LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDaglegt líf, Híbýli, Húsbúnaður
Ártal1940-1960
Spurningaskrá117 Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf

StaðurHvítafell
ByggðaheitiLaugar
Sveitarfélag 1950Reykdælahreppur
Núv. sveitarfélagÞingeyjarsveit
SýslaS-Þingeyjarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1935

Nánari upplýsingar

Númer2012-3-109
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið31.10.2012/2013

Viðtal við [1], 30. og 31. maí 2013

Efnisyfirlit 00:40 – 01:39            

Segir frá heimili sínu fyrstu sex ár ævi sinnar í Laugaskóla  01:40 – 02:22            

Segir frá byggingu uppvaxtarheimilis síns að Hvítafelli 02:23 – 07:55             

Lýsir útliti hússins að innan, herbergjaskipan og örlítið um hvernig húsið var innréttað 07:56 – 11:13             

Lýsing á kjallaranum 11:14 – 15:00             

Lýsing á ytra útliti hússins og ytra umhverfi, hótelrekstur og ræktun 15:00 – 17:41             

Skrautmunir á heimilinu 17:42 – 21:19            

Rjúpa Guðmundar frá Miðdal 21:20 – 23:06            

Kaffikanna, sykurkar og rjómakanna úr silfri frá Svíþjóð 23:11 – 27:55            

Rafmagn í Laugastöð og lýsing á heimilinu 27:56 – 32:54            

Heita vatnið og neysluvatnið 32:55 – 35:18            

Upphitun 35:19 – 42:09            

Eldhúsaðstaðan 42:10 – 50:46            

Eldamennska, matarvenjur, matvinnsla, mataráhöld og matarboð 51:42 – 53:55            

Salernisaðstaða, koppar, salernispappír 53:56 – 57: 24           

Hreinlæti, sund á Laugum, baðferðir, náttfatnaður Næsta myndband 00:42 – 02:30            

Rýmin á heimilinu og nýting þeirra 02:31 – 08:04             

Ytra útlit hússins og nánasta umhverfi 08:05 – 12:05            

Samgöngur, ferðalög, útilegur, skíði og skautar, frí 12:06 – 17: 30            

Munur á uppvaxtarheimili viðmælanda og annarra, líðan viðmælanda í heimili sínu 17:31 – 26:23            

