LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDaglegt líf, Húsbúnaður, Húsnæði
Ártal1940-1960
Spurningaskrá117 Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf

Sveitarfélag 1950Akureyri
Núv. sveitarfélagAkureyrarkaupstaður
SýslaEyjafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1935

Nánari upplýsingar

Númer2012-3-108
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið31.10.2012/2013

Viðtal við [1], 20. ágúst 2013  

Efnisyfirlit Myndband 1 00:54 – 03:02            

Segir aðeins frá húsinu sjálfu, svo smá lýsing á innra útliti 03:03 – 04: 46           

Umhverfis húsið, garðurinn 04: 47 – 10:25           

Lýsing á herbergjum, húsgögn 10:26 – 13:14            

Eldhúsið og borðstofuborð 13:15 – 15:29            

Skreytingar á veggjum, veggfóður og myndir og klukkur; gólfefni 15:30 – 18: 37           

Kjallarinn: smíðastofa og þvottahús og kolageymslur, næturhitun. 18: 38 – 23:47           

Lýsing á húsinu, samgangur á milli hæða, viðhald á húsinu Myndband 2   00:24 - 02:28           

Herbergjaskipan, lýsing á baðherberginu. 02:29 – 04:09            

Lýsing á herbergjum 04:10 – 05:40            

Svefnaðstæður, náttföt 05:41 – 06:56            

Koppur, hreinlæti 06:57 – 10:53            

Eldamennska, matarvenjur 10: 54 – 14: 30          

Lýsing á heimilinu 14:31 – 18:12            

Stigagangur, myndir á veggjum, silfurvasi 18:13 – 21:44            

Skrautmunir, heimilistæki 21:45 – 24:28            

Vatn, heimilisþrif 24:39 – 26:23            

Tilfinningar viðmælanda til heimilisins, innileikir 26:24 – 27:33            

Einkabíll, útilegur Myndband 3 00:05 – 01:22            

Ferðalög, útilegur í Vaglaskóg 01:23 – 03:37            

Sumarhús 03:38 – 04:27            

Skíði 04:28 – 07:46             

Skrautmunir, styttur Guðmundar frá Miðdal, púðar, uppstoppaðir fuglar 07:47 – 10:48            

