. Og eitt ljós í stofunni og eitt í eldhúsinu. S: já V: nei það var náttúrulega kúpull fyrir ofan eldavélina og vaskinn. Og ljósapera- já ein í öllum herbergjum, það var þannig bara. S: já svona loftljós? V: loftljós sko. Og útiljós náttúrulega. S: var eitthvað reynt að spara lýsinguna? V: ekki minnist ég þess nú, að það hafi verið. Það var olíukyndingin sem var spöruð. S: já. V: já S: en já. Hvernig var þrifmálum háttað? Hversu oft var þrifið og hvaða háttur var á þessu? V: já, það var þrifið minnir mig held ég á laugardögum oftast sko. S; já. Ætli það hafi verið algengt, lengi vel? V: já ég hugsa það. Ég held að það hafi verið bara svoleiðis. Já. Og þá voru- á veturna semsagt var skóli fram á hádegi á laugardögum. S: já. V: já þegar ég var krakki þá var það svoleiðis. Og ég man eftir að mamma bónaði gólfdúkinn. Það var náttúrulega ekki í hverri viku, ég man nú ekki hvort það var einu sinni í mánuði eða eða eitthvað þannig sko. Þá bónaði hún gólfdúkinn og var alltaf með einhverja leppa undidr fótunum og, og svo bara bónaði hún gólfið með því að labba á gólfinu með þessa leppa. Og þá var gólfið voðalega fínt og glansandi, maður man eftir því, það var voðalega fínt á eftir þegar búið var að bóna. S: og það var hún sem að sá um svona aðal...? V: já það var hún, það var þannig. Húsmóðirin var heima og- jájá það hlýtur að hafa verið mikið að gera því hún saumaði svo mikið og svo fór hún að vinna úti, og hún eldaði og bakaði. S: en varstu- eða voruð þið fengið að hjálpa við að þrífa? V: já maður svosem átti að reyna að halda sínu herbergi hreinu. S: já V: vera ekki að henda fötunum á gólfið og átti að halda snyrtilegu og ég held maður hafi gert það. Jájá. S: en hvaða þrifáhöld voru notuð? V: ja það var náttúrulega bara- það var ryksugan, ég man eftir ryksugunni. Og svo var bara skúringafatan. S: já V: og fyrir jólin var svona stórhreingerning alltaf. Og maður var náttúrulega með í því eitthvað, gera hreint fyrir jólin. Og já, það var svona þessi helstu- ryksugan og skúringafatan. Þannig að- já. S: já. Átti fjölskyldan einkabíl? V: hún átti einkabíl jájá. Fyrst áttum við lítinn volkswagen, það var svona bjalla, og við fórum oft á sunnudagsrúntinn og oft var farið í útilegur, við vorum mikið á ferðinni. Og þá var semsagt foreldrarnir fram í og þrír krakkar aftur í og einn í skottinu. Og þá náttúrulega þekktust engin belti og þannig að... S: en hvernig- var eitthvað hægt að sitja í skottinu á einhverju eða sat maður bara flötum beinum? V: það var- volkswageninn var þannig að vélin var frammi í- minnir mig- nei hún var aftur. Nei ég man það ekki, allavega var þetta rými þarna fyrir aftan aftur sætin- þetta var svona eiginlega hólf, undir afturglugganum og þar var gott pláss fyrir einn lítinn til að vera. Og þannig ferðaðist fjölskyldan og svo var toppgrind á volkswagninum, svo þegar var farið í útilegu þá var bara staflað í toppinn- og svefnpokar og tjald og þessu var bara staflað ofan á toppinn og þetta var alveg heilmikið farangur á toppgrindinni. S: en var þetta hólf aðallega ætlað til þess að einhver sæti í því eða...? V: neinei þetta var bara... S: þetta var bara svona redding? V: þetta var bara hólf sem var ætlað undir farangur og undir bara ýmislegt bara fyrir fólk. S: já, einmitt. En var þá sett eitthvað svona til að stija á þarna aftur í? V: neinei yngsti sat bara í þessu skotti. S: já. Bara sat beint á rassinum? V: jájájájá, þetta var fóðrað að innan með teppi og þar sat yngsti, og þótti ekki verra að sitja þar. S: mhm. Já, og þið fóruð oft í útilegur segirðu? V: jájá við fórum í útilegur, oft var farið í Mývatnssveit, og þá mátti tjalda hvar sem manni lysti að tjalda. Og þá var farið í Ásbyrgi og það var farið í Hljóðakletta og. Og jájá, oft í sunnudagsbíltúra. Einu sinni var nú farið á Sænautasel, alla leið. Og oft var veiðistöngin höfð með. Og það var veitt í vötnum og. S: já, fóruði einhvern tímann í ferðalög á veturna? V: nei, það man ég nú ekki eftir að það hafi verið farið eitthvað um veturinn. Nei, það var bara farið á skíði og skauta og... S: mm, bara hérna í bænum? V: jájá, svo þegar maður varð eldri þá var farið í fjallið og, maður renndi sér heim. Jájá. Þannig að jájá- manni fannst alltaf vera mikið að gera og man ekki eftir að manni hafi leiðst. Nema kannski eftir að mamma fór að vinna, þá svona- já, kannski helst þá. S: en það er kannski eitt sem að mig langar að spyrja þig í viðbót, það er í sambandi við skrautmuni og svoleiðis, og þú veist myndir á veggjum; styttur; og klukkur; og púðar og allt svoleiðis. V: jaá. S: áttuði mikið af þannig? Málverkum og ljósmyndum og... V: það var nú svosem ekki mikið en það var svona hefðbundið, það voru myndir af okkur krökkunum, og hérna- og það voru, eitt málverk svona veglegt, og gömul mynd af Akureyri og, ég man nú ekki nákvæmlega- það var enginn útsaumur að mig minnir sko. Jú gamla- mamma fór semsagt á húsmæðraskóla á Ísafjörð og þá var stórt veggteppi sem hún hafði gert þar, sem er til ennþá, og örugglega eitthvað fleira sem hún gerði á þessum húsmæðraskóla. Fínir dúkar og þess háttar, á borðstofuborðið, og svoleiðis. Og svo voru- jújú mjög flottir blómavasar sem eru til ennþá og svona ýmislegt. Man nú ekki eftir styttum reyndar, það hefur örugglega ekki verið mikið um það. En svo var fínir kertastjakar og eitthvað svoleiðis. Já, það var svona, ekkert mjög skrautlegt, en svona bara venjulegt, held ég heimili sko. Jájá. S: já eigum við ekki bara að segja þetta gott :) 


Kafli 1 af 3 - Lýsing á uppvaxtarheimili

Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd. Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið. Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að næsta spurningakafla sé svarað.

Kafli 2 af 3 - Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum

Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.
Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?
Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?
Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?
Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?
Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.
Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?
Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?
Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?
Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?
Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?
Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.
Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?
Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?
Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?
Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.
Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?
Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?
Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?
Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.
Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 3 - Dagur í lífi heimilismanns

Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.