Heimilisþrif   Uppskrift S: Spurning hvort við byrjum ekki bara á þessari lýsingu á uppvaxtarheimili. A: Já. Sko þar sem ég man fyrst eftir mér, ég er semsagt fædd á Fremstafelli í Kinn og þar en þaðan flytja þau svo pabbi og mamma þegar ég er hálfsárs gömul og í Laugaskóla og þar man ég fyrst eftir mér og íbúðin eða vistarveran sem við höfðum þar – þar var eitt einasta herbergi, að vísu býsna stórt en þar vorum við. Sko þá vorum við orðnar tvær systurnar og það var eitt herbergi sem við höfðum og svo var afi minn eða fóstri pabba, hann var með þeim líka. Og það var lítið herbergi sem hann hafði þarna líka í skólanum bara við hliðina á okkar, já. Og það var ekkert eldhús og við borðuðum bara í mötuneytinu í skólanum. Þarna vorum við í sex ár- bjuggum við svona, bættist við ein stelpa en þá er byggður kennarabústaður sem pabbi byggir faktískt og hann réði alveg, það var smiður sem að teiknaði, smiður hér sem var svona yfirsmiður í húsinu. Og það reis svona á mjög skömmum tíma því það var byrjað- það var tekin fyrsta skóflustungan í ágúst og við fluttum inn fyrir jólin. En húsið var svosem ekki fullklárað þá en þetta hús það heitir Hvítafell og er kennarabústaður við Laugar. Og í minningu minni er þetta og mér finnst ennþá þetta vera besti staðurinn í heiminum. Og þetta hús, ef að ég , sko þetta var- þetta hefur verið svona 80-90 fermetrar, en á einni og hálfri hæð, það var kjallari undir hálfu húsinu. Það var byggt svona upp í brekku og kjallari undir því framan við brekkuna. Og hérna, á hæðinni, sem var svona aðalíbúðin, það var gengið upp stiga- upp tröppur upp í útidyrahurðina upp á hæðina, og þar komum- þar blasti við svona frekar mjór gangur, það var svona ekki verið að eyða miklu plássi í ganga í þá daga. Og þar á þessari hæð þar voru fjögur herbergi og eldhús. Það var semsagt það var ágætt eldhús, ágætlega stórt, og svo var stofa og manni fannst hún líka ágætlega stór. Og svo voru tvö pínupínulítil herbergi, það var afa herbergi sem að var, já bara ég veit ekki hvað það var lítið eða hvað það var stórt í fermetrum- það var lítið, en það komst þar rúm og borð samt inn. Og svo aftur annað herbergi sem var herbergi okkar systra. Við vorum þar þrjár, það var líka lítið. Og við höfðum hákoju, og það kom semsagt hákoja  og svo eitt rúm á móti og svo eitt borð á milli við glugga. Og úr þessu herbergi var svo gengið inn í svefnherbergið pabba og mömmu. Opið á milli, dyr á milli. Og það var nú bara ágætlega stórt herbergi, en það var svoleiðis að pabbi minn var söngkennari og hann var með kóra í sveitinni, hann var með karlakór, og til þess að létta honum lífið sklum við segja, að þá var húsið miðað við það að hann gæti haft karlakórsæfingar heima. Og stofan og svefnherbergið voru hlið við hlið og það var höfð breið rennihurð á milli, því karlakórinn komst ekki fyrir í sfotunni einni, hann sveigði svona inn í svefnherbergið. Og þar af leiðandi gátu þau ekki haft hjónarúm heldur höfðu þau tvo dívana sem voru svona upp við veggi og var svo ýtt saman á kvöldin. Og en þetta var svona sko, hann átti píanó og það var náttúrulega þarna í stofunni. Ég veit ekki hvort ég á að segja eitthvað frá húsgögnunum, en það var sófasett, það var sófasett sem að þau höfðu keypt af skólastjóranum sem var á Laugum sem var að flytja suður. Æðislegt sófasett, djúpir stólar eins og þeir gerðust bestir þá og þriggja sæta sófi. Og svo var svona það sem kallað var stofuborð og stólar við það, ég man ekki hvort þeir voru fjórir eða sex. S: semsagt til að borða við? A: til þess að borða við, ef að komu betri gestir og svona á jólunum og svona þá borðuðum við alltaf inn í stofu. Þetta borð var svo borið inn í svefnherbergi út í horn einhvern tímann þegar voru karlakórsæfingar. Það miðaðist voðalega mikið við þessar karlakórsæfingar. Og þær voru alltaf einu sinni í viku allan vetur í öllum mínum uppvexti. Svo var líka eldhús á þessari hæð, og það var mjög ágætt eldhús finnst mér. Það var held ég engin innrétting þegar við komum þangað eða þegar við fluttum og þá man ég bara mamma var með eina hellu, eða lausa hellu sem að hún sauð á. Ég man að fyrsta sem við borðuðum- við fluttum að kvöldlagi, sváfum þarna fyrstu nóttina í Hvítafelli og það var, það voru komnar hurðir fyrir afa herbergi, já það var eina hurðin sem var komin í húsið. Það var ekki hurð fyrir klósettinu og stofan var alveg ófrágengin, hún var bara múrinn, það átti eftir að pússa hana og mála. En þetta var yndislegt. Og það fyrsta sem að mamma eldaði handa okkur þarna var hafragrautur um morguninn. Hann var mjög góður. Og þau áttu hérna gamalt borð sem að hafði verið í búi afa, var svona með aukum, hægt að stækka það og, hérna en svo kom nú innrétting í þetta, en hún var bara