Lýsing á ímynduðum degi á æskuárunum 10:49 – 12:04            

S: þetta er semsagt spurningalisti um uppvaxtarheimili þitt. Og þannig að þú ert beðin um að lýsa því svona eins nákvæmlega og þú getur. H: jájá. S: jám. Og semsagt húsgögn og húsmunir sem prýddu heimilið... H: já. S: ...og herbergjaskipan, og þannig. H: já. Á ég þá bara að byrja... S: já þú mátt byrja, mátt til dæmis byrja á ytri, ytra útliti hússins, sem þú bjóst í sem barn og unglingur. H: jájá. S: ytra, já, svona í stórum dráttum. Ytra útliti hússins og nánasta umhverfi þess. H: já. Þetta var hérna á ytri brekkunni. Þetta var alveg nýtt hús þegar ég fæddist, þá var voru foreldrar mínir nýfluttir í nýtt hús. Þetta var stórt og fallegt steinhús, á ytri brekkunni. Og hérna, ja þetta var tveggja hæða hús og frændfólk okkar átti heima á eftir hæðinni. Og hérna. Þetta var, ef ég lýsi hvernig þetta var inni, þá var komið inni í stórt anddyri  þar sem gengið var upp á efri hæðina, og það var dáldið sérstakt að í þessu húsi voru málverk á veggjunum sem var málað beint á vegginn. Þetta var hérna, held ég til í einum tveimur þremur húsum hérna í bænum. Það var listmálari sem að foreldrar mínir þekktu. Og hann semsagt málaði uppganginn með málverkum: fossar og fjöll og. Mjög sérstakt. Og þetta voru, þetta var fjögurra herbergja íbúð. Stofa og þrjú svefnherbergi. Eldhús og baðherbergi. Og svo var, kjallari niðri þar sem voru geymslu og þvottahús, og í þá daga var kolakynt, á fyrstu árin mín. Og það var, herbergi, eitt herbergi niðri var kolageymsla og þar var heit miðstöð og sem hitaði allt húsið. Og hérna, já og í kringum húsið var náttúrulega garður þar sem við lékum okkur, með blómum og trjám. Og ég veit ekki hvað ég á að segja meira. Þetta hús er ennþá í fullu gildi, eftir öll þessi ár. Og ég er orðin sjötíu og átta ára. Og þykir góð íbúð enn þann dag í dag. Því það var hérna, ég veit ekki hvort það hafa verið svona góð til dæmis baðherbergi í almennt í íbúðum á þessu árum. Því húsið hefur verið byggt ’34. 1934. S: en í garðinum, hvernig var umhorfs þar? Voru... H: það voru tré í garðinum, og runnar, jájá. S: já. En var fólk ekkert með eitthvað svona, úti í garði, svona eins og er mikið núna, svona húsgögn eða leikföng eða rólur eða eitthvað svona...? H: nei. Nei. Það var voða lítið um það. Sum staðar voru festar rólur upp á, upp á snúrustaura en það var nú ekki hjá okkur, ég held að þeim bræðrum hafi nú ekki hérna ltist á það að vera að skekkja snúrustaurana [hlær]. En ég man eftir því að það var til einn sólstóll, sem að pabbi minn var svoldið svona fyrir náttúruna, og þetta var nú ekki þá að menn sætu í sólbaði. En hann semsagt átti einn sólstól, sem var stundum settur út í garðinn. Svo fengum við að tjalda svona á sumrin. Það var ekkert annað. Og svo var slegið, garðurinn var sleginn með orfi og ljá, og okkur þótt það alltaf voðalega gaman þegar að heyið kom, þá lékum við okkur í heyinu, á lóðinni. Og það voru alls konar, og krakkar náttúrulega léku sér allt öðruvísi þá heldur en núna. Enda var ekkert, ekkert til þá, það sem er til boða núna. S: en þessi sólstóll, hvernig stóll var þetta? H: hann var úr, úr hérna tré, og það var svona strigi. Ég held að þessir stólar séu ekki til núna, ekki að minnsta kosti hér á landi. S: hvar fékk hann þennan stól? H: hann var lagður saman, ég hugsa að hann hafi keypt þetta einhvers staðar. S: já. H: jájá. Hann hefur keypt þetta einhvers staðar. En það var ekkert svoleiðis til hjá-hjá hérna þeim uppi, á efri hæðinni, það var bara þessi eini sólstóll [hlær]. Já já. S: en herbergin, geturðu lýst þeim, hvað voru þau stór og svoleiðis? H: já. Ja þetta, herbergin voru nokkuð stór miðað við í dag, en stofan var ekkert svo stór. En það var, ég man eftir fyrst þegar ég var hérna, pínulítil þá voru húsgögnin í stofunni, það var borðstofuhúsgögn. Það var stór skápur, stofuskápur, og orgel. Pabbi minn spilaði á orgel. Og svo seinna, kom sófasettið. Það var nokkrum árum seinna og þá fór borðstofuborðið inn í, inn í eitt herbergið. S: keypti hann þá... H: ha? S: keypti hann þetta orgel og...? H: hann keypti orgelið, jájá. Og lærði á það. S: og sófasettið? H: jájá. S: bara allt keypt nýtt? H: jájá þetta var allt keypt nýtt. Jájá. Jájá. Ég hugsa að hérna, hugsa að, að hann hafi sko verið frekar efnaður svona miðað almenning þá. Hann var atvinnurekandi. Og hafði einar sex átta konur í vinnu, var klæðskeri. Og hérna, jajá. Svo en lengi var eitt af þessum þremur herbergjum leigt. En svo þegar ég var orðin svona, ja, ég veit ekki hvað ég á að segja, ég hef kannski verið orðin tólf ára, þegar ég fékk sérherbergi. Annars sváfum við öll í svefnherberginu. Við vorum þrjú systkinin.Það var alveg nógu stórt til þess. Þá voru einhvers konar kojur og og og barnarúm. Því Reynir var mikið yngri en við. S: já. Já voruð þið hin tvö í kojunni? H: já. S: og svo barnarúm. H: já. S: var eitthvað fleira inni í herbergjunum? H: já það var bara hjónarúm og náttborð og servantur var þarna man ég... S: servantur? H: það var servantur með, með hérna marmaraborði og hillum ofan á. Voða flottur servantur. S: hvað er servantur svo ég spyrji?  H: [hlægjum báðar] Ja það er hérna, uu ætli það myndi ekki vera kallað snyrtiborð eða þvottaborð í dag. Það var, ofan á þessu stóð, stórt glerfat með könnu ofan í, þú hefur kannski séð það, risastórri vatnskönnu. Þetta var sko áður en, áður en baðherbergin komu. S: já. H: þetta var hérna eitthvað, ég held að- þetta var bara til skrauts sko. En, hérna þetta hefur fylgt, þetta var- rúmin voru sett. Þetta var sett. Útskorið ljós- það var svona ljósdrappað. Þetta var allt í stíl, barnarúmið og rúmið og og náttborðin og servanturinn. Þetta var allt í stíl. Það var voðalega fallegt, útskorið. S: en skáparnir, voru ekki eitthvað svoleiðis? H: það var enginn skápur í hérna, í hérna svefnherberginu vegna þess að þar var gengið út á svalir. Það var hurð út á svalir úr svefnherberginu og þær voru dáltið- og þær voru mikið notaðar þessar svalir. En, það voru skápar í báðum herbergjunum, litlu, eða minni herbergjunum. Og þeir voru innbyggðir. Það voru bara, það var bara venjuleg hurð, og skápar- semsagt innbyggðir skápar. Það var náttla mjög þægilegt. Og eins í baðherberginu, þar var innbyggður skápur. Með, með hérna, hillum og, þar sem þvottur var geymdur. Og náttúrulega föt. Og svo var skápur á ganginum, það var langur gangur og herbergin sín hvoru megin. Og þegar var komið inn í ganginn þar var semsagt, þá var skápur í ganginum fyrir útiföt. Sem var sko næst forstofunni. S: Sagðirðu að það hafi verið þrjú svefnherbergi? H: það voru þrjú svefnherbergi. S: og þið sváfuð í einu þeirra? H: já, þrjú herbergi og stofan sko. S: já, og hvað var þá í hinum? Eitt var leigt út... H: já, þegar ég var lítil var eitt leigt út, og oftast fyrir stúlkur sem unnu hjá pabba. Og þær voru oft, oft líka til aðstoðar á heimilinu. Og og hérna, og í hinu herberginu var nú bróðir minn kominn, snemma, hann svaf í hinu herberginu. Þegar hérna, hann fór að stækka eitthvað. S: já. Fékk hann þá að vera einn í því? H: þá fékk hann að vera einn í herberginu þar sem stóra borðstofuborðið var. Jájá. S: og var eitthvað meira af húsmunum þar inni? H: já það var náttúrulega- ég man nú ekki, ætli það hafi ekki bara verið, það var sofið á dívönum þá, það var ekki, ekki svefnbekkir þetta voru dívanar. Og rúmfötin voru semsagt sett inn í þennan stóra skáp. og það var stórt veggteppi fyrir ofan dívaninn man ég, það var mikið í tísku þá, svona ofin veggteppi. S: já. H: ég man nú ekki eftir öðru, jú líklega hefur saumavélin hennar mömmu, hún átti svona saumavél sem var- stóð á fótum, eins og tíðkaðist þá, þær voru fótstignar. Og hún einmitt var í þessu herbergi. En ég man nú ekki eftir svosem öðru. S: nei. En inni í eldhúsinu? H: já þar var- þar var bara hérna náttúrulega þokkaleg innrétting. Ég man eftir að þar var kæliskápur, eða altso, þetta var fyrir tíma ísskápanna. Og þar var skápur sem náði alveg frá gólfi og upp í loft og það voru rör út þannig að það var kalt í skápnum á veturna. Hann sneri, sneri semsagt á norðurvegg og þar voru rör, sem að kældu í þessum skáp. Og það var dálítið framúrstefnulegt vegna þess að þar var vifta í eldhúsinu. S: nú... H: Það var bara gat og rella á veggnum, og svo var hérna, voru, voru hérna, svona keðjur sem maður togaði í, þetta var upp við loft, og togað í til að opna fyrir. Og það er- var ábyggilega dáldið sérstakt á þeim tímum, að hafa eldhúsviftu. S: og voru þá margir skápar...? H: já já það voru skápar uppi og- en samt var bara einn lítill skápur á veggnum man ég, og mörgum árum seinna kom röð af skápum fyrir, á allan vegginn, en það var bara einn lítill skápur. En svo var náttúrlega góður eldhúsbekkur, og í fyrstu var kolaeldavél, sem seinna náttúrulega þegar rafmagnseldavélarnar komu. En það var held ég allt keypt svona það sem kom nýtt. Pabbi var svona nýjungagjarn og keypti það sem kom nýtt á markaðinn [hlær]. Og það kom fljótt sko rafmagnseldavél. En ég man eftir kolaeldavélinni. S: og höfðu  þið svo ekki eldhúsborð þar inni og...? H: það var eldhúsborð og stólar jújú, jújú. Það var borðað, alltaf borðað í eldhúsinu. Nema, nema hérna ef að voru gestir og þegar voru veislur og jólaboð, það voru alltaf jólaboð. Og þá náttúrulega var notað stóra borðið í herberginu. Jájá. S: og var það þá haft, þegar var borðað var þá haft inni í herberginu eða var það...? H: jájá, það var haft inni í herberginu. S: fólk hefur setið þar inni? H: jájá, það var setið