barns síns tíma náttúrulega og, en það það sem að við bjuggum við það var heitt vatn hjá okkur. Skólinn var byggður þarna vegna þess að það var jarðhiti og hitað upp með því. Og það var aldrei, já. Og það var líka, það hafði verið byggð rafstöð í Reykjadalsá sem rennur þarna neðan við skólann, og hérna svoleiðis að við höfðum alltaf rafmagn. Og í kjallaranum- svo var af ganginum var gengið niður í kjallarann og þar átti að vera búr og geymsla og þvottahús og eitt herbergi en þegar að til kastanna kom- það var mjög þröngt í skólanum, mikil aðsókn að skólanum og fjöldi nemenda, og þetta þótti mikið pláss fyrir einn kennara, vera með tvær hæðir. Svo að kjallarinn var innréttaður með tveim herbergjum fyrir nemendur á veturna. Og minnkaði þar með aðstaðan fyrir þvottahúsið og búrið en það var samt haft þarna þvottahús. Nei, það var ekkert þvottahús fyrst, það var ekkert þvottahús fyrst, mamma þvoði þvottana niður í skóla. Og hérna, svo var pínulítil svona kompa sem við kölluðum mjölkompa. Þar voru geymdar svona- það var keypt inn í pokum eða sekkjum rúgmjöl og hveiti og sykur og það var þarna í mjölkompunni. Og þar var líka gömul búrkista, meira að segja búrkista sem ég á og hef nú í stofunni minni núna, hún var þarna í mjölkompu. Og í henni voru geymdar rúsínur og eitthvað svona. Og afi hafði þarna, hann afi hugsaði- við áttum hænur og afi hugsaði um þær og hann notaði þessa mjölkompu þegar hann var að útbúa matinn handa hænunum því það var ekkert sko kastað til hans höndunum, það var, þegar var tekið upp- kartöflurnar voru teknar upp á haustin, þá voru þær flokkaðar – það voru stórar kartöflur og svo heldur minni kartöflur, já, og svo útsæði – útsæðisstærð og svo smælki, og smælkið var handa hænunum. Og afi sauð, ég man svo vel eftir pottinum sem hann sauð í smælkið handa hænunum, og ekki nóg með það, hann var svo viss um að flusið settist í sarpinn á þeim svo að hann flysjaði kartöflurnar í hænurnar og það er eiginlega eina verkið sem ég man eftir frá því ég var lítil sem mér fannst hræðilega leiðinlegt, að flysja kartöflusmælkið með afa. En hann sagði okkur nú oft eitthvað skemmtilegt. Svo var var svona skápur, tveir skápar líka þarna niðri fyrir útiföt, af því að þau voru alltaf með búskap, þau höfðu kýr þarna fyrstu árin. Og svo aftur að þegar skólanum lauk á vorin þá fengum við þessi herbergi til afnota þarna niðri, þessi herbergi sem voru notuð fyrir skólafólk. Og þetta, já svo var náttúrulega það var klósett á efri hæðinni, og átti nú bara að vera eitt klósett í húsinu en þegar að þetta var tekið, þegar voru útbúin herbergi fyrir nemendur þá var pínupínulítil snyrting og ekki neitt bað, það var bara klósett og vaskur. Það þótti óþarflega mikið að láta nemendur nota sömu snyrtingu og við uppi. En þetta var já, þetta svona í stórum dráttum þetta húsnæði okkar. Og svo var, pabbi var voða mikill ræktunarmaður, og strax- það var nú ekki einu sinni búið alveg að fullgera húsið- íbúðarhúsið þegar hann fór í það að gera garð í kring. S: voru þá einhver svona garðhúsgögn? A: neineinei elskan mín. En það var hann, hann setti stalla, garðurinn var á þrem hæðum og tröppur með örfáum þrepum á milli, og svo plantaði hann trjám. Honum var nú gefin tré, soltið stálpuð tré þegar hann flutti í húsið, vinur hans úr nágrenninu- reyniviðarhrísla sem hann fékk sem var orðin soltið stór og hélt svo áfram að stækka og var orðin alveg ofboðslega falleg. Og svo sótti hann- já svo var líka innan girðingar, já innan lóðarinnar, þar var svona brekka. Þetta stóð alveg upp við heiðina, eða brekkuna, svo það var grasmór ofan við, það var ekki lyng, og þar plantaði hann mjög miklu af plöntum og þá var að yfirleitt að hann sótti í skóg sem er hérna úti við Vestmannsvatn, heitir Vatnshlíð, og svo blóm. Og svo hafði hann áður en hann flutti í Hvítafell byggt gróðurhús sem að stóð niður við Laugaskóla. Það var stærðarinnar hús, það var ekki svona lítið gróðurhús eins og er í mörgum görðum núna. Og þetta gerði hann vegna þess að á sumrin var rekið hótel eða gistiheimili á Laugum og hann var með það, og myndi sjálfsagt vera kallaður hótelstjóri núna, ég man nú ekki að hann hefði nú neinn sérstakan titil, og til þess að hafa grænmeti handa gestum, tómata og gúrkur og þess háttar, sem var nú vandfengið þá, þá byggði hann þetta gróðurhús. Það var svo flutt upp að Hvítafelli einhverjum árum eftir, það var 1941 sem við fluttum í Hvítafell, þá var ég sex ára gömul. Og það var svo heimkynni mitt, já, ólst þarna upp. S: hvar sagðistu aftur hafa verið fædd? A: það heitir Fremstafell, mamma mín var þaðan og þau bjuggu þar fyrstu árin og þar fæddist Sigga systir mín og þau voru búin að byggja sér hús þar, en svo var pabbi ekki hraustur og ekki bóndi svo þetta hentaði þeim ekki, og hann hafði farið í nám aðeins í söngstjórn og söngkennslu, eða tónlistarkennslu og fékk þetta starf við skólann og kenndi þar alla tíð í hvað á ég að segja, það er ’35 sem hann kemur þangað og það er ’61 sem hann hætti svo kennslu svo þetta var langur tíma þarna á Laugum. S: en hvernig var með svona skrautmuni? Var eitthvað sem hékk á veggjunum eða...? A: jájá. Það var nú hérna, það var nú í þá daga að þá var nú gjarnan útsaumur, veggteppi og myndir sem saumað, og einhvern tímann ég man nú ekki svosem hvenær það var, þá fengu þau stóra mynd, ljósmynd í gylltum ramma af Goðafossi, sem var sko, mamma eiginlega, ég segi nú ekki að hún hafi séð Goðafoss frá Fremstafelli en Goðafoss var þeim voða kær enda fallegur. Og einhverja fleiri, ég man svosem ekki eftir málverkum, en ljósmyndum svona stórum, ljósmynd úr Mývatnssveit, og- en allavega fyrstu árin man ég ekki eftir málverkum en svo áttu þau líka, það voru svona- það var bókahilla- vegghilla sem var hengd upp bara með einfaldri röð af bókum og ofan á henni voru svo einhverjar styttur og myndarammar með fólki, og ég man þau áttu Rjúpuna eftir Guðmund frá Miðdal og mikið vildi ég að hún hefði ekki brotnað en það gerði hún nú. Og það var já, ég man eftir einhverjum skrautmunum, blómavösum, og já ég man nú ekki eftir annarri styttu heldur en þessari Rjúpu, ekki þarna á fyrstu, ekki þarna á uppvaxtarárum mínum. Svo náttúrulega var það aftur seinna. En þau það var semsagt sko, kannski vegna þess að hann var kennari, þá áttum við alveg svona svoldið fín húsgögn eða svoleiðis, en það var aldrei svoleiðis að það væri fín stofa hjá okkur. Dagstofan var okkar vinnustofa líka, og við fengum að leika okkur þar og gera allt sem við vildum í rauninni en það var svosem ekki á öllum bæjum sem var sófasett, en ég man aldrei eftir því samt að mér hafi fundist neitt fínna hjá okkur heldur en hinum krökkunum, ég man ekki eftir því. S: en þessi rjúpa, hvaðan kom hún? A: sko Guðmundur frá Miðdal var leirkerasmiður, líklegast bara sá fyrsti eða að minnsta kosti með þeim alfyrstu hér og hann bjó til styttu, og þetta var, þessi rjúpa hans var mjög fræg á tímabili, og ég veit það að hún er- menn þykjast góðir ef þeir eiga hana núna og það eru nú einhver eintök til af henni. En hann var að prófa að nota íslenskan leir, vinna hann sjálfur. Hann var sko menntaður leirkerasmiður, og þessi leir var ofboðslega lélegur, og þó þetta væri brennt og glerjað eins og er gert núna þá mátti varla anda á þetta þá var það- brotnaði út úr því. Og ég man svosem ekkert hvenær hún brotnaði. S: en var þá lítið um svona styttur? A: já ég held það, það er ekkert sem situr í mér að minnsta kosti. Og hjá hinum kennurunum, þetta var sko eina íbúðarhúsið svo voru hinir kennararnir með íbúðir í skólabyggingunni, og ég man svosem ekki eftir því að það væri svoleiðis. S: en var þá ekki dálítið dýrt að eignast þetta? A: sko ég, pabbi ábyggilega keypti þessa rjúpu, hann var á ferðalagi, kom í Miðdal og sá þetta. Ja ég segi þetta nú ekki alveg satt, það var bóndi hérna vestan við Fljótsheiðina á Fljótsbakka- hét Karl Sigtryggsson. Hann var að búa til styttur úr gifsi. Ég veit eiginlega ekki hvernig hann fór að því. Hann var sjálfmenntaður og ég man að þau áttu einhverja styttur eftir hann, það var einhver kall. En ég veit ekki, held að þessi rjúpa hans Guðmundar hafi ekki verið neitt svosem dýr. Ég veit ekki hvaða verð var á listmunum á þeim árum sem er, miðað við verð á öðrum hlutum. Mamma saumaði veggteppi, sem að hékk einmitt neðan við þessa bókahillu sem ég var að tala um. Og það var mjög algengt í húsum, og það voru svona hillur, bara þunnar, mjóar hillur og veggteppi eða eins og er hérna hjá mér hornhilla og neðan í henni. En svo man ég eftir því að árið 1947 þá fer pabbi í leyfi frá skólanum og fer í nám til Svíþjóðar og er í hálfan vetur eða eitthvað svoleiðis. Og þegar hann kom heim þá kom hann með þvílíkt raritet sem að var silfurkanna, kaffikanna og sykurkar og rjómakanna, sem að ég var alveg sannfærð um að ætti enginn nema kóngar. Og hérna, þetta var þvílíkt- þetta var held ég bara það fegursta sem ég hef nokkurn tímann augum litið- mikið ofboðslega var þetta fínt. Og þá var- þetta var þarna eftir stríðið og þá var verið að selja- þetta kostaði mjög litla peninga þarna í Svíþjóð. Og þetta var sett inn í skáp með glerhurð fyrir og en mamma notaði þetta. Það voru nú ekki til svona hitakönnur þá, og alltaf þegar komu einhverjir til þeirra sem var nú mjög oft, og ef hún lagði á borð svona inni í stofu eða kom inn með kaffið eins og hún kallaði það þá bar hún það fram í þessari könnu, hún hélt soltið vel heitu, og mér þótti óskaplega vænt um það þegar ég fékk svo þetta sett í afmælisgjöf þegar ég varð fimmtug. En þarna fannst mér þau bera af eða já, svona áttu ekki allir, ekki þá. Og þetta rafmagn sem var þá þarna í Laugastöðinni, það var ekki ryðstraumsrafmagn heldur var það jafnstraumur og það var ekki hægt að fá nein tæki. Mamma eignaðist ekki hrærivél fyrr en löngu löngu eftir að við fórum að heiman. Hrærivélar og þvottavélar og svoleiðis dót, og ísskáp, það þekktist ekki þegar ég var að alast upp. Það voru ljósin og svo náttúrulega eldavél með bakaraofni hjá okkur, þar sem var rafmagn. En það voru svona ljósakrónur og eitthvað svoleiðis,það var ljósakróna í stofunni með þremur örmum. S: En var lýsing í öllum herbergjunum? A: já. Og það var mjög ódýrt rafmagnið hjá okkur svo að við spöruðum ekki rafmagnið nema að því leyti að gat stundum orðið svo mikið álag á stöðinni og þá varð spennan svo lág og þá tók óra óratíma að hitna í pottunum og þá reyndi maður að hafa eins lítið kveikt og hægt var til að spara. S: voru lampar og veggljós eða voru þetta aðallega loftljós? A: það voru aðallega loftljós en ég man samt eftir lömpum í- ég held það hafi nú bara verið í stofunni, það voru tveir vegglampar, komu einhvern tímann. S: en var eitthvað um standlampa? A: nei ekki þá fyrst. Pabbi fékk lampa í afmælisgjöf einhvern tímann þegar ég var krakki og hann var búinn til úr kýrhorni, hann var smíðaður hérna bara og karlakórinn gaf honum þennan lampa og hann var með áletrun og svo var fínn skermur á þessu og hann var með þetta á skrifborðinu hjá sér. Jájá þetta var flott. S: urðu miklar breytingar á ljósabúnaði heimilins þegar þú varst að alast upp? A: ja það hérna, allavegana varð ekki mikil breyting hjá okkur þarna, það er svo aftur eftir að ég er farin að heiman, það er ekki fyrr en eftir fimmtíu sem að kemur svo Laxárrafmagn heima, þá náttúrulega breyttist allt, þá kom ísskápur og allt svoleiðis. Það urðu ekki miklar breytingar, við vorum með ljós í öllum þessum híbýlum, við vorum með ljós í mjölkompunni. Svo voru svona skermar sem að var mikið í þá daga. Til dæmis í herbergjunum þarna sem að skólinn hafði, þá voru svona skermar bara úr- þeir voru emileraðir, þetta voru ekki ljósakrónur en þetta var samt- og núna vildi ég gjarnar eiga svona skerm. Mér finnst þeir hafa verið dáltið flottir. S: en þá voru ekki allir komnir með svona góða lýsingu eins og þið? A: nei það var náttúrulega þarna í Laugahverfinu og bæirnir þar í kring, og þau fengu rafmagn líka úr þessari stöð, og semsagt heima hjá krökkunum sem ég ólst upp með, það var svosem heilmikið af krökkum, og þar var rafmagn. En hérna- svo svosem fór ég- ég var stundum á sumrin einhverja daga hjá ömmu og afa á Fremstafelli. Þar var að vísu rafmagn, það var líka heimastöð þar en það gat verið mjög stopult og þar gat orðið rafmagnslaust. En það er ekkert sem að er svosem í minningu mínum, það voru voða litlar ljósatýrur þar, en ég kynntist ekki rafmagnsleysi fyrr en ég var orðin átján ára, þá fór ég í kaupavinnu í Skagafjörð og þar var rafmagnslaust.             Og eins var náttúrulega lúxus þetta með heita vatnið, það var náttúrulega alveg, að alast upp við hitaveitu. Nóg laugavatn. Það var náttúrulega ótrúlegur lúxus. S: En neysluvatnið? A: já fyrstu árin, það var náttúrlega kostulegt... [Síminn hringir og símtalið tekið] S: já við vorum að tala um neysluvatnið. A: já. Já. Það var lagt heitt vatn í húsið, strax, og bara meðan var verið að byggja það, síðan fengum við ekki kalt vatn fyrr en einhverjum  árum seinna, og ég man eftir því sko að við vorum að sækja í fötu kalt vatn niður í skóla til að hafa með matnum og svona. Og það var heitt vatn í klósettinu. Það var nú býsna notalegt reyndar, eða gat verið það [hlær]. Og maður þurfti svona að- vatnið var náttúrlega ekki svo heitt, laugavatnið hjá okkur og það var svona nokkuð mátulegt í bað, að minnsta kosti ef maður lét renna á sig, það gat verið soltið heitt að fara ofan í ef maður var búið að fylla baðkarið áður en maður fór. En svo þegar við fengum kalda vatnið – það var mjög gott vatn þarna í hlíðinni, ég veit eiginlega ekki af hverju í ósköpunum þetta var ekki fyrst. Þetta var bara svona. En við höfðum alltaf gott vatn. En það reyndar var svolítill kísill í heita vatninu. Það settist svona pínulítið  á kranana og svoleiðis, en það var aldrei vandræði með vatn. En ég man eftir sko, ja það var þvottaaðstaðan, hún var ekki mjög góð, mamma hafði þvottadag, það var skipt niður í skólanum, hún hafði alltaf einn dag, þá mátti hún fara kvöldið áður og leggja í bleyti eins og var gert og svo var þegið daginn eftir og maður var þá búinn með þvottinn kannski um kaffileytið eitthvað svoleiðis, að nudda þetta á brettum og í bölum. En það var mjög gott vatn og náttúrulega yndislegt að skola upp úr heita vatninu. S: og það þurfi ekkert að spara það? A: nei það þurfti ekki að spara það. Eða það var allavegana ekki gert. S: við vorum ekki búin að koma að upphitun er það nokkuð? A: nei, það var náttúrulega, það var upphitun af þessu vatni í húsinu, þá voru nú ekki mjög stórir ofnar, og á þessum tímum var alltaf einfalt gler í gluggunum og það gat orðið kalt hjá okkur á veturna, en þá áttu þau rafmagnsofn sem var notaður og við færðum hann svona á milli herbergja, höfðum hann í eldhúsinu ef við vorum þar og svo í stofunni- og það gat orðið bara býsna kalt sko. En ofboðslega fallegt þegar frostrósirnar voru komnar á gluggana. Og svo þegar þiðnaði þá rann vatnið. Það var nú gluggakisturnar sem voru með svona vatns- ég veit nú ekki alveg hvað það heitir, svona spýtu-vörn fyrir framan, framan kistuna, og það þurfti voða oft að vinda úr gluggunum. Og ég man að afi bjó til vatnsbyssu sem að við semsagt soguðum úr. Það var mesti munur því okkur þótti þetta kalt að vinda úr gluggunum. S: voru þá ofnar í öllum herbergjum? A: já. S: mjölkompunni líka? A: nei, en þar voru einhverjar leiðslur, berar. Svoleiðis að það var ekki svo kalt þar. Og lítill gluggi bara, pínulítill gluggi bara sem kom undir tröppurnar- útidyratröppurnar. S: þurfti þá heldur ekki að spara hitann í ofnunum? A: nei. S: en var þá einhvern tímann kveikt á ofnunum á sumrin eða þurfti þess? A: það var nú, nja rafmagnsofninum? S: ja bara... A: já ofnunum, ég man það nú ekki. Nei ég held nú það var nú skrúfað fyrir ofna þegar fór að hlýna. En ég ólst semsagt upp við rafmagn og hita, eins og í bómull. S: eldhúsaðstaðan, hvernig var henni háttað? Þú sagðir að það hefði ekki verið neitt... A: nei það var ekki komin nein innrétting inn í eldhúsið þegar við komum, svo kom hún nú bara þarna fyrsta veturinn sem við vorum. Það voru settir upp skápar og það var svona klassísk eldhúsinnrétting með neðri bekkjum og vöskum, það var bara einfaldur vaski, en hérna, ágætur og svo skápar á veggnum yfir vaskanum og eins yfir þessum bekk og hérna þessi innrétting var semsagt við suðurveginn, nei norðurvegginn á eldhúsinu, og svo var á móti, svo var horngluggi, ægilega skemmtilegur, sást svo mikið út, og við hann var svo matborðið, og svo var bekkur, bekkur sem að tók svo við af því aftur á móti vaskainnréttingunni, og þar var, þar var hérna voru skúffur, og þar var nokkuð sem að hét brauðskúffa- brauðskúffa. Og hún var þannig að hún var til að hnoða brauð, brauðið í, ef maður var að baka. Þá tók maður hana niður, og hún lagði hana,- þá lagðist hún á borðið og þá náði hún soldið fram yfir, hún var soltið breiðari en bekkurinn, og þetta var notað þegar var verið að baka. Og svo voru skápar við hliðina beggja vegna og þar var geymt svona mjöl og sykur í baukum eða einhverju og svo var við hliðina á þessari brauðskúffu, þar voru skápar með glerhurðum, kona, heldurðu að hafi- þetta hefur verið alveg æðislega flott! S: já. A: Og svo var já, það var svona frekar lítill ofn sem var svona við hliðina á innganginum með hurðinni inn í eldhúsið og yfir honum var hengi fyrir viskastykki og þar var soltil hilla sem var svo fest á það sem hét puntuhandklæði. S: Mhm. En eldavélin? A: eldavélin, það var svona gömul raf- eða gömul, hún var náttúrulega ný þegar við fengum hana rafaeldavél á fótum, lítil og nett, ég man ekki hvort hún var með þrem hellum eða fjórum, ég er ekki alveg viss um það, og bakaraofni. Og þetta var náttúrulega bara lúxusaðstaða. En það reyndar var á meðan að við- þau, ef að skólarafmagnið var lélegt, það gat orðið soltið erfitt að baka, maður þurfti svona svoltið að sæta lagi, gjarnan baka smákökurnar fyrir jólin helst þá á kvöldin eða þegar maður vissi að var ekki mikið verið að nota rafmagn í skólanum. En þetta, þarna var-  við borðuðum alltaf í eldhúsinu og þar var hérna undir, við vorum með, norður- jájá við vorum með norður- og vesturglugga á eldhúsinu svoleiðis að þá var þetta náttúrulega austurveggurinn sem að vaskaborðið var við og það. Og svo var undir glugganum undir vestur glugganum, þar var gamalt kofort sem að pabbi hafði fengið þegar hann fór í Laugaskóla, þá var smíðað handa honum kofort, og það var þarna og það var notað sem sæti við endann á borðinu, og svo var líka þarna bekkur, - það voru smíðaðir á Laugum svona svefnbekkir sem að voru- trébekkir, og með loki, bara svona já- og svo var hægt að opna þá og draga í sundur og þá var þarna svona meira en einbreitt rúm. S: já A: og á þessu var setið þarna líka, og svo voru eldhússtólar, og þeir voru- það voru bakstólar, við áttum nú einhverja kolla líka- trékolla. En þarna var, þarna var borðuðum við semsagt alltaf þegar ekkert var meira um að vera hjá okkur. En ég held að þetta hafi bara verið ágætis aðstaða miðað við þá tíma. S: hvernig var eiginlega plássið? Voru ekki bekkirnir upp við eldhúsborðið? A: já nei, ekki upp við eldhúsborðið. Það kom svona horn, og glugginn var hérna og hérna og kofortið hérna og setbekkurinn undir hinum glugganum og svo kom soltið bil og svo bara á veggnum á móti innréttingin. En það var svosem ekkert rúmt svo aftur frá borðinu og aftur að bökunarbekknum eða þar, en það var samt alveg hægt að hafa stól þar. Og borðinu þá ýtt fram ef að þurfti að hafa meira rými við. S: já. Ég var bara að hugsa þegar maður dregur út þessa svefnbekki, var alveg nóg pláss...? A: það þurfti að ýta borðinu sko. S: já já. A: það þurfti að ýta borðinu til. Þeir voru ekkert voða breiðir svosem þessir, þessi rúmstæði. Og svo var í því- það var í því- annaðhvort var dýna sem var svona tvíbrotin og hún lögð saman svona, eða þá undirsængur. Við vorum með, áttum svona dýnu og við sváum oft þarna. Það var mjög gestkvæmt þarna í Hvítafelli. Bæði sumar og vetur. Og ég man aldrei eftir að það hafi verið þröngt. Og á sumrin var náttúrulega lúxus að taka á móti gestum með þessi tvö aukaherbergi niðri. S: En þú minntist áðan er það ekki á helluborð sem var bara með einni hellu? A: já. Það var bara laust, að var bara sem hún notaði þarna- ég held nú áreiðanlega að eldavélin hafi verið komin í samband fyrir jólin. S: já, þetta var bara tímabundið... A: já þetta voru bara nokkrir dagar sem við höfðum bara þessa einu hellu. S: já. Ókei. Svo er spurt, hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? A: já. Mamma sá um eldamennskuna. Og það var eldað, það var alltaf eldaður hafragrautur á morgnana. Svo var hádegismatur. Svo var miðdegiskaffi. Og svo var kvöldmatur, og það var ekki óalgengt að það væri sko heitur maður tvisvar á dag. En þá var oft að voru nýttar einhverjar leifar og búið til eitthvað úr í kvöldmatnum, og þá brauð. Og svo var, síðan var kvöldkaffi. Það var býsna oft borðað. En pabbi var sko- hann var kennari og hann byrjaði að kenna klukkan átta á morgnana og þá var búið að borða hádegismatinn, og svo kom hann heim í mat, og það var borðað hálfeitt í skólanum svoleiðis að það var alltaf hádegismatur hálfeitt hjá okkur. Og svo var kaffi, hálffjögur til fjögur og þá alltaf eitthvað með því, smurð sneið og kleinur og eitthvað bakkelsi. Og svo var kvöldmaturinn. Sem var eins og ég sagði oft eitthvað sem að var búið til úr afgöngum eða brauð og skyr og eitthvað svoleiðis. Svo var mjög algengt, flest kvöldin var pabbi að kenna eftir kvöldmat. Eða kenna, hann sá líka um það sem heitir núna tómstundastarf eða frístundastarf nemenda. Og það voru- það var reynt að hafa alltaf á hverju kvöldi eitthvað, þetta voru náttúrulega hundrað manna hópur þarna og þurfti að hafa eitthvað fyrir stafni. Það voru til dæmis söngtímar, voru tvisvar í viku hjá öllum skólanum, það var hundrað manna kór. Og þeir voru alltaf eftir kvöldmat. Og svo voru hin kvöldin- það voru kvöldvökur og stundum voru einhverjar bíósýningar, það var semsagt, það voru mjófilmur, það var lítil vél sem var sýnt bara á tjaldi inni í kennslustofunni og pabbi sá um það. Og já kvöldvökurnar og svo var nokkuð sem hét skólabjallan. Það var nú held ég ekki nema einu sinni í mánuði og það sáu nú reyndar nemendur um efnið á. En það var- skólabjallan var blað sem var gefið út eða skrifað í á Laugum. Og það voru alltaf einhverju, ég man ekki hvað það vor margir sem voru í skólabjöllunefnd og þeir skiluðu svo einu sinni í mánuði, störfum og þá var lesið upp það sem þau höfðu skrifað í blaðið. Þannig að svo er pabbi að koma heim rétt fyrir tíu þegar ég var krakki. Og þá var alltaf kaffi og með því. Og síðan var mannskapurinn drifinn í skólann, nei í hérna háttinn segi ég. S: en hvernig- tíðkaðist það að hafa súpu eftir matinn í hádeginu? A: ævinlega, ævinlega. Já. Og það það tíðkaðist sko löngu eftir að ég fór að búa. S: já. A: en ég man svosem ekki með mat, ég hef nú stundum verið að rifja upp hvað við borðuðum, ég svona, það var náttúrulega, það var nú erfitt með fiskmeti, nýjan fisk, ég veit ekki, en fisk svosem höfðum við og siginn fisk og saltfisk, og svo var saltkjöt. Og kindakjöt og hrossakjöt. S: en var unninn matur á heimilinu, eins og slátur og sulta...? A: já allt gert, mamma- það var allt gert. S: og skyr og ostar og svoleiðis...? A: já. Ekki ostar. Ég man aldrei eftir því að hún gerði ost. En skyrið gerði hún. S: hvernig var með eldhúsáhöld? Áttuði mikið af svoleiðis? A: sko ég held að við höfum nú átt þarna, bara býsna mikið. Og það var þannig að ég sagði þér þarna frá, að pabbi hefði verið með hótelið eða þau, pabbi og mamma, og það var rekið þannig að þau ráku það sjálf. Þau keypti allan, öll hnífapör og allt svoleiðis. En svo náttúrulega geymdu þau það allt, á milli ára. en þá held ég að þau hafi sko keypt líka um leið til heimilisins, ég man, ég held að þetta hafi bara verið mjög ágætlega búið eldhús og þannig lagað og bæði- og diskum- ég á ennþá aðeins eftir meira að segja hnífapör og frá þessum tíma þarna á hótelinu. S: en átti fólk svona sparistell og svoleiðis eins og núna? A: jaá. Mamma átti ekki ekki matarstell þegar ég man eftir mér. En hún átti svona betri bolla. Sem að voru ekki notaðir nema þá við hátíðir og voru geymdir inni í skápnum með glerhurðina. S: það var náttúrulega, var farið einhvern tímann út að borða? Þið borðuðuð náttúrulega bara heima hjá ykkur? A: já ég held að ég hafi bara aldrei farið út að borða. S: en var gestum oft boðið í mat? A: já það voru, voru mjög oft gestir hvort sem þeim var boðið eða ekki. Það var mjög mikið rennerí heima. Og svosem stundum að það komin gestir, ég man eftir því svona óvænt í kvöldmat, og mamma svona- hún fór ekkert á límingunum en hún svona „hvað á ég nú að hafa, hvernig- hvað get ég gert“ en hún var alveg snillingur í því að það var alltaf komið gnægð af fallegu fallegum og góðu mat hjá henni og hún kunni að taka á móti gestum og láta þá finnast þeir vera velkomnir. En ég skrökva því nú kannski að við- nei, það voru bara, sko þegar var eitthvað um að vera í skólanum, það hétu samdrykkjur, þá vorum við alltaf boðin með, eða já pabbi sá reyndar oft um það, en ég man aldrei eftir því að það væru sko matarveislur þar, heldur voru þetta kaffiveislur. En stundum vorum við svosum boðin á aðra bæi í mat, sérstaklega var það um jólin, kannski eingöngu um jólin. Það náttúrulega þekktist faktískt ekki að fara út að borða. [barn sem svaf úti í vagni er sótt og situr svo hjá okkur í smá tíma.] A: heyrðu það hérna, hvernig var salernisaðstöðu háttað, og það var nefnilega alveg merkilegt fyrirbæri þessir koppar. Sko nú erum við þarna með klósett bara við bæjardyrnar, svefnherbergisdyrnar, og afi notaði alltaf kopp á næturnar, og pabbi líka. Það var alveg kostulegt, og ég er stundum að hugsa um það að þetta var alveg eðlilegt þá. Og mamma fór með koppinn hans pabba og hellti úr honum á morgnana og afi hellti sjálfur úr sínum kopp og þvoði hann. S: Og voru þeir þeir einu sem notuðu ennþá koppa. A: já. Við höfum kannski, ég man nú ekkert eftir því að við höfum verið að pissa á næturna. En ég man samt eftir því að Páll Þorlákur, sem er nú sko, hann er þre- fjórtán árum yngri en ég, að hann kallaði sko þegar hann var kominn upp í rúmið og átti að fara að sofa og var kannski að skoða bók eða eitthvað. Svo kallaði hann: „mamma, hvar hefurðu koppinn?“ Þá nennti hann ekki fram úr rúminu og hann fékk ábyggilega koppinn, mamma færði honum ábyggilega koppinn, og fór svo með Faðir vorið [hlær]. S: En salernispappír? A: já það var nú hérna svona soldið, hann var nú dýr sko. En við, það voru nú til dagblöð, og þau voru rifin eða klippt niður í svona... S: svona ferninga? A: já, og höfð í einhverjum skókassa eða einhverju á ofninum á klóinu. Maður þurfti nú dáldið að mýkja hann. En það var nú það algengasta þegar ég var lítil semsagt, fyrstu árin. S: já að nota svoleiðis? A: að nota svol


Kafli 1 af 3 - Lýsing á uppvaxtarheimili

Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd. Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið. Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að næsta spurningakafla sé svarað.

Kafli 2 af 3 - Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum

Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.
Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?
Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?
Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?
Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?
Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.
Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?
Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?
Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?
Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?
Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?
Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.
Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?
Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?
Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?
Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.
Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?
Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?
Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?
Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.
Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 3 - Dagur í lífi heimilismanns

Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.