þar. Og þá tíðkuðust ekki svona hlaðborð heldur sátu alltaf allir við borð, í svona ef að voru boð. Jájá. Það var hægt að stækka þetta borð og það var gríðarstórt þegar það var útdregið. S: hvað voru þá margir stólar við þetta borð? H: þetta voru sex stólar sem fylgdu því, og svo voru týndir til alls konar stólar til að hérna, sem flestir gætu setið við borðið [hlær], þetta var þannig. Jájá. En líka líka ef að komu gestir, það komu oft Vopnfirðingar til mömmu. Og þá var alltaf borðað þarna inni. Jájá. S: var hérna, veggfóður á þessum tíma, á veggjunum? H: já. Það var veggfóður, áræðanlega í öllum herbergjunum. Það held ég alveg áræðanlega. Og ég man eftir þegar var verið að veggfóðra upp á nýtt, þá var heilmikið hérna, tilstand, þegar var verið að setja nýtt veggfóður. Jájá, það voru ábyggilega öll herbergin veggfóðruð. Og svo var það náttúrlega rifið niður allt saman á seinni tímum þegar það var ekki lengur í tísku. S: akkúrat. En, en á veggjunum héngu myndir og málverk og svoleiðis? H: það voru myndir jájá, myndir og málverk, jájá. Það er sjálfsagt eitthvað sem þau hafa bara keypt. Jájá. S: en eitthvað fleira... H: ja ég veit ekki hvað ég á að segja... S: já bara þú veist héngu klukkur á veggjum eða hvernig...? H: það var, það var stór stofuklukka í stofunni, sem að sló með miklum hávaða. S: já, var þetta svona eins og þessar gömlu sem maður trekkir upp og...? H: jájá, jájá, pabbi trekkti alltaf á hverju sunnudagskvöldi, það var, það var hérna, það var vaninn. Það var alltaf trekkt á sunnudagskvöldum [hlær], þá gekk klukkan allan, alla vikuna. Jájá ég man eftir á, yfirleitt, var gólfdúkur á öllum gólfum, nema í baðherberginu, þar var flísalagt bara eins og er í dag. Og og seinna kom svo dregill á ganginn. Þegar það kom í tísku að hafa teppi og þá var settur dregill á ganginn. Eins á stigann upp, þá- fyrst var þetta bara málaður steinn, stiginn var veglegur, stór og mikill. Seinna komu svo teppi á stigann, og þá bergmálaði ekki eins mikið. Þetta var stór og góður kjallari. Niðri var smíðastofa, sem að var mikið notuð, af karlmönnunum þarna í húsinu. S: hvað var þar inni? H: þar var hefilbekkur og heilmikið af af hérna verkfærum, bæði sem að Þórður átti, hann var iðnaðarmaður, og svo frændi minn sem að leigði hjá okkur, hann átti heilmikið af verkfærum sem voru þarna í þessari stóru geymslu. Þetta var stórt þvottahús var þarna opg það voru tvær þvottavélar. Þegar þær komu til sögunnar, annars voru náttúrulega, man ég fyrst eftir að það var heljarinnar suðupottur. Og þá var þvegið á bala, þvottabretti og svo allt soðið. Og ég man eftir þegar var verið að færa upp úr pottinum að þá var allt í gufu, það var dimmt af gufu í þvottahúsinu [hlær]. S: voru einhverjir gluggar þarna á neðri hæðinni, í þvottahúsinu og smíðageymslunni? H: jájá það voru gluggar jájájá. S: var þetta bara eins og venjuleg íbúð kannski? H: ja þetta var niðurgrafið- dáltið niðurgrafið en samt voru á þessu góðir gluggar, jájá það var hægt að opna allt. Jájá. En núna í dag er kjallarinn sjálfsagt, ég held það sé meira að segja íbúðarherbergi í kjallaranum í dag. S: Hvar er gengið niður í kjallarann, eða var? H: það var gengið hérna- sko þetta var eiginlega stigagangur alla leið, alla leið upp á efri hæðina. Það var gengið inn að norðvestan. Og þá var komið inn í semsagt kjallaradyr og þá voru tröppur niður og tröppur upp. S: já, inn í íbúðina? H: já. Jájá. S: já, og hvað segirðu, það var þarna þvottahús og smíðageymsla og var eitthvað fleira? Kolageymsla... H: jájá svo voru kolageymslur, tvær kolageymslur. Og og hvor íbúð hafði sína geymslu. S: já. H: og svo seinna kom kom næturhitun. Og á voru settir heljarinnar tankar- vatnstankar, sem menn fylltu inn í sitthvort herbergið. Þeir voru tveir. Og þetta var hérna- vatnið var hitað á nóttunni, og semsagt það átti að endast allan daginn til að hita upp húsið og semsagt fá heitt vatn. S: En sagðirðu tvær íbúðir? Voru tvær íbúðir í húsinu? H: já, það voru tvær íbúðir. S: og var gengið inn á sama stað? H: inn í þær? S: já H: já það var gengið inn í þær á sama stað. S: semsagt upp stigann þarna í anddyrinu... H: já S: og þar voru svo tveir inngangar? H: já. Einmitt. S: Ókei. Já. H: jájá. S: voru margir sem bjuggu í hinni íbúðinni? H: já, þar bjuggu, þar bjuggu semsagt föðurbróðir minn og hans kona. Þau áttu, það voru lengi 3 dætur, og svo bættust tvær við, á seini árum þannig að þau urðu fimm. Þannig að þar var oft glatt á hjalla. S: já, og var mikill samgangur á milli? H: jájá það var mikill samgangur jájá. En ég var eins stelpan sko á neðri hæðinni. S: já. H: og það voru þarna fimm stelpur á eftri hæðinni. Og jú það var mikill samgangur jájá. Þær voru báðar úr Vopnafirðinum, þessar konur, húsmæðurnar. En þeir voru bræður, sem byggðu þetta hús, hann var múrari hann Þórður. S: var þá sko kjallarinn og svo kom þín hæð og svo önnur hæð fyrir ofan ykkur? H: já þetta var eiginlega þriggja hæða hús. S: já H: Og hæðirnar voru báðar eins. Það var ekki sko- þetta var ekki það var ekki hérna ris eða neitt svoleiðis. S: nei. H: þær voru nákvæmlega eins þessar tvær hæðir og þakið var slétt. Og tvennar svalir. S: tvennar svalir á hvorri íbúð? H: svalir á báðum hæðum, já, hvorri íbúð. S: já. En semsagt átti hvor, eða semsagt báðar fjölskyldurnar áttu sína íbúð? H: þau áttu þessar íbúðir, jájá. S: Fannst þér það skipta einhverju máli, þú veist kom það fram á einhvern hátt í daglega lífi þínu að þau áttu þetta? H: ég held ég hafi aldrei nokkurn tímann spegúlerað í því eða einu sinni vitað um það. Það var bara þannig. S: varstu stolt af híbýlum þínum? H: já, ég held ég myndi segja það. Já. Þetta var veglegt hús. Jájá. S: en hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? H: það held ég að hafi bara verið eins og gengur. Þeir hafa ábyggilega séð vel um þetta bræður. S: já. Þeir hafa ekkert verið að kaupa fólk í þau störf? H: kaupa? S: fólk í þau störf, að hérna, viðhalda húsinu. H: nei. Nei. Það gerðu þeir sjálfir sko. Það gerðu þeir sjálfir. Ég man eftir að hérna þegar þeir ákváðu að setja tvöfalt gler, í húsið, fyrst var bara einfalt gler eins og, eins og hefur sjálfsagt tíðkast í þá daga en, og þá var sett, það var ekki eins og tvöfalt gler í húsum núna, heldur var það sett- það hefur líklega verið, verið fimm til sjö sentimetrar á milli glerjanna því það var bara sett á utan sko, gluggakarmana, innan, innan við gluggakistuna. Það var gert einhvern veginn þannig og það var gjarnan, og þetta hefur líklega ekki verið hérna nógu þétt því þeir voru með kítti og hérna- vegna þess að glerið var oft tekið á sumrin, og sett aftur upp í á hérna [hlær], minnsta kosti var það þannig í svefnherberginu. S: já. Mhm. H: því pabbi minn notaði gjarnan svefnherbergisgluggann- þetta voru stórir horngluggar. Og sólríkir, og hann ræktaði hérna, hann ræktaði sumarblóm og salat í glugganum. S: jahá. H: hann smíðaði kassa og og hérna, setti mold í kassa og notaði þennan stóra glugga til þess að rækta, rækta hérna, sumarblóm og salat. Myndband 2 S: Já, en gætirðu lýst því fyrir mér hvernig sko, þegar þú kemur inn í íbúðina, hvar öll herbergin voru, og þú veist hvernig herbergjaskipanin var og svona. H: já S: þú kemur inn um útidyrnar... H: fyrst komum við, fyrst var eldhúsið, svo var baðherbergið, svo svefnherbergið, stofan var fyrir endanum á ganginum, og tvö herbergi, semsagt hinu megin við ganginn. S: já H: þannig var herbergjaskipan . S: já. En baðherbergið. Geturðu lýst því aðeins, hvað var þar inni? H: já. Það var, það var náttúrulega, þar var klósettið fyrst, og það var semsagt, á þessum tíma var oft kassi upp við loft og togað í, í hérna keðjur til þess að hleypa niður, en þetta var innibyggt. Það var bara rör inni í veggnum og takki, ekki ósvipað eins og er núna. Og vatnskassinn var semsagt innbyggður í vegginn og sást aldrei. Svo var, svo var vaskur, fyrir ofan vaskinn var skápur. Það var ekki innrétting. Þetta var bara lítill skápur og hann var innbyggður líka, það var hægt að opna hann og þá var, þá var semsagt skápurinn inn í veggnum. Og við- það var- svo kom glugginn og undir honum stóð kommóða. Og baðið var svo á hinum veggnum. S: var það semsagt baðkar? H: baðkar, já. Og svo kom þessi innbyggði skápur. Og það var semsagt hurð, stór hurð, bara eins og venjuleg hurð inni í herbergi, sem var á þessum skáp. Þetta var bara rúmgott baðherbergi. S: Var einhver spegill? H: Já það var spegill sko fyrir ofan vaskann. S: já H: en það var ekkert annað, það var spegill í skáphurðinni. Annars var ekkert annað. S: í hvað var stofan nýtt? H: menn sátu í stofunni og hlustuðu á útvarpið. S: já. H: mamma sat þar með prjónana sína, og pabbi sat þar náttúrlega oft við orgelið sitt. Hann spilaði og söng þannig að[hlær], en hann hafði nú ekki voðalegan tíma, hann vann voðalega mikið. En hann vann aldrei á sunnudögum. Og hérna, já ég held að hérna, stofan var notuð bara dags daglega. S: já, og fenguð þið að leika ykkur þar og svoleiðis? H: jájá. Við gerðum það. S: en þarna þar sem borðstofuborðið var... H: já það var... S: var það nýtt í eitthvað annað heldur en þá bara svona matarboð? H: nei eiginlega ekki. Þangað til bróðir minn fór semsagt, fékk herbergið til að sofa í, hann svaf svo í herberginu, seinna. S: já. H: en það var bara nýtt, fyrir þetta borðstofuborð. S: voru herbergin kölluð eitthvað sérstakt, og stofan og þetta? H: nei, nei. Það var alltaf bara talað um svefnherbergið. S: já. Og stofa og... H: og stofa. S: og hvað, borðstofa eða? H: nei, það var bara herbergið. S: herbergið, já. H: já það var ekkert kallað borðstofa- nei . S: já þið sváfuð semsagt öll þarna í stóra herberginu til að byrja með. H: já. S: og voru- foreldrar þínir hafa átt hjónarúm? H: jájá. S: svaf fólk í náttfötum, nærfötum eða nakið? H: já. Það er nefnilega það. Við krakkarnir sváfum í náttfötum man ég, og mamma var náttúrulega alltaf í náttkjól, en ég held að pabbi hafi sofið bara í síðbrókinni sinni. Mig minnir það. Og nærskyrtu sko, hann var alltaf náttúrulega í nærskyrtu. Já. S: já. Voru þið þá bara þarna tvö systkinin alltaf í þessu sama herbergi og foreldrar ykkar? H: jájá. S: þangað til þið fluttuð? H: jájá. Jájá. Og, ja ég eins og ég segi, mig minnir að ég hafi verið um það bil tólf ára þegar ég fékk sérherbergi. Og bróðir minn hefur verið eitthvað yngri þegar hann fór að sofa í borðstofunni. Reynir var lengst af í herberginu hjá þeim. S: já. Fannst ykkur þetta aldrei þröngt? H: nei, ég held að þetta hafi bara þótt sjálfsagt, að hafa þetta þannig. Og ég man með systurnar uppi, þær sváfu allar í sama herbergi. Jájá. S: en fannst þér eins og þú ættir eitthvað ákveðið rými í húsinu, eitthvað sem tileinkaði þér og engum öðrum? H: nei, ekki, það var ekki fyrr en ég fékk mitt herbergi sko. Það þótti ekkert sjálfsagt í þá daga að krakkar hefðu sérherbergi. Held það hafi ekki einu sinni tíðkast. S: já. En á baðherberginu. Þá er notaður salernispappír ekki satt? H:  jújújú. S: en voru, átti fólk svona náttkoppa? H: það var til koppur. S: já. Og var hann notaður? H: nei ég held hann hafi aldrei verið notaður [hlægjum báðar]. Nema þegar við vorum smábörn, þá hefur líklega koppurinn verið síðan við vorum smákrakkar. S: já, H: því ég man eftir því að kopp undir rúminu, hjá mömmu minni, hann var bara geymdur þar. S: já. En hvernig var hreinlæti háttað á þínu heimili og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til? H: já meinarðu hvað menn fóru oft í bað...? S: já til dæmis já. H: já, ætli menn hafi ekki farið í bað svona vikulega kannski. Pabbi minn fór alltaf á hverjum einasta sunnudegi í sund, þannig að hann var nú ekki, ekkert mikið í baðinu. En já við krakkarnir fórum held ég alltaf á laugardögum í bað. Þetta var þannig. S: en handþvottar? H: já það var bara eins og gengur, menn voru reknir til að þvo sér um hendur fyrir mat og svoleiðis [hlær], eins og enn þann dag í dag. S: já. Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? H: Já það gerði náttúrulega mamma mín. Og það var eldað alltaf hádegismatur. Pabbi kom heim í hádegismat og við krakkarnir alltaf þegar við vorum í skólanum. Þá var alltaf komið heim í mat. Já. Og það var alltaf eiginlega hafður, það var viss regla á matnum, hádegismatnum. Það var fiskur á mánudögum og þriðjudögum, og það var alltaf kjötsúpa á miðvikudögum. Og, afatur fiskur og fimmtudögum og föstudögum var oft, ég man eftir kannski saltkjöt og, ég man eftir söltuðu hrossakjöti, á föstudögum. Laugardögum var alltaf saltfiskur og vellingur. Og steik á sunnudögum, oft var læri og, það sem var svona steikt súpukjöt, það var mikið notað. Og svo aftur á kvöldin var, það voru oft notaðir afgangar. Og svo var oftast hræringur og slátur á eftir. Eða hafragrautur. Það var aldrei borðað hafragrautur á morgnana. Menn fengu sér alltaf smurt brauð og svona. Og pabbi drakk alltaf vatn, heitt vatn, og smurt brauð. Og það var náttúrlega alltaf bakað, það var allt bakað með kaffinu. Kleinur og alls konar. Það var alltaf allt heimabakað. S: já. Og sagðirðu að það hefði síðan verið alltaf einhver grautur eða eitthvað eftir mat, hádegismatinn? H: alltaf grautur. Alltaf grautur, alltaf eitthvað á eftir. S: já. Var þá ýmsar tegundir af graut...? H: jájá, það var mjólkurgrautur og þá var eitthvað til sem hét sagógrjónavellingur. Það var rabbarbaragrautur og sunnudögum var oftast sveskjugrautur. Það var alltaf eitthvað á eftir. S: en í kvöldmatnum? H: já það var eins og ég segi hérna hafragrautur eða hræringur, á eftir. S: jájá það var í kvöldmatnum. Og var matur unninn á heimilinu? Eins og slátur og sulta... H: já allt, allt unnið á heimilinu. Jájá, alltaf gerð sulta og, tekið heilmikið af slátri. Og það var bæði borðað súrt og, og það var hægt að fá leigja hólf, frystihólf, í frystihúsinu sem var niðri á tanga. Og þangað var farið að sækja slátur og kjöt, menn tóku kjöt, sem var líka geymt í frystihólfinu, í hérna frystihúsinu. Og hérna, en svo seinna komu frystikistur. Og það var ekkert slíkt til að byrja með. S: fóruði einhvern tímann út að borða? H: nei aldrei nokkurn tímann. Það gerðum við ekki. S: en voru einhverjir veitingastaðir? H: satt að segja bara, það hlýtur að vera, ég bara hérna, fylgdist ekkert með því hvort það voru einhvers staðar- við fórum aldrei út að borða. Það var ekkert. S: En var gestum oft boðið í mat? Voruði oft með fólk í mat? H: já, jájá. Það voru oft gestir í mat. S: hvernig var lýsingu háttað á heimilinu. H: það var náttúrulega bara venjuleg rafmagnsljós. Rafmagnið var löngu komið þá. Og það var held ég bara ekkert mikið öðruvísi en í dag, en ég held það hafi nú verið sparað meira sko. Menn voru ekki að hafa ljós í öllu húsinu, þetta var- það var alltaf slökkt ljósin á eftir sér, í þá daga. Og þá fór stundum rafmagnið. Það var þegar kom krap í Laxá. Það kom fyrir að það var rafmagnslaust kannski í heila viku. Og þá voru hérna bara notuð kerti. Og það var til hérna, svona lítil olíueldavél, eða já. Sem að var notuð til eldunar svona þessa daga sem að vantaði rafmagnið. Jájá. S: en var þá góð lýsing í öllum herbergjunum? H: jájá. Það var bara eins og í dag. Góð lýsing, bæði lampar og loftljós. S: reyndu að lýsa lömpum og veggljósum sem allra best? H: já, það var nú bara held ég ekkert mikið öðruvísi heldur en í dag. Ég man eftir í stofunni voru vegglampar. S: já H: og það var ljósakróna í stofunni með fimm ljósum. Og í herberginu var kúpull, munstraður fallegur kúpull. Og, ég man nú ekki hvað var í minni herbergjunum, þar voru engin veggljós. Þetta voru, þau voru inn- innbyggð, þessi veggljós í stofunni. S: já H: og fyrir ofan rúmið, hjá pabba og mömmu þar var lampi. Og svo náttúrulega loftljós. Í baðherberginu var bæði eitt veggljós og eitt loftljós. Í eldhúsinu voru tvö ljós, eitt fyrir ofan eldavélina og annað innar í, eða framan við gluggann. Í ganginum voru tveir kúplar. S: já H: Það var hægt að kveikja á þeim, annaðhvort öðrum eða, eða báðum. S: já. H: en það var útiljós og náttúrulega ljós í stigaganginum. S: já H: jájá. S: en já talandi um stigaganginn, var þetta, þetta var bara á veggnum er það ekki sem var málað? H: jú þetta var bara beint á vegginn. S: og allan vegginn alveg? H: já, alla leið upp. Og þessi listmálari hét- ég mundi það áðan- Haukur Stefánsson. Og hann semsagt málaði þessar myndir, þetta þótti mjög sérstakt. S: já. En manstu eftir nákvæmlega hvernig málverkin og myndirnar voru sem voru á veggjunum inni hjá ykkur? H: ég man eftir, ég á nú eina myndina sem hékk fyrir ofan sófann, það var alltaf til siðs og er enn að hafa mynd fyrir ofan sófann, og hún var af, þetta var hérna stór ljósmynd, sem var, lituð semsagt. Eðvarð Sigurgeirsson hafði litað hana. Þetta voru myndir sem voru náttúrulega teknar í svarthvítu því það voru ekki til- til hérna litmyndir. En hun var semsagt lituð. Þetta var falleg mynd og hún var af sólsetri við Eyjafjörð. Og svo man ég eftir mynd sem opabbi hafði fengið í afmælisgjöf. Það var svona einhver vatnslitamynd. Mig minnir að hún hafi verið úr Mývatnssveit. Og svo voru... S: Hvar var hún? H: hún var inni í stofunni, á einum veggnum í stofunni. S: já. H: fyrir ofan stóra skápinn. Og ég man eftir á hinum veggjunum voru, samstæðar myndir, önnur var af Akureyri og hin var af- úr Mývatnssveit. Þær voru í stórum, gylltum römmum. Það var fyrir ofan orgelið, á veggnum þar sem orgelið stóð. Og uppi á orgelinu voru voru svona einhverjir skrautmunir. S: já. H: Man eftir fallegum- fallegum vasa. Og hérna, silfurvasinn sem stendur þarna í horninu hann stóð alltaf á borðinu. Og það voru ekki sófaborð eins og er núna heldur var sófaborðið, það var smíðað held ég af húsgagnasmið í bænum. Og það var miklu hærra heldur en sófaborðin eru núna. Það hefur verið svona meter á hæð en það var ferkantað og frekar lítið og það stóð semsagt fyrir framan sófann. S: já H: löngu seinna komu þessi lágu sófaborð. S: manstu eftir einhverjum fleirum skrautmunum? H: það var- það var gólflampi. Það var hilla á honum. Og hérna, stór og mikill skermur. Og svo var náttúrulega útvarpið. Það skipaði nú stóran sess þarna í stofunni, var stórt og fínt útvarp. Og undir því var skápur sem að var smíðaður sérstaklega fyrir- ja ég held menn hafi nú ekki gengið í búðir þá og keypt húsgögn. Menn fóru til húsgagnasmiðs og létu smíða það. Þetta var þannig. Jájá. Ég man eftir það var sami smiður sem að smíðaði borðið og skápinn undir útvarpið og það var eiginlega svona í stíl. Og svo undir glugganum var alltaf blómaborð með stóru blómi. S: já. H: því gluggarnir voru, þetta voru horngluggar. Það var bjart og og hérna- hún var mjög björt þessi stofa, það voru svo stórir gluggar. Sem sneru í suðu, og austur og vestur. S: já. En hvaða heimilstæki voru á þínu heimili- á uppvaxtarheimilinu? Og hvenær komu þau? H: ja ég man eftir að hrærivélin kom nú ekki fyrr en eftir að ég hafði verið í húsmæðraskóla. Þá hef ég verið átján ára þegar hrærivélin kom. En, það var til ryksuga. Óskaplega hávaðasöm ryksuga. S: hvar var hún geymd? H: hún var geymd í kjallaranum. Það var farið í kjallarann og sótt- það var ekkert ryksugað oft, það var notaður, notaður hérna bónkústur, með voðalega þungum haus. Og það var semsagt þurrkað rykið með þessum bónkúst á hverjum degi. Þá var honum druslað undir og svo var farið um öll gólf og þurrkað rykið [hlær]. Það var þannig, en það var náttúrulega alltaf þvegið eldhúsgólfið og baðið en hitt var varsemsagt, einstaka sinnum ryksugað, en það þótti mikið mál að fara niður og sækja ryksuguna og ryksuga. Það var ekkert gert oft. En það var þurrkað rykið semsagt með þessum bónkústa. Jájá. En já fleiri tæki- ég man ekki, það náttúrulega kom- þegar rafmagnið kom kom rafmagnseldavélin. S: já H: ísskápurinn kom ekki fyrr en seinna, það var enginn ísskápur. Og ég man ekki hvaða tæki- ja það var náttúrulega alltaf til straujárn og svoleiðis tæki. S: já. En neysluvatnið, hvernig var það nýtt? H: en? S: en neysluvatnið? Var það sparað eða þótti það sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? H: það var ekki sparað, aldrei sparað, ekki kalda vatnið, neineinei ekki kalda vatnið. Nóg vatn. Ég man aldrei eftir því. En það var náttúrulega kannski verið eitthvað að spara heita vatnið því fyrst var það hitað með kolaeldavélinni- eða kolamiðstöðinni. S: já. H: og þá hefur það sjálfsagt verið sparað. Svo seinna kom næturhitunin og ég man nú ekki að þá hafi neitt verið sparað heita vatnið. S: en já talandi um þrifin, hversu oft var þrifið? H; ja það er nú það. Ég  held að, held að hérna, mamma mín hafi nú séð um það að öllu leyti. Því hún var alltaf heimavinnandi húsmóðir. Og ég eiginlega get ekki sagt hvað oft, en það var vel þrifið. S: já H: ætli það hafi ekki verið svona hreingerningardagar á laugardögum sem að hérna, já, gólfin þvegin og, annað slíkt. Ég man eftir að ég var látin sjá um púðana, það voru útsaumaðir púðar í stofunni, það þótti voða móðins þá. Mamma var dugleg að sauma út. Og ég var látin bera þessa púða á hverjum laugardegi út á svalir. Að minnsta kosti þegar veður leyfði. Það var alltaf verið að viðra púðana. Mér þótti það ekkert gaman. S: en hvaða áhöld og hreinlætisvörur hafði hún til að nota? H: ég held það hafi nú bara verið- verið hérna, skolfatan og gólftuska og svo, svona skrúbbur á skafti. S: já H: það var held ég aðaltækin sem voru notuð og svo bara alls konar druslur og. Ég man eftir það var notuð sólskinssápa og grænsápa. Það var það sem mest var notað þá. Svo var náttúrulega til þvottaduft eins og gengur. Það var á þeim tímum. En það var mikið notuð grænsápa til þvottar. Og já ég man ekki eftir öðru, eitthvað man ég nú eftir skúrepúlver. S:voru til klósettburstar? H: jújú, jújú það voru til klósettburstar. En ég man ekki eftir neinu sérstöku þvottaefni- klósettþvottaefni, ég man ekki eftir því. Ætli það hafi ekki bara verið notað grænsápan á allt saman. S: hvernig leið þér á heimilinu? H: mér leið bara mjög vel á heimilinu. S: var þetta gott heimili? H: já þetta var gott heimili. S: fannst þér þetta ekkert vera þröngt eða svona eitthvað? H: neineineinei ég man aldrei til þess. S: ...eða óhentugt... H: nei S: var einhver staður sem þér leið sérstaklega vel á? H: nei, ekki man ég nú eftir því. Það hel  [Frásögn lýkur hér.]


Kafli 1 af 3 - Lýsing á uppvaxtarheimili

Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd. Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið. Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að næsta spurningakafla sé svarað.

Kafli 2 af 3 - Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum

Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.
Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?
Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?
Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?
Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?
Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.
Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?
Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?
Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?
Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?
Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?
Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.
Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?
Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?
Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?
Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.
Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?
Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?
Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?
Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.
Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 3 - Dagur í lífi heimilismanns